• Home
 • Sækist eftir fræðslu: Þið hafið verk að vinna

Sækist eftir fræðslu: Þið hafið verk að vinna

Mary N. Cook

fyrsti ráðgjafi í aðalforsætisráði Stúlknafélagsins


Mary N. Cook
Verið börnum ykkar og framtíðarheimili ykkar til blessunar með því að fræðast nú eins mikið og þið getið.

Kæru stúlkur, hversu mikið við elskum sérhverja ykkar. Við sjáum að þið rísið hugdjarfar og látið ljós ykkar skína í heimi þar sem áskoranir eru miklar og tækifærin mikil. Þetta fær ykkur ef til vill til að hugleiða hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir ykkur. Ég fullvissa ykkur, dyggðugu dætur Guðs, um að framtíð ykkar er björt! Þið eruð uppi á þeim tíma er sannleikur fagnaðarerindisins hefur verið endurreistur og þann sannleik er að finna í ritningum ykkar. Þið meðtókuð gjöf heilags anda er þið létuð skírast og heilagur andi mun kenna ykkur sannleika og búa ykkur undir áskoranir lífsins.

Guð gaf ykkur siðferðislegt sjálfræði og tækifæri til að læra meðan jarðvist ykkar varir og hann hefur verk fyrir ykkur að vinna. Á herðum ykkar hvílir sú persónulega ábyrgð að sækjast eftir fræðslu til að geta unnið það verk. Lykilinn að framtíð ykkar, „ljósgeisla vonarinnar,“1 má finna í nýja bæklingnum Til styrktar æskunni, þar sem greint er frá staðli menntunar og gildi þekkingar fyrir Stúlknafélagið.

„Menntun ... lýkur upp dyrum tækifæra.“2 Er þið fylgið hvatningu Drottins um að „[sækjast] eftir fræðslu, með námi og einnig með trú,“3 munuð þið ekki eingöngu öðlast þekkingu vegna náms ykkar, heldur einnig aukið ljós, ef þið lærið einnig með trú.

Sækist eftir fræðslu með því að læra af kostgæfni. Ólíklegt er að þið getið einbeitt ykkur jafn mikið að námi í framtíðinni og þið getið nú. Gordon B. Hinckley forseti veitti æskufólki kirkjunnar þessa viturlegu leiðsögn: „Námsmynstrið sem þið venjið ykkur á í formlegri skólagöngu mun að miklu leyti ákvarða þekkingarþorsta ykkar lífið á enda.“4 „Þið ættuð að afla ykkur allrar þeirrar menntunar sem þið mögulega getið. … Fórnið öllu því sem nauðsynlegt er að fórna til að gera ykkur hæf til að vinna verk [þessa] heims. … Þjálfið huga ykkar og hendur til að hafa áhrif til góðs, er þið haldið áfram lífi ykkar.“5

Thomas S. Monson forseti sagði eftirfarandi er hann talaði sérstaklega til kvenna: „Oft er framtíðin óviss og því er það hagur okkar að búa okkur undir óvissutíma. ... Ég brýni fyrir ykkur að afla ykkur menntunar og tileinka ykkur starfshæfni, því þá verðið þið undir það búnar að afla tekna, ef slíkar aðstæður kynnu að koma upp.6

Stúlkur, fylgið leiðsögn þessara vitru og innblásnu spámanna. Verið góðir nemendur. Rísið og látið ljós ykkar skína í skólum ykkar með því að leggja ykkur fram, vera heiðarlegar og ráðvandar. Leitið hjálpar foreldra ykkar, kennara og fúsra kirkjumeðlima, ef þið eruð vondaufar og eigið erfitt með skólanámið. Gefist aldrei upp!

Gerið lista yfir það sem ykkur langar að læra og „ræðið síðan námsmarkmið ykkar við fjölskyldu ykkar, vini og leiðtoga svo þau geti veitt ykkur stuðning og hvatningu.“7 Þetta er forskrift að eigin framþróun.

Þið hafið orðið vitni að sprengingu upplýsinga með tilkomu tækninnar. Á ykkur dynur stöðugt allskyns talmál, myndmál og netefni. Vandið valið og leyfið ekki að slíkt efni afvegaleiði ykkur eða hægi á framþróun ykkar. Stúlkur, rísið á fætur! Þið Ákveðið markmið ykkar! Þið Ákveðið hvað fær að koma í huga ykkar og hjarta!

Sumt af því mikilvægasta sem þið munuð læra lærist utan skólastofunnar. Verið samvistum við konur sem eru til fyrirmyndar, sem geta kennt ykkur heimilishald, handiðn, tónlist, ættfræði, íþróttir, ritmál eða talmál. Kynnist þeim og biðjið þær að verða leiðbeinendur ykkar. Þegar þið hafið lært eitthvað nýtt, kennið það þá á Ungmennafélagsfundum eða gerist leiðbeinendur annarra stúlkna til að uppfylla skilyrði þess að verða heiðurs Býfluga.

Ég hef haft marga leiðbeinendur í lífi mínu, fyrir utan mína dásamlegu móður. Ég var níu ára gömul þegar ég komst fyrst í kynni við leiðbeiningaferlið. Barnafélagskennari minn kenndi mér að krosssauma „Ég mun færa ljós fagnaðarerindisins inn á heimili mitt,“ veggmynd sem hékk í herbergi mínu á unglingsárum mínum. Kennari minn leiðbeindi mér, leiðrétti mig og hvatti mig á meðan á því stóð. Aðrir leiðbeinendur komu í kjölfarið. Tvær mjög hæfar saumakonur í deildinni minni kenndu mér að sauma. Með leiðsögn þeirra, þolinmæði og hvatningu, ákvað ég að taka þátt í saumakeppni þegar ég var 14 ára gömul og ég vann í raun til verðlauna! Ferli þetta jók þekkingarþorsta minn og þrá eftir að skara fram úr, einnig á öðrum sviðum.

Þegar þið verðið mæður munuð þið njóta mikils ávinnings af því að hafa öðlast þekkingu. „Menntunarstig móður hefur stór áhrif á menntunarval [barna] hennar.“8 Menntun móður getur verið „lykill að því að stöðva fátækt.“9 Menntaðar konur „eru líklegri til að: Fæða heilbrigðari börn, eiga börn sem eru heilbrigðari, vera sjálfsöruggari, vera þrautseigari og rökfastari og hafa betri dómgreind.“10

Við lærum í „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“ að „meginábyrgð mæðra er að annast börnin.“11 Að veita börnum ykkar menntun er hluti af þeirri umönnun og er ykkar helga ábyrgð. Eins og ungu stríðsmennirnir, sem „mæður þeirra höfðu kennt,“12 munuð þið vera mikilvægasti kennarinn sem börn ykkar munu nokkurn tíma hafa og því þurfið þið að velja nám ykkar vandlega. Verið börnum ykkar og framtíðarheimili ykkar til blessunar með því að fræðast nú eins mikið og þið getið.

Sækist eftir fræðslu með trú. Við lærum með trú er við af kostgæfni hljótum andlega þekkingu með bæn, ritningarnámi og hlýðni og er við leitum leiðsagnar heilags anda, sem vitnar um allan sannleika. Heilagur andi getur upplýst huga ykkar, ef þið gerið ykkar hlut til að hljóta þekkingu. Heilagur andi mun veita ykkur leiðsögn og aukið ljós í námi ykkar, er þið kappkostið að halda sjálfum ykkur verðugum.

Þegar ég var ung stúlka fékk ég lánuð alltof löng skíði og alltof stóra skíðaskó, og síðan kenndi vinur minn mér að skíða! Þetta var á fallegum vordegi, sem var fullur af björtu sólskini, fullkomnum snjó og himinninn var heiðskýr. Er ég lærði að skíða hvarf kvíðinn gagnvart bröttum brekkunum og gleði kom í hans stað. Og þótt ég hrasaði nokkrum sinnum á þessum löngu skíðum, þá stóð ég alltaf upp og hélt áfram að reyna. Ég varð hugfangin af íþróttinni!

Ég komst hins vegar brátt að því að ekki eru allir skíðadagar og veðurskilyrði svo ákjósanleg. Á skýjuðum dögum skíðuðum við í aðstæðum sem kallaðst „flöt birta.“ Flöt birta er þegar sólarljósið dreifist vegna skýjanna. Þegar horft er fram á við á hvítan snjóinn, þá hverfur dýptarskynjunin og erfitt reynist að dæma um hversu brattar brekkurnar eru eða sjá hæðirnar og hólana í brekkunum.

Stúlkur, vera má að þið horfið til framtíðar ykkar eins og ég horfði á bröttu brekkurnar. Stundum finnst ykkur þið lifa í flatri birtu, að þið fáið ekki séð hvað verða mun á vegi ykkar. Að sækjast eftir fræðslu með trú mun veita ykkur sjálfsöryggi og hjálpa ykkur að komast áfram á óvissutímum.

Í 25. kapítula í Matteus kennir dæmisagan um meyjarnar tíu okkur að andlegur undirbúningur sé lífsnauðsynlegur og einstaklingsmiðaður. Þið munið að öllum tíu meyjunum var boðið til brúðskaupsveislunnar, en aðeins fimm hyggnu meyjarnar voru viðbúnar, með næga olíu á lömpum sínum.

„En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: ,Gef oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum.‘

Þær hyggnu svöruðu: ,Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.‘

Meðan þær voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað.“13

Vera má að ykkur finnist að hyggnu meyjarnar fimm hafi verið sjálfselskar að gefa ekki af olíunni sinni, en það var ekki mögulegt. Andlegur undirbúningur er einstaklingsmiðaður, dropa fyrir dropa og ekki er hægt að deila honum.

Nú er tími til að auka andlega þekkingu ykkar af kostgæfni ‒ dropa fyrir dropa – með bæn, ritningarnámi og hlýðni. Nú er tími til að sækja menntun ykkar ‒ dropa fyrir dropa. Sérhver dyggðug hugsun og breytni bætir einnig olíu á lampa ykkar, gerir ykkur hæfar til að hljóta leiðsögn heilags anda, okkar himneska kennara.

Heilagur andi mun leiðbeina ykkur á jarðnesku ferðalagi ykkar, jafnvel þegar ykkur finnst þið vera í flatri birtu, óvissar um það sem framundan er. Þið þurfið ekki að óttast. Heilagur andi mun leiðbeina ykkur í ákvörðunartökum ykkar og í námi ykkar, þegar þið haldið ykkur á veginum sem liggur til eilífs lífs.

Ég vitna af persónulegri upplifun, að ef þið sækist eftir fræðslu, ekki bara með námi heldur einnig með trú, þá munuð þið hljóta leiðsögn í því sem „Drottinn … mun þurfa [að] fá ykkur til að gera og það sem þið þurfið að vita.“14

Ég hlaut patríarkablessun mína sem ung stúlka og mér var ráðlagt að undirbúa mig með góðri menntun og læra snemma í lífinu þær dyggðir sem heimilishald og barnauppeldi krefst. Mig langaði svo mikið að njóta þeirrar blessunar að eignast fjölskyldu, en þá blessun hlaut ég hinsvegar ekki fyrr en ég varð 37 ára, þegar ég loksins giftist. Eiginmaður minn var ekkill og daginn sem við vorum innsigluð í musterinu auðnaðist mér allt í einu sú blessun að eignast ekki bara eiginmann heldur fjölskyldu með fjórum börnum.

Lengi áður hafði ég upplifað marga daga þar sem mér fannst ég vera að skíða í flatri birtu, spyrjandi þessarar spurningar: „Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir mig?“ Ég reyndi að fylgja leiðbeiningum patríarkablessunar minnar. Ég kappkostaði að ljúka námi mínu sem skólakennari og hélt áfram að mennta mig til að geta orðið barnaskólastjóri. Ég bað til himnesks föður og leitaði eftir leiðbeiningu heilags anda. Ég ríghélt í loforð spámannanna sem fullvissuðu mig um, að ef ég „væri staðföst og trúföst, héldi sáttmála [mína], þjónaði Guði, elskaði föður [minn] á himnum og Drottin Jesú Krist, yrði [mér] ekki neitað um eina einustu þeirra eilífu blessana sem okkar himneski faðir ætlar börnum sínum.“15

Ég veit að menntun mín bjó mig undir líf sem er ekkert líkt því sem ég hafði ímyndað mér sem stúlka. Ég taldi mig vera að nema til að geta kennt í skóla og kennt framtíðar börnum mínum, en ég vissi ekki að Drottinn var einnig að búa mig undir að kenna ensku í Mongólíu í trúboði með eiginmanni mínum og að kenna stúlkum í kirkjunni hvarvetna í heiminum, og kenna barnabörnum mínum gildi þekkingar ‒ allt dásamlegar blessanir sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér.

Ég ber ykkur vitni um að faðir okkar á himnum þekkir og elskar ykkur. Hann hefur borið mikið traust til ykkar og er með verk sem einungis þið getið unnið. Ég vil fullvissa ykkur um að þið munuð vera undirbúnar fyrir þetta mikla verk, ef þið sækist eftir fræðslu með námi og einnig með trú. Um þetta vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

  Heimildir

 1.  

  1. Gordon B. Hinckley, „Reaching Down to Lift Another,” Líahóna, jan. 2002, 67; Ensign, nóv. 2001, 54.

 2.  

  2.  Til styrktar æskunni (bæklingur, 2011), 9.

 3.  

  3.  Kenning og sáttmálar 88:118.

 4.  

  4. Gordon B. Hinckley, Way to Be! Nine Ways to Be Happy and Make Something of Your Life (2002), 28.

 5.  

  5. Gordon B. Hinckley, „Seek Learning,” New Era, sept. 2007, 2, 4.

 6.  

  6. Thomas S. Monson, „If Ye Are Prepared Ye Shall Not Fear,” Líahóna og Ensign, nóv. 2004, 116.

 7.  

  7.  Til styrktar æskunni, 9.

 8.  

  8. Cheryl Hanewicz and Susan R. Madsen, „The Influence of a Mother on a Daughter’s College Decision,” Utah Women and Education Project Research Snapshots, nr. 3 (jan. 2011): 1.

 9.  

  9. Marjorie Cortez, „Mom’s Education Key to Halt Poverty Cycle,” Deseret News, 23. sept. 2011, A1.

 10.  

  10. Olene Walker, „More Utah Women Need to Finish College,” Salt Lake Tribune, 30. okt. 2011, O4.

 11.  

  11. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,” Líahóna og Ensign, nóv. 2010, 129.

 12.  

  12.  Alma 56:47.

 13.  

  13.  Matt 25:8–10.

 14.  

  14. Henry B. Eyring, „Education for Real Life,” Ensign, okt. 2002, 18.

 15.  

  15. M. Russell Ballard, „Preparing for the Future,” Ensign, sept. 2011, 27.