Þín dásamlega heimferð

Dieter F. Uchtdorf forseti

annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu


Dieter F. Uchtdorf
Þegar þið glaðar notið vegvísinn sem kærleiksríkur faðir ykkar hefur séð ykkur fyrir á ferð ykkar, mun hann vísa ykkur á heilaga staði og þið náið guðlegum möguleikum ykkar.

Við njótum þess heiðurs í kvöld að hafa hjá okkur Thomas S. Monson forseta, okkar ástkæra spámann. Monson forseti, við biðjum ætíð fyrir þér.

Kæru systur, þakka ykkur fyrir tónlistina og hin töluðu orð. Allt var svo innblásið og vel við hæfi páskanna, sem við höldum hátíðlega þessa vikuna.

Það er mér gleðiefni að vera meðal ykkar, kæru ungu systur, og meðal mæðra ykkar og dásamlegra leiðtoga ykkar. Andi ykkar ljómar og þið hafið smitandi bros. Vissulega er Drottinn minnugur ykkar og lítur ástúðlega af himni til ykkar.

Ég ólst upp í Zwickau, í fyrrum Austur-Þýskalandi. Þegar ég var um 11 ára var faðir minn settur undir smásjá sem pólitískur andófsmaður, og foreldrum mínum fannst eini öruggi valkostur fjölskyldunnar sá, að flýja til Vestur-Þýskalands. Ákveðið var að öruggast væri að leggja af stað á mismunandi tímum og fara mismunandi leiðir til vesturs, og skilja allar eigur okkar eftir.

Þar sem faðir minn var í mestri hættu, fór hann fljótförnustu leiðina í gegnum Berlín. Eldri bræður mínir héldu norður og hver þeirra fann sína leið vestur. Systir mín ‒ sem þá var á sama aldri og margar ykkar hér í dag ‒ ásamt Helgu Fassmann, kennara sínum í Stúlknafélaginu, og fleirum, tók lest sem fór aðeins um smásvæði Vestur—Þýskalands. Þau greiddu lestarþjóni fyrir að opna einar dyrnar og þegar lestin fór yfir landamæri Vestur-Þýskalands, stukku þau af brunandi lestinni til frelsis. Hve ég dáist að systur minni fyrir hugrekki hennar.

Ég var yngsta barnið og móðir mín ákvað að við tvö skyldum ganga yfir fjallgarð sem aðskildi löndin tvö. Ég man eftir því að hún pakkaði niður hádegisverði, líkt og við værum að fara í gönguferð eða lautarferð til fjalla.

Við tókum lest eins langt og við komumst og gengum síðan langan tíma og nálguðumst stöðugt landamæri Vestur-Þýskalands. Við landamærin var eftirlitið strangt, en við höfðum kort og vissum af tíma og stað þar sem öruggt gæti verið að fara yfir um. Ég fékk skynjað áhyggjur og kvíða móður minnar. Hún leit vandlega yfir svæðið til að gá hvort fylgst væri með okkur. Fætur hennar og hné virtust þreyttari með hverju skrefi. Ég hjálpaði með því að halda á þungri tösku fullri af mat, nauðsynlegum skjölum og fjölskyldumyndum, er við klifum upp síðustu bröttu hæðina. Við ættum vissulega nú að vera komin yfir landamærin, hugsaði hún með sér. Þegar hún loks fann sig örugga, settumst við niður og tókum að neyta hádegisverðarins. Ég þykist viss um að hún hafi þarna í fyrsta sinn andað rólega þann daginn.

Það var ekki fyrr en þá sem við tókum eftir landamæraskiltinu. Það var enn nokkuð langt framundan! Við neyttum hádegisverðarins röngu megin landamæranna. Við vorum enn í Austu-Þýskalandi!

Landamæraverðir hefðu getað komið að okkur á hverri stundu!

Móðir mín gekk í fáti frá hádegisverðinum og hraðaði sér upp hæðina, eins fljótt og hún megnaði. Í þetta sinn þorðum við ekki að staldra við fyrr en við vorum viss um að við hefðum komist yfir landamærin.

Þótt hver fjölskyldumeðlimur hefði farið afar mismunandi leiðir og upplifað afar ólíka erfiðleika á ferð sinni, komumst við öll klakklaust á leiðarenda. Við vorum sameinuð að lokum sem fjölskylda. Hve dásamlegur dagur það var!

Ferðasögur

Það sem ég hef nú sagt ykkur er lífsreynsla, sem er mér afar dýrmætt ferðalag. Ég get nú litið yfir farinn veg og séð fjölda slíkra „lífsferða“ sem ég hef farið í gegnum tíðina. Ekki fólu þær allar í sér að fara yfir fjallgarða eða pólitísk landamæri; sumar fólu frekar í sér að sigrast á erfiðleikum eða þroskast andlega. En allar voru þær ferðir. Ég trúi að líf sérhvers manns sé safn af einstökum „ferðasögum.“

Ég er viss um að við vitum að öll hefðbundin menning er auðug að ferðasögum Þið gætuð til að mynda verið kunnugar ferðasögunni um Dóróteu og hundinn hennar, Tótó, í Galdrakarlinum í Oz. Dórótea finnur þar hinn sérkennilega múrsteinsveg sem hún ferðast á og leiðir hana heim að lokum.

Svo má nefna söguna um Ebeneser Skrögg, eftir Charles Dickens, en ferðalag hans er ekki frá einum stað til annars, heldur frá einu æviskeiði til annars. Það ferðalag tengist hjartalagi hans og hjálpar honum að skilja ástæður þess að hann varð eins og hann var og hver örlög hans yrðu, ef hann héldi áfram á vegi sjálfselsku og vanþakklætis.1

Ein hinna sígildu skáldsagna kínverskra bókmennta er Vesturferðin. Hún er rituð á 16. öldinni og er falleg frásögn um ævintýri og pílagrímferð búddamunks, sem leggur upp í ferðalag til fræðslu og þroska, með hjálp fjögurra vingjarnlegra sögupersóna.

Og svo má auðvitað nefna söguna um Bilbo Baggins, litla hæverska hobbítann, sem þráði innilega að verða áfram heima og borða súpuna sína. En eftir að knúið var á dyr hans, ákveður hann að fara út í heim til að takast á við hið óþekkta, með galdrakarli og dvergahópi, í háskalegt en mikilvægt ferðalag.2

Alþekkt saga

Eru þessar ferðasögur okkur ekki kærar, því við getum séð okkur sjálf í ferðalögunum? Velgengni þeirra og mistök geta hjálpað okkur að feta okkar eigin lífsins veg. Myndbandið sem við sáum fyrir fáeinum mínútum segir líka frá fallegri ferðasögu. Hugsanlega minna þessar sögur okkur líka á ferðalag sem við öll ættum að þekkja ‒ þá ferðasögu sem við öll gegnum mikilvægu hlutverki í.

Sú saga hefst fyrir langa löngu, löngu áður en jörðin tók að snúast um möndul sinn, löngu áður en sólin tók að verma kaldann geiminn með geislum sínum, löngu áður en dýrin smá og stór tóku að fylla jörðina okkar. Í upphafi þeirrar sögu, lifðuð þið á fallegum og fjarlægum stað.

Við vitum ekki mikið um lífið í þeirri fortilveru, en við þekkjum nokkrar staðreyndir. Himneskur faðir hefur opinberað okkur hver hann er, hver við erum og að hverju við getum orðið.

Á þessu fyrsta stigi ykkar vissuð þið örugglega að Guð væri til, því þið sáuð hann og heyrðuð hann. Þið þekktuð Jesú Krist, sem varð lamb Guðs. Þið höfðuð trú á honum. Og ykkur var ljóst að örlög ykkar voru ekki þau að njóta öryggis fortilverunnar. Þótt þið hafið unnað þessum eilífu heimkynnum, vissuð þið að þið vilduð leggja upp í ferðalag. Þið þurftuð að fara úr návist föður ykkar, fara í gegnum gleymskuhulu, hljóta dauðlegan líkama og læra og upplifa það sem væntanlega þroskaði ykkur og stuðlaði að því að þið líktust meira föður ykkar á himnum, og kæmust að nýju til dvalar hjá honum.

Á þeim helga stað, með þau við hlið sem þið þekktuð og elskuðu, hlýtur þessi mikilvæga spurning að hafa brunnið á vörum og í hjarta ykkar: „Mun ég örugglega komast til minna himnesku heimkynna aftur?“

Svo margt yrði á vegi ykkar sem þið hefðuð ekki stjórn á. Jarðlífið yrði stundum erfitt og ótal óvæntir atburðir yrðu á vegi okkar: Sjúkdómar, hörmungar, slysfarir, átök.

Án minningar um fortilveru ykkar ‒ án minningar um að þið genguð eitt sinn með föður ykkar á himnum ‒ fengjuð þið þá þekkt rödd hans í öllum þeim skarkala og látum sem fylgir jarðlífinu?

Ferðalagið framundan virtist langt og áhættusamt ‒ fullt óvissu.

Þetta yrði ekki auðvelt, en þið vissuð að það var alls erfiðis virði.

Og þarna, á mörkum eilífðarinnar, stóðuð þið, fullar af tilhlökkun og von ‒ og líka að nokkru af kvíða og áhyggjum, geri ég mér í hugarlund.

Þið vissuð að Guð yrði réttvís ‒ að gæska hans myndi sigra. Þið tókuð þátt í hinu mikla stórþingi himins og vissuð að frelsari ykkar og lausnari, Jesús Kristur, myndi sjá ykkur fyrir leið til að hreinsast af synd og bjarga ykkur frá líkamlegum dauða. Þið trúðuð að þið mynduð að lokum fagna og hefja upp raust með himneskum herskörum, til að lofa hans heilaga nafn.

Og því dróguð þið djúpt andann ...

Og stiguð skrefið mikilvæga ...

Og hér eruð þið nú!

Allar hafið þið lagt upp í ykkar eigin dásamlega ferðalag til ykkar himnesku heimkynna að nýju.

Ykkar vegvísir

Nú, þegar þið eruð hér á jörðinni, væri kannski viturlegt að spyrja ykkur sjálfar að því hvernig ferð ykkar gangi. Eruð þið á réttri leið? Eruð þið að verða sú manneskja sem ykkur var ætlað að verða og þið vilduð verða? Eruð þið að taka ákvarðanir sem hjálpa ykkur að snúa að nýju til föður ykkar á himnum?

Hann sendi ykkur ekki í þetta ferðalag til þess eins að þið ráfuðuð um stefnulausar. Hann vill að þið komið heim til hans. Hann hefur gefið ykkur ástúðlega foreldra og trúfasta kirkjuleiðtoga, og leiðarvísi sem vísar ykkur leið og auðkennir hætturnar; leiðarvísirinn sýnir ykkur hvar finna má frið og hamingju og hjálpar ykkur að feta veginn aftur heim.

En hvar er þann leiðarvísi að finna?

 1. Í hinum helgu ritningum.
 2. Í orðum spámanna og postula.
 3. Með persónulegri opinberun frá heilögum anda.

Leiðarvísir þessi er fagnaðarerindi Jesú Krists, hin góðu tíðindi og hamingjuleið lærisveins Krists. Hann er boðorðin og fordæmið sem málsvari okkar og lærifaðir gaf, hann sem þekkir veginn, því hann er vegurinn.3

Vegvísir í fórum ykkar er auðvitað algjörlega gagnslaus nema þið lærið hann ‒ nema þið hagnýtið hann alla ævi. Ég býð ykkur að hafa það í fyrirrúmi, að læra og hagnýta ykkur orð Guðs. Ljúkið upp hjarta ykkar fyrir heilögum anda, svo hann megni að leiða ykkur á lífsferð ykkar.

Vegvísir ykkar hefur að geyma fullt af hvetjandi og fræðandi boðskap frá föður ykkar á himnum og syni hans, Jesú Kristi. Í dag ætla ég að miðla ykkur þremur ábendingum úr þeim boðskap, sem munu stuðla að árangursríkri heimferð til himneskra heimkynna ykkar.

Fyrsta ábendingin: „Óttist ei, því að ég, Drottinn, er með yður.“4

Þið eruð ekki einar á þessu ferðalagi. Himneskur faðir þekkir ykkur. Þótt enginn heyri, þá heyrir hann. Þegar þið fagnið í réttlæti, þá fagnar hann með ykkur. Þegar erfiðleikar sliga ykkur, þá harmar hann með ykkur.

Áhugi himnesks föður á ykkur hefur ekkert með það að gera hve auðugar þið eruð eða fallegar, heilsuhraustar eða snjallar. Hann sér ykkur á annan hátt en heimurinn; hann sér ykkur eins og þið í raun eruð. Hann lítur á hjarta ykkar5 og hann elskar ykkur,6 því þið eruð börn hans.

Kæru systur, leitið hans einlæglega og þið munuð finna hann.7

Ég heiti ykkur því að þið eruð ekki einar.

Lítið nú örlitla stund á fólkið umhverfis ykkur. Sumar eru kannski leiðtogar ykkar, vinir eða fjölskyldumeðlimir. Aðrar hafið þið kannski aldrei séð áður. Þó er það svo, að allar þær sem þið sjáið umhverfis ykkur ‒ á þessari samkomu eða hvar annarsstaðar sem er, nú í dag eða á einhverjum öðrum tíma ‒ voru dyggðugar í fortilverunni. Sú yfirlætislausa og venjulega mannsekja sem situr við hlið ykkar, gæti hafa verið ein af þeim sem þið elskuðuð og dáðust að í himinhvolfi andanna. Sjálfar gætuð þið hafa verið slík fyrirmynd!

Eitt getið þið verið vissar um: Allar þær sem þið sjáið ‒ burt séð frá kynþætti, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, vaxtarlagi eða yfirbragði ‒ eru fjölskylda. Unga konan sem þið virðið fyrir ykkur á sama föður á himnum og þið, og hún fór úr kærleiksríkri návist hans á sama hátt og þið gerðuð, óðfús að fara til þessarar jarðar og lifa þannig, að hún mætti dag einn snúa til hans að nýju.

En hún gæti stundum verið einmana, rétt eins og þið eruð. Hún gæti jafnvel stundum hafa gleymt tilgangi ferðar sinnar. Látið hana vinsamleg vita með orðum og fordæmi að hún er ekki einsömul. Við erum hér til að hjálpa hvert öðru.

Lífið getur reynst erfitt og hjörtu geta harðnað að því marki, að erfitt getur reynst að ná til ákveðins fólks. Sumir geta verið fullir reiði. Aðrir geta hæðst og spottast að þeim sem trúa á kærleiksríkan Guð. En íhugið þetta: Þótt þau muni ekki eftir því, þá þráðu þau eitt sinn að snúa að nýju til himnesks föður.

Ykkar ábyrgð er ekki sú að snúa einhverjum til trúar. Það er verk heilags anda. Verkefni ykkar er að miðla trú ykkar og vera óttalausar. Verið öllum vinir, en sláið aldrei af stöðlum ykkar. Verið trúar sannfæringu ykkar og trú. Berið höfuðið hátt, því þið eruð dætur Guðs og hann er við hlið ykkar!

Önnur ábendingin: „Elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.“8

Hafið þið einhvern tíma velt því fyrir ykkur hvaða tungumál við töluðum er við vorum í návist Guðs? Mig grunar sterklega að það hafi verið þýska, jafnvel þótt ég haldi að enginn viti það fyrir víst. En ég veit að í fortilverunni lærðum við milliliðalaust af föður anda okkar, alheimstungumál ‒ það sem gerir kleift að sigrast á tilfinningalegum, líkamlegum og andlegum erfiðleikum.

Það tungumál er hin hreina ást Jesú Krists.

Það er kröftugasta tungumál heimsins.

Ást Krists er ekki uppgerðarást. Hún er ekki kveðjukortaást. Hún er ekki sú tegund ástar sem lofuð er í vinsællri tónlist eða kvikmyndum.

Hún er ást sem leiðir til raunverulegra persónubreytinga. Hún megnar að sigra óvild og öfund. Hún megnar að sefa biturð og slökkva reiðiloga. Hún megnar að vinna kraftaverk.

Við hlutum „fyrstu kennslu“9 okkar í þessu tungumáli elskunnar sem andar í návist Guðs, og hér á jörðinni gefst okkur kostur á að iðka hana og verða fullnuma. Þið getið komist að því hvort þið séuð að læra þetta tungumál elsku með því að meta ásetning hugsana ykkar og verka.

Þegar hugsanir snúast að mestu um hvað ykkur hugnast best, gæti ásetningur ykkar verið eigingjarn og innantómur. Það er ekki tungumálið sem þið viljið læra.

En þegar hugsanir og breytni snúast að mestu um að þjóna Guði og öðrum ‒ þegar þið þráið sannlega að blessa og lyfta öðrum umhverfis ‒ fær hin hreina ást Krists þrifist í hjarta ykkar og lífi. Það er tungumálið sem þið viljið læra.

Þegar þið verðið fullnuma í því tungumáli, og notið það í samskiptum ykkar við aðra, munu þeir sjá í ykkur eitthvað sem megnar að glæða með þeim löngu horfnar tilfinningar og beina þeim á rétta braut í för þeirra til hins himneska heimilis. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er tungumál elsku líka hið sanna meðfædda tungumál þeirra.

Þessi djúpu og varanlegu áhrif eru tungumál sem ná til sérhverrar sálar. Það er tungumál skilnings, þjónustu og uppörvunar og gleði og huggunar.

Lærið að nota alheimstungumál ástar Krists.

Og þriðja ábendingin: „Verið hughraustir.“10

Stundum verðum við óþolinmóð yfir því hvar við erum stödd á ferð okkar, ekki satt? Ef þið eruð 12 ára, gætuð þið óskað að þið væruð 14 ára. Þegar þið verðið 14 ára gætuð þið óskað að verða 18 ára. Og þegar þið verðið 18 ára, gætuð þið stundum óskað þess að fá að verða 12 ára aftur til að byrja að nýju.

Það verður ætíð eitthvað að ‒ eitthvað sem sýnist ekki vera alveg rétt. Þið getið varið tíma ykkar í að vera daprar, einmana, misskildar eða óvelkomnar. En það er ekki ferðin sem þið væntuð, og það er ekki ferðin sem himneskur faðir ætlaði ykkur. Minnist þess að þið eruð sannlega dætur Guðs!

Með það í huga, bið ég ykkur að vera sjálfsöruggar og glaðar. Já, vegurinn er holóttur og hlykkjóttur og jafnvel hættulegur. En einblínið ekki á það. Leitið hamingjunnar sem faðir ykkar á himnum hefur búið ykkur í hverju skrefi ferðar ykkar. Hamingjan er ákvörðunarstaðurinn, en líka vegurinn. Hann lofar okkur „[friði] í þessum heimi og [eilíftu lífi] í komanda heimi.“11 Þess vegna býður hann okkur: „Verið ... vonglaðir.“

Þegar þið glaðar notið vegvísinn sem kærleiksríkur faðir ykkar hefur séð ykkur fyrir á ferð ykkar, mun hann vísa ykkur á heilaga staði og þið náið guðlegum möguleikum ykkar. Þið munuð verða að þeirri dóttur Guðs, sem þið væntuð að verða.

Kæru systur, kæru ungu konur í kirkjunni, kæru ungu vinir, sem postuli Drottins veiti ég ykkur þá blessun að þið munuð finna veginn á þessari ferð ykkar heim og að þið munuð hafa áhrif til góðs á samferðafólk ykkar. Það er líka loforð mitt og bæn, að þegar þið heiðrið sáttmála, reglur og gildi fagnaðarerindis Jesú Krists og lifið sannlega eftir þeim, munuð þið sjá himneskan föður að leiðarlokum. Hann mun vefja ykkur örmum og í eitt skipti fyrir öll munuð þið vita, að þið hafið komist öruggar heim. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

  Heimildir

 1.  

  1. Sjá Charles Dickens, A Christmas Carol.

 2.  

  2. Sjá J. R. R. Tolkien, The Hobbit.

 3.  

  3. Sjá John 14:6.

 4.  

  4. Kenning og sáttmálar 68:6; sjá einnig Jes 41:10; Jóh 14:18.

 5.  

  5. Sjá 1 Sam 16:7.

 6.  

  6. Sjá 1 Pét 5:6–7.

 7.  

  7. Sjá Jer 29:13.

 8.  

  8. Jóh 15:12; sjá einnig Jóh 13:34; Moró 7:45–48.

 9.  

  9. Kenning og sáttmálar 138:56.

 10.  

  10. Kenning og sáttmálar 78:18; sjá einnig Jóh 16:33; 3 Ne 1:13.

 11.  

  11. Kenning og sáttmálar 59:23.