2010–2019
Rísið og látið ljós ykkar skína
Apríl 2012


Rísið og látið ljós ykkar skína

Eitt það besta sem við getum gert til að rísa og láta ljós okkar skína er að hlýða boðorðum Guðs af sjálfsöryggi.

Það eru forréttindi fyrir mig að vera meðal ykkar hér í kvöld. Í hverjum janúarmánuði hlakka ég til að sjá hvert nýja þema Ungmennafélagsins verður. En þrátt fyrir það gef ég mér alltaf smá tíma til að meta hvort ég hafi náð tökum á lærdómi þema síðasta árs.

Við skulum fara yfir nýleg þema: „Lát dyggðir prýða hugsanir þínar linnulaust,“1 „[Verið] staðföst og óbifanleg og rík af góðum verkum,“2 „Ver þú fyrirmynd trúaðra,“3 „Ver þú hughraustur og öruggur,“4 og þrettánda trúaratriðið: „Vér trúum, að vér eigum að vera heiðvirð, sönn, skírlíf, góðgjörn, dyggðug og gjöra öllum mönnum gott.“5

Að læra og einbeita sér að þessum ritningargreinum í heilt ár hefur stuðlað að því að þær hafa orðið hluti af hjörtum okkar, sálum og vitnisburði. Við vonumst til þess að þið haldið áfram að fylgja leiðbeiningum þeirra er við snúum okkur nú að þema Ungmennafélagsins 2012, sem er að finna í Kenningu og sáttmálum.

Í formála að kafla 115 er sagt að árið sé 1838 og að staðurinn sé Far West, Missouri. Joseph Smith „kunngjörði vilja Guðs varðandi uppbyggingu þess staðar og húss Drottins.“ Spámaðurinn var bjartsýnn og uppörvandi. Við finnum þema þessa árs í versi fimm, Drottinn segir honum: „Sannlega segi ég yður öllum: Rísið og látið ljós yðar skína, svo að það verði þjóðunum tákn.“

Um hvað hugsið þið þegar þið heyrið orðið rísið? Sjálf hugsa ég um ykkur ‒ hin göfugu ungmenni kirkjunnar. Ég sé ykkur fyrir mér þegar þið rísið úr rekkju á hverjum morgni til að fara í trúarskóla yngri deildar. Ég sé ykkur fyrir mér þegar þið rísið á fætur eftir að hafa lokið daglegri bæn ykkar. Ég hugsa um ykkur þegar þið af hugrekki rísið til að miðla vitnisburði ykkar og verja staðla ykkar. Skyldurækni ykkar við fagnaðarerindið og fordæmi ykkar hefur veitt mér innblástur. Margar hafið þið nú þegar meðtekið þetta boð um að rísa og láta ljós ykkar skína og það hvetur aðra til að gera hið sama.

Eitt það besta sem við getum gert til að rísa og láta ljós okkar skína er að hlýða boðorðum Guðs af sjálfsöryggi. Við lærum um boðorð þessi í ritningunum, frá nútíma spámönnum og í bæklingnum Til styrktar æskunni. Ég hef sett hring utan um hugtökin fyrir og þig í mínu eintaki, eins og góður vinur kenndi mér að gera. Sá einfaldi gjörningur minnir mig á að reglur þessar eru ekki bara almennar viðmiðunarreglur ‒ þær eru sérstaklega fyrir mig. Ég vona að þið munuð gefa ykkur tíma til að setja hring utan um þessi hugtök í ykkar eintaki, lesa hann spjaldanna á milli og finna andann vitna að reglurnar eru einnig fyrir ykkur.

Vera má að einhverjar ykkar freistist til að vanrækja eða hunsa reglurnar í Til styrktar æskunni. Þær kunna að líta á bæklinginn og segja: „Sjáðu móðir, bókin nefnir ekki einu sinni [setja inn nýtt viðfangsefni].“ Eða þær réttlæta fyrir sjálfum sér: „Það sem ég er að gera er ekki svo slæmt. Ér er alls ekki eins slæm og [setjið inn nafn vinkonu eða kunningja].

Harold B. Lee forseti kenndi: „Mikilvægasta boðorð Guðs er það sem þið eigið erfiðast með að halda á þessari stundu.“6 Benjamín konungur sagði: „Ekki er mér mögulegt að benda á allt, sem getur leitt yður í synd. Leiðirnar og aðferðirnar eru svo margvíslegar, að ég get ekki komið á þær tölu.“7 Ég hvet ykkur til að leita eftir stuðningi innan fagnaðarerindisins ef ykkur gengur illa að halda þessar reglur og boðorð. Lesið ritningar ykkar. Verjið tíma á hinni opinberu heimasíðu kirkjunnar, LDS.org og Liahona.is, til að finna svör við spurningum ykkar. Talið við foreldra ykkar, kirkjuleiðtoga ykkar og þá sem skína skært er þeir lifa samkvæmt fagnaðarerindinu. Biðjið. Úthellið hjörtum ykkar til himnesks föður, sem elskar ykkur. Notið gjöf iðrunar daglega. Þjónið öðrum. Og það sem mikilvægast er, hlustið á og hlýðið hvatningu heilags anda.

Thomas S. Monson forseti hvetur okkur öll með þessum orðum: „Ungu vinir, verið sterkar … Þið vitið hvað er rétt og hvað er rangt, og ekkert dulargervi fær því breytt, hversu tælandi sem það er … Ef svokallaðir vinir hvetja ykkur til að gera eitthvað sem þið vitið að er rangt, skuluð þið vera sú sem stendur fast á því rétta, jafnvel þótt þið standið einar.“8

Himneskur faðir vill ekki að við lítum til heimsins og fylgjum síbreytilegri stefnu hans. Hann vill að við lítum til hans og fylgjum óbreytanlegri leiðsögn hans. Hann vill að við lifum eftir fagnaðarerindinu og leiðum aðra að því með því að setja okkur háan staðal.

Ritningarnar veita fjöldamörg frábær dæmi sem útskýra þessa hugmynd. Í Dómarabókinni í Gamla testamentinu lærum við um Samson. Samson bjó yfir miklum möguleikum þegar hann fæddist. Móður hans var lofað: „Hann mun byrja að frelsa Ísrael af hendi Filista.“9 En eftir því sem Samson óx úr grasi sneri hann sér meira að freistingum heimsins en leiðsögn Guðs. Hann tók ákvarðanir vegna þess að þær „[geðjuðust] augum [hans]“10 fremur en að þær væru réttar. Ritningarnar endurtaka orðtakið „síðan fór hann ofan“11 er ferðum, gjörðum og vali Samsons er lýst. Í stað þess að rísa og láta ljós sitt skína til að nýta sína miklu möguleika, lét Samson yfirbugast af heiminum, missti guðlegan kraft sinn og dó harmdauða um aldur fram,

Á hinn bóginn er fordæmi Daníels að finna í ritningunum. Daníel bjó einnig yfir miklum möguleikum þegar hann fæddist. Í kafla 6 í Daníel lesum við: „Þá bar Daníel þessi af yfirhöfðingjunum og jörlunum, sökum þess að hann hafði frábæran anda.“12 Þegar Daníel þurfti að takast á við veraldlegar áskoranir, þá leit hann ekki niður til heimsins ‒ hann reis og leit til himins. Í stað þess að fara eftir konunglegri tilskipun um að enginn ætti að biðja til nokkurs nema konungsins í 30 daga, þá „gekk hann inn í hús sitt. Þar hafði hann uppi í loftstofu sinni opna glugga, er sneru móti Jerúsalem, og þrem sinnum á dag kraup hann á kné, bað til Guðs síns og vegsamaði hann, eins og hann hafði áður verið vanur að gjöra.“13

Daníel var ekki hræddur við að rísa og láta ljós sitt skína með því að fylgja boðorðum Guðs. Hann var verndaður og hlaut blessun fyrir hlýðni sína, þrátt fyrir að hafa varið óþægilegri nóttu í ljónagryfjunni fyrir að standa fast á því sem rétt var. Þegar Daríus konungur frelsaði Daníel úr ljónagryfjunni næsta morgun, gaf hann aðra tilskipun þess eðlis að allir ættu að hræðast Guð Daníels og fylgja trúföstu fordæmi hans. Daníel sýndi okkur sannlega hvað það þýðir að vera þjóðunum tákn og lækka aldrei staðla okkar, þrátt fyrir veraldlegar freistingar.

Það hefur verið mér mikil blessun að heyra nútíma fordæmi um unglinga, rétt eins og þið eruð, sem ekki eru hræddir við að rísa og láta ljós sitt skína og vera þannig fyrirmynd meðal jafningja sinna. Joanna var ein af einungis þremur meðlimur kirkjunnar í skólanum sínum og eina stúlkan í deild sinni. Hún lofaði sjálfri sér og Drottni að hún myndi aldrei nota ljótt orðbragð. Þegar henni var falið skólaverkefni með pilti sem ekki hafði gert sömu skuldbindingu, lækkaði hún ekki staðal sinn. Hún bað hann um að virða og heiðra gildi hennar. Með tímanum, og með hjálp margra ljúfra og óljúfra áminninga, fóru vinir hennar að temja sér nýjar venjur og tóku að vanda málfar sitt. Margir tóku eftir þessum breytingum, þar á meðal faðir þessa pilts sem þakkaði Joanna fyrir að hafa góð áhrif á son sinn.14

Ég hitti Karen þegar ég fór nýrverið til Filippseyja, og hún sagði mér frá reynslu sinni þegar hún var Lárberi og í háskóla við nám í hótel- og veitingarekstri. Kennari nokkur krafðist þess að hver nemandi lærði að búa til og dreypa á hinum ýmsu drykkjum sem yrðu bornir fram á veitingastöðum þeirra. Nokkrir drykkjanna voru áfengir og Karen vissi að hún myndi brjóta boðorð Drottins ef hún drykki af þeim. Karen sýndi hugrekki sitt með því að rísa og láta ljós sitt skína, þótt afleiðingar gætu orðið alvarlegar, og hún dreypti ekki á drykkjunum.

Karen sagði: „Kennari minn kom til mín og spurði mig af hverju ég dreypti ekki á drykkjunum. Hann sagði:, Karen, hvernig getur þú þekkt bragðið og náð þessum mikilvæga áfanga, ef þú hefur ekki einu sinni bragðað á drykkjunum?‘ Ég sagði honum að ég væri meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og sem slík drykkjum við ekki drykki sem gætu skaðað okkur. Sama hverju hann byggist við af mér, jafnvel þótt það þýddi að ég myndi falla í áfanganum, þá myndi ég skilja það, en ég myndi ekki breyta mínum persónulegu stöðlum.“

Vikur liðu og ekkert var minnst meira á þennan dag. Þegar kom að lokum annarinnar, vissi Karen að lokaeinkunn hennar myndi endurspegla að hún hafði neitað að smakka drykkina. Hún hikaði við að skoða einkunnir sínar, en þegar hún loks gerði það sá hún að hún hafði fengið hæstu einkunnina í bekknum.

Hún sagði: „Ég lærði í gegnum þessa upplifun, að Guð … mun vissulega blessa okkur þegar við fylgjum honum. Ég lærði einnig, að jafnvel þótt ég hefði fengið falleinkunn, þá hefði ég ekki séð eftir því sem ég gerði. Ég veit að ég mun aldrei bregðast augliti Guðs, þegar ég vel að gera það sem ég veit að er rétt.“15

Kæru stúlkur, sérhver ykkar býr yfir miklum möguleikum. Þið eruð elskaðar dætur himnesks föður. Hann þekkir ykkur og hann elskar ykkur. Hann býður ykkur að „[rísa] og láta ljóð [ykkar] skína“ og hann lofar, að er þið gerið það, þá mun hann styðja og blessa ykkur. Ég bið þess að sérhver ykkar hljóti hugrekki til að taka á móti boði hans og hljóta loforð hans, í nafni Jesú Krists, amen.