2010–2019
Sýn á aðgerðir
Apríl 2012


Sýn á aðgerðir

Ef við eigum að njóta velgengni í stað þess að komast á glapstigu, þá verðum við að sjá okkur sjálf eins og frelsarinn sér okkur.

Foreldrar mínir, eins og allir góðir foreldrar, þráðu bjarta framtíð fyrir börn sín. Faðir minn var ekki meðlimur og vegna óvenjulegra aðstæðna sem voru á þeim tíma, ákváðu foreldrar mínir að við systkinin myndum yfirgefa heimaeyju okkar, Amerísku Samóaeyjar í Kyrrahafinu, og fara til Bandaríkjanna til að öðlast menntun.

Ákvörðunin um aðskilnaðinn var foreldrum mínum erfið, sér í lagi móður minni. Þau vissu að á vegi okkar yrðu óþekktar áskoranir því við yrðum í nýju umhverfi. Í trú og staðfestu héldu þau hins vegar fast við áform sín.

Móðir mín ólst upp sem Síðari daga heilög og því þekkti hún reglu föstu og bænar, og báðum foreldrum mínum fannst þeir þurfa á blessun himins að halda til að hjálpa börnum sínum. Í þeim anda ákváðu þau dag í sérhverri viku til að fasta og biðja fyrir okkur. Sýn þeirra var að búa börnum sínum bjarta framtíð. Þau störfuðu samkvæmt þessari sýn og þau iðkuðu trú sína með því að leita eftir blessunum Drottins. Með föstu og bæn hlutu þau fullvissu, huggun og þá friðartilfinningu að allt færi vel.

Hvernig getum við, innan um áskoranir lífsins, öðlast þá sýn sem nauðsynleg er til að gera það sem færir okkur nær frelsaranum? Talandi um sýn, þá kenna Orðskviðirnir í Biblíunni þennan sannleik: „Þar sem engar vitranir eru, kemst fólkið á glapstigu“ (Okv 29:18). Ef við eigum að njóta velgengni í stað þess að komast á glapstigu, þá verðum við að sjá okkur sjálf eins og frelsarinn sér okkur.

Frelsarinn sá meira í þessum auðmjúku fiskimönnum sem hann kallaði til að fylgja sér en þeir sáu upphaflega í sjálfum sér; hann hafði sýn á það sem þeir gætu orðið. Hann þekkti góðmennsku þeirra og möguleika og hann kallaði þá. Í fyrstu voru þeir reynslulausir, en er þeir fylgdu honum sáu þeir fordæmi hans, fundu kennslu hans og urðu lærisveinar hans. Að því kom að sumir lærisveina hans yfirgáfu hann vegna þess að þeir áttu erfitt með að meðtaka það sem þeir heyrðu. Jesú var ljóst að aðrir gætu einnig yfirgefið hann og spurði hina Tólf: „Ætlið þér að fara líka?“ (Jóh 6:67). Svar Péturs endurspeglar hversu mikið hann hafði breyst og að hann hafði meðtekið sýnina um hver frelsarinn var. „Til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs“ (Jóh 6:68), svaraði hann.

Með þessa sýn gátu þessir trúu og dyggu lærisveinar gert erfiða hluti er þeir ferðuðust um og prédikuðu fagnaðarerindið og stofnsettu kirkjuna eftir að frelsarinn var farinn. Að lokum færðu sumir þeirra hina endanlegu fórn, líf sitt, fyrir vitnisburði sína.

Það eru önnur dæmi í ritningunum um þá sem náðu sýn fagnaðarerindisins og fóru síðan og framkvæmdu samkvæmt þeirri sýn. Spámaðurinn Alma öðlaðist sýn sína þegar hann heyrði Abinadí kenna af festu og vitna fyrir Nóa konungi. Hann brást við kennslu Abinadís og fór að kenna það sem hann hafði lært og skírði marga sem trúðu á orð hans (sjá Mósía 17:1–4; 18:1–16). Páll postuli hafði ofsótt hina heilögu, en hann snerist til trúar á veginum til Damaskus og fór síðan að kenna og vitna um Krist (sjá Post 9:1–6, 20–22, 29).

Á okkar eigin dögum eru margir ungir menn, konur og eldri hjón sem svarað hafa kalli spámanns Guðs um að þjóna í trúboði. Með trú og hugrekki yfirgefa þau heimili sín og allt sem er þeim kunnuglegt vegna þess að þau eiga trú á hið góða sem þau geta gert sem trúboðar. Er þau þjóna samkvæmt sýn sinni, blessa þau líf margra og breyta um leið eigin lífi. Á síðustu aðalráðstefnu þakkaði Monson forseti okkur fyrir þá þjónustu sem við veitum hvert öðru og minnti okkur á þá ábyrgð okkar að vera hendur Guðs er hann blessar líf barna sinna hér á jörðunni (sjá „Until We Meet Again,” Líahóna og Ensign, nóv. 2011, 108). Uppfylling áskorunar hans hefur yljað meðlimum kirkjunnar um hjörtu er þeir hafa hafist handa við sýn hans.

Áður en frelsarinn yfirgaf jörðina vissi hann að við myndum þurfa á hjálp að halda. Hann sagði: „Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa“ (Jóh 14:18). Hann kenndi lærisveinum sínum: „En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður“ (Jóh 14:26). Þetta er hinn sami heilagi andi sem getur veitt okkur kraft og hvatt okkur til að gera það sem frelsarinn og nútíma spámenn okkar og postular kenna.

Við öðlumst dýpri skilning á þeirri sýn sem frelsarinn hefur á okkur þegar við fylgjum kennslu leiðtoga okkar. Við höfum hlotið innblásna ráðgjöf frá spámönnum og postulum á þessari ráðstefnu. Nemið kennslu þeirra og íhugið hana í hjörtum ykkar er þið leitið aðstoðar heilags anda til að skilja sýn þessarar kennslu varðandi líf ykkar. Iðkið trú með þessari sýn og fylgið ráðgjöf þeirra.

Leitið og lærið í ritningunum með það í huga að öðlast frekara ljós og þekkingu á boðskap þeirra. Ígrundið þær í hjarta ykkar og leyfið þeim að veita ykkur innblástur. Framkvæmið síðan samkvæmt þeim innblæstri.

Þegar við fjölskyldan lærðum, þá brugðumst við við með því að fasta og biðja. Alma talaði um föstu og bæn sem leið til að hljóta fullvissu er hann sagði: „Ég hef fastað og beðið í marga daga til að öðlast vitneskju um þetta sjálfur“ (Alma 5:46). Við þurfum einnig með föstu og bæn að öðlast vitneskju um hvernig takast eigi við áskoranir í lífi okkar.

Við lendum í erfiðleikum í lífi okkar sem stundum geta dregið úr sýn okkar og trú á að gera það sem við ættum að gera. Við verðum svo önnum kafin að það þyrmir yfir okkur og okkur finnst við ekki geta meir. Ég bendi auðmjúklega á, að þótt við séum öll mismunandi, verðum við að einbeita okkur að frelsaranum og kenningum hans. Hvað sá hann í fari Péturs, Jakobs og Jóhannesar og hinna postulanna sem fékk hann til að bjóða þeim að fylgja sér? Frelsarinn hefur mikla sýn á það hver við getum orðið, rétt eins og hann hafði á þeim. Við munum þurfa sömu trú og hugrekki og fyrstu postularnir höfðu til að einbeita okkur að nýju að því sem skiptir mestu máli og veitir varanlega hamingju og mikla gleði.

Þegar við lærum um líf frelsara okkar og kenningar hans sjáum við hann meðal fólksins að kenna, biðja, styrkja og lækna. Þegar við líkjum eftir honum og gerum það sem við sjáum hann gera, þá munum við fara að sjá hver við getum orðið. Með hjálp heilags anda munuð þið blessuð með innsýn til að gera margt gott. Breytingar munu eiga sér stað og þið munuð forgangsraða í lífi ykkar á annan hátt og það mun blessa ykkur og fjölskyldu ykkar. Á meðan frelsarinn þjónaði meðal Nefíta spurði hann: „Hvers konar menn ættuð þér því að vera?“ Hann svaraði: „Alveg eins og ég er“ (3 Ne 27:27). Við þurfum á hans hjálp að halda til að verða eins og hann og hann hefur sýnt okkur veginn: „Biðjið því, og yður mun gefast. Knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að þeim, sem biður, mun gefast. Og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.“ (3 Ne 27:29).

Ég veit að þegar við öðlumst þá sýn á okkur sjálfum sem frelsarinn hefur og er við framkvæmum samkvæmt þeirri sýn, þá mun líf okkar verða blessað á óvænta vegu. Líf mitt var ekki einungis blessað með menntun vegna sýnar foreldra minna heldur komst ég í þær aðstæður að ég fann og meðtók fagnaðarerindið. Það sem meira er, ég lærði mikilvægi góðra og trúfastra foreldra. Í stuttu máli breyttist líf mitt að eilífu.

Rétt eins og sýn leiddi foreldra mína til að fasta og biðja fyrir velferð barna sinna og eins og sýn postula fyrri tíma leiddi þá til að fylgja frelsaranum, þá getur þessi sama sýn veitt okkur innblástur og hjálpað okkur til aðgerða. Bræður og systur, við erum fólk sem á sér sögu um sýn og trú og hugrekki til aðgerða. Sjáið hvert við erum komin og blessanirnar sem við höfum hlotið! Trúið því að hann geti blessað ykkur með sýn í lífi ykkar og hugrekki til aðgerða.

Ég gef ykkur vitnisburð minn um frelsarann og þrá hans eftir að við snúum aftur til hans. Til að geta gert það þurfum við að hafa trú til aðgerða ‒ að fylgja honum og verða eins og hann. Á ýmsum stundum í lífi okkar, réttir hann út hönd sína og býður okkur:

„Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt“ (Matt 11:29–30).

Rétt eins og frelsarinn sá mikla möguleika í lærisveinum síns tíma, þá sér hann hið sama í okkur. Við skulum sjá okkur sjálf eins og frelsarinn sér okkur. Ég bið þess að við munum öðlast þessa sýn með trú og hugrekki til aðgerða, í nafni Jesú Krists, amen.