2010–2019
„Aðeins eftir reglum réttlætisins“
Apríl 2012


Aðeins eftir reglum réttlætisins

Skynsamir foreldrar búa börn sín undir að komast af án þeirra. Þeir sjá börnum sínum fyrir tækifærum til þroska, er þau ná andlegri getu til að iðka sjálfræði sitt réttilega.

Um mánuði eða svo eftir að við hjónin giftum okkur, fórum við í langt ferðalag á bílnum. Hún var við stýrið og ég reyndi að slaka á. Ég segi reyndi, því hraðbrautin sem við ókum eftir var þekkt fyrir hraðamælingar og eiginkonu minni var heldur laus hægri fóturinn á þessum tíma. Ég sagði: „Þú ekur of hratt. Hægðu á þér.“

Mín nýgifta brúður hugsaði með sér: „Ég hef ekið í næstum 10 ár og enginn annar en ökukennarinn minn hefur sagt mér hvernig ég á að aka bíl.“ Hún svaraði því: „Hvaða rétt hefur þú til að segja mér hvernig ég á að aka?“

Í hreinskilni sagt kom spurning hennar mér á óvart. Til að gera mitt besta og standa undir hinni nýju ábyrgð minni sem giftur maður, sagði ég: „Ég veit það ekki ‒ af því að ég er eiginmaður þinn og hef prestdæmið.“

Bræður, bara ábending: Ef þið verðið einhvern tíma í svipuðum aðstæðum, þá eru þetta ekki réttu viðbrögðin. Og ég get glaðst yfir að segja að ég hef aðeins gert þessi mistök í þetta eina skipti.

Í Kenningu og sáttmálum kemur fram að rétturinn til þess að nota prestdæmið á heimilinu eða annarsstaðar er óaðskiljanlega tengdur réttlátu líferni: „Valdi himins verður aðeins stjórnað og beitt eftir reglum réttlætisins.“1 Og síðan segir að við glötum kraftinum, ef við „reynum að ... beita stjórn eða yfirráðum eða þvingun við sálir [annarra], hversu lítið sem óréttlætið er.“2

Rirningarnar segja að við verðum að leiða samkvæmt „reglum réttlætisins.“ Slíkar reglur eiga við um alla leiðtoga kirkjunnar, sem og alla feður og mæður á heimilum sínum.3 Við glötum réttinum á að hafa anda Drottins og hvaða valdsumboði sem við höfum frá Guði, þegar við beitum aðra yfirráðum á óréttlátan hátt.4 Við gætum talið að slíkar aðferðir séu af hinu góða fyrir þann sem beittur er „yfirráðum.“ En alltaf þegar við reynum að þvinga aðra til réttlætis, sem geta iðkað og ættu að iðka eigið sjálfræði, erum við að breyta ranglátlega. Þegar öðrum eru sett ákveðin takmörk og reglur, ætti alltaf að gera það af ástúð og þolinmæði og þannig að það kenni eilífar reglur.

Við getum einfaldlega ekki þvingað aðra til að gera hið rétta. Ritningarnar segja greinilega að það sé ekki háttur Guðs. Þvinganir valda gremju. Þær valda vantrausti og fylla fólk vanhæfnistilfinningu. Tækifæri til kennslu glatast þegar hinn stjórnsami telur sig í eigin hroka hafa öll réttu svörin fyrir aðra. Ritningarnar segja að það sé „eðli og tilhneiging nánast allra manna,“ að beita óréttlátum yfirráðum,5 svo við ættum að vera meðvituð um að auðvelt er að falla í þá gryfju. Konur geta líka beitt óréttlátum yfirráðum, þótt ritningarnar bendi sérstaklega á karlmenn í þessu tilliti.

Oft fylgir óréttlátum yfirráðum stöðug gagnrýni og skortur á viðurkenningu og ástúð. Þeim sem eru í hlutverki þiggjandans líður líkt og þeir geti aldrei gert slíkum leiðtoga eða slíku foreldri til hæfis. Skynsamir foreldrar vita hvenær börn þeirra eru nægilega þroskuð til að iðka eigið sjálfræði í ákveðnum tilvikum. En ef foreldrar ríghalda í allan rétt til ákvarðana og telja hann sín „réttindi,“ takmarka þau stórlega þroska barna sinna.

Börnin okkar eru á heimilum okkar í takmarkaðan tíma. Ef við bíðum með að gefa þeim réttinn til ákvarðana þar til þau ganga út um dyrnar, höfum við beðið of lengi. Þau munu ekki þróa í einu vettvangi þann eiginleika að taka góðar ákvarðanir, ef þeim hefur aldrei verið frjálst að taka einhverjar mikilvægar ákvarðanir á heimili sínu. Slík börn gera oft uppreisn gegn slíkri þvingun eða verða vanhæf til að taka ákvarðanir á eigin spýtur.

Skynsamir foreldrar búa börnin sín undir að komast af án þeirra. Þeir sjá börnum sínum fyrir tækifærum til þroska, er þau ná andlegri getu til að iðka sjálfræði sitt réttilega. Og, já, þetta þýðir að börnin munu stundum gera mistök og læra af þeim.

Fjölskylda okkar gekk í gegnum reynslu sem kenndi okkur hvernig hjálpa á börnum að þroska getu sína til ákvarðanatöku. Dóttir okkar, Mary, var afar góð í fótbolta í æsku. Eitt árið komst liðið hennar í úrslitaleikinn og eins og ykkur grunar, átti sá leikur að vera á sunnudegi Mary hafði sem unglingur hlotið áralanga kennslu um að hvíldardagurinn væri til andlegrar endurnýjunar en ekki skemmtunar. En hún fann samt þrýstinginn frá þjálfurum sínum og liðsmönnum, og hún vildi heldur ekki bregðast liðinu.

Hún spurði okkur hvað henni bæri að gera. Við hjónin hefðum auðveldlega getað tekið ákvörðun fyrir hana. Við ákváðum þó, eftir bænþrungna ígrundun, að í þessu tilviki væri dóttir okkar undir það búin að taka andlega ábyrgð af eigin ákvörðun. Við lásum nokkrar ritningargreinar með Mary og hvöttum hana til að biðja og ígrunda þetta.

Að fáeinum dögum liðnum sagði hún frá ákvörðun sinni. Hún ætlaði að vera með í leiknum á sunnudegi. Hvernig áttum við nú að bregðast við? Eftir frekari viðræður og fullvissu andans, gerðum við eins og við höfðum lofað og leyfðum henni að taka ákvörðunina um að leika með. Að leik loknum gekk Mary hægt til móður sinnar sem beið hennar. „Ó, mamma,“ sagði hún, „mér leið hræðilega. Mig langar ekki að líða svona aftur. Ég ætla aldrei að leika aftur á hvíldardegi.“ Og það gerði hún ekki.

Mary hafði nú tileinkað sér regluna um að halda hvíldardaginn heilagan. Ef við hefðum neytt hana til að vera ekki með í leiknum, hefðum við rænt hana dýrmætri og lærdómsríkri reynslu með andanum.

Líkt og þið sjáið á þessu þá þarf að kenna börnum að biðja og hljóta bænheyrslu, til að hjálpa þeim að iðka sjálfræði sitt réttilega. Kennsla um gildi og tilgang hlýðni þarf líka að eiga sér stað, sem og um allar aðrar nauðsynlegar reglur fagnaðarerindisins.6

Í barnauppeldinu ákváðum við að mikilvægasta viðfangsefnið væri að hjálpa börnum okkar að koma á eigin sambandi við himininn. Okkur var ljóst að endanlega þyrftu þau að reiða sig á Drottin, en ekki okkur. Brigham Young sagði: „Af öllum skyldum sem af ... mannanna börnum ... er krafist, mundi ég setja fremsta þá skyldu að leita ... Drottins, Guðs okkar, þar til við höfum opnað fyrir samskiptin frá himni til jarðar ‒ frá Guði til okkar eigin sálar.“7

Mary hafði hlotið svör við bænum sínum í aðstæðum sem urðu áður og við treystum því að dóttir okkar væri að þróa þessi samskipti við himininn í eigin lífi. Þannig lærði hún nokkuð jákvætt af reynslu sinni og var í stakk búin til að taka betri ákvarðanir framvegis. Án þessa sambands við andann, geta börn jafnt sem foreldrar fært rök fyrir allskyns slæmum ákvörðunum í nafni eigin sjálfræðis. Loforð ritninganna er að „þeir sem vitrir eru og hafa ... haft hinn heilaga anda sér til leiðsagnar, [munu ekki láta] blekkjast.“8

Aðrar og hörmulegar hliðarverkanir óréttlátra yfirráða geta verið að menn hætti að reiða sig á elsku Guðs. Ég hef kynnst fólki sem hefur verið undir handarjaðri stjórnsamra og kröfuharðra leiðtoga og foreldra, og því hefur reynst erfitt að skynja elsku himnesks föður, sem hefði styrkt það og hvatt á vegi réttlætis.

Ef við viljum hjálpa þeim sem við höfum ráðsmennsku yfir að koma á nauðsynlegu sambandi við himininn, verðum við að vera þeir leiðtogar og foreldrar sem greint er frá í 121. kafla Kenningar og sáttmál. Við verðum að beita „fortölum einum, með umburðarlyndi, með mildi og hógværð og með fölskvalausri ást.“9 Henry B. Eyring forseti sagði: „Af allri þeirri hjálp sem við getum veitt ... ungu fólki, er sú þeirra mest að láta þau finna traust okkar til þeirra um að þau séu á veginum heim til Guðs og að þau muni komast þangað.“10

Til íhugunar á þeim reglum sem við eigum að láta stjórnast af í kirkjunni og á heimili okkar, ætla ég að ljúka með frásögn úr ævisögu Tomas S. Monson forseta. Ann Dibb, dóttir Monsons, segir að allt til þessa dags, þegar hún gangi inn um aðaldyr hússins sem hún ólst upp í, segi faðir hennar: „Ó, sjáið hver er hér. Erum við ekki glöð og er hún ekki falleg?“ Og hún hélt áfram: „Foreldrar mínir hrósa mér alltaf; engu skiptir hvernig ég lít út eða hvað ég hef verið að gera. ... Þegar ég heimsæki foreldra mína, veit ég að ég er elskuð, mér er hrósað, ég er velkomin, ég er heima.“11

Bræður og systur, þannig er háttur Drottins. Jafnvel þótt ykkur hafi verið misboðið í fortíðinni, þá veit ég að Drottinn vill að þið komið til hans.12Allir eru elskaðir. Allir eru velkomnir. Í nafni Jesú Krists, amen.