2010–2019
Snúast til trúar á fagnaðarerindið fyrir tilverknað kirkju hans
Apríl 2012


Snúast til trúar á fagnaðarerindið fyrir tilverknað kirkju hans

Tilgangur kirkjunnar er að hjálpa okkur að lifa eftir fagnaðarerindinu.

Ég ann fagnaðarerindi Jesú Krists og Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Stundum notum við hugtökin fagnaðarerindi og kirkja jöfnum höndum, en þau merkja ekki það sama. Þau eru hins vegar fagurlega samofin og við þurfum hvort tveggja.

Fagnaðarerindið er hin undursamlega áætlun Guðs þar sem okkur, börnum hans, er veitt tækifæri til að meðtaka all það sem faðirinn á (sjá K&S 84:38). Það kallast eilíft líf og er lýst sem „mest allra gjafa Guðs“ (K&S 14:7). Nauðsynlegur hluti af áætluninni er jarðvistarreynsla okkar – tími til að þróa trú (sjá Moró 7:26), til að iðrast (sjá Mósía 3:12) og leita sátta við Guð (sjá Jakob 4:11).

Þörf var fyrir frelsara, því við vissum að okkar mannlegi breyskleiki myndi gera þetta líf mjög erfitt, því að „andstæður eru … í öllu“ (2 Ne 2:11) og við gætum ekki hreinsað eigin syndir. Þegar Elóhim, hinn eilífi Guð og faðir anda okkar allra, kynnti sáluhjálparáætlun sína, þá var einn meðal okkar sem sagði: „Hér er ég, send mig“ (Abraham 3:27). Nafn hans var Jehóva.

Hann bjó yfir almætti til að sigrast heiminn því hann var fæddur af himneskum föður, bæði andlega og líkamlega. Hann var háður sársauka og þjáningum dauðleikans því hann var fæddur af jarðneskri móður. Hinn mikli Jehóva var einnig nefndur Jesús og þar að auki var honum gefinn titillinn Kristur, sem þýðir Messías eða hinn smurði. Mesta afrek hans var friðþægingin, þar sem Jesús Kristur „sté … neðar öllu“ (K&S 88:6), sem gerði honum kleift að greiða gjald endurlausnar fyrir sérhvert okkar.

Kirkjan var stofnsett af Jesú Kristi á meðan hann þjónaði hér á jörð á „grundvelli [postula og spámanna]“ (Ef 2:20). Í þessari „[ráðstöfun] í fyllingu tímanna“ (K&S 128:18), endurreisti Drottinn það sem eitt sinn var og sagði sérstaklega við spámanninn Joseph Smith: „Ég mun stofna kirkju með hendi þinni“ (K&S 31:7). Jesús Kristur var og er höfuð þessarar kirkju, sem spámenn með postulegt valdsumboð eru í forsvari fyrir.

Þetta er stórfengleg kirkja. Skipulag kirkjunnar, árangur og sönn góðvild eru virt af öllum sem af einlægni leitast eftir að skilja hana. Kirkjan er með starfsemi fyrir börn, unglinga, karla og konur. Kirkjan á falleg samkomuhús rúmlega 18.000 að tölu. Tignarleg musteri ‒ sem nú eru 136 ‒ eru víða um heim og 30 önnur eru í byggingu eða fyrirhuguð. Fastatrúboðar eru rúmlega 56.000 og þeir eru bæði ungir og aldnir og þjóna í 150 löndum. Hjálparstarf kirkjunnar um heim allan er dásamlegur vitnisburður um örlæti meðlima okkar. Velferðarkerfið hlúir að meðlimum okkar og stuðlar að sjálfstæði á þann hátt sem á sér ekki hliðstæðu. Í kirkjunni eru óeigingjarnir leiðtogar og samfélag heilagra, sem reiðubúnir eru að þjóna hver öðrum á undraverðan hátt. Ekkert í öllum heiminum líkist þessari kirkju.

Þegar ég fæddist bjó fjölskylda mín í litlu húsi á landi eins frægasta og sögulegasta samkomuhúss kirkjunnar, Honolulu-laufskálans. Ég bið nú kæru bræður mína í Yfirbiskupsráðinu, sem sér um fasteignir kirkjunnar, afsökunar á því að hafa sem drengur klifraði upp um allt á eigninni, allt frá botni hinnar vatnsfylltu speglunarlaugar, upp í topp hins tignarlega turns að innanverðu. Við sveifluðum okkur líka (eins og Tarzan) á löngum vínviðum hinna stóru banyan-trjáa á lóðinni.

Kirkjan var okkur allt. Við fórum á fjölda funda, jafnvel á fleiri en við höldum í dag. Við sóttum Barnafélagssamkomur síðdegis á fimmtudögum. Líknarfélagsfundir voru á þriðjudagsmorgnum. Ungmennafélagsfundir voru á miðvikudagskvöldum Laugardagar voru fyrir deildarviðburði. Á sunnudagsmorgnum fóru karlmennirnir og piltarnir á prestdæmisfund. Um miðjan dag sóttum við sunnudagaskólann. Síðan fórum við aftur í kirkju um kvöldið til að sækja sakramentissamkomu. Við komum og fórum á fundi og svo virtist sem tími okkar væri helgaður kirkjuathöfnum allan sunnudaginn og flesta aðra daga vikunnar.

En þótt mér þætti vænt um kirkjuna þá var það á þessum bernskudögum sem ég fyrst fékk á tilfinninguna að það væri jafnvel eitthvað enn meira. Stór ráðstefna var haldin í laufskálanum þegar ég var fimm ára gamall. Við gengum niður veginn sem hús okkar stóð við og yfir litla brú sem lá að hinu stæðilega samkomuhúsi og settumst þar í um það bil tíundu röðina í stóru kapellunni. David O. Mckay forseti kirkjunnar var í forsæti og talaði á samkomunni. Ég man ekki neitt af því sem hann sagði, en ég man greinilega eftir því sem ég sá og því sem ég upplifði. McKay forseti var klæddur í kremlituð jakkaföt og leit mjög tignarlega út með sitt liðaða hár. Að hefð eyjanna var hann með þrefaldan rauðan blómsveig um hálsinn. Ég fann sterklega fyrir einhverju mjög persónulegu þegar hann talaði. Síðar skildi ég að það sem ég hafði fundið var áhrif heilags anda. Við sungum lokasálminn.

Hver heyrir Drottni til? Hver?

Nú er stundin til að sýna það.

Við spyrjum óttalaus:

Hver heyrir Drottni til? Hver?

(„Who’s on the Lord’s Side?” Hymns, nr. 260)

Það voru nærri því 2.000 manns sem sungu þessi orð, en svo virtist sem þessari spurningu væri beint einungis að mér. Mig langaði til að standa upp og segja: „Ég!“

Sumir hafa haldið að virkni í kirkjunni sé hið endanlega markmið. Í því liggur hættan. Það er mögulegt að vera virkur í kirkjunni en lítt virkur í fagnaðarerindinu. Leyfið mér að undirstrika: Virkni í kirkjunni er mjög svo verðugt markmið, en það er hins vegar ófullnægjandi. Virkni í kirkjunni er ytri vísbending um okkar andlegu þrá. Það er opinberlega tekið eftir því ef við sækjum samkomur okkar, höfum og uppfyllum kirkjuábyrgð og þjónum öðrum.

Á hinn bóginn eru þættir fagnaðarerindisins yfirleitt síður sýnilegri og erfiðari að mæla, en þeir eru mikilvægari í eilífu samhengi. Hve mikil er trú okkar í raun, til að mynda? Hve iðrandi erum við? Hve þýðingarmiklar eru helgiathafnirnar í lífi okkar? Hversu mikið einblínum við á sáttmála okkar?

Ég endurtek: Við þurfum á fagnaðarerindinu og kirkjunni að halda. Í raun er tilgangur kirkjunnar að hjálpa okkur að lifa eftir fagnaðarerindinu. Við hugleiðum oft: Hvernig getur einhver verið mjög virkur í kirkjunni sem unglingur en síðan orðið lítt virkur þegar hann verður eldri? Hvernig getur fullorðinn einstaklingur sem komið hefur reglulega og þjónað hætt að koma? Hvernig geta þeir sem hafa orðið fyrir vonbrigðum með leiðtoga eða annan meðlim leyft að það bindi enda á þátttöku þeirra í kirkjunni? Ef til vill er ástæðan sú að slíkir hafa ekki verið nægilega trúaðir á fagnaðarerindið ‒ það sem eilíft er.

Ég legg til þrjár grundvallar leiðir til að fagnaðarerindið verði grunnur okkar:

  1. Auka skilning okkar á Guðdómnum. Staðgóð þekking á hinum þremur meðlimum Guðdómsins og elska til þeirra er ómissandi. Biðjið meðvitað til föðurins í nafni sonarins til að leita handleiðslu heilags anda. Biðjið samfara stöðugum lærdómi og reynið stöðugt af auðmýkt að byggja upp óhagganlega trú á Jesú Krist. „Því hvernig á maður að þekkja húsbónda … sem er honum ókunnugur og hugsunum hans og hjartans ásetningi fjarlægur?“ (Mósía 5:13).

  2. Einblínið á helgiathafnir og sáttmála. Ef þið eigið enn eftir að taka á móti einhverjum nauðsynlegum helgiathöfnum, búið ykkur þá staðfastlega undir að taka á móti þeim. Síðan þurfum við að temja okkur þann aga að lifa trúföst samkvæmt sáttmálum okkar og nota að fullu hina vikulegu gjöf sakramentisins. Mörg breytumst við ekki reglulega með hreinsandi krafti sakramentisins vegna þess að okkar skortir lotningu fyrir þessari heilögu helgiathöfn.

  3. Sameinið fagnaðaererindið kirkjunni. Kirkjan verður mun meiri blessun, ekki minni, í lífi okkar þegar við einbeitum okkur að fagnaðarerindinu. Heilagur andi verður kennari okkar er við komum saman á fundi undir það búin að „[sækjast] eftir fræðslu með námi og einnig með trú“ (K&S 88:118). Við verðum oft fyrir vonbrigðum ef við mætum til að láta skemmta okkur. Spencer W. Kimball var eitt sinn spurður: „Hvað gerir þú þegar þú uppgvötar að þú ert á leiðinlegri sakramentissamkomu?“ Svar hans var: „Ég veit það ekki. Ég hef aldrei farið á leiðinlega sakramentissamkomu“ (tilvitnun Genes R. Cook, í Gerry Avant, „Learning Gospel Is Lifetime Pursuit,” Church News, 24. mars 1990, 10).

Við ættum að þrá það sem gerðist eftir að Drottinn heimsótti fólkið í nýja heiminum og stofnsetti kirkju sína. Ritningin segir: „Og svo bar við, að þannig fóru þeir [lærisveinar hans] um meðal Nefíþjóðarinnar og boðuðu fagnaðarerindi Krists yfir öllum í landinu. Og fólkið snerist til trúar á Drottin og sameinaðist í kirkju Krists, og þannig var þessi kynslóð blessuð í samræmi við orð Jesú“ (3 Ne 28:23).

Drottinn vill að meðlimir kirkju hans hafi að fullu snúist til fagnaðarerindis hans. Það er eina örugga leiðin til að öðlast andlegt öryggi nú og hamingju að eilífu. Í nafni Jesú Krists, amen.