Sleppa aðallóðsun
Apríl 2012 | Vera á svæði Drottins!

Vera á svæði Drottins!

Apríl 2012 Aðalráðstefna

Við þurfum því að spyrja okkur dag hvern: „Staðset ég mig með gjörðum mínum á svæði Drottins eða óvinarins?”

Thomas S. Monson forseti sagði eitt sinn: „Ég legg til einfalda forskrift þegar staðið er frammi fyrir því að velja. Hana er auðvelt að muna. ‚Það getur ekki verið rétt að gera rangt; það getur ekki verið rangt að gera rétt‘“ („Pathways to Perfection,” Líahóna, júlí 2002, 112; Ensign, maí 2002, 100). Forskrift Monsons forseta er einföld og skýr. Hún virkar eins og Líahóna gerði sem gefin var Lehí. Ef við iðkum trú og erum kostgæfin í því að hlýða boðorðum Drottins, mun okkur reynast auðvelt að finna réttu leiðina, einkum í daglegu vali okkar.

Páll postuli bendir okkur á mikilvægi þess að sá í andann og gæta þess að sá ekki í holdið. Hann sagði:

„Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.

Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf.

Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp” (Gal 6:7–9).

Að sá í andann merkir að allar hugsanir okkar, öll orð og verk, verða að samræmast guðleika okkar himnesku foreldra. En ritningarnar vísa til holdsins sem líkamlegs ástands hins náttúrlega manns, sem gerir að verkum að menn upplifa ástríður, girndir og fýsnir og láta stjórnast af holdinu í stað þess að leita innblásturs frá heilögum anda. Ef við gætum ekki að okkur, geta slík áhrif, ásamt þrýstingi frá hinu illa í heiminum, orðið til þess að við förum að tileinka okkur óheflaða og ófyrirleitna hegðun, sem getur orðið hluti af persónuleika okkar. Til að forðast slík slæm áhrif, verðum við að gera það sem Drottinn bauð spámanninn Joseph Smith að gera, að sá ávallt í andann: „Þreytist þess vegna ekki að gjöra gott, því að þér eruð að leggja grunninn að miklu verki. Og af hinu smáa sprettur hið stóra” (K&S 64:33).

Til þess að auka við anda okkar, þurfum við að „[láta] hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt [okkur] og alla mannvonsku yfirleitt” (Ef 4:31) og að „[vera] skynsöm á reynslutíma [okkar og losa okkur] við allt sem óhreint er” (Morm 9:28).

Þegar við lærum ritningarnar, komumst við að því að loforð Drottins til okkar eru bundin hlýðni okkar og þau hvetja til réttláts lífernis. Loforð þessi verða að næra sál okkar, vekja okkur von til að halda áfram, jafnvel mitt í þeim daglegu erfiðleikum sem fylgja því að lifa í heimi hnignandi siðferðisgilda, sem hvetja fólk til að sá stöðugt í holdið. En hvernig getum við verið viss um að val okkar sái í andann en ekki holdið?

George Albert Smith forseti lagði eitt sinn áherslu á leiðsögn afa síns og sagði: „Það er hárfín lína sem skilur að svæði Drottins og svæði djöfulsins. Ef þið haldið ykkur Drottins megin línunnar, njótið þið áhrifa hans og hafið enga löngun til illra verka; en ef þið farið aðeins örlítið yfir línuna, yfir á svæði djöfulsins, ná freistingar hans til ykkar og nái hann tökum á ykkur, munuð þið ekki getað hugsað rökrétt, því þið hafið glatað anda Drottins” (Teachings of Presidents of the Church: George Albert Smith [2011], 191).

Við þurfum því að spyrja okkur dag hvern: „Staðset ég mig með gjörðum mínum á svæði Drottins eða óvinarins?”

Spámaðurinn Mormón fræddi fólk sitt um mikilvægi þess að geta greint gott frá illu:

„Þess vegna er allt gott frá Guði, en allt illt frá djöflinum. Því að djöfullinn er óvinur Guðs og stríðir stöðugt gegn honum og lokkar og hvetur til syndar og til þess að gjöra sífellt það, sem illt er.

En sjá. Það, sem frá Guði er, hvetur og lokkar til að gera sífellt það sem gott er” (Moró 7:12–13).

Við verðum að láta ljós Krists og samfélag heilags anda hjálpa okkur að sjá hvort við með líferni okkar staðsetjum okkur á svæði Drottins eða ekki. Ef viðhorf okkar er heilnæmt, er það innblásið frá Guði, því allt gott kemur frá Guði. En sé viðhorf okkar slæmt, hefur óvinurinn áhrif á okkur, því hann fær menn til að breyta rangt.

Afríkubúar hafa vakið mér aðdáun vegna staðfestu sinnar og kostgæfni við að halda sig á svæði Drottins. Jafnvel þeir sem búa við erfiðar aðstæður geta tekið á móti boðinu um að koma til Krists og orðið heiminum ljós. Fyrir nokkrum vikum, er ég heimsótti eina afrísku deildina, naut ég þeirrar ánægju að fara með tveimur prestum, biskupi þeirra og stikuforseta, að heimsækja lítt virka pilta sveitar þeirra. Það vakti aðdáun mína að sjá hugrekki og auðmýkt þessara tveggja presta er þeir buðu hinum lítt virku piltum að koma aftur í kirkju. Meðan þeir ræddu við þessa lítt virku pilta, veitti ég því athygli að ásjóna þeirra endurspeglaði ljós Krists og fyllti líka alla umhverfis þá ljósi. Þeir voru að framfylgja þeirri skyldu sinni að „[styðja] þá óstyrku, [lyfta] máttvana örmum og [styrkja] veikbyggð kné” (K&S 81:5). Viðmót þessara tveggja presta staðsetti þá á svæði Drottins og þeir þjónuðu sem verkfæri í höndum hans, er þeir buðu öðrum að gera slíkt hið sama.

Í Kenningu og sáttmálum 20:37 kennir Drottinn okkur merkingu þess að sá í andann og hvað það er sem í raun staðsetur okkur á svæði Drottins: Auðmýkjum okkur frammi fyrir Guði, komum með sundurkramin hjörtu og sáriðrandi anda, vitnum fyrir kirkjunni að við höfum sannlega iðrast allra synda okkar, tökum á okkur nafn Jesú Krists, verum ákveðin í því að þjóna honum allt til enda, sýnum með verkum okkar að við höfum meðtekið anda Krists og verið tekin með skírn inn í kirkju hans. Vilji okkar til að uppfylla þessa sáttmála býr okkur undir að lifa í návist Guðs sem upphafnar verur. Endurminningin um þessa sáttmála verður að vera okkur til viðmiðunar í því hvernig við komum fram við fjölskyldu okkar, annað fólk og einkum og sér í lagi í samfélagi okkar við frelsarann.

Jesús Kristur sýndi fyrirmynd hinnar fullkomnu breytni, og á henni getum við byggt til að fylgja hinum helgu sáttmálum. Frelsarinn leyfði engu að hafa áhrif á líf sitt sem dregið gæti athygli hans frá guðlegu ætlunarverki hans, einkum þegar hans var freistað af óvininum eða fylgjendum sínum, meðan hann þjónaði hér á jörðu. En þótt hann hefði aldrei syndgað, var hjarta hans sundurkramið og andi hans sáriðrandi og hann var fullur elsku til himnesks föður og allra manna. Hann auðmýkti sig frammi fyrir föðurnum á himnum og afneitaði eigin vilja til að framfylgja því sem faðir hans hafði boðið honum, í öllu allt til enda. Jafnvel á stund gríðarlegra þjáninga og andlegs sársauka, er hann bar á herðum sínum syndir alls mannkyns og blóð draup úr hverri svitaholu hans, sagði hann við föður sinn: „Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt” (Mark 14:36).

Bæn mín er sú, er við ígrundum sáttmála okkar, að við verðum sterk og stöndumst „eldtungur andstæðingsins” (1 Ne 15:24), og fylgjum fordæmi frelsarans, svo við megum sá í andann og halda okkar á svæði Drottins. Við skulum hafa forskrift Monsons forseta í huga: „Það getur ekki verið rétt að gera rangt; það getur ekki verið rangt að gera rétt.” Ég segi það í nafni Jesú Krists, amen.