2010–2019
Er við komum saman að nýju
Apríl 2012


Er við komum saman að nýju

Himneskur faðir hugar að hverju okkar og minnist þarfa okkar. Megum við fyllast anda hans þegar við njótum þess sem fram fer á þessari aðalráðstefnu.

Kæru bræður og systur, ég býð ykkur velkomin og tjái ykkur væntumþykju mína, er við komum saman að nýju á aðalráðstefnu kirkjunnar. Við komum saman á sex mánaða fresti til að efla og hvetja hvert annað, til að hugga, til að styrkja trú. Við erum hér til að læra. Sum ykkar leita svara við spurningum og áskorunum sem þið upplifið í lífi ykkar. Aðrir eiga erfitt sökum vonbrigða eða missis. Öll getum við hlotið skilning og huggun er við finnum anda Drottins.

Ef þörf er á að þið gerið breytingar á lífi ykkar, þá vona ég að þið finnið hvatningu og hugrekki til að gera þær, er þið hlustið á hin innblásnu töluðu orð sem mælt verða. Megum við öll einsetja okkur að nýju að lifa sem verðugir synir og dætur föður okkar á himnum. Megum við halda áfram að standa gegn hinu illa, hvar sem það finnst.

Hve blessuð við erum að hafa komið til jarðar á slíkum tíma ‒ dásamlegum tíma í sögu heimsins. Við getum ekki öll verið saman undir einu þaki, en eigum nú kost á að horfa á framvindu þessarar ráðstefnu fyrir undursamlega tilstuðlan sjónvarps, útvarps, gervihnatta og Alnets ‒ og jafnvel snjallsíma. Við komum saman sem eitt, talandi mörg tungumál, búandi í mörgum löndum, en öll sömu trúar og kenningar og sama tilgangs.

Upphafið fyrir 182 árum var fábrotið, en nú er hægt að fylgjast með okkur hvarvetna um heim. Þessi dásamlegi málstaður, sem við höfum helgað okkur, mun halda áfram að eflast og umbreyta og blessa líf fólks. Ekkert afl hér í heimi fær stöðvað verk Guðs. Sama hvað gerist, þessi dásamlegi málstaður mun ná fram að ganga. Við minnumst þessara spámannlegu orða spámannsins Joesphs Smith: „Engin vanheilög hönd fær stöðvað framrás þessa verks; ofsóknir kunna að geisa, múgur sameinast gegn því, herir safnast saman, óhróður breiðast út, en sannleikur Guðs mun sækja fram óháður, ákveðinn og göfugur, þar til hann hefur farið um hvert meginland, vitjað hvers lands, þrætt hvert hérað og hljómað í hverju eyra, þar til tilgangi Guðs er náð og hinn mikli Jehóva segir að verkinu sé lokið.“1

Margt hér í heimi er nú erfitt og ögrandi, bræður mínir og systur, en það er líka margt gott og upplyftandi. Og líkt og þrettánda trúaratriðið segir: „Sé eitthvað dyggðugt, fagurt, háleitt eða lofsvert, þá sækjumst vér eftir því.“ Megum við alltaf gera það.

Ég þakka trú ykkar og hollustu við fagnaðarerindið. Ég þakka ykkur fyrir kærleikann og umhyggjuna sem þið sýnið hvert öðru. Ég þakka þjónustuna sem þið veitið í deildum ykkar og greinum og í stikum ykkar og umdæmum. Það er slík þjónusta sem gerir Drottni kleift að ná fram tilgangi sínum hér á jörðunni.

Ég tjái þakklæti mitt til ykkar fyrir vinsemd ykkar í minn garð hvar sem ég er. Ég þakka ykkur fyrir bænir ykkar í mína þágu. Ég hef fundið fyrir þessum bænum og er afar þakklátur fyrir þær.

Og nú, bræður mínir og systur, komum við hingað til að hljóta leiðsögn og innblástur. Margvíslegum boðskap verður miðlað á næstu tveimur dögum. Ég fullvissa ykkur um að þeir karlar og þær konur sem munu tala til okkar hafa leitað hjálpar og leiðsagnar himins við að undirbúa boðskap sinn. Þau hafa hlotið innblástur um efnið sem þau munu miðla okkur.

Himneskur faðir hugar að hverju okkar og minnist þarfa okkar. Megum við fyllast anda hans þegar við njótum þess sem fram fer á þessari aðalráðstefnu. Það er mín einlæg bæn, í hinu helga nafni Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 444.