2010–2019
Aronsprestdæmið: Rísið og notið kraft Guðs
Apríl 2012


Aronsprestdæmið: Rísið og notið kraft Guðs

Nota þarf prestdæmið til að koma góðu til leiðar. Þið eruð kallaðir til að „[rísa] og láta ljós [ykkar] skína,” en ekki hylja ljós ykkar myrkri.

Fyrir nokkru var ég í Suður-Afríku að vitja heimilis með bróður Thabiso, fyrsta aðstoðarmanni í prestasveit Kagiso-deildarinnar. Bróðir Thabiso og biskup hans, sem er í forsæti og hefur lykla sveitarinnar, höfðu beðið fyrir þeim meðlimum sveitarinnar sem voru lítt virkir, og leitað innblásturs um hverja ætti að heimsækja og hvernig hjálpa þeim. Þeir fengu innblástur um að heimsækja Tebello og báðu mig að koma með sér.

Þegar við höfðum loks komist framhjá óðum varðhundi, fórum við inn í stofu með Tebello, sem var friðsamur ungur maður, er hafði hætt að koma í kirkju, því hann hafði tekið sér annað fyrir hendur á sunnudögum. Hann var óstyrkur en glaður að taka á móti okkur og bauð jafnvel fjölskyldu sinni að vera með okkur. Biskupinn tjáði fjölskyldunni væntumþykju sína og þrá eftir að hjálpa henni að verða eilíf fjölskylda með innsiglun í musterinu. Þetta snart þau og við fundum sterklega návist heilags anda leiða okkur í hverju orði og tilfinningu.

En það voru orð Thabiso sem gerðu gæfumuninn í heimsókninni. Mér fannst sem þessi ungi prestur talaði tungu engla ‒ ástúðleg orð sem við öll skildum til fulls, en snertu einkum hjarta vinar hans. „Ég nýt þess afar mikið að tala við þig í kirkju,” sagði hann. „Orð þín til mín eru alltaf svo vingjarnleg. Og veistu, að fótboltaliðið er næstum horfið síðan þú hættir að koma. Þú ert svo góður í fótbolta.”

„Mér þykir það leitt,” svaraði Tebello. „Ég skal koma og vera með ykkur aftur.”

„Það er frábært,” sagði Thabiso. „Og manstu hvernig bið bjuggum okkur undir að þjóna í trúboði? Getum við líka gert það aftur?“

„Já,“ svaraði Tebello, „Ég ætla að koma aftur.“

Kannski er mesta gleðin sem ég hef upplifað sem ráðgjafi í aðalforsætisráði Piltafélagsins sú, að sjá Aronspretdæmishafa víða um heim nota kraft Aronsprestdæmisins. En stundum verð ég líka hryggur í hjarta yfir að sjá að svo margir piltar skilja ekki hve miklu góðu þeir geta komið til leiðar með valdinu sem þeir hafa.

Prestdæmið er kraftur og valdsumboð Guðs sjálfs til að starfa í þjónustu barna hans. Ó, aðeins að sérhver ungur maður, sérhver Aronsprestdæmishafi fengi fyllilega skilið að prestdæmi hans hefur lykla að þjónustu engla. Ef þeir aðeins skildu, að þeir bera þá helgu ábyrgð að hjálpa vinum sínum að finna veginn sem liggur til frelsarans. Ef þeir aðeins vissu að himneskur faðir vill gefa þeim kraftinn til að útskýra sannleika hins endurreista fagnaðarerindis, af slíkum myndugleika og einlægni að aðrir munu óyggjandi fá skynjað sannleiksgildi orða Krists.

Kæru ungu menn kirkjunnar, leyfið mér að spyrja ykkur spurningar sem ég vona að þið geymið alla ævi í hjarta ykkar. Hvaða meiri kraft getið þið hlotið á jörðu en prestdæmi Guðs? Hvaða kraftur getur mögulega verið meiri en sá, að geta aðstoðað himneskan föður í því að umbreyta lífi samferðafólks síns, að hjálpa því á vegi eilífrar hamingju er þau hreinsast af synd og misgjörð?

Líkt og með allan annan kraft, þá þarf að nota prestdæmið til að koma góðu til leiðar. Þið eruð kallaðir til að „[rísa] og láta ljós [ykkar] skína” (K&S 115:5), en ekki hylja ljós ykkar myrkri. Aðeins hinir hugrökku verða taldir meðal hinna útvöldu. Þegar þið notið kraft hins helga prestdæmis, mun hugrekki ykkar og sjálfstraust aukast. Ungu menn, þið vitið að þið eruð upp á ykkar besta þegar þið eruð í þjónustu Guðs. Þið vitið að þið njótið mestrar hamingju þegar þið starfið af kappi fyrir góðan málstað. Eflið kraft prestdæmis ykkar með því að vera hreinir og verðugir.

Ég tek undir ákall öldungs Jeffreys R. Holland til ykkar fyrir sex mánuðum frá þessum ræðustól: „[Ég leita] manna,” sagði hann, „ungra og aldinna, er láta sig varða þessa baráttu milli góðs og ills, og vilja láta til sín taka og [í sér heyra]. Við eigum í stríði.“ Hann sagði ennfremur: „… Ég bið hvern mann að láta meira og betur í sér heyra, ekki aðeins gegn hinu illa … , heldur til góðs, til að vera rödd fagnaðarerindisins, rödd Guðs” („We Are All Enlisted,” Líahóna og Ensign, nóv. 2011, 44, 47).

Já, Aronsprestdæmishafar, við eigum í stríði. Og í þessu stríði er besta vörnin gegn hinu illa að stuðla stöðugt að réttlæti. Þið getið ekki hlustað á heimskuleg orð og látið sem þið heyrið ekki. Þið getið ekki horft á myndir, einir eða með öðrum, ef þið vitið að þær eru saurugar, og látið sem þið sjáið ekki. Þið getið ekki snert eitthvað óhreint og látið sem það skipti ekki máli. Þið getið ekki verið hlutlausir þegar Satan reynir að eyðileggja það sem er heilnæmt og hreint. Standið heldur hugrakkir með því sem þið vitið að er satt! Þegar þið heyrið eða sjáið eitthvað sem er andstætt stöðlum Drottins, munið þá eftir hverjir þið eruð ‒ hermenn í fylkingu Guðs sjálfs, gæddir hans heilaga prestdæmi. Ekkert öflugra vopn er til gegn óvininum, föður lyginnar, en sannleikurinn sem af munni ykkar kemur, er þið notið kraft prestdæmisins. Flestir jafnaldrar ykkar munu líta upp til ykkar fyrir hugrekki ykkar og heiðarleika. Sumir munu ekki gera það. En það skiptir í raun engu. Þið munuð afla ykkur virðingar og trausts himnesks föður, því þið notuðuð kraft hans til að koma tilgangi hans til leiðar.

Ég hvet sérhvert sveitarforsætisráð Aronsprestdæmishafa til að reisa frelsistáknið að nýju og skipuleggja og leiða orrusturnar. Hagnýtið ykkur prestdæmiskraftinn með því að bjóða fólki umhverfis ykkur að koma til Krists með iðrum og skírn. Þið hafið umboð og kraft himnesks föður til að gera það.

Tveimur árum síðar, er ég var í Santiago, Chile, hreifst ég innilega af Daniel Olate, ungum manni sem oft var í för með trúboðunum. Ég bað hann að skrifa mér og með hans leyfi ætla ég að lesa hluta af netpóstinum hans til mín: „Ég varð nýlega 16 ára og á sunnudaginn var ég vígður til embættis prests. Sama dag skírði ég vinkonu mína; hún heitir Carolina. Ég kenndi henni fagnaðarerindið og hún kom reglulega í kirkju og hlaut meira að segja viðurkenningu Eigin framþróunar, en foreldrar hennar vildu ekki leyfa að hún skírðist fyrr en þau kynntust mér og treystu mér. Hún vildi að ég skírði hana, svo við urðum að bíða í mánuð þar til á sunnudaginn, er ég varð 16 ára. Mér líður afar vel yfir að hafa hjálpað svo góðri manneskju að láta skírast og ég gleðst yfir að vera sá sem skírði hana.”

Daniel er bara einn af mörgum ungum mönnum víða um heim, sem er fús til að lifa í samræmi við þann kraft sem Guð hefur treyst þeim fyrir. Annar slíkur heitir Luis Fernando, og er frá Hondúras. Hann sá að vinur hans hafði tekið hættulega stefnu og gaf honum vitnisburð sinn, sem bókstaflega bjargaði lífi hans (sjá „A Change of Heart,” lds.org/youth/video). Olavo, frá Brasilíu, er annar slíkur. Olavo er helgur fastaþjónn á heimili sínu (sjá K&S 84:111), og hann hvatti móður sína til fullrar virkni í kirkjunni (sjá „Reunited by Faith,” lds.org/youth/video). Þessar frásagnir og fjölda annarra getið þið fundið á vefsíðu kirkjunnar fyrir æskufólkið: youth.lds.org. Og svo má nefna að Alnetið, félagsmiðlar og önnur álíka tækni, eru verkfæri sem Drottinn hefur falið ykkur í hendur til að hjálpa ykkur að framfylgja prestdæmisábyrgð ykkar og miðla áhrifum sannleika og dyggðar.

Kæru ungu menn, þegar þið notið Aronsprestdæmið á þann hátt sem ég hef lýst, eruð þið að búa ykkur undir framtíðarábyrgð ykkar. En þið gerið mun meira en það. Þið eruð líka, líkt og Jóhannes skírari, sem er fyrirmynd Aronsprestdæmisins, að greiða veg Drottins og gera hans vegu slétta. Þegar þið boðið fagnaðarerindi iðurnar og skírnar af hreinskilni, líkt og Jóhannes gerði, búið þið fólkið undir komu Drottins (sjá Matt 3:3; K&S 65:1–3; 84:26–28). Oft er ykkur sagt að möguleikar ykkar séu miklir. Nú er rétti tíminn til að hagnýta sér þá möguleika, að láta reyna á þá eiginleika sem Guð hefur gefið ykkur til að blessa aðra, að leiða þá út úr myrkri inn í ljósið, og greiða veg Drottins.

Kirkjan hefur séð ykkur fyrir ritinu Skyldurækni við Guð til að hjálpa ykkur að læra og framfylgja skyldum ykkar. Lesið það oft. Krjúpið, fjarri tæknibúnaði, og leitið leiðsagnar Drottins. Og rísið á fætur og notið kraft Guðs. Ég heiti ykkur því að þið munuð hljóta svör frá himneskum föður um hvernig ykkur ber að haga lífi ykkar og hjálpa öðrum.

Ég vitna í orð Thomas S. Monson forseta: „Vanmetið aldrei hversu mikil áhrif vitnisburður ykkar kann að hafa. … Þið hafið getu til að sjá hið óséða. Þegar augu ykkar sjá, eyru ykkar heyra og hjarta ykkar skynjar, þá getið þið komið öðrum til bjargar” („Be Thou an Example,” Líahóna og Ensign, maí 2005, 115).

Ég ber vitni um að kraftur prestdæmisins er raunverulegur. Þann vitnisburð hlaut ég við að nota prestdæmið sjálfur. Ég hef séð fjölmörg kraftaverk unnin af þeim sem hafa kraft Aronsprestdæmisins. Ég hef verið vitni að krafti englaþjónustu, er trúfastir Aronsprestdæmishafar mæla andrík orð vonar, sem ljúka upp hjarta einhvers sem hefur þörf fyrir ljós og kærleika. Í nafni Jesú Krists, Drottins okkar, leiðtoga okkar og frelsara okkar, amen.