Trúa, hlýða og standast

Thomas S. Monson forseti


Thomas S. Monson forseti
Trúið að hollusta og trúfesti við sannleika fagnaðarerindisins séu algjörlega nauðsynleg. Ég ber vitni um að svo er.

Kæru ungu systur, sú ábyrgð mín að tala til ykkar vekur mér auðmýkt. Ég bið um guðlega hjálp til að takast á við þetta verkefni.

Það eru ekki lengra en tæp 20 ár frá því að þið hófuð ferð ykkar um hið dauðlega líf. Fyrir þann tíma voruð þið enn í ykkar himnesku heimkynnum. Þar voruð þið meðal þeirra sem elskuðu ykkur og báru umhyggju fyrir eilífri velferð ykkar. Að lokum varð jarðlífið nauðsynlegt fyrir framþróun ykkar. Kveðjur voru án efa bornar fram og hvatning veitt. Þið fenguð líkama og urðuð dauðlegar, og nutuð ekki lengur nærveru ykkar himneska föður.

En hér á jörðu biðu ykkar fagnaðarfundir. Fyrstu árin ykkar hér voru dýrmæt og sérstök. Satan hafði ekkert vald til að freista ykkar, því þið höfðuð ekki náð ábyrgðaraldri. Þið voruð saklausar fyrir Guði.

Brátt kom að æviskeiðinu sem sumir kalla „unglingsárin hræðilegu.“ Ég kýs heldur að segja „unglingsárin æðislegu.“ Hvílíkur tími tækifæra, þroska og framþróunar ‒ sem einkennist af öflun þekkingar og sannleiksleit.

Enginn hefur lýst unglingsárunum sem auðveldum. Þau einkennast oft af öryggisleysi, þeirri tilfinningu að standast ekki væntingar, reyna að finna sig meðal jafnaldra, reyna að falla í hópinn. Á þessu skeiði verðið þið sjálfstæðari ‒ og þráið kannski meira frelsi en foreldrar ykkar vilja veita ykkur á þeim tímapunkti. Á þessu skeiði reynir Satan mest að freista ykkar og gerir sitt ýtrasta til að lokka ykkur af veginum sem leiðir ykkur aftur til ykkar himnesku heimkynna, þaðan sem þið komuð, til ástvina ykkar þar og ykkar himneska föður.

Heimurinn umhverfis er ekki gæddur verkfærum til að hjálpa ykkur að komast í gegnum þessa oft svo viðsjárverðu ferð. Svo margir í samfélagi okkar í dag virðast hafa misst örugga landfestu og rekið frá höfn friðar.

Frjálslyndi, ósiðsemi, klám og sá máttur sem felst í þrýstingi jafnaldra ‒ allt þetta og fleira ‒ veldur því að margir láta hrekjast fram og til baka í ólgusjó syndar og stranda á skerjum glataðra tækifæra, blessana og drauma.

Er hægt að finna öryggi? Er hægt að komast hjá yfirvofandi hættu? Svarið endurómar: ! Ég hvet ykkur til að horfa til vita Drottins. Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur: Engin þoka er svo þykk, engin nótt svo dimm, enginn stormur svo hvass, enginn sjófarandi svo villtur, að viti Drottins megni ekki að bjarga. Hann lýsir í gegnum storma lífsins. Hann hrópar: „Hingað til öryggis. Þessa leið heim.“ Hann bregst aldrei og sendir ljósmerki sem greinilega sjást. Ef þeim er fylgt, munu þau leiða ykkur aftur til ykkar himnesku heimkynna.

Í kvöld ætla ég að ræða við ykkur um þrjú mikilvæg merki frá vita Drottins, sem hjálpa ykkur að komast aftur til þess föður sem bíður þess af ákefð að þið komið sigursælar heim. Merkin þrjú eru að trúa, hlýða og standast.

Í fyrsta lagi er það merkið sem er fyrst og mikilvægt: Trúa. Trúið að þið séuð dætur himnesks föður, að hann elski ykkur og að þið séuð hér í dýrðlegum tilgangi ‒ að hljóta ykkar eilífu sáluhjálp. Trúið að hollusta og trúfesti við sannleika fagnaðarerindisins séu algjörlega nauðsynleg. Ég ber vitni um að svo er!

Mínar ungu vinkonur, trúið orðunum sem þið segið í viku hverri, er þið farið með þema Stúlknafélagsins. Ígrundið merkingu þeirra orða. Þau eru sannleikur. Reynið ávallt að lifa eftir gildunum sem þar eru. Trúið, líkt og þemað segir, að með því að meðtaka og fara eftir þessum gildum, verðið þið reiðubúnar og fúsar til að gjöra helga sáttmála, meðtaka helgiathafnir musterisins og njóta blessana upphafningar. Þetta er yndislegur sannleikur fagnaðarerindisins, og með því að hlíta honum verðið þið hamingjusamari allt ykkar líf og að því loknu, en ef þið gerðuð það ekki.

Flestum ykkar var kenndur sannleikur fagnaðarerindisins allt frá bernsku. Þið nutuð kennslu ástúðlegra foreldra og umhyggjusamra kennara. Sannleikurinn sem þau innrættu ykkur stuðlaði að vitnisburði ykkar; þið trúðuð því sem kennt var. Þótt þann vitnisburð sé hægt að næra andlega og þróa, er þið lærið, er þið biðjið um leiðsögn og er þið sækið kirkjusamkomur ykkar í viku hverri, er það undir ykkur komið að varðveita þann vitnisburð. Satan mun af öllum sínum styrk reyna að taka hann frá ykkur. Þið þurfið að næra hann alla ykkar ævi. Líkt er um vitnisburð ykkar og eld sem logar glatt ‒ sé honum ekki stöðugt viðhaldið ‒ mun hann koðna og kólna algjörlega. Þið megið ekki láta það gerast.

Auk þess að sækja samkomur á sunnudögum og ykkar vikulegu viðburði, nýtið ykkur þá líka, ef þið getið, að fara í trúarskólann, hvort sem hann er árla morguns eða á öðrum tíma. Margar ykkar sækja þegar trúarskólann. Líkt og með allt í lífinu, þá ákvarðar viðhorf ykkar og vilji til að læra hvert veganesti ykkar verður úr trúarskólanum. Megi viðhorf ykkar einkennast af auðmýkt og námfýsi. Hve þakklátur ég er fyrir það tækifæri sem ég hlaut sem unglingur að geta farið árla morguns í trúarskólann, því hann gegndi mikilvægu hlutverki í þróun vitnisburðar míns. Trúarskólinn getur breytt lífum.

Fyrir nokkrum árum sat ég í stjórn með prýðisgóðum manni, sem hafði notið afar mikillar velgengni í lífinu. Ég hreifst af ráðvendni hans og hollustu við kirkjuna. Ég komst að því að hann hefði hlotið vitnisburð og gengið í kirkjuna fyrir trúarskólann. Þegar hann giftist eiginkonu sinni, hafði hún verið í kirkjunni alla ævi. Hann tilheyrði engri kirkju. Er árin liðu sýndi hann engan áhuga á að fara í kirkju með henni og börnum þeirra, þrátt fyrir fyrirhöfn eiginkonu hans. En svo kom að því að hann þurfi að aka tveimur dætrum sínum árla morguns í trúarskólann. Hann beið í bílnum meðan þær voru í námsbekknum og síðan ók hann þeim í skólann. Dag einn var rigning og önnur dóttir hans sagði: „Komdu inn fyrir, pabbi. Þú getur setið í forstofunni.“ Hann þáði boðið. Dyr kennslustofunnar voru opnar og hann tók að hlusta. Hann varð hrærður í hjarta. Hann sótti trúarskólann með dætrum sínum það sem eftir var af skólaárinu, og að lokum leiddi það til aðildar hans og ævilangrar virkni í kirkjunni. Leyfið trúarskólanum að þróa og efla vitnisburði ykkar.

Þeir tímar koma að þið standið frammi fyrir erfiðleikum, sem gætu stofnað vitnisburði ykkar í hættu, eða þið gætuð vanrækt hann sökum annarra áhugamála. Ég bið ykkur um að vera sterkar. Það er ykkar ábyrgð, og aðeins ykkar, að viðhalda hans björtu logum. Erfiðis er krafist, en því erfiði munuð þið aldrei sjá eftir. Ég minnist texta lags sem Julie de Azevedo Hanks orti. Hún skrifaði, og vísaði til vitnisburðar síns:

Í vindhviðum sterkum
hulin sársaukaskýjum
ég helga líf mitt honum,
ég þrái hlýju hans ‒ ég þrái ljósið hans.
Þótt stormar geysi
stend ég gegn lemjandi regninu,
ég verð áfram
gæslumaður eldlogans.1

Megið þið trúa, og síðan sjá til þess að logi vitnisburðar ykkar sé bjartur, og komi það sem koma má.

Í öðru lagi, ungu konur, er það að hlýða. Hlýðið foreldrum ykkar. Hlýðið lögmálum Guðs. Þau eru okkur gefin af kærleiksríkum himneskum föður. Ef þeim er hlítt, mun líf okkar verða fyllra og einfaldara. Auðveldara verður að takast á við áskoranir og vanda. Við munum hljóta fyrirheitnar blessanir Drottins. Hann hefur sagt: „Drottinn krefst hjartans og viljugs huga, og þeir viljugu og auðsveipu skulu neyta gæða Síonarlands á þessum síðustu dögum.“2

Þið getið aðeins lifað einu lífi. Haldið ykkur eins fjarri vandræðum og þið getið. Ykkur mun stundum freistað af þeim sem þið álituð vini.

Fyrir nokkrum árum ræddi ég við Meyju sem sagði mér frá reynslu sem hún átti með stúlkunum í námsbekk sínum. Þessari stúlku var oft freistað til að víkja af vegi sannleikans inn á hjáleið syndar. Sumir skólafélaga hennar höfðu stöðugt talað hana inn á að fara slíka hjáleið og hún lét loks til leiðast. Áætlun var gerð: Hún átti að segja foreldrum sínum að hún hyggðist fara á fund í Stúlknafélaginu. Hún hugðist þó aðeins vera þar uns vinkonur hennar og lagsmenn þeirra kæmu og sæktu hana. Þau hugðust síðan fara í partí, þar sem áfengi var haft um hönd, og hegðun var í algjöru ósamræmi við það sem stúlkan vissi að var rétt.

Kennarinn hafði beðist fyrir um innblástur til að geta hjálpað öllum stúlkunum sínum, en þó einkum þessari ákveðnu stúlku, sem virtist svo óákveðin varðandi skuldbindingu sína við fagnaðarerindið. Kennarinn hafði hlotið innblástur sama kvöldið um að hætta við það sem hún áður hafði ráðgert og ræða þess í stað við stúlkurnar um að halda sér siðferðilega hreinum. Þegar hún tók að segja frá hugsunum sínum og tilfinningum, leit stúlkan efagjarna á úrið sitt til að vera viss um að hitta vini sína á tilsettum tíma. En eftir því sem á umræðuna leið, varð hún hrærð í hjarta og samviska hennar og staðfesta vöknuðu að nýju. Þegar svo kallið kom með stöðugu bílflauti, leiddi hún það hjá sér. Hún varði öllu kvöldinu með kennara sínum og hinum stúlkunum í námsbekknum. Hún hafði staðist þá freistingu að víkja af hinum örugga vegi Guðs. Satan varð vonsvikinn. Stúlkan staldraði við þar til hinar voru farnar til að þakka kennara sínum fyrir lexíuna og til að segja henni frá því hvernig hún hefði hjálpað henni að hætta við það sem hefði getað endað illa. Kennarinn hafði verið bænheyrður.

Ég komst að því síðar að vegna þess að stúlkan ákvað að fara ekki með vinum sínum þetta kvöld ‒ sem sum hver voru vinsælustu stúlkur og piltar skólans ‒ sniðgengu þau hana og í marga mánuði var hún vinalaus í skólanum. Þau gátu ekki sætt sig við að hún var ekki fús til að gera það sem þau gerðu. Hún var mjög einmana og átti erfiðan tíma, en hún varð áfram staðföst og eignaðist að lokum vini með sömu lífskoðanir. Nú, nokkrum árum síðar, nýtur hún musterishjónabands og á fjögur dásamleg börn. Hve frábrugðið líf hennar hefði getað orðið. Ákvarðanir okkar ákveða örlög okkar.

Dýrmætu stúlkur, gætið þess að allar ígrundaðar ákvarðanir standist þetta próf: „Hvað gerir þetta mér? Hvað gerir þetta fyrir mig?“ Og látið hegðunarreglur ykkar ekki einkennast af „hvað finnst öðrum?“ heldur „hvað finnst mér sjálfri?“ Látið hina hljóðu og kyrrlátu rödd hafa áhrif á ykkur. Hafið hugfast að sá sem vald hafði til þess lagði hendur á höfuð ykkar þegar þið voruð staðfestar og sagði: „Meðtak hinn heilaga anda.“ Ljúkið upp hjarta ykkar, já, sál ykkar, svo þessi sérstaka rödd sem ber vitni um sannleikann megi þar hljóma. Líkt og spámaðurinn Jesaja lofaði, þá munu „eyru þín … heyra þessi orð…: Hér er vegurinn! Farið hann!“3

Hinn hái tónn okkar tíma er frjálslyndi. Tímarit og sjónvarp draga upp myndir af kvikmyndastjörnum og íþróttahetjum ‒ af þeim sem svo margt ungt fólk þráir að líkjast ‒ sem skeytir engu um lögmál Guðs og flaggar syndugu lífi, sem það telur engar slæmar afleiðingar hafa. Trúið því ekki! Það er tími reikningsskila ‒ já, tími endanlegs uppgjörs. Sérhver öskubuska á sér sitt miðnætti ‒ ef ekki í þessu lífi, þá því næsta. Dómsdagur kemur yfir alla. Eruð þið undir það búnar? Eruð þið ánægðar með það sem þið hafið áorkað?

Ef einhver hefur hrasað á ferð sinni, heiti ég ykkur því að það er leið til baka. Sú leið nefnist iðrun. Frelsari okkar dó til að veita ykkur og mér þá blessuðu gjöf. Þótt vegurinn sé ógreiðfær, þá er loforðið raunverulegt. Drottinn sagði: „Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll.“4 „Og [ég mun] ekki framar minnast syndar þeirra.“5

Kæru ungu systur, þið hafið hina dýrmætu gjöf sjálfræðis. Ég sárbið ykkur að velja að hlýða.

Í þriðja lagi, vona ég að þið standist. Hvað merkir það að standast? Ég ann þessari skilgreiningu: Að sýna þrautseigju og hugrekki. Hugrekki kann að vera nauðsynlegt trú ykkar; stundum er það nauðsynlegt til að hlýða. Þess mun vissulega krafist til að standast fram að þeim degi er þið yfirgefið þessa dauðlegu tilveru.

Á liðnum árum hef ég rætt við marga einstaklinga, sem hafa sagt við mig: „Ég hef svo mörg vandamál, raunveruleg áhyggjuefni. Mér finnst erfiðleikar lífsins yfirþyrmandi. Hvað get ég gert?“ Ég hef boðið þeim, og ég býð ykkur, þessa ákveðnu lausn: Leitið leiðsagnar himins, einn dag í einu. Lífið er léttara, ef við látum hvern dag nægja sína þjáning. Öll getum við verið trúföst aðeins í einn dag ‒ og svo annan og enn annan ‒ uns við höfum lifað alla okkar ævi undir handleiðslu andans, alla ævi í návist Drottins, alla ævi í góðum verkum og réttlæti. Frelsarinn lofaði: „Lítið til mín og standið stöðugir allt til enda, og þér skuluð lifa. Því að þeim, sem stöðugur stendur allt til enda, mun ég gefa eilíft líf.”6

Í þessum tilgangi hafið þið komið í hið dauðlega líf, mínir ungu vinir. Ekkert er mikilvægara en að keppa að því að hljóta ‒ já, eilíft líf í ríki föður ykkar.

Þið eruð afar dýrmætar dætur ykkar himneska föður, sendar til jarðar á þessum tíma í ákveðnum tilgangi. Þið hafið verið geymdar einmitt fyrir þennan tíma. Undursamlegir og dýrðlegir hlutir eru ykkur ætlaðir, ef þið aðeins viljið trúa, hlýða og standast. Ég bið þess að þið fáið notið þeirrar blessunar, í nafni Jesú Krists, frelsara okkar, amen.

Sýna tilvísanir

  Heimildir

 1.  

  1. Julie de Azevedo Hanks, „Keeper of the Flame,” Treasure the Truth (geisladiskur, 1997).

 2.  

  2.  Kenning og sáttmálar 64:34.

 3.  

  3.  Jes 30:21.

 4.  

  4.  Jes 1:18.

 5.  

  5.  Jer 31:34.

 6.  

  6.  3 Ne 15:9.