Trúboðskallanir
4. kafli: Leita og reiða sig á andann


„4. kafli: Leita og reiða sig á andann,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)

„4. kafli: Leita andans og reiða sig á hann,“ Boða fagnaðarerindi mitt

Ljósmynd
Líahóna, eftir Arnold Friberg

4. kafli

Leita og reiða sig á andann

Til hugleiðingar

  • Hvað get ég gert til að hafa kraft heilags anda í lífi mínu og trúboðsþjónustu?

  • Hvert er hlutverk heilags anda í ferli trúarumbreytingar?

  • Hvernig get ég hjálpað fólkinu sem við kennum að finna áhrif heilags anda?

  • Hvernig get ég gert bænir mínar þýðingarmeiri?

  • Hvernig get ég lært að bera kennsl á hughrif heilags anda?

Leita leiðsagnar heilags anda

Gjöf heilags anda er ein af æðstu gjöfunum sem Guð hefur gefið börnum sínum. Hún skiptir öllu máli í trúboðsstarfi ykkar. Þið þurfið leiðbeinandi opinberunarkraft heilags anda þegar þið hjálpið fólki að skírast, vera staðfest og snúast til trúar.

Að hafa leiðsögn heilags anda í lífi ykkar krefst andlegrar fyrirhafnar. Sú fyrirhöfn felur í sér heita bæn og samfellt ritningarnám. Hún felur líka í sér að halda sáttmála ykkar og boðorð Guðs (sjá Mósía 18:8–10, 13). Hún felur í sér að meðtaka sakramentið verðuglega í hverri viku (sjá Kenning og sáttmálar 20:77, 79).

Þið standið frammi fyrir mismunandi þörfum og aðstæðum á hverjum degi. Hvatningar frá andanum munu hjálpa ykkur að vita hvað þið eigið að gera og segja. Þegar þið leitið og bregðist við þessum hvatningum mun heilagur andi efla hæfileika ykkar og þjónustu langt umfram það sem þið getið gert á eigin spýtur. Hann mun hjálpa ykkur á öllum sviðum trúboðsþjónustu ykkar og einkalífs. (Sjá 2. Nefí 32:2–5; Alma 17:3; Helaman 5:17–19; Kenning og sáttmálar 43:15–16; 84:85.)

Ljósmynd
Russell M. Nelson forseti

„Á komandi tíð verður ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta stöðugrar handleiðslu, huggunar og áhrifa heilags anda“ (Russell M. Nelson, „Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ aðalráðstefna, apríl 2018).

Ljósmynd
Ljós og sannleikur, eftir Simon Dewey

Ljós Krists

Ljós Krists „er [gefið] hverjum manni, svo að hann megi þekkja gott frá illu“ (Moróní 7:16; sjá vers 14–19; sjá einnig Jóhannes 1:9). Ljós Krists er upplýsing, þekking og áhrif sem gefin eru með Jesú Kristi. Þessi áhrif eru undanfari þess að við hljótum gjöf heilags anda. Það mun knýja þau sem eru móttækileg fyrir því að læra og lifa eftir hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists.

Heilagur andi

Persónan heilagur andi

Heilagur andi er þriðji aðili Guðdómsins. Hann er andavera og hefur ekki líkama af holdi og beinum (sjá Kenning og sáttmálar 130:22). Hann er huggarinn sem frelsarinn lofaði að kenna myndi fylgjendum sínum allt og minna þá á það sem Jesús hafði kennt (sjá Jóhannes 14:26).

Kraftur heilags anda

Vitnisburðurinn sem einlægir sannleiksleitendur öðlast fyrir skírn hlýst fyrir kraft heilags anda. Allir geta hlotið vitnisburð um Jesú Krist og endurreist fagnaðarerindi hans fyrir kraft heilags anda. „Fyrir kraft heilags anda [getum við] fengið að vita sannleiksgildi allra hluta“ (Moróní 10:5).

Gjöf heilags anda

Gjöf heilags anda er rétturinn til að njóta stöðugs samfélags heilags anda eins og við erum verðug til þess. Við hljótum gjöf heilags anda eftir að við höfum verið skírð með vatni. Hún er veitt með helgiathöfn staðfestingar.

Spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Munur er á heilögum anda og gjöf heilags anda. Kornelíus meðtók heilagan anda áður en hann var skírður, sem var honum sannfæringarkraftur Guðs um sannleika fagnaðarerindisins, en gjöf heilags anda gat hann ekki hlotið fyrr en eftir að hann lét skírast“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 96).

Það er fyrir gjöf og kraft heilags anda sem við erum helguð – gerð heilagri, fullkomnari, fullgerðari, líkari Guði. Það er fyrir endurlausn Krists og helgandi kraft heilags anda sem við getum endurfæðst andlega þegar við höldum sáttmálana sem við gerum við Guð (sjá Mósía 27:25–26).

Heilagur andi fyrirheitsins

Heilagur andi er einnig nefndur heilagur andi fyrirheitsins (sjá Kenning og sáttmálar 88:3). Í því hlutverki staðfestir heilagur andi að helgiathafnir prestdæmisins sem við tökum á móti og sáttmálarnir sem við gerum séu Guði þóknanleg. Þau sem eru innsigluð af heilögum anda fyrirheitsins munu hljóta allt sem faðirinn á (sjá Kenning og sáttmálar 76:51–60; Efesusbréfið 1:13–14; Leiðarvísir að ritningunum, „Heilagur andi fyrirheitsins“).

Allar helgiathafnir og sáttmálar verða að vera innsigluð af heilögum anda fyrirheitsins til að verða gild eftir þetta líf (sjá Kenning og sáttmálar 132:7, 18–19, 26). Sú innsiglun er undir stöðugri trúfesti okkar komin.

Gjafir andans

Drottinn gefur okkur gjafir andans til að blessa okkur sjálf og til að nota til að blessa aðra (sjá Kenning og sáttmálar 46:8–9, 26). Trúboðar sem læra nýtt tungumál geta t.d. hlotið tungutalsgáfu til að þeim veitist guðleg hjálp til að kenna öðrum á móðurmáli þeirra.

Nokkrar gjafa andans eru tilgreindar í Moróní 10:8–18, Kenningu og sáttmálum 46:11–33 og 1. Korintubréfi 12:1–12. Þetta eru aðeins nokkrar af mörgum gjöfum andans. Drottinn getur blessað okkur með öðrum gjöfum eftir trúfesti okkar, þörfum okkar og þörfum annarra.

Frelsarinn býður okkur að leita andlegra gjafa af einlægni (sjá Kenning og sáttmálar 46:8; 1. Korintubréf 14:1, 12). Þessar gjafir hljótast með bæn, trú og erfiði – og samkvæmt vilja Guðs.

Einkanám eða félaganám

Lesið í Leiðarvísi að ritningunum: „Heilagur andi,“ „Ljós, Ljós Krists“ og „Andi, heilagur.“ Skrifið lýsingu á eðli og hlutverki heilags anda.

Sjá Postulasagan 4:1–33.

  • Hvernig leituðu Pétur og Jóhannes eftir andlegum gjöfum.

  • Hvernig svaraði Guð bænum þeirra?

  • Hvað getið þið lært af þessari upplifun um ykkar eigin verk?

Ljósmynd
hópur fólks biðst fyrir

Kraftur andans í trúarumbreytingu

Trúarumbreyting á sér stað fyrir kraft heilags anda. Hlutverk ykkar er að hjálpa við að færa kraft andans í líf einstaklings. Nokkrar leiðir til að gera þetta eru lagðar til hér að neðan.

  • Leitist eftir að hafa andann með ykkur með því að biðjast fyrir, kanna ritningarnar og halda sáttmála ykkar.

  • Kennið með andanum um frelsarann og boðskap endurreisnarinnar. Fylgið leiðsögn andans við að laga boðskap ykkar að þörfum hvers og eins.

  • Berið vitni um að þið vitið fyrir kraft heilags anda að það sem þið kennið sé sannleikur. Þegar þið berið vitni getur heilagur andi borið öðrum vitni.

  • Bjóðið fólki að sýna trú í verki og styðjið það í því að halda við skuldbindingar sínar. Þegar fólk heldur skuldbindingar mun það finna kraft heilags anda í ríkari mæli. Sjá kafla 11.

  • Fylgið því eftir með því að spyrja fólk um reynslu þess er það brást við boði. Trú þess mun vaxa þegar það iðrast, hlýðir boðorðunum og heldur skuldbindingar sínar. Hjálpið því að þekkja andann sem vinnur með þeim.

Ljósmynd
M. Russell Ballard forseti

M. Russell Ballard forseti kenndi: „Sönn trúarumbreyting hlýst með krafti andans. Þegar andinn snertir hjartað breytist það. Þegar einstaklingar … finna andann vinna í sér, eða þegar þeir sjá vísbendingar um kærleika og miskunn Drottins í lífi sínu, uppbyggjast þeir og styrkjast andlega og trú þeirra á hann eykst. Slíkar upplifanir af andanum fylgja á eðlilegan hátt þegar einstaklingur er fús til að gera tilraun með orðið [sjá Alma 32:27]. Það er þannig sem við finnum að fagnaðarerindið er sannleikur“ („Now Is the Time,“ Ensign, nóv. 2000, 75).

Einkanám eða félaganám

Ritningarnám

Hvað kenna eftirfarandi ritningarvers um kraft andans í starfi ykkar?

Hvað getið þið gert til að njóta áhrifa andans í starfi ykkar?

Ljósmynd
trúboðar á bæn

Biðja í trú á Jesú Krist

Til að hjálpa öðrum að snúast til trúar, þurfið þið að kenna með krafti andans (sjá Kenning og sáttmálar 50:13–14, 17–22). Drottinn sagði: „Og andinn skal veitast yður með trúarbæn. Og ef þér meðtakið ekki andann, munuð þér ekki kenna“ (Kenning og sáttmálar 42:14).

Þegar þið biðjist fyrir um hjálp í kennslu ykkar, mun heilagur andi koma kennslu ykkar til skila „í hjörtum mannanna barna“ (2. Nefí 33:1). Þegar þið kennið með andanum og aðrir meðtaka með andanum munið þið „skilja [hvert annað]“ og „uppbyggjast og fagna saman“ (Kenning og sáttmálar 50:22).

Hvernig ber að biðjast fyrir

Jesús kenndi okkur hvernig að biðja (sjá Matteus 6:9–13; 3. Nefí 18:19). Biðjið af einlægum ásetningi um að bregðast við hughrifunum sem þið hljótið frá heilögum anda. Árangursrík bæn krefst auðmýktar og stöðugrar viðleitni (sjá Moróní 10:3–4; Kenning og sáttmálar 8:10).

Notið mál sem sýnir kærleiksríkt, lofgjörðarsamband við Guðs. Á ensku skuluð þið nota ritningarmál eins og Thee, Thou, Thy og Thine, fremur en hin almennari ávarpsorð you, your og yours.

Látið alltaf í ljós þakklæti. Meðvituð viðleitni til að vera þakklát mun hjálpa ykkur að viðurkenna hversu miskunnsamur Guð hefur verið í lífi ykkar. Það mun opna hjarta ykkar og huga fyrir innblæstri.

Biðjið „af öllum hjartans mætti“ um að kærleikur verði veittur ykkur (Moróní 7:48). Biðjið fyrir öðrum með nafni. Biðjið fyrir þeim sem þið kennið. Leitið innblásturs varðandi hvernig þið getið boðið þeim og hjálpað að koma til Krists.

Einkanám

Lærið bæn Drottins í Matteusi 6:9–13. Spyrjið ykkur sjálf eftirfarandi spurninga og skráið hughrif í námsdagbókina ykkar.

  • Hvernig hefur núverandi ábyrgð ykkar sem trúboði áhrif á bænir ykkar?

  • Á hvaða hátt leitist þið við að blessa líf annarra í bænum ykkar?

  • Hvernig eruð þið að biðjast fyrir um að geta sigrast á freistingum?

  • Hvernig biðjist þið fyrir um hjálp við að uppfylla andlegar og stundlegar þarfir ykkar?

  • Hvernig gefið þið Guði dýrð þegar þið biðjist fyrir?

Hvenær ber að biðjast fyrir

Hvenær ættuð þið að biðjast fyrir? Drottinn sagði: „Biðjið ávallt og trúið, og allt mun vinna saman að velfarnaði yðar“ (Kenning og sáttálar 90:24).

Alma sagði: „Ráðgastu við Drottin um allt, sem þú tekur þér fyrir hendur, og hann mun leiðbeina þér til góðs. Já, þegar þú leggst til hvílu að kvöldi, hvílstu þá í Drottni, svo að hann megi vaka yfir þér, meðan þú sefur. Og þegar þú ríst á fætur að morgni, lát þá hjarta þitt vera fullt af þakklæti til Guðs“ (Alma 37:37; sjá einnig 34:17–27).

Drottinn býður ykkur að taka frá hljóða stund í einrúmi til að biðja: „Gangið inn í herbergi yðar … og biðjið til föður yðar“ (3. Nefí 13:6; sjá einnig vers 7–13).

Gordon B. Hinckley forseti kenndi: „Á hverjum morgni … ættu trúboðar að krjúpa og biðja Drottin að losa um tungu sína og mæla fyrir þeirra munn til blessunar þeim sem þeir munu kenna. Ef þeir gera þetta mun nýtt ljós streyma í líf þeirra. Þá vaknar aukinn áhugi fyrir starfinu. Þeir munu hljóta afar raunverulegan skilning um að þeir séu þjónar Drottins sem mæla fyrir hans hönd“ („Missionary Service,“ First Worldwide Leadership Training Meeting, 11. jan. 2003, 20).

Treysta Guði þegar við biðjum

Að trúa á Guð þýðir að treysta honum. Það felur í sér að treysta vilja og tímasetningu hans við að svara bænum ykkar (sjá Jesaja 55:8–9). Dallin H. Oaks forseti kenndi:

„Sama hversu sterk trú okkar er, þá getur hún ekki leitt til niðurstöðu sem er þvert á vilja hans sem við trúum á. Hafið það hugfast þegar bænum ykkar virðist ekki svarað á þann hátt eða á þeim tíma sem þið viljið. Trúariðkun á Drottin Jesú Krist er alltaf háð skipan himins, gæsku, vilja og visku og tímasetningu Drottins. Þegar við höfum slíka trú og traust á Drottni, njótum við raunverulegs öryggis og æðruleysis í lífi okkar“ („The Atonement and Faith,“ Ensign, apríl 2010, 30).

Russell M. Nelson forseti sagði um bænir sem gætu virst ósvaraðar:

„Ég þekki þá tilfinningu! Ég þekki ótta og tár slíkra stunda. En ég veit einnig að bænir okkar eru aldrei hunsaðar. Trú okkar er aldrei vanmetin. Ég veit að sjónarsvið alviturs himnesks föður er miklu víðara en okkar. Þótt við þekkjum okkar jarðnesku vandamál og sársauka, þá þekkir hann eilífa framþróun okkar og möguleika. Ef við biðjumst fyrir um að þekkja hann vel og leggjum okkur fram um það, með þolinmæði og af hugrekki, getur himnesk lækning átt sér stað á hans eigin hátt og tíma“ („Jesús Kristur – Hinn mikli græðari,“ aðalráðstefna, október 2005).

Ljósmynd
Vegurinn til Emmaus, eftir Greg Olsen

Læra að bera kennsl á hughrif andans

Það er mikilvægt fyrir ykkur og fólkið sem þið kennið að læra að þekkja samskipti andans. Andinn hefur venjulega samskipti hljóðlega, gegnum tilfinningar ykkar, huga og hjarta. Spámaðurinn Elía komst að því að rödd Drottins var ekki í storminum, jarðskjálftanum eða eldinum – heldur var hún sem „þytur af þýðum blæ“ (1 Konungabók 19:12). Hún er „ekki þrumuraust“ heldur „hljóðlát rödd, full af mildi, sem væri hún hvísl“ og samt megnar hún að „[smjúga] inn í sjálfa sálina“ (Helaman 5:30).

Mismunandi fólk getur skynjað samskipti frá andanum á mismunandi hátt. Burtséð frá því hvernig við skynjum þessi samskipti, þá kenna ritningarnar hvernig bera á kennsl á þau. Andinn mun til að mynda uppbyggja ykkur og leiða ykkur til að gera gott. Hann mun upplýsa huga ykkar. Hann mun leiða ykkur til að sýna auðmýkt og dæma réttlátlega. (Sjá Kenning og sáttmálar 11:12–14 og rammann „Einkanám“ síðar í þessum kafla.)

Til að svara spurningunni „hvernig berum við kennsla á hughrif andans?“ las Gordon B. Hinckley forseti Moróní 7:13, 16–17. Hann sagði síðan:

„Þetta er prófið, þegar allt er sagt og gert. Hvetjur það þau til þess að gera gott, til að rísa upp, til að láta að sér kveða, til að gera hið rétta, til að sýna vinsemd, til að sýna gjafmildi? Þá er það frá anda Guðs. …

Ef þau hvetja til góðs, eru þau frá Guði. Ef þau hvetja til ills, eru þau frá djöflinum. … Og ef þið eruð að gera rétt og ef þið lifið á réttan hátt, munuð þið vita í hjarta ykkar hvað andinn er að segja ykkur.

Þið berið kennsl á hughrif andans með ávöxtum andans – það sem uppfræðir, það sem eflir, það sem er uppbyggilegt og jákvætt og upplyftandi og leiðir til betri hugsana, betri orða og betri breytni er af anda Guðs“ (Teachings of Presidents of the Church: Gordon B. Hinckley [1997], 260–61).

Þegar þið leitið og fylgið leiðsögn heilags anda mun hæfni ykkar til að greina og skilja hughrif hans þróast með tímanum (sjá 2. Nefí 28:30). Að sumu leyti er það eins og að læra annað tungumál að verða meira stillt inn á tungumál andans. Þetta er hægfara ferli sem krefst kostgæfni og þolinmæði.

Leitið leiðsagnar heilags anda af einlægum ásetningi hjartans. Ef þið eruð upptekin af öðru er ekki víst að þið skynjið hina ljúfu rödd andans. Andinn gæti líka beðið með að tjá sig þar til þið leitið áhrifa hans af auðmýkt og fúsleika til að bregðast við ábendingum hans.

Raddirnar í heiminum keppa um athygli ykkar. Þær gætu auðveldlega yfirskyggt hin andlegu áhrif, nema þið gefið andanum rúm í hjarta ykkar. Hafið þessa leiðsögn Drottins hugfasta: „Hættið og játið að ég er Guð“ (Sálmarnir 46:11; sjá einnig Kenning og sáttmálar 101:16).

Ljósmynd
Öldungur David A. Bednar

„Guð notar ýmsar aðferðir til að miðla sonum sínum og dætrum opinberunum, svo sem með hugsunum og tilfinningum í hjarta, draumum … og innblæstri. Sumar opinberanir hljótast samstundis og kröftuglega; sumar hljótast smám saman og þíðlega. Að taka á móti, bera kennsl á og bregðast við opinberunum frá Guði eru andlegar gjafir sem við ættum öll að þrá og leita á réttan hátt“ (David A. Bednar, „The Spirit of Revelation in the Work,“ 2018 trúboðsleiðtoganámskeið).

Einkanám

Lærið ritningarversin í eftirfarandi töflu. Hugsið um stundir þar sem þið hafið upplifað einhverjar þeirra tilfinninga, hugsana eða hughrifa sem lýst er í þessum versum. Þegar þið lærið og öðlast reynslu, skuluð þið bæta fleiri ritningarversum við þennan lista. Hugsið um það hvernig þið getið notað þessar reglur til að hjálpa öðrum að skynja og þekkja andann.

Kenning og sáttmálar 6:23; 11:12–14; 88:3; Jóhannes 14:26–27; Rómverjabréfið 15:13; Galatabréfið 5:22–23

Veitir tilfinningar kærleika, gleði, friðar, huggunar, þolinmæði, hógværðar, mildi, trúar og vonar.

Alma 32:28; Kenning og sáttmálar 6:14–15; 8:2–3; 1. Korintubréf 2:9–11

Uppljómar og veitir hugmyndir og hjartans tilfinningar.

Joseph Smith – Saga 1:11–12

Hjálpar við sterk áhrif ritninga.

Alma 19:6

Veitir ljós í stað myrkurs.

Mósía 5:2–5

Styrkir þrá til að forðast illt og hlýða boðorðunum.

Moróní 10:5; Kenning og sáttmálar 21:9; 100:8; Jóhannes 14:26; 15:26; 16:13

Kennir sannleika og minnir okkur á hann.

Kenning og sáttmálar 45:57

Leiðir og verndar gegn blekkingum.

2. Nefí 31:18; Kenning og sáttmálar 20:27; Jóhannes 16:13–14

Vegsamar og ber vitni um Guð föðurinn og Jesú Krist.

Kenning og sáttmálar 42:16; 84:85; 100:5–8; Lúkas 12:11–12

Gefur auðmjúkum kennurum orð í munn.

Moróní 10:8–17; Kenning og sáttmálar 46:8–26; 1. Korintubréf 12

Gefur gjafir andans.

Kenning og sáttmálar 46:30; 50:29–30

Segir hvers biðja skal.

2. Nefí 32:1–5; Kenning og sáttmálar 28:15

Segir hvað gera skal.

1. Nefí 10:22; Alma 18:35

Hjálpar hinum réttlátu að mæla af krafti og valdi.

2. Nefí 31:17; Alma 13:12; 3. Nefí 27:20

Helgar og veitir fyrirgefningu synda.

1. Nefí 2:16–17; 2. Nefí 33:1; Alma 24:8

Kemur sannleikanum til skila í hjarta hlustandans.

1. Nefí 18:1–3; 2. Mósebók 31:3–5

Eykur hæfni og getu.

1. Nefí 7:15; 2. Nefí 28:1; 32:7; Alma 14:11; Mormón 3:16; Eter 12:2

Hvetur eða letur til framtaks.

Kenning og sáttmálar 50:13–22

Uppbyggir bæði kennara og nemendur.

Reiða sig á andann

Sem þjónar Drottins ber ykkur að gera verk hans á hans hátt og með hans krafti. Spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Enginn maður getur prédikað fagnaðarerindið án heilags anda“ (Kenningar: Joseph Smith331).

Reiðið ykkur á að andinn leiði ykkur á öllum sviðum verks ykkar. Hann mun upplýsa og innblása ykkur. Hann mun hjálpa ykkur að finna fólk til að kenna og glæða kennslu ykkar krafti. Hann mun aðstoða þegar þið hjálpið meðlimum, endurkomumeðlimum og nýjum trúskiptingum að styrkja trú sína.

Sumir trúboðar búa yfir sjálfstrausti. Öðrum skortir slíkt sjálfstraust. Verið auðmjúk og setjið traust ykkar og trú á Jesú Krist, ekki á ykkur sjálf. Treystið fremur á andann en ykkar eigin hæfileika og getu. Heilagur andi mun efla framlag ykkar langt fram yfir það sem þið getið gert á eigin spýtur.

Ritningarnám

Lærið eftirfarandi ritningarvers og íhugið hvernig þau svara þessum mikilvægu spurningum sem þið ættuð að spyrja á hverjum degi. Hvernig getið þið tileinkað ykkur kenningarnar í þessum versum í þeirri viðleitni að finna fólk, skipuleggja kennslu og í einkanámi og félaganámi? Hvernig getið þið tileinkað ykkur þessa ritningarhluta í þeirri viðleitni ykkar að kenna, bjóða fólki að skuldbinda sig og fylgja eftir með skuldbindingar?

Hvert ber mér að fara?

Hvað ætti ég að gera?

Hvað ber mér að segja?

Hvernig ber mér að nota ritningarnar í kennslu minni?

Nokkur aðvörunarorð

Staðfestið hughrif ykkar með áreiðanlegum heimildum

Þegar þið biðjist fyrir um innblástur, berið þá andleg áhrif ykkar saman við ritningarnar og kenningar lifandi spámanna. Hughrif frá andanum munu samræmast þessum heimildum.

Leitið opinberunar í verkefnum ykkar

Verið viss um að tilfinningarnar sem þið hljótið séu í samræmi við verkefni ykkar. Hughrif frá andanum eru ekki gefin ykkur til að leiðbeina eða leiðrétta aðra, nema þið séuð kölluð til þess með réttu valdi. Þið munuð til að mynda ekki hljóta opinberun til að segja biskupi hvað honum ber að gera í köllun sinni.

Ljósmynd
Gjöf ljóss

Greina hin sönnu áhrif andans

Howard W. Hunter forseti leiðbeindi: „Leyfið mér að koma með aðvörunarorð. … Ég held að ef við sýnum ekki varúð, … gætum við byrjað að falsa hin sönnu áhrif anda Drottins með óverðugum og stjórnsömum hætti. Ég verð áhyggjufullur þegar svo virðist sem heitar tilfinningar eða táraflaumur séu lögð að jöfnu við nærveru andans. Vissulega getur andi Drottins kallað fram heitar tilfinningar, þar á meðal táraflaum, en slíkri ytri birtingu ætti ekki að rugla saman við nærveru andans sjálfs“ (The Teachings of Howard W. Hunter [1997], 184).

Reynið ekki að þvinga fram andlega hluti

Ekki er mögulegt að þvinga fram andleg málefni. Þið getið tileinkað ykkur viðhorf og umhverfi sem býður andanum heim og þið getið undirbúið ykkur sjálf, en þið getið ekki stjórnað því hvernig eða hvenær innblástur kemur. Verið þolinmóð og treystið að þið hljótið það sem þið þurfið á tilsettum tíma.

Varðveitið helgi andlegra upplifana

Sem trúboðar gætuð þið verið meðvitaðri um andlegar upplifanir en áður á ævi ykkar. Slíkar upplifanir eru helgar og eru almennt til ykkar eigin uppbyggingar, leiðbeiningar eða leiðréttingar.

Mörgum þessara upplifana er best að halda út af fyrir sig. Segið einungis frá þeim þegar andinn tilgreinir að þið getið blessað aðra með því að gera það (sjá Alma 12:9; Kenning og sáttmálar 63:64; 84:73).

Notið bestu dómgreind ykkar sjálfra í sumum tilvikum

Stundum viljum við að andinn leiði okkur í öllu. Drottinn vill þó að við framkvæmum samkvæmt okkar bestu dómgreind (sjá Kenning og sáttmálar 60:5; 61:22; 62:5). Dallin H. Oaks forseti kenndi:

„Þrá til að verða leiddur af Drottni er styrkur, en henni þarf að fylgja skilningur á því að himneskur faðir lætur okkur um að taka margar persónulegar ákvarðanir. Persónulegar ákvarðanir eru ein af uppsprettum þess vaxtar sem okkur er ætlað að öðlast hér á jörðu. Einstaklingar sem reyna að færa allar ákvarðanatökur yfir á Drottin og sárbiðja um opinberun í öllum aðstæðum, munu brátt komast að því að þegar þeir biðja um opinberun, þá munu þeir ekki hljóta hana. Líklegt er að það gerist við þær tíðu aðstæður þar sem valkostir eru léttvægir eða báðir valkostir eru ásættanlegir.

Við ættum að kanna það vel í huga okkar og nota þá röksemdarhæfni sem skaparinn hefur gefið okkur. Síðan ættum við að biðja um leiðsögn og framkvæma í samræmi við hana ef við hljótum hana. Ef við hljótum ekki leiðsögn ættum við að breyta samkvæmt bestu vitund. Þeir sem þráast við að leita opinberaðrar handleiðslu varðandi efni sem Drottinn hefur kosið að upplýsa okkur ekki um geta kallað fram svar úr eigin hugarheimi eða af hlutdrægni eða þeir geta jafnvel hlotið svör úr uppsprettu falskra opinberana“ („Our Strengths Can Become Our Downfall,“ Ensign, október 1994, 13–14).

Ritningarnám

Að treysta á andann er svo mikilvægt að Drottinn varar okkur við að afneita eða bæla niður andann. Hvað lærið þið af eftirfarandi ritningarhlutum?


Hugmyndir að námi og tileinkun þess

Einkanám

  • Skiptið síðu í tvo dálka. Auðkennið annan dálkinn „Það sem Drottinn gerði“ og hinn „Það sem Lehí eða Nefí gerðu“. Lesið frásögnina um Líahóna og brotna bogann (1. Nefí 16:9–31) eða frásögnina um skipasmíði Nefís (1. Nefí 17:7–16; 18:1–6). Skráið atburði úr frásögninni í viðeigandi dálk. Íhugið hvað frásögnin getur kennt ykkur um eðli innblásturs.

  • Skoðið dagbókina ykkar og finnið tilvik þar sem þið hafið verið leidd af andanum eða upplifað gjöf andans. Íhugið hvenær, hvar og hvers vegna þessar upplifanir áttu sér stað. Hvernig birtist hönd Drottins í þeim? Hvernig leið ykkur? Að minnast þessara upplifana getur hjálpað ykkur að bera kennsl á andann.

  • Lærið Alma 33:1–12 og Alma 34:17–31. Hvaða spurningum voru Alma og Amúlek að svara? (Rifjið upp Alma 33:1–2.) Hvernig svöruðu þeir þessum spurningum? Hvaða fullvissu veittu þeir?

  • Drottinn hefur lofað að andinn muni leiða okkur á marga mikilvæga vegu. Þegar þið lesið eftirfarandi ritningarhluta, skuluð þið bera kennsl á þá þætti í starfi ykkar sem krefjast leiðsagnar andans. Hvað þýðingu hafa reglurnar í eftirfarandi ritningarversum fyrir einkanám ykkar og félaganám? Fyrir umdæmisráðsfundi, svæðisráðstefnur, skírnarathafnir og aðra fundi?

    Biðjast fyrir

    Stjórna samkomum

Félaganám og félagaskipti

  • Ræðið um bænirnar sem þið flytjið sem félagar. Njótið þið handleiðslu heilags anda? Hvernig hafið þið hlotið svör við bænum ykkar sem félagar? Þegar þið biðjist fyrir sem félagar:

    • Trúið þið þá að Guð gefi ykkur það sem þið biðjið um í réttlæti og samkvæmt vilja hans?

    • Viðurkennið þið og þakkið fyrir svör við bænum ykkar?

    • Biðjið þið fyrir fólki með nafni og íhugið þarfir þess?

    • Biðjið þið fyrir hvor öðrum eða hvor annarri og að andinn leiði ykkur?

    • Berið þið kennsl á svörin við bænum ykkar?

    • Biðjist þið fyrir í skuldbindingu um að bregðast við hughrifunum sem þið hljótið?

  • Ræðið hvernig þið munið leita andans af meiri einlægni.

  • Ræðið mismunandi leiðir sem fólk lýsir áhrifum heilags anda. Haldið skrá í námsdagbók ykkar um athugasemdir sem þau sem þið kennið hafa komið með um upplifanir sínar af andanum. Hvernig getið þið hjálpað öðrum að bera kennsl á þessi heilögu áhrif?

Umdæmisráð, svæðisráðstefnur og trúboðsleiðtogaráð

  • Eftir því sem við á, látið trúboða miðla sögu eða reynslu sem þeir heyrðu nýlega á vitnisburðarsamkomu, í kennslu eða á öðrum vettvangi. Andlegar frásagnir og upplifanir sem aðrir segja frá geta hjálpað ykkur að þróa trú og bera kennsl á að áhrif andans eru víðtæk og koma oft fram.

  • Biðjið trúboðana að flytja ræður um trúboðið og kraft heilags anda.

  • Ræðið hvernig tjáning þakklætis hjálpar ykkur að greina hið smáa en mjög mikilvæga sem Drottinn blessar ykkur með (sjá Eter 3:5; Kenning og sáttmálar 59:21). Ræðið hinar ýmsu leiðir til að tjá þakklæti.

  • Íhugið að biðja nýjan meðlim að ræða hvernig hann eða hún varð fyrir áhrifum frá andanum þegar hann lærði um kirkjuna. Biðjið viðkomandi að miðla einungis upplifunum sem honum eða henni finnst vera viðeigandi.

Trúboðsleiðtogar og trúboðsráðgjafar

  • Þið gætuð beðið trúboða um að hafa með viðeigandi andlegar upplifanir í vikulegu bréfi sínu til ykkar.

  • Spyrjið trúboða af og til um morgun- og kvöldbænir þeirra í viðtölum eða samtölum. Ef þörf krefur, ráðfærið ykkur við þá um hvernig gera megi bænir þeirra innihaldsríkari.

  • Spyrjið trúboða hvernig þeir séu að hjálpa þeim sem þeir kenna að skynja og þekkja andann.