Sleppa aðallóðsun
Apríl 2012 | Fórn

Fórn

Apríl 2012 Aðalráðstefna

Þjónusta okkar og fórnir eru mikilvægasti tjáningarmátinn um þá skuldbindingu að þjóna meistara okkar og samferðafólki.

Friðþæging Jesú Krists hefur verið sögð „óviðjafnanlegasti atburðurinn allt frá upphafi sköpunar til óendalegra alda eilífðar.”1 Sú fórn er megin boðskapur allra spámannanna. Hún var fyrirboðuð með dýrafórnum sem fyrirskipaðar voru í lögmáli Móse. Spámaður lýsti yfir að þeim væri eingöngu ætlað að „[benda] til hinnar miklu og síðustu fórnar ... [sem] verður sonur Guðs, já, algjör og eilíf” (Alma 34:14). Jesús Kristur þoldi ólýsanlegar þjáningar til að geta orðið fórn fyrir syndir allra. Fórnin varð til að leiða fram allt hið góða ‒ saklaust og flekklaust lambið ‒ fyrir allt hið illa ‒ syndir alls heimsins. Líkt og hin ógleymanlegu orð Elizu R. Snow segja:

Og fórn þá Jesús fús til var,

að færa á sinni braut.

Hann saklaus vorar syndir bar,

og sýknun veröld hlaut.2

Sú fórn ‒ friðþæging Jesú Krists ‒ er þungamiðja sáluhjálparáætlunarinnar.

Hinar ólýsanlegu þjáningar Jesú Krists bundu enda á fórnir með úthellingu blóðs, en ekki á mikilvægi fórnar í áætlun fagnaðarerindisins. Frelsarinn býður okkur áfram að færa fórnir, en það sem við eigum nú að „bjóða [honum] sem fórn [er] sundurkramið hjarta og sáriðrandi andi” (3 Ne 9:20). Hann býður líka sérhverju okkar að elska og þjóna hvert öðru ‒ í raun að líkja örlítið eftir fórn hans með því að fórna tíma okkar og eigingjörnum tilgangi. Við syngjum þessi orð hins innblásna sálms: „Fórnin er leiðin til himinsins hæða.“3

Ég ætla að ræða um þessar jarðnesku fórnir sem frelsari okkar býður okkur að færa. Þar eru ekki teknar með fórnir sem við neyðumst til að færa eða þær sem einskorðast við eigin hagsmuni fremur en þjónustu eða fórn (sjá 2 Ne 26:29).

I.

Kristin trúarbrögð einkennast af fórnarsögu, þar á meðal er hin endanlega fórn. Á fyrsta tímaskeiði kristninnar voru þúsundir myrtir í Róm fyrir trú sína á Jesú Krist. Á síðari öldum, þegar ágreiningar um kenningar klauf hina kristnu, ofsóttu sumir hópar og jafnvel drápu meðlimi annarra hópa. Mesti harmleikur og píslarvætti kristinnar trúar er dráp kristinna á öðrum kristnum.

Margir kristnir hafa sjálfviljugir fært fórnir vegna trúar sinnar á Krist og þrár sinnar eftir að þjóna honum. Sumir hafa valið að helga öll sín fullorðinsár til að þjóna meistaranum. Undir þann göfuga hóp falla meðal annars trúarreglur kaþólsku kirkjunnar og þeir sem hafa veitt ævilanga þjónustu sem kristniboðar hinna ýmsu mótmælendasafnaða. Fordæmi þeirra eru ögrandi og hrífandi, en af flestum kristnum mönnum er þess hvorki vænst að þeir helgi sig trúarþjónustu alla ævi, né geta þeir það.

II.

Hvað flesta fylgjendur Krists varðar þá felst fórn okkar í því sem við getum gert í okkar hefðbundna daglega lífi. Sé það skoðað í því ljósi veit ég ekki um neinn trúarhóp sem færir meiri fórnir en Síðari daga heilagir. Fórnir þeirra ‒ fórnir ykkar, kæru bræður og systur ‒ eru í andstöðu við hina almennu eftirsókn heimsins eftir lífsfyllingu.

Fyrsta dæmið er brautryðjendur okkar mormóna. Þær sögulegu fórnir sem fólust í dauða, rofnum fjölskyldutengslum og brotthvarfi frá heimilum og þægindum, lögðu grunn að hinu endurreista fagnaðarerindi. Sarah Rich greindi frá því hvað það var sem knúði brautryðjendurna áfram, er hún lýsti því hvernig eiginmaður hennar, Charles, var kallaður í trúboð: „Þetta var sannlega erfiður tími fyrir mig og eiginmann minn, en skyldan krafðist þess að við yrðum aðskilin um tíma og vitandi að við værum að hlíta vilja Drottins vildum við fórna eigin tilfinningum til að efla verkið ... og veita hjálp við að byggja upp ríki Guðs á jörðu.”4

Nú er sýnilegasti styrkur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hin óeigingjarna þjónusta og fórn meðlima hennar. Áður en vígsluathöfn eins musteris okkar hófst spurði kristinn prestur Gordon B. Hinckley forseta að ástæðu þess að á því væri ekkert krosstákn, sem væri almennasta tákn kristinnar trúar. Hinckley forseti svaraði því til að tákn okkar kristnu trúar væri „líferni fólksins okkar.”5 Sannlega eru þjónusta okkar og fórnir mikilvægasti tjáningarmátinn um þá skuldbindingu að þjóna meistara okkar og samferðafólki.

III.

Í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er ekkert þjálfað fagfólk og engin launuð prestastétt. Þar af leiðandi verða leikmenn, sem kallaðir eru til að þjóna söfnuðum okkar, að bera meginábyrgð á okkar fjölmörgu samkomum, dagskrám og viðburðum. Þannig er það í yfir 14.000 söfnuðum einungis í Bandaríkjunum og Kanada. Auðvitað er það víðar en hjá okkur að meðlimir séu leikmenn í safnaðarþjónustu sinni, kennarar og leiðtogar. En einstætt er hve mikinn tíma meðlimir okkar gefa til að kenna og þjóna hver öðrum. Dæmi um það er sú viðleitni okkar að hver fjölskylda í söfnuðum okkar sé mánaðarlega heimsótt af heimiliskennurum og að hver kona sé mánaðarlega heimsótt af heimsóknarkennurum. Við vitum ekki um neitt álíka þjónustustarf í einhverjum samtökum heimsins.

Besta fordæmið um einstæða þjónustu og fórn Síðari daga heilagra er starf trúboðanna okkar. Nú er fjöldi þeirra yfir 50.000 ungir menn og ungar konur og yfir 5.000 fullorðnir karlar og konur. Þau helga sex mánuði til tvö ár af lífi sínu því að kenna fagnaðarerindi Jesú Krists og veita mannúðarþjónustu í um 160 löndum um heim allan. Starf þeirra felur alltaf í sér fórnir, þar á meðal eru árin sem þau helga sig verki Drottins, ásamt fórninni sem felst í því að afla sér framfærslusjóðs.

Þau sem eru heima ‒ foreldrar og aðrir í fjölskyldunni ‒ fórna líka með því að vera án samfélags og þjónustu þeirra trúboða sem þau senda frá sér. Dæmi um það er ungur Brasilíumaður sem hlaut trúboðsköllun meðan hann var fyrirvinna systkina sinna eftir dauða foreldra þeirra. Aðalvaldhafi sagði frá því að börnin hefðu komið saman og minnst þess að látnir foreldrar þeirra hefðu kennt þeim að vera ætíð undir það búin að þjóna Drottni. Ungi maðurinn tók á móti trúboðsköllun sinni og 16 ára gamall bróðir hans tók við þeirri ábyrgð hans að framfleyta fjölskyldunni.6 Flest þekkjum við mörg dæmi um fórnir sem fylgja þjónustu í trúboði eða stuðningi við trúboða. Við vitum ekki um neitt annað sjálfboðastarf og fórn álíka þessari í einhverjum öðrum heimssamtökum.

Við erum oft spurðir: „Hvernig sannfærið þið unga fólkið ykkar og eldri meðlimi um að gera hlé á skólanámi eða starfslokum til að færa slíkar fórnir?” Ég hef heyrt marga gefa þessa skýringu: „Meðvitaður um það sem frelsarinn gerði fyrir mig eru það mér forréttindi að færa þá litlu fórn sem ég er beðinn um í þjónustu hans ‒ að þjást fyrir syndir mínar og sigra dauðann til þess að ég gæti lifað að nýju. Ég vil miðla þeirri vitneskju sem hann hefur gefið mér.” Hvernig sannfærum við slíka fylgjendur Krists um að þjóna? Svar spámannsins var: „Við biðjum þau bara.”7

Aðrar fórnir trúboðsstarfsins eru þær sem færðar eru af þeim sem taka á móti kennslu trúboðanna og ákveða að verða meðlimir kirkjunnar. Mörgum finnst slíkar fórnir töluverðar, því í þeim felst oft missir vina og fjölskyldu.

Fyrir mörgum árum á ráðstefnu sem þessari var sagt frá ungum manni sem hafði fundið hið endurreista fagnaðarerindi er hann var í námi í Bandaríkjunum. Þegar maður þessi var í þann mund að fara til heimalands síns, spurði Gordon B. Hinckely forseti hann að því hvað yrði um hann þegar hann kæmi heim sem kristinn. „Fjölskylda mín verður fyrir vonbrigðum,” svaraði ungi maðurinn. „Þau gætu vísað mér á dyr og ég yrði þeim sem dauður. Hvað framtíð mína og starfsframa varðar má búast við að öll tækifæri séu mér lokuð.”

„Ertu fús til að greiða fagnaðarerindið svo dýru verði?” spurði Hinckley forseti.

Með tár í augum spurði ungi maðurinn: „Það er sannleikur, er það ekki?” Þegar það hafði verið staðfest, svaraði hann: „Hvað annað skiptir þá máli?“8 Þetta er andi fórnar meðal svo margra nýskírðra.

Önnur dæmi um þjónustu og fórn eru lýsandi fyrir hina trúföstu meðlimi sem þjóna í musterunum okkar. Musterisþjónusta er einstæð hjá Síðari daga heilögum, en mikilvægi slíkrar fórnar ættu allir kristnir að hafa skilning á. Engin hefð er fyrir klausturlífi hjá Síðari daga heilögum, en við fáum samt skilið og virðum þá fórn sem þeir færa meðal kristinna sem helga líf sitt slíku líferni.

Fyrir aðeins ári á þessari ráðstefnu sagði Thomas S. Monson forseti frá dæmi um fórn í tengslum við musterisþjónustu. Trúfastur faðir meðal Síðari daga heilagra á afskekktri eyju í Kyrrahafinu lagði á sig erfiðisvinnu í sex mánuði á fjarlægum stað til að fá nægt fé til að fara með eiginkonu sína og tíu börn til innsiglunar í eilíft hjónaband og eilífa fjölskyldu í musterinu í Nýja Sjálandi. Monson forseti sagði: „Þeir sem skilja þær eilífu blessanir sem frá musterinu streyma vita að engin fórn er of stór, ekkert gjald of hátt, engin barátta of erfið til að hljóta þær blessanir.”9

Ég er þakklátur fyrir hin dásamlegu fordæmi um kristilegn kærleika, þjónustu og fórn sem ég hef séð meðal Síðari daga heilagra. Ég sé ykkur oft sinna kirkjuköllunum ykkar með því að fórna miklu af tíma ykkar og eigum. Ég sé ykkur þjóna í trúboði á eigin kostnað. Ég sé ykkur af gleði nota hæfileika ykkar til að þjóna samferðafólki ykkar. Ég sé ykkur annast fátæka af eigin raun og með framlögum til velferðar- og mannúðarstarfs kirkjunnar.10 Allt þetta er staðfest í almennum könnunum, þar sem niðurstaðan er sú að meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu „gerast sjálfboðaliðar og leggja meira af mörkum en meðal Bandaríkjamaður og eru jafnvel gjafmildari á tíma og peninga en auðugir [20 prósent] trúaðir í Bandaríkjunum.“11

Slík fordæmi um að gefa öðrum veita okkur öllum aukinn þrótt. Þau minna okkur á kennslu frelsarans:

„Hver sem vill fylgja mér, hann afneiti sjálfum sér. …

„Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það“ (Matt 16:24–25).

IV.

Kannski má finna almennustu og mikilvægustu fordæmin um óeigingjarna þjónustu og fórn í fjölskyldulífi okkar. Mæður helga sig því að fæða og ala upp börn sín. Eiginmenn helga sig því að framfæra eiginkonu sinni og börnum. Fórnirnar sem færðar eru í hinni eilíflega mikilvægu þjónustu í fjölskyldum okkar eru svo margar að vart þarf að minnast á þær eða telja þær upp.

Ég sé líka óeigingjarna Síðari daga heilaga ættleiða börn, einnig þau sem hafa sérþarfir, og leitast við að veita fósturbörnum sínum þá von og þau tækifæri sem þau ekki nutu áður. Ég sé ykkur annast fjölskyldumeðlimi og nágranna sem efri árin hafa sett mark sitt á og sem frá fæðingu hafa þjáðst af líkamlegum og andlegum meinum. Drottinn fylgist líka með ykkur, og hann hefur knúið spámenn sína til að segja að „þegar þið fórnið í þágu hvers annar og barna ykkar, mun Drottinn blessa ykkur.”12

Ég trúi að Síðari daga heilagir, sem þjóna og fórna af óeigingirni í tilbeiðslufullri líkingu frelsara okkar, lifi samkvæmt eilífu gildi í ríkari mæli en nokkur annar hópur fólks gerir. Síðari daga heilagir líta á fórn tíma og eigna sem hluta af lærdómi og undirbúningi fyrir eilífðina. Þetta er opinberaður sannleikur í Lectures on Faith, sem kennir að „þau trúarbrögð sem ekki krefðust allra fórna, skorta þann nauðsynlega trúarkraft sem þarf til lífs og sáluhjálpar. … Það er fyrir slíka fórn, og aðeins hana, sem Guð hefur ákvarðað að maðurinn skuli njóta eilífs lífs.”13

Friðþægingarfórn Jesú Krists er þungamiðja sáluhjálparáætlunarinnar og við fylgjendur Krists verðum að færa eigin fórnir til að hljóta þau örlög sem sú áætlun getur veitt okkur.

Ég veit að Jesús Kristur er hinn eingetni sonur Guðs, hins eilífa föður. Ég veit að vegna friðþægingarfórnar hans getum við verið viss um ódauðleika og mögulegt eilíft líf. Hann er Drottinn okkar, frelsari og lausnari, og ég ber vitni um hann í nafni Jesú Krist, amen.

Left
Right
Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. Bruce R. McConkie, The Promised Messiah: The First Coming of Christ (1981), 218.

  2. „Þá ást og visku veitti hann,“ Sálmar, nr. 69.

  3. „Lof syngið honum,“ Sálmar, nr. 11.

  4. Sarah Rich, í Guinevere Thomas Woolstenhulme, „I Have Seen Many Miracles,” í Richard E. Turley yngri og Brittany A. Chapman, útg., Women of Faith in the Latter Days: Bindi 1, 1775–1820 (2011), 283.

  5. Gordon B. Hinckley, „The Symbol of Our Faith,” Líahóna og Ensign, apríl 2005, 3.

  6. Sjá Harold G. Hillam, „Sacrifice in the Service,” Ensign, nóv. 1995, 42.

  7. Gordon B. Hinckley, „The Miracle of Faith,” Líahóna, júlí 2001, 84; Ensign, maí 2001, 68.

  8. Gordon B. Hinckley, „It’s True, Isn’t It?” Tambuli, okt. 1993, 3–4; Ensign, júlí 1993, 2; sjá einnig Neil L. Andersen, „It’s True, Isn’t It? Then What Else Matters?” Líahóna og Ensign, maí 2007, 74.

  9. Thomas S. Monson, „The Holy Temple–a Beacon to the World,” Líahóna og Ensign, maí 2011, 91–92.

  10. Sjá til dæmis Naomi Schaefer Riley, „What the Mormons Know about Welfare,” Wall Street Journal, 18. feb. 2012, A11.

  11. Ram Cnaan og fleiri, „Called to Serve: The Prosocial Behavior of Active Latter-day Saints” (draft), 16.

  12. Ezra Taft Benson, „To the Single Adult Brethren of the Church,” Ensign, maí 1988, 53.

  13. Lectures on Faith (1985), 69.