• Home
 • Nú er tíminn til þess að rísa og láta ljós sitt skína!

Nú er tíminn til þess að rísa og láta ljós sitt skína!

Elaine S. Dalton

aðalforseti Stúlknafélagsins


Elaine S. Dalton
Sem dætur Guðs fæddust þið til að leiða aðra.

Frá glugganum mínum á skrifstofu Stúlknafélagsins nýt ég stórkostlegs útsýnis yfir Salt Lake musterið. Á hverjum degi sé ég engilinn Moróní standa efst á musterinu sem skínandi tákn, ekki bara um trú sína heldur líka okkar. Ég elska Moróní vegna þess að í mjög hnignandi samfélagi hélst hann hreinn og sannur. Hann er hetjan mín. Hann stóð aleinn. Einhvern veginn finnst mér hann standa efst á musterinu í dag og benda okkur á að sýna hugrekki, að minnast þess hverjar við erum og vera verðugar þess að fara í musterið ‒ að „[rísa] og láta ljós okkar skína,“1 rísa ofar heimsins glaumi, og eins og Jesaja spáði fyrir um, „koma … til fjalls Drottins“2 ‒ hins helga musteris.

Samankomnar hér í dag eru kjörnar dætur Drottins. Það er enginn áhrifaríkari hópur sem stendur fyrir sannleika og réttlæti í öllum heiminum en stúlkur og konur í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég sé göfgi ykkar og veit um guðlega eiginleika ykkar og örlög. Þið sköruðuð fram úr í fortilverunni. Í ætterni ykkar felast sáttmálar og fyrirheit. Þið hafið erft andlegt atgerfi hinna trúföstu patríarka, Abrahams, Ísaks og Jakobs. Spámaður Guðs vísaði einu sinni til sérhverrar ykkar sem saman komnar eru hér í kvöld sem „hinnar einu skínandi vonar“3 framtíðar. Og ég er sammála! Í mjög ögrandi heimi skín ljós ykkar skært. Þetta eru einmitt „dagar sem aldrei munu gleymast.“4 Þetta eru ykkar dagar, og er tíminn fyrir stúlkur hvarvetna til að „rísa og láta ljós [sitt] skína, svo að það verði þjóðunum tákn.“5

„Staðall er mælieining til að ganga úr skugga um nákvæmni eða fullkomnun.“6 Við eigum að vera staðall heilagleika fyrir allan heiminn að líta til! Nýi endurskoðaði bæklingurinn Til styrktar æskunni hefur ekki aðeins að geyma staðla til að lifa eftir af nákvæmni, heldur einnið loforð um blessanir ef þið gjörið svo. Orðin í þessum mikilvæga bæklingi eru staðlar fyrir heiminn, og að lifa eftir þeim stöðlum mun gera ykkur kleift að vita hvað þið eigið að gera til þess að líkjast meira frelsaranum og vera hamingjusamar í stöðugt myrkari heimi. Að lifa eftir stöðlum þessa bæklings mun hjálpa ykkur að reynast verðugar stöðugs samfélags heilagan anda. Og í þeim heimi sem þið lifið í, munuð þið þarfnast þess samfélags til að taka mikilvægar ákvarðanir sem ráða munu miklu um framtíðarfarsæld ykkar og hamingju. Að lifa eftir þessum stöðlum mun hjálpa sérhverri ykkar að vera verðug þess að ganga inn í heilög musteri Drottins og meðtaka þar þær blessanir og þann kraft sem bíður ykkar, ef þið gerið og haldið helga sáttmála.7

Þegar dóttir okkar, Emi, var lítil stúlka, kunni hún því vel að fylgjast með öllu sem ég gerði þegar ég bjó mig til kirkjuferðar. Hafandi fylgst með venjum mínum, greiddi hún hár sitt og klæddi sig, og síðan bað hún mig alltaf að gefa sér svolítinn „ljóma.“ „Ljóminn“ sem hún talaði um var þykkt krem sem ég notaði gegn hrukkum. Eins og um var beðið bar ég það á vanga Emi og varir, og þá brosti hún og sagði: „Núna erum við tilbúnar að fara!“ Það sem Emi var ekki ljóst var að hún var þegar komin með sinn „ljóma.“ Andlit hennar ljómaði vegna þess að hún var svo hrein og saklaus og góð. Hún hafði andann með sér og það sást.

Ég óska þess að hver stúlka sem hér er í kvöld þekki og skilji það að fegurðin ‒ „ljóminn“ – felst ekki í andlitsförðun, kremi, eða nýjasta fatnaði eða hárgreiðslu. Hann felst í persónulegum hreinleika ykkar. Þegar þið lifið eftir stöðlunum og eruð hæfar fyrir stöðugt samfélag heilags anda, getið þið haft kraftmikil áhrif í heiminum. Fordæmi ykkar, jafnvel ljós augna ykkar, mun hafa áhrif á aðra sem sjá ykkur „ljóma,“ og þá mun langa til að líkjast ykkur. Hvar fáið þið þetta ljós? Drottinn er ljósið, „og andinn upplýsir sérhvern mann í heiminum, sem á rödd andans hlýðir.“8 Guðlegt ljós skín úr augum ykkar og ásjónu þegar þið nálgist betur himneskan föður og son hans, Jesú Krist. Það er þannig sem við fáum „ljómann“! Þar að auki, eins og þið sjáið öll, virkaði „kremið“ eiginlega ekki á hrukkurnar mínar hvort eð var!

Kallið til að „rísa og láta ljós sitt skína“ er kall til sérhverrar ykkar um að leiða heiminn í máttugum málstað ‒ að hækka staðalinn – og leiða þessa kynslóð í dyggðum, hreinleika, og musterisverðleikum. Ef þið þráið að valda breytingum í heiminum, verðið þið að vera frábrugðnar heiminum. Ég enduróma orð Josephs F. Smith forseta, sem sagði við konur síns tíma: „Það hæfir ykkur ekki að láta [stúlkur] heimsins leiða ykkur; það hæfir ykkur að leiða … [stúlkur] heimsins, í öllu því sem er … hreinsandi fyrir mannanna börn.“9 Þessi orð hljóma sönn í dag. Sem dætur Guðs, fæddust þið til að leiða.

Í heiminum sem við búum í mun hæfileiki ykkar til að leiða krefjast leiðsagnar og stöðugs samfélags heilags anda, sem mun segja ykkur „allt, sem yður ber að gjöra“10 þegar þið viðurkennið og treystið á leiðsögn hans og ábendingar. Og þar sem heilagur andi dvelur ekki í óhreinum musterum, mun hver okkar þurfa að skoða vandlega venjur sínar og hjarta. Allar munum við þurfa að breyta einhverju ‒ að iðrast. Eins og faðir Lamónís konungs sagði í Mormónsbók: „Ég mun láta af öllum syndum mínum til að þekkja þig.“11 Erum við, þið og ég, fúsar til að gera hið sama?

Ungt fólk í Queen Creek, Arisóna, ákvað að „rísa og láta ljós sitt skína“ og leiða ungdóminn í samfélagi sínu til að lifa samkvæmt stöðlunum sem settir eru fram í Til styrktar æskunni. Hvert um sig ritaði í dagbók sína eitthvað sem þeim fannst draga þau niður eða eitthvað sem þau vildu breyta í lífi sínu, og síðan beinlínis grófu þau holu. Þau komu saman og rifu úr dagbókarsíðurnar, fleygðu þeim í holuna í jörðinni, líkt og fólk Ammons gerði í Mormónsbók við stríðsvopn sín.12 Síðan grófu þau þessar síður, og þann dag skuldbundu þau sig hvert og eitt til að taka breytingum. Þau iðruðust. Þau ákváðu að rísa upp.

Er eitthvað í ykkar eigin lífi sem kallar á breytingar? Þið getið gert þetta! Þið getið iðrast vegna óendanlegrar friðþægingarfórnar frelsarans. Hann gerði ykkur og mér mögulegt að taka breytingum, að verða hrein og tær að nýju, og líkjast honum. Og hann hefur lofað, að þegar við gerum það, mun hann ekki minnast synda okkar framar.13

Stundum kann það að virðast ómögulegt að haldast ljómandi. Ykkur mæta svo margar áskoranir sem geta skyggt á uppsprettu allrar birtu, sem er frelsarinn. Stundum er leiðin erfið, og það getur jafnvel virst svo erfitt stundum, að þykk þoka skyggi á ljósið. Þannig var það með stúlku sem hét Florence Chadwick. Frá 10 ára aldri vissi Florence að hún var hæfileikarík sundkona. Hún synti yfir Ermarsund á mettíma, 13 klukkustundum og 20 mínútum. Florence elskaði áskoranir, og síðar reyndi hún að synda frá strönd Kaliforníu til Katalínueyjar ‒ um 34 kílómetra. Í því sundi tók hún að þreytast eftir að hafa synt í 15 klukkustundir. Þykk þoka brast á og kom í veg fyrir að til strandar sæist. Móðir hennar var í bát við hlið hennar, og Florence sagði móður sinni að hún héldi að hún réði ekki við að ljúka sundinu. Móðir hennar og þjálfarinn hvöttu hana til að halda áfram, en það eina sem hún sá var þokan. Hún hætti við sundið en þegar hún var komin upp í bátinn, uppgötvaði hún að hún hafði hætt í tæplega 1600 metra fjarlægð frá ströndinni. Síðar þegar hún í viðtali var spurð hvers vegna hún hefði gefist upp í sundinu, játaði hún að það hafi ekki verið kaldur sjórinn og ekki vegalengdin. Hún sagði: „Ég beið ósigur fyrir þokunni.“14

Síðar reyndi hún aftur við sundið, og enn á ný brast á niðdimm þoka. En í þetta sinn hélt hún áfram þar til hún komst heilu og höldnu til strandarinnar. Þegar hún í þetta sinn var spurð hvað hefði breyst, sagðist hún hafa haft í huga sér myndina af ströndinni þrátt fyrir þokuna, allan tímann sem sundið stóð yfir.15

Fyrir Florence Chadwivk, var ströndin hennar takmark. Fyrir okkur allar er musterið okkar takmark. Stúlkur, verið einbeittar. Missið ekki sjónar á markmiðum ykkar. Látið ekki þykka þoku siðrænnar spillingar og niðurdrepandi raddir heimsins hindra ykkur í að ná markmiðum ykkar, lifa eftir stöðlunum, njóta samfélags heilags anda, og vera verðugar þess að koma inn í heilög musteri. Hafið alltaf sýn á musterið ‒ hið heilaga hús frelsarans – í hjarta ykkar og huga.

Fyrir nokkrum vikum stóð ég í himneska herberginu í Reno Nevada musterinu. Ljósið sem streymdi inn í það herbergi var skært og var reyndar enn skærara vegna kristalljósakrónunnar sem endurkastaði ljósinu í öllum regnbogans litum frá sínum mörgu slípuðu flötum. Ég varð hugfangin þegar ég gerði mér ljóst að frelsarinn er „ljós og líf heimsins,“16 að það er ljós hans sem við verðum að halda uppi og endurspegla. Við erum örsmáu kristallarnir sem endurköstum hans ljósi, og til þess að gera það, verðum við að vera hrein og laus við ryk heimsins. Þegar ég stóð í musterinu þennan dag, heyrði ég aftur í huga mínum kall Mormóns til okkar ‒ dætra Síonar: „Vakna og rís úr duftinu.“17 „Og [snertið] ekki hina illu gjöf, né það sem óhreint er.“18 „Vakna og rís … , klæð þig skartklæðum þínum, ó Síonardóttir … , [að] sáttmálarnir, sem hinn eilífi faðir hefur við þig gjört, ó Ísraelsætt, nái að uppfyllast.“19

Blessanirnar sem lofað er í musterinu ná ekki aðeins til ykkar heldur til allra kynslóða. Þegar þið gerið musterið að markmiði ykkar, munu áhrif ykkar til góðs ná út fyrir stað og stund, og verkið sem þið vinnið fyrir þá sem á undan eru gengnir verður uppfylling spádóms!

Á síðustu aðalráðstefnu hreifst ég er ég hlustaði á öldung David A. Bednar skora á hverja ykkar að einbeita ykkur að eigin fjölskyldusögu og musterisverkum fyrir þá sem látist hafa án blessana hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists.20 Þegar hann færði ykkur þetta boð, tók hjartað kipp í brjósti mér. Í Kenningu og sáttmálum lesum við um aðra sem voru „útvaldir andar, sem geymdir voru til að koma fram í fyllingu tímanna og taka þátt í að leggja grundvöllinn að hinu mikla verki síðari daga - þar á meðal byggingu … mustera og framkvæmd helgiathafna þar inni til endurlausnar hinum dánu.“21 Þetta er ykkar dagur og verk ykkar er hafið! Nú er tíminn til að vera verðugar og fá musterismeðmæli. Þegar þið vinnið þetta verk, gerist þið frelsarar á Síonarfjalli.22

Öldungur Russell M. Nelson sagði um ykkur: „Líkt og sofandi risi munu áhrif stúlkna kirkjunnar vakna og rísa, og veita íbúum jarðar innblástur sem máttugur kraftur til réttlætis.“23 Stúlkur, rísið og takið ykkar stöðu í þeim dýrðlegu atburðum sem munu móta framtíð ykkar og framtíð heimsins. Nú er tíminn!

„Á háum fjallsins hnúk, við himin fána ber, Ó, horfið upp til hans, hann heimsins leiðsögn er“!24 Stúlkur, þið eruð fánaberarnir! Verið dyggðugar og hreinar, leitið eftir samfélagi heilags anda, grafið syndir ykkar og afbrot, haldið einbeitingu ykkar og látið ekki þoku siðrænnar spillingar skyggja á markmið ykkar. Verið verðugar þess að fara nú í musterið. Setjið á ykkur „ljómann“! Ég vitna af öllu hjarta að Guð lifir og að hann mun upplýsa líf okkar þegar við komumst nær ástkærum syni hans ‒ frelsara okkar, Jesú Kristi. Ég bið þess að við, líkt og Moróní, munum „[rísa og láta] ljós [okkar] skína, svo að það verði þjóðunum tákn“!25 Í heilögu nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

  Heimildir

 1.  

  1.  Kenning og sáttmálar 115:5.

 2.  

  2.  Jes 2:3; 2 Ne 12:3.

 3.  

  3. Gordon B. Hinckley, „Standing Strong and Immovable,” Heimsþjálfunarfundur leiðtoga, jan. 10, 2004, 20.

 4.  

  4. Oliver Cowdery, í Joseph Smith‒Saga 1:71, ath.

 5.  

  5.  Kenning og sáttmálar 115:5.

 6.  

  6. Ezra Taft Benson, „Strengthen Thy Stakes,” Tambuli, ág. 1991, 4; Ensign, jan. 1991, 2.

 7.  

  7. Sjá Kenning og sáttmálar 109:22.

 8.  

  8.  Kenning og sáttmálar 84:46.

 9.  

  9.  Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph F. Smith (1998), 184.

 10.  

  10.  2 Ne 32:5.

 11.  

  11.  Alma 22:18; skáletrað hér.

 12.  

  12. Sjá Alma 24:17.

 13.  

  13. Sjá Kenning og sáttmálar 58:42.

 14.  

  14. Sjá Sterling W. Sill, í Conference Report, apr. 1955, 117.

 15.  

  15. Sjá Randy Alcom, „Florence Chadwick and the Fog,” epm.org/resources/2010/Jan/21/florence-chadwick-and-fog. Sjá einnig „Florence Chadwick,” í Encyclopedia of World Biography, bindi 19 (2004): 64–66; „Navigation Information” og “Swim Successes,” Catalina Channel Swimming Federation, swimcatalina.com, skoðað 27. mars 2012. Fleiri mismunandi frásagnir um Florence Chadwick eru til.

 16.  

  16.  3 Ne 9:18.

 17.  

  17.  Moró 10:31.

 18.  

  18.  Moró 10:30.

 19.  

  19.  Moró 10:31.

 20.  

  20. Sjá David A. Bednar, „The Hearts of the Children Shall Turn,” Líahóna og Ensign, nóv. 2011, 24–27.

 21.  

  21.  Kenning og sáttmálar 138:53–54.

 22.  

  22. Sjá Ób 1:21; Kenning og sáttmálar 103:9; og Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 472–73.

 23.  

  23. Russell M. Nelson, „Daughters of Zion,” New Era Young Women Special Issue, YW nóv. 1985, 9.

 24.  

  24. „Á háum fjallsins hnjúk,” Sálmar, nr. 4.

 25.  

  25.  Kenning og sáttmálar 115:5.