2010–2019
Hvernig hljóta á opinberun og innbástur fyrir eigið líf
Apríl 2012


Hvernig hljóta á opinberun og innbástur fyrir eigið líf

Hvers vegna þráir Drottinn að við biðjum til hans og spyrjum? Því það er þannig sem opinberun hlýst.

Allir þeir sem koma hér í þennan ræðustól til að miðla boðskap finna styrk og stuðning meðlima um heim allan. Ég er þakklátur fyrir að geta hlotið þann sama stuðning frá mínum ástkæra félaga hinumegin hulunnar. Þakka þér fyrir, Jeanene.

Heilagur andi veitir okkur mikilvægar upplýsingar sem við þörfnumst til leiðsagnar í okkar dauðlega lífi. Þegar boðin eru skýr og greinileg og mikilvæg, verðskulda þau nafngiftina opinberun. Þegar um er að ræða tíða röð hugboða sem leiða okkur skref fyrir skref að verðugu viðfangsefni, sem er tilgangur þessa boðskapar, er það nefnt innblástur.

Dæmi um opinberun er leiðsögnin sem Spencer W. Kimball forseti hlaut, eftir að hafa beðið lengi og innilega til Drottins, um að veita skyldi öllum verðugum körlum í kirkjunni prestdæmið, en á þeim tíma var það ekki tiltækt öllum.

Annað dæmi um opinberun er þessi handleiðsla sem Joseph F. Smith forseti hlaut: „Ég trúi að við þokumst áfram og séum í návist himneskra sendiboða og himneskra vera. Við erum ekki aðskilin frá þeim. ... Við erum nátengd ættmönnum okkar, áum okkar, ... sem farið hafa á undan okkur í andaheiminn. Við megum ekki gleyma þeim; við látum ekki af því að elska þau; við geymum þau ávallt í hjörtum okkar, í huga okkar, og þannig erum við tengd og sameinuð þeim órjúfanlegum böndum. ... Ef það á við um okkur í okkar takmarkaða ástandi, umlukt veikleikum dauðlegs lífs, ... hve öruggara er þá ekki ... að ætla að þeir, sem verið hafa trúfastir, og farið hafa á undan okkur ... fái greint okkur betur en við þau; að þau þekki okkur betur en við þau. ... Við lifum í návist þeirra, þau fá séð okkur, þeim er umhugað um velferð okkar, þau elska okkur nú meira en nokkru sinni fyrr. Þau sjá nú hætturnar sem umlykja okkur; ... þess vegna hlýtur elska þeirra til okkar og þrá eftir velferð okkar, að vera meiri en við fáum borið til okkar sjálfra.“1

Sambönd má styrkja í gegnum huluna við þá sem við þekkjum og elskum. Það gerist með stöðugri áreynslu okkar að gera það sem rétt er. Við getum styrkt samband okkar við dána einstaklinga sem við elskum með því að átta okkur á að aðskilnaður okkar er tímabundinn og að sáttmálarnir sem við gerðum í musterinu eru eilífir. Þegar sáttmálunum er ávallt hlítt, tryggja þeir hinn eilífa raunveruleika loforðanna sem fylgja þeim.

Eitt afar skýrt dæmi um opinberun í mínu lífi átti sér stað þegar ég fékk sterkt hugboð andans um að biðja Jeanene Watkins að innsiglast mér í musterinu.

Ein mikilvægasta lexían sem hvert okkar þarf að læra er að spyrja. Hvers vegna þráir Drottinn að við biðjum til hans og spyrjum? Því það er þannig sem opinberun hlýst.

Þegar ég stend frammi fyrir afar erfiðu máli, reyni ég að gera eftirfarandi til að vita hvað gera skal. Ég fasta. Ég biðst fyrir til að skilja gagnlegar ritningargreinar. Þetta ferli er síendurtekið. Ég byrja á því að lesa ritningargreinar; ég ígrunda merkingu þeirra og bið um innblástur. Ég ígrunda síðan og biðst fyrir til að fá að vita hvort ég hafi náð öllu því sem Drottinn ætlar mér. Oft koma fleiri hugboð með auknum skilningi á kenningunni. Ég hef komist að því að þessi forskrift er góð leið til að læra ritningarnar.

Það eru nokkrar hagnýtar reglur sem stuðla að opinberun. Í fyrsta lagi, þá hrekur það heilagan anda burtu að ala á reiði, særindum eða móðgunum. Slíkar tilfinningar verður að útiloka, ella mun draga úr möguleikum á opinberun.

Önnur regla er að vera ekki allt of spaugsamur. Hávær hlátur mun misbjóða andanum. Góð kímni stuðlar að opinberun; hávær hlátur gerir það ekki. Góð kímni er líkt og ventilloki til að létta á þrýstingi lífsins.

Annar óvinur opinberunar eru öfgar eða hávaðasamar staðhæfingar. Varfærið og lágvært mál stuðlar að opinberun.

Á hinn bóginn er hægt að auka andleg samskipti með góðum og heilnæmum venjum. Líkamsæfingar og góðar svefn- og matarvenjur auka getu okkar til að hljóta og skilja opinberun. Við lifum það æviskeið sem okkur er útnefnt. En við getum þó bæði stuðlað að betri þjónustu okkar og velferð með góðu og réttu vali.

Mikilvægt er að daglegar venjur okkar komi ekki í veg fyrir að við hlustum á andann.

Opinberun er líka hægt að veita með draumi, og þá verða umskiptin næstum ómerkjanleg frá svefni til vöku. Ef þið takið þegar í stað að ígrunda efni hans, getið þið skráð mikilvæg smáatriði, sem ella gleymast fljótt. Innblásnum samskiptum að nóttu fylgja oftast helgar tilfinningar allan drauminn. Drottinn notar einstaklinga sem við metum mikils til að kenna okkur sannleika í draumi, því við treystum þeim og tökum leiðsögn þeirra alvarlega. Það er Drottinn sem þá er að kenna okkur með heilögum anda. Með draumi getur hann bæði gert okkur auðveldara að skilja og að skynja hræringar í hjarta okkar, ef hann kennir okkur með einhverjum sem við elskum og virðum.

Þegar það samræmist tilgangi Drottins, getur hann vakið okkur til minningar um hvað sem er. Það ætti ekki að draga úr þeim ásetningi okkar að skrá hugboð andans. Vandleg skráning innblásturs sýnir Guði að samskiptin við hann eru okkur helg. Skráningin mun líka gera okkur kleift að muna eftir opinberun. Slíka skráningu um leiðsögn andans ætti að varðveita frá glötun og frá óæskilegum lesendum.

Ritningarnar sjá okkur fyrir fullnægjandi staðfestingu á því hvernig sannleikur, sem stöðugt er lifað eftir, lýkur upp dyrum að innblæstri um hvað gera skal, og að guðlegum krafti sem eykur eigin getu. Ritningarnar sýna hvernig Drottinn hefur veitt mönnum styrk á neyðarstundu til að sigrast á erfiðleikum, efasemdum og óyfirstíganlegum áskorunum. Þegar þið íhugið slík dæmi, mun heilagur andi staðfesta kyrrlátlega fyrir ykkur að reynslan þar að baki sé sönn. Þið munuð vita að álíka hjálp stendur ykkur til boða.

Ég hef séð fólk vita hvað gera skal frammi fyrir erfiðum vanda, þótt vandinn væri utan þess reynslusviðs, því það setti traust sitt á Drottin og vissi að hann mundi leiða það til brýnnar lausnar.

Drottinn hefur lýst yfir: ”Og þér skuluð hljóta kennslu frá upphæðum. Helgið yður, og þér munuð gæddir krafti, svo að þér megið af hendi láta, já, eins og ég hef talað.“2 Orðin helgið yður kunna að hljóma sem ráðgáta. Harold B. Lee forseti útskýrði eitt sinn, að í stað þessara orða gætum við sett orðin „haldið boðorð mín.“ Sé þetta lesið þannig, gæti leiðsögnin verið skilmerkilegri.3

Nauðsynlegt er að menn séu andlega og líkamlega hreinir og séu einlægir í ásetningi sínum, svo Drottinn geti veitt þeim innblástur. Sá sem er hlýðinn boðorðum hans nýtur trausts Drottins. Sá sem það gerir hefur aðgang að þeim innblæstri hans, að vita hvað gera skal, og að nauðsynlegum guðlegum krafti til að geta gert það.

Til þess að andríki geti aukist og sé tiltækara, er nauðsynlegt að það sé ræktað í réttlátu umhverfi. Dramb, hroki og sjálfumgleði eru líkt og grýtt jörð, sem getur aldrei leitt fram andlegan ávöxt.

Auðmýkt er frjósamur jarðvegur, þar sem andríki fær vaxið og leitt fram þann ávöxt innblásturs, að vita hvað gera á. Það veitir aðgang að guðlegum krafti til að framkvæma hið nauðsynlega. Sá sem lætur leiðast af þrá eftir lofi eða upphefð, mun ekki geta tekið á móti kennslu andans. Sá sem er drambsamur eða lætur eigin tilfinningar hafa áhrif á ákvarðanir, mun ekki hljóta kröftuga handleiðslu andans.

Þegar við störfum sem verkfæri í þágu annarra er auðveldara fyrir okkur að hljóta innblástur, frekar en ef við hugsuðum aðeins um okkur sjálf. Í ferlinu að hjálpa öðrum getur Drottinn látið fylgja með leiðsögn sem gagnast okkur sjálfum.

Himneskur faðir sendi okkur ekki til jarðarinnar til að okkur mundi mistakast, heldur til að við næðum dýrðlegum árangri. Það kann að hljóma þverstæðukennt, en það er ástæða þess að okkur reynist stundum afar erfitt að þekkja bænasvar. Stundum erum við óskynsöm og reiðum okkur aðeins á eigin reynslu og getu er við tökumst á við lífið. Það verður okkur mun auðveldara að finna út með bæn og innblæstri hvað gera skal. Hlýðni okkar tryggir að við getum hlotið guðlegan kraft þegar við þurfum, til að takast á við innblásið viðfangsefni.

Líkt og á við um mörg okkar, þá áttaði Oliver Cowdery sig ekki á ummerkjum bænheyrslunnar sem Drottinn hafði þegar veitt honum. Þessi opinberun var veitt Joseph Smith til að ljúka upp skilningi hans og okkar:

„Þú hefur spurt mig, og sjá, jafn oft og þú hefur spurt hefur þú fengið leiðbeiningar anda míns. Ef svo væri ekki, hefðir þú ekki komist þangað sem þú ert nú.

Sjá, þú veist að þú hefur spurt mig og að ég hef upplýst huga þinn. Og nú segi ég þér þetta, svo að þú megir vita, að andi sannleikans hefur upplýst þig.“4

Ef ykkur finnst Guð ekki hafa bænheyrt ykkur, ígrundið þá þessar ritningargreinar ‒ leitið síðan vandlega að þeim ummerkjum í lífi ykkar að hann hafi þegar bænheyrt ykkur.

Tvær vísbendingar um að tilfinning eða hugboð sé frá Guði, eru friður í hjarta og hlý friðsæl tilfinning. Þegar þið farið að þessari forskrift, sem ég hef lýst, verðið þið undir það búin að þekkja opinberun á úrslitastundum í lífi ykkar.

Því betur sem þið fylgið guðlegri leiðsögn, því hamingjusamari verðið þið hér og um eilífð ‒ auk þess verður framþróun ykkar meiri og hæfni til að þjóna. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig það virkar, en leiðsögnin sem þið hljótið dregur ekki úr sjálfræði ykkar. Þið getið tekið hvaða ákvörðun sem þið viljið. En minnist þess að friðsæld og hamingja fylgir réttri breytni.

Hafi valið verið rangt, er hægt að leiðrétta það með iðrun. Þegar skilyrði friðþægingar Jesú Krists eru fyllilega uppfyllt, veitir frelsarinn lausn frá þeim kröfum sem réttvísin gerir vegna brota okkar. Þetta er dásamlega einfalt og óviðjafnanlega háleitt. Þegar þið haldið áfram að lifa réttlátlega, munuð þið ætíð hljóta boð um hvað skal gera. Stundum krefst það nokkurs erfiðis og trausts af okkar hálfu að komast að því hvaða stefnu skal taka. Þið hljótið boð um hvað gera skal að uppfylltum skilyrðum þess að hljóta slíka guðlega leiðsögn í lífi ykkar, en þau skilyrði eru hlýðni við boðorð Drottins, traust á guðlegri sæluáætlun hans og að forðast allt sem er andstætt henni.

Samskipti við föður okkar á himnum er ekki léttvægt verkefni. Þau eru helg forréttindi. Þau grundvallast á eilífum, óbreytanlegum reglum. Við hljótum hjálp frá himneskum föður í samræmi við trú okkar, hlýðni og rétta notkun á vitsmunum okkar.

Megi Drottinn veita ykkur þann innblástur að skilja og nýta ykkur reglurnar sem leiða til persónulegrar opinberunar og innblásturs, í nafni Jesú Krists, amen.