Sleppa aðallóðsun
Apríl 2012 | Smásveinn skal gæta þeirra

Smásveinn skal gæta þeirra

Apríl 2012 Aðalráðstefna

Eiginmaður og eiginkona ættu að skilja að mikilvægasta köllun þeirra ‒ sem þau verða aldrei leyst frá ‒ er gagnvart hvort öðru og síðan börnum þeirra.

Fyrir mörgum árum, á kaldri nóttu á lestarstöð í Japan, heyrðu ég að bankað var á glugga svefnklefa míns. Fyrir utan stóð kaldur drengur í tötralegri skyrtu, með óhreinan efnisbút bundinn yfir höfuðið vegna tannpínu í jaxli. Höfuð hans var þakið kláðamaur. Hann hélt á ryðgaðri járndós og skeið, sem var dæmigert fyrir munaðarlausan betlara. Þegar ég reyndi að opna dyrnar til að gefa honum pening, fór lestin af stað.

Ég mun aldrei gleyma þessum litla hungraða dreng sem stóð þarna í kuldanum og rétti fram tóma járndós sína. Ég gleymi heldur ekki hve illa mér leið þegar lestin tók hægt af stað og fjarlægðist hann á lestarpallinum.

Nokkrum árum síðar, í Cusco, sem er borg ofarlega í Andes-fjöllum í Perú, höfðum ég og öldungur A. Theodore Tuttle sakramentissamkomu í löngu og þröngu herbergi sem lá að umferðargötu. Þetta var að kvöldi, og meðan öldungur Tuttle talaði, birtist lítill drengur, líklega sex ára gamall, á dyraþrepinu. Hann var aðeins íklæddur tötralegri skyrtu sem náði niður fyrir hné.

Okkur til vinstri handar var borð með brauðbakka fyrir sakramentið. Þessi svangi götumunaðarleysingi hafði komið auga á brauðið og læddi sér hljóðlega meðfram veggnum að því. Hann hafði næstum komist að borðinu þegar kona í herberginu kom auga á hann. Með ákveðinni höfuðábendingu, rak hún hann út í kvöldkuldann. Ég varð hryggur hið innra.

Drengurinn kom aftur síðar. Hann læddist meðfram veggnum og horfði á mig og brauðið. Þegar hann kom að þeim stað þar sem konan kæmi aftur auga á hann, rétti ég út armana og hann hljóp til mín. Ég tók hann í kjöltu mína.

Ég setti hann síðan í sæti öldungs Tuttle, sem einhvers konar tákngerving. Eftir lokabænina, hvarf litli drengurinn út í kvöldmyrkrið.

Þegar ég kom heim sagði ég Spencer W. Kimball forseta frá reynslu minni. Hann varð innilega hrærður og sagði við mig: „Þú hélst á þjóð í kjöltu þinni.“ Hann sagði oftar en einu sinni við mig: „Reynsla þessi hefur dýpri merkingu en þú gerir þér enn grein fyrir.“

Ég hef heimsótt Rómönsku-Ameríku næstum 100 sinnum og alltaf sé ég þennan litla dreng í andlitum fólksins þar. Ég veit nú hvað Kimball forseti átti við.

Ég sá annan nötrandi dreng á götum Salt Lake City. Það var síðla á öðru köldu vetrarkvöldi. Við vorum að fara úr jólaboði á hóteli. Eftir götunni komu sex eða átta hávaðasamir drengir. Allir hefðu þeir átt að vera heima hjá sér í hlýjunni.

Einn drengjanna var ekki í yfirhöfn. Hann hoppaði hratt um til að halda á sér hita. Hann hvarf mér sjónum inn í hliðargötu, án efa inn í nöturlega íbúð með rúmi sem ekki hafði nægar yfirbreiðslur til að halda á honum hita.

Á kvöldin fer ég undir yfirbreiðsluna og bið fyrir þeim sem ekki hafa hlý rúm að sofa í.

Þegar Síðari heimstyrjöldinni lauk var ég í Osaka, Japan. Borgin var í rústum og göturnar voru fullar af steinum, rusli og sprengjubraki. Flest trén höfðu verið sprengd í burtu, en fáein þeirra stóðu enn uppi með skaddaðar greinar og boli og hugrökk báru þau greinar og lauf.

Lítil stúlka í ilskóm og tötralegum slopp var önnum kafin við að tína gul lauf garðahlyns í körfu. Litla stúlkan virtist ónæm fyrir eyðileggingunni umhverfis er hún klöngraðist yfir grjótmulninginn til að tína upp fleiri lauf. Hún hafði uppgötvað síðustu fegurðina í heiminum. Ég ætti kannski að segja að hún hafi verið fegurð hennar heims. Á einhvern hátt efldi það trú mína að hugsa um hana. Vonin er íklædd holdi barnsins.

Mormón kenndi að „ lítil börn [væru] lifandi í Kristi“1 og að þau þyrftu ekki að iðrast.

Um síðustu aldamót voru tveir trúboðar við störf í fjöllunum í suðurhluta Bandaríkjanna. Dag einn sáu þeir úr fjallshlíð fólk koma saman í skógarrjóðri langt fyrir neðan. Trúboðar þessir höfðu ekki oft marga til að prédika fagnaðarerindið fyrir, svo þeir héldu niður að rjóðrinu.

Lítill drengur hafði drukknað og þarna átti að vera útför. Foreldrar hans höfðu fengið prestinn til að „tala yfir“ syni sínum. Trúboðarnir stóðu álengdar er farandpresturinn hóf ræðu sína frammi fyrir föðurnum og móðurinni. Ef foreldrarnir hafa vonast efir því að hljóta huggun frá þessum prestklædda manni, urðu þau fyrir vonbrigðum.

Hann ávítaði þau alvarlega fyrir að hafa ekki látið skíra litla drenginn. Þau höfðu frestað því af einhverjum ástæðum og nú var það um seinan. Hann sagði þeim afdráttarlaust að litli drengurinn þeirra færi til vítis. Að það væri þeirra sök. Þau ættu sökina á þeirri endalausu þjáningu.

Eftir lok ræðunnar var gröfin fyllt og trúboðarnir fóru til syrgjandi foreldranna. „Við erum þjónar Drottins,“ sögðu þeir móðurinni, “og viljum flytja þér boðskap.“ Kjökrandi ljáðu foreldrarnir þeim eyra og þessir tveir öldungar lásu úr opinberunum og gáfu vitnisburð sinn um endurreisn lyklanna til endurlausnar bæði lifenda og látinna.

Ég finn nokkuð til með þessum presti. Hann gerði sitt besta í samræmi við ljósið og þekkinguna sem hann bjó yfir. En hann hefði átt að geta boðið meira en hann gerði. Fylling fagnaðarerindisins er fyrir hendi.

Öldungarnir komu sem huggarar, sem kennarar, sem þjónar Drottins, sem réttmætir þjónar fagnaðarerindis Jesú Krists.

Börnin sem ég minntist á eru fulltrúar allra barna föður okkar á himnum. „Synir eru gjöf frá Drottni [og] sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim.“2

Sköpun lífs er mikil ábyrgð fyrir gift hjón. Áskorun jarðlífsins er að vera verðugt og ábyrgt foreldri. Karl og kona fá ekki skapað börn án hvors annars. Það var fyrirbúið að börn ættu tvo foreldra ‒ bæði föður og móður. Engin önnur fyrirmynd getur komið í stað þessarar.

Fyrir löngu síðan sagði tárvot kona mér að hún og unnusti hennar hefðu gert mistök þegar hún var í framhaldsskóla. Hann gerði ráðstafanir til að hún færi í fóstureyðingu. Á tilsettum tíma útskrifuðust þau, giftu sig og eignuðust nokkur önnur börn. Hún lýsti fyrir mér hve það kveldi hana nú að sjá fjölskyldu sína, falleg börnin sín, og hugsa svo um barnið sem vantaði í skarðið til að fylla hópinn.

Ef hjón þessi skildu og tileinkuðu sér friðþæginguna, mundu þau vita að slíkar upplifanir, og sársaukann sem þeim fylgir, er mögulegt að afmá. Enginn sársauki varir endalaust. Það er ekki auðvelt, en lífinu var aldrei ætlað að vera auðvelt eða sanngjarnt. Iðrun, og hin viðvarandi von sem fylgir fyrirgefningu, verður alltaf erfiðisins virði.

Önnur ung hjón komu tárvot til mín og sögðust hafa komið frá lækni sem hefði sagt þeim að þau gætu ekki eignast börn saman. Þau voru niðurbrotin yfir tíðindunum. Þau urðu undrandi þegar ég sagði þeim að í raun væru þau fremur lánsöm. Þau undruðust að ég skyldi segja slíkt. Ég sagði þeim að ástand þeirra væri óendanlegra betra en þeirra hjóna sem gætu eignast barn, en vildu það ekki og afneituðu af eigingirni þeirri ábyrgð.

Ég sagði við þau: „Alla vega þráið þið börn og sú þrá vegur þungt ykkur í hag, í jarðlífi ykkar og handan þess, því hún stuðlar að andlegum og tilfinningalegum stöðugleika. Þegar allt kemur til alls, standið þið mun betur að vígi, því þið þráðuð börn, en gátuð ekki eignast þau, í samanburði við þau sem geta eignast börn, en vilja það ekki.“

Og aðrir giftast ekki og eru því barnlaus. Sumir þurfa að ala upp börn sem einstæðar mæður eða feður, vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Það eru tímabundnar aðstæður. Í eilífu samhengi alls ‒ verða réttlátar þrár og langanir uppfylltar ‒ en ekki alltaf í jarðlífinu.

„Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna.“3

Megin tilgangur alls þess sem gert er í kirkjunni, er að eiginmaður og eiginkona og börn þeirra geti verið hamingjusöm á heimilinu, séu vernduð af reglum og lögmálum fagnaðarerindisins og tryggilega innsigluð með sáttmálum hins ævarandi prestdæmis. Eiginmaður og eiginkona ættu að skilja að mikilvægasta köllun þeirra ‒ sem þau verða aldrei leyst frá ‒ er gagnvart hvort öðru og síðan börnum þeirra.

Ein mesta uppgötvun foreldrahlutverksins er sú að við lærum mun meira um það sem raunverulega skiptir máli af börnum okkar, heldur en við gerðum af foreldrum okkar. Við kynnumst sannleikanum í spádómi Jesaja um að „smásveinn [skuli] gæta þeirra.“4

Í Jerúsalem „kallaði [Jesús] til sín lítið barn, setti það meðal þeirra

og sagði:, Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.

Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki.“5

„Jesús sagði: Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er himnaríki.

Og hann lagði hendur yfir þau og fór þaðan.“6

Í Mormónsbók lesum við um komu Jesú Krists til Nýja heimsins. Hann læknaði og blessaði fólkið og bauð að litlu börnin yrðu færð til hans.

Nefí skráði: „Þeir komu með lítil börn sín og settu þau á jörðina umhverfis hann, og Jesús stóð mitt á meðal þeirra. Og mannfjöldinn greiddi þeim veg, þar til þau höfðu öll verið leidd til hans.“7

Hann bauð síðan fólkinu að krjúpa. Frelsarinn kraup með börnin umhverfis sig og flutti bæn til föður okkar á himnum. Eftir bænina tárfelldi frelsarinn og „tók litlu börnin þeirra, hvert af öðru, og blessaði þau og bað til föðurins fyrir þeim.

Og eftir að hafa gjört það grét hann á ný.“8

Ég skil tilfinningarnar sem frelsarinn sýndi vegna barnanna. Margt má læra af því að fylgja því fordæmi hans að blessa „litlu börnin“9 og biðja fyrir þeim og kenna þeim.

Ég var sá tíundi í röðinni af ellefu systkinum mínum. Samkvæmt bestu vitund minni þjónuðu faðir minn og móðir ekki í áberandi kirkjuköllunum.

Þeir þjónuðu trúfastlega í mikilvægustu köllun sinni ‒ sem foreldrar. Faðir okkar leiddi fjölskylduna í réttlæti, aldrei með reiði eða ótta. Og árangursríkt fordæmi föður okkar efldist af ljúfri leiðsögn móður minnar. Fagnaðarerindið hefur haft mikil áhrif á líf okkar allra í Packer-fjölskyldunni og á næstu kynslóðir þar á eftir, svo langt sem við fáum séð.

Ég vona að ég verði talinn jafn góður maður og faðir minn var. Áður en ég heyri orðin „vel gjört,“ frá föður mínum á himnum, vona ég að heyra þau fyrst frá mínum dauðlega föður.

Oft hef ég velt fyrir mér hvers vegna ég var kallaður sem postuli og síðan sem forseti Tólfpostulasveitarinnar, þrátt fyrir að hafa komið frá heimili þar sem faðirinn hefði getað talist lítt virkur. Ég er ekki sá eini af hinum Tólf sem fellur undir þá lýsingu.

Ég sá þó loks og skildi að það hefði einmitt getað verið vegna þeirra aðstæðna að ég var kallaður. Og ég skildi hvers vegna við sem leiðtogar þyrftum, í öllu sem við gerum í kirkjunni, að sjá foreldrum og börnum fyrir leið til að vera saman sem fjölskylda. Prestdæmisleiðtogar verða að gæta þess að gera kirkjuna fjölskylduvæna.

Það er margt sem tengist því að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists sem ekki verður mælt í tölum og línuritum mætingarskýrslna. Við erum önnum kafin við byggingar og rekstrarsjóði og dagskrá og framkvæmdir. Í slíku er mögulegt að sjást yfir sjálfan anda fagnaðarerindis Jesú Krists.

Of oft koma menn til mín og segja: „Packer forseti, væri ekki tilvalið að … ?“

Ég stöðva þá yfirleitt og segi „nei,“ því mig grunar að á eftir komi nýtt verkefni eða dagskrá sem tekur meiri tíma og peninga frá fjölskyldunni.

Tími fjölskyldunnar er helgur og hann ætti að vernda og virða. Við brýnum fyrir meðlimum að helga sig fjölskyldu sinni.

Þegar við hjónin giftum okkur, ákváðum við að taka á móti þeim börnum sem okkur bærust af þeirri ábyrgð sem fylgdi fæðingu þeirra og þroska. Á sínum tíma hafa þau sjálf stofnað fjölskyldu.

Tvisvar í hjónabandi okkar, þegar einn af okkar litlu sonum fæddist, sagði læknirinn við okkur: „Ég held ekki að þið haldið þessum.“

Í bæði skiptin var svar okkar það að við myndum gefa líf okkar til að þessi litli sonur okkar héldi lífi sínu. Þegar þetta gerðist rann upp fyrir okkur ljós, að slíkar tilfinningar væru líkar þeim sem himneskur faðir bæri til sérhvers okkar. Hve dásamleg hugsun.

Nú, þegar degi hallar í lífi mínu skiljum við hjónin og eigum vitnisburð um að fjölskyldur geta verið eilífar. Þegar við hlýðum boðorðunum og lifum fyllilega eftir fagnaðarerindinu, verðum við vernduð og blessuð. Við biðjum þess, með börnum okkar, barnabörnum og nú barnabarnabörnum, að sérhver í okkar stækkandi fjölskyldu beri slíka ást til litlu barnanna.

Feður og mæður, næst þegar þið haldið á nýbura í faðmi ykkar gætuð þið hlotið innri sýn yfir leyndardóma og tilgang lífsins. Þið mun skilja betur af hverju kirkjan er eins og hún er og af hverju fjölskyldan er grunnstofnun um tíma og alla eilífð. Ég ber vitni um að fagnaðarerindi Jesú Krists er sannleikur, að áætlun endurlausnar, sem nefnd hefur verið sæluáætlunin, er áætlun fyrir fjölskyldur. Ég bið til Drottins að fjölskyldur kirkjunnar verði blessaðar, foreldrar og börn, að þetta verk muni halda áfram, líkt og faðirinn ætlar því. Ég ber þessu vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir