2010–2019
Fjölskyldur undir sáttmála
Apríl 2012


Fjölskyldur undir sáttmála

Ekkert sem fjölskyldu ykkar hefur eða getur hlotið er mikilvægara en blessanir innsiglunar.

Ég met það mikils að vera með ykkur á þessum fundi, sem öllum þeim sem hafa prestdæmi Guðs á jörðu er boðið á. Við erum blessuð að vera undir forystu Thomas S. Monson forseta. Sem forseti kirkjunnar, er hann eini lifandi maðurinn sem ber ábyrgð á þeim lyklum sem innsigla fjölskyldur, og öllum þeim helgiathöfnum prestdæmisins sem nauðsynlegar eru til að öðlast eilíft líf, hina mestu allra gjafa Guðs.

Það er faðir sem hlustar í kvöld sem hefur snúið frá því að vera lítt virkur, vegna þess að hann vill af öllu hjarta eiga fullvissu um þá gjöf. Hann og kona hans elska litlu börnin sín tvö. Líkt og aðrir foreldrar sér hann fram á himneska hamingju þegar hann les þessi orð: „Og að sama félagslyndi og ríkir meðal okkar hér mun ríkja meðal okkar þar, en þar við bætist eilíf dýrð, dýrð, sem við njótum ekki nú.“1

Faðirinn sem hlustar með okkur í kvöld þekkir leiðina til þess dýrðlega ákvörðunarstaðar. Hún er ekki auðveld. Hann veit það. Til þess þurfti trú á Jesú Krist, djúpa iðrun, og þá breytingu í hjarta hans sem kom þegar ljúfur biskup hjálpaði honum að finna elskandi fyrirgefningu Drottins.

Dásamlegar breytingar héldu áfram þegar hann fór í hið heilaga musteri að fá musterisgjöf sem Drottinn lýsti fyrir þeim sem hann veitti kraft í fyrsta musteri þessa ráðstöfunartíma. Það var í Kirtland, Ohio. Drottinn sagði um það:

„Gaf ég yður þess vegna fyrirmæli um að fara til Ohio. Og þar mun ég gefa yður lögmál mitt og þar mun yður veitast kraftur frá upphæðum–

Og þaðan … Því ég hef mikið verk sem bíður, því að Ísrael skal hólpinn verða, og ég mun leiða þá hvert sem ég vil, og ekkert afl fær stöðvað hönd mína.“2

Fyrir minn nýlega endurvirkjaða vin og fyrir allt prestdæmið er hið mikla verk framundan það, að leiða til frelsunar þann hluta Ísraels sem við erum eða verðum ábyrgir fyrir, fjölskyldu okkar. Vinur minn vissi að til þess þarf maður að vera innsiglaður með krafti Melkísedeksprestdæmisins í heilögu musteri Guðs.

Hann bað mig að framkvæma innsiglunina. Hann og kona hans vildu að það yrði gert eins fljótt og unnt væri. Þar sem framundan var annríki aðalráðstefnunnar, lét ég það í hendur hjónanna og biskups þeirra að finna með ritara mínum bestu dagsetninguna.

Hugsið ykkur undrun mína og gleði þegar faðirinn sagði mér í kirkju að innsiglunin væri sett á 3. apríl. Það var á þeim degi 1836 sem Elía, upphafinn spámaður, var sendur til Kirtlandsmusterisins til að veita þeim Joseph Smith og Oliver Cowdery innsiglunarvaldið. Þeir lyklar eru fyrir hendi í kirkjunni í dag og munu verða allt að endalokum tímanna.3

Það er sama guðlega veiting valds og veitt var Pétri af hendi Drottins, eins og hann hafði lofað: „Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum“4

Endurkoma Elía blessaði alla sem hafa prestdæmið. Öldungur Harold B. Lee gerði þetta ljóst er hann talaði á aðalráðstefnu og vitnaði í Joseph Fielding Smith forseta. Hlustið vandlega: „Ég hef prestdæmið; þið bræðurnir hérna hafið prestdæmið; við höfum meðtekið Melkísedeksprestdæmið ‒ sem Elía hafði og aðrir spámenn og Pétur, Jakob og Jóhannes. En þótt við höfum vald til að skíra, þótt við höfum vald til að leggja hendur á höfuð til veitingar gjafar heilags anda, og til að vígja aðra og gera alla þessa hluti, gætum við ekkert gert án innsiglunarvaldsins, því ekkert lögmæti mundi felast í því sem við gerðum.“

Smith forseti sagði ennfremur:

„Hinar æðri helgiathafnir, þær meiri blessanir sem nauðsynlegar eru til upphafningar í ríki Guðs, og sem aðeins er hægt að öðlast á sérstökum stöðum, hefur enginn maður rétt til að framkvæma nema hann hljóti vald til að gera það frá þeim sem lyklana hefur. …

„... Enginn maður á yfirborði jarðar hefur rétt til að framkvæma einhverjar af helgiathöfnum fagnaðarerindisins nema forseti kirkjunnar, sem hefur lyklana, heimili það. Hann hefur veitt okkur vald; hann hefur veitt prestdæmi okkar innsiglunarvaldið vegna þess að hann hefur þessa lykla.“5

Samskonar fullvissa kom frá Boyd K. Packer forseta þegar hann ritaði um innsiglunarvaldið. Að vita að þau orð eru sönn er mér hughreysting, eins og það mun verða fjölskyldunni sem ég innsigla 3. apríl. „Pétur átti að hafa lyklana. Pétur átti að hafa innsiglunarvaldið ... til að binda eða innsigla á jörðu eða leysa á jörðu og þannig yrði það á himnum. Þeir lyklar tilheyra forseta kirkjunnar ‒ spámanni, sjáanda og opinberara. Það helga innsiglunarvald er innan kirkjunnar nú. Á ekkert er litið af helgari ígrundun af þeim sem þekkja merkingu þessa valds. Ekki er farið eins varlega með neitt annað. Það eru tiltölulega fáir menn sem hafa þetta innsiglunarvald á einum og sama tíma ‒ í hverju musteri eru bræður sem veitt hefur verið þetta innsiglunarvald. Spámaðurinn, sjáandi, opinberari og forseti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, er sá eini sem getur veitt það.“6

Við komu Elía var ekki aðeins kraftur veittur prestdæminu, heldur skyldi og hjörtum snúið: „Andi, vald og köllun Elía er að við hljótum vald til að hafa lykla opinberunar, helgiathafna, hins lifandi orðs, krafts og gjafa fyllingar Melkísedeksprestdæmisins og ríkis Guðs á jörðinni. Og til að taka á móti, öðlast og framkvæma allar þær helgiathafnir sem heyra til ríkis Guðs, já, til að snúa hjörtum feðranna til barnanna og hjörtum barnanna til feðranna, jafnvel þeirra sem á himnum eru.“7

Sú tilfinning, að hjarta hans hafi snúist, er þegar fyrir hendi hjá vini mínum og fjölskyldu hans. Þið kunnið að hafa fundið hana á þessum fundi. Þið kunnið að hafa séð í huga ykkar, eins og ég hef séð, andlit föður ykkar eða móður. Það gæti hafa verið systir eða bróðir. Það gæti hafa verið dóttir eða sonur.

Þau gætu verið í andaheiminum eða í fjarlægu landi. En það vekur gleði, að tengslin við þau eru örugg vegna þess að þið eruð eða getið orðið bundin þeim með helgiathöfn prestdæmis sem Guð mun halda í heiðri.

Melkísedeksprestdæmishöfum, sem eru feður í innsigluðum fjölskyldum, hefur verið kennt hvað þeir verða að gera. Ekkert sem fjölskyldu ykkar hefur eða getur hlotið er mikilvægara en blessanir innsiglunar,. Ekkert er mikilvægara en að heiðra hjónabands- og fjölskyldusáttmála sem þið hafið gert eða munuð gera í musterum Guðs.

Leiðin til að gera það er skýr. Heilagur andi fyrirheitsins, mun, fyrir hlýðni okkar og fórn, innsigla musterissáttmála okkar svo að hann haldist í gildi í komandi heimi. Harold B. Lee forseti útskýrði hvað það merkir að vera innsiglaður með anda fyrirheitsins, og vitnaði þar í öldung Melvin J. Ballard: „Við getum blekkt menn, en við getum ekki blekkt heilagan anda, og blessanir okkar verða ekki eilífar nema þær séu innsiglaðar af heilögum anda fyrirheitsins. Það er heilagur andi sem les hugsanir og hjörtu manna og staðfestir innsiglun á þeim blessunum sem þeim hefur verið heitið. Þá er hún bindandi, lögformleg, og fullgild.“8

Þegar systir Eyring og ég vorum innsigluð í Logan musterinu, skildi ég ekki fyllilega merkingu þess loforðs. Ég er enn að reyna að skilja allt sem í því felst, en ég og kona mín ákváðum í upphafi okkar nærri 50 ára hjónabands að bjóða heilögum anda eins mikið og við gætum inn í líf okkar og inn í fjölskyldu okkar.

Sem ungur faðir, er hafði verið innsiglaður í musterinu og beint hjarta sínu að konu sinni og fjölskyldu, hitti ég Joseph Fielding Smith forseta í fyrsta sinn. Í fundarherbergi Æðsta forsætisráðsins, en þangað inn var mér boðið, barst mér algjörlega örugg vitneskja þegar Harold B. Lee forseti spurði mig, og benti á Smith forseta, sem sat við hlið hans: „Trúir þú að þessi maður geti verið spámaður Guðs?“

Smith forseti var nýkominn inn í herbergið og hafði enn ekki tekið til máls. Ég verð eilíflega þakklátur fyrir að hafa getað svarað, vegna þess sem borist hafði í hjarta mitt: „Ég veit að hann er það,“ og ég vissi það, jafn örugglega og ég vissi að sólin skein, að hann hafði innsiglunarvald prestdæmisins fyrir alla jörðina.

Sú reynsla veitti orðum hans aukinn kraft í huga mínum og konu minnar, þegar á ráðstefnufundi 6. apríl 1972 Joseph Fielding Smith forseti gaf eftirfarandi ráðgjöf: „Það er vilji Drottins að styrkja og varðveita fjölskyldueininguna. Við hvetjum feður til að uppfylla sitt rétta hlutverk sem höfuð fjölskyldunnar. Við biðjum mæður að styðja eiginmenn sína og vera ljós börnum sínum.“9

Leyfið mér að benda á fernt sem þið getið gert sem prestdæmis feður til að lyfta og leiða fjölskyldu ykkar heim á ný til dvalar hjá himneskum föður og frelsaranum.

Í fyrsta lagi, eignist og varðveitið öruggan vitnisburð um að lyklar prestdæmisins séu hjá okkur og í hendi forseta kirkjunnar. Biðjið fyrir því dag hvern. Svarið mun koma, er þið af aukinni einbeitingu leiðið fjölskyldu ykkar, og það mun færa ykkur aukna von og hamingja í þjónustu ykkar. Þið verðið glaðlyndari og bjartsýnni, mikil blessun fyrir eiginkonu ykkar og fjölskyldu.

Næsta mikilvæga atriðið er að elska eiginkonu ykkar. Það þarf trú og auðmýkt til að setja hagsmuni hennar ofar ykkar eigin í lífsbaráttunni. Á ykkur hvílir sú ábyrgð að framfleyta og næra fjölskylduna, ásamt henni, um leið og öðrum er þjónað. Það kann stundum að krefjast allrar þeirrar orku og styrks sem þið búið yfir. Aldur og veikindi kunna að auka þarfir eiginkonu ykkar. Ef þið jafnvel þá veljið að setja hennar hamingju ofar ykkar eigin, lofa ég ykkur því að ást ykkar til hennar mun aukast.

Í þriðja lagi, fáið alla fjölskylduna til liðs við ykkur í að elska hvert annað. Ezra Taft Benson forseti kenndi:

„Í eilífum skilningi er sáluhjálp fjölskyldumál. …

Öllu öðru framar þurfa börnin að vita og finna að þau eru elskuð, þeirra er þörf, og þau séu metin. Það þarf oft að fullvissa þau um það. Augljóslega, er þetta hlutverk sem foreldrar eiga að uppfylla, og oftast getur móðirin leyst það best af hendi.“10

En önnur afgerandi uppspretta þeirrar tilfinningar að vera elskuð, er ást frá öðrum börnum í fjölskyldunni. Stöðug umhyggja systkina hvert fyrir öðru næst aðeins með ákveðnum aðgerðum foreldra og með Guðs hjálp. Þið vitið af reynslu í ykkar eigin fjölskyldum að þetta er rétt. Og hún staðfestist í hvert sinn sem þið lesið frásögn Mormónsbókar af átökunum innan fjölskyldu hins réttláta Lehís og eiginkonu hans, Saríu.

Árangurinn sem þau náðu veitir okkur leiðsögn. Þau kenndu fagnaðarerindi Jesú Krists af slíkri natni og festu að börn þeirra, og jafnvel sumir afkomendur síðari kynslóða milduðust í hjarta gagnvart Guði og hver öðrum. Nefí og aðrir skrifuðu til dæmis og hrærðu við fjölskyldumeðlimum, sem höfðu verið óvinir þeirra. Stundum mildaði andinn hjörtu þúsunda og breytti óvild í ást.

Ein af leiðunum sem þið getið hagýtt til að ná sama árangri og Lehí felst í því hvernig þið leiðið fjölskyldubæn og á öðrum stundum fjölskyldunnar, svo sem á fjölskyldukvöldi. Veitið börnunum tækifæri til að biðja, þegar þau geta beðið, fyrir öðrum í fjölskyldunni sem þarfnast blessana. Greinið fljótt upphaf misklíðar og viðurkennið óeigingjarna þjónustu, sérstaklega við hvert annað í fjölskyldunni. Þegar þau biðja fyrir hvert öðru og þjóna hvert öðru, mildast hjörtun og beinast hvert að öðru og að foreldrum þeirra.

Fjórða tækifærið til að leiða fjölskyldu ykkar að hætti Drottins gefst þegar ögunar er þörf. Við getum framfylgt þeirri skyldu okkar að leiðrétta að hætti Drottins og síðan leitt börn okkar til eilífs lífs.

Þið kunnið að muna eftir orðunum, en hafið ef til vill ekki séð kraftinn sem þau veita Melkísedeksprestdæmishafa sem býr fjölskyldu sína undir að lifa eftir þeim samfélagsháttum sem hún mun búa við í himneska ríkinu. Þið munið eftir orðunum. Þau hljóma svo kunnuglega:

„Engu valdi eða áhrifum er hægt eða ætti að beita í krafti prestdæmisins, heldur með fortölum einum, með umburðarlyndi, með mildi og hógværð og með fölskvalausri ást‒

Með góðvild og hreinni þekkingu, sem stórum mun þroska sálina, án hræsni og án flærðar‒

Vanda um tímanlega með myndugleik, þegar heilagur andi hvetur til þess, og auðsýna síðan vaxandi kærleik þeim, sem þú hefur vandað um við, svo að hann telji þig ekki óvin sinn‒

Svo að hann megi vita, að tryggð þín er sterkari en bönd dauðans“11

Og síðar kemur hið gríðarlega verðmæta loforð til okkar sem feðra í Síon: „Heilagur andi verður þér stöðugur förunautur, og veldissproti þinn óbreytanlegur veldissproti réttlætis og sannleika. Og yfirráð þín skulu verða ævarandi yfirráð og streyma til þín án þvingana alltaf og að eilífu“12

Það er hár staðall fyrir okkur, en þegar við í trú höfum stjórn á skapi okkar og bælum niður hroka okkar, sýnir heilagur andi velþóknun sína, og helg loforð og sáttmálar verða tryggir.

Með hjálp Drottins munuð þið, vegna trúar ykkar á að Drottinn hafi sent aftur lykla prestdæmisins og að þeir séu enn meðal okkar ‒ og með öruggu kærleiksbandi við eiginkonu ykkar, geta náð árangri við að snúa hjörtum barna ykkar hvert til annars og til foreldra sinna í kærleika, og getið með kærleika leiðrétt og áminnt einlæglega á þann hátt að það bjóði andanum heim.

Ég veit að Jesús er Kristur, frelsari okkar og lausnari. Ég vitna um að Thomas S. Monson forseti hefur nú á jörðu alla lykla prestdæmisins og notar þá. Ég elska hann og styð. Ég elska ykkur og bið fyrir ykkur. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Kenning og sáttmálar 130:2.

  2. Kenning og sáttmálar 38:32–33.

  3. Sjá Joseph Fielding Smith, Sealing Power and Salvation, Brigham Young University Speeches of the Year (12. jan. 1971), speeches.byu.edu.

  4. Matt 16:19.

  5. Joseph Fielding Smith, tilvitnun Harolds B. Lee, í Conference Report, okt. 1944, 75.

  6. Boyd K. Packer, „The Holy Temple,” Líahóna og Ensign, okt. 2010, 34.

  7. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 11.

  8. Melvin J. Ballard, tilvitnun Harolds B. Lee, í Conference Report, okt. 1970, 111.

  9. Joseph Fielding Smith, „Counsel to the Saints and to the World,” Ensign, júlí 1972, 27.

  10. Ezra Taft Benson, „Salvation‒a Family Affair,” Tambuli, nóv. 1992, 3, 4; Ensign, júlí 1992, 2, 4.

  11. Kenning og sáttmálar 121:41–44.

  12. Kenning og sáttmálar 121:46.