Sleppa aðallóðsun
Apríl 2012 | Sérstakar lexíur

Sérstakar lexíur

Apríl 2012 Aðalráðstefna

Von mín og bæn er sú að við megum halda áfram að bera byrðar okkar drengilega og ná til þeirra meðal okkar sem þjást.

Síðustu 20 mánuðina hefur fjölskylda okkar notið þeirra blessana og forréttinda að annast afar sérstakt barn.

Paxton litli, barnabarn mitt, fæddist með afar sjaldgæfan litningargalla, genasjúkdóm, sem bókstaflega gerir hann einstæðan meðal hundruð milljóna. Hvað dóttur okkar og eiginmann hennar varðar, þá breyttist lífsmunstur þeirra þegar Paxton fæddist. Þessi reynsla hefur orðið þolraun og kennt okkur sérstakar lexíur sem tengjast eilífðinni.

Minn kæri öldungur Russell M. Nelson, sem rétt í þessu talaði til okkar, kenndi:

„Af einhverjum yfirleitt óþekktum ástæðum fæðast sumir með líkamlega ágalla. Ákveðnir hlutar líkamans geta verið afbrigðilegir. Stjórnkerfi líkamans kann að vera skaðað. Og líkamar okkar allra eru háðir sjúkdómum og dauða. Engu að síður er sú gjöf sem efnislíkami okkar er ómetanleg. …

„Fullkominn líkami er ekki skilyrði fyrir því að hljóta guðleg örlög. Í raun er það svo að sumir ljúfustu andarnir eru hýstir í veikburða umgjörð. …

Að því mun koma að lokum að ‚andinn og líkaminn munu aftur sameinast í fullkominni mynd sinni, bæði limir og liðir skulu endurreistir í sinni réttu mynd‘ (Alma 11:43). Og, þökk sé friðþægingu Jesú Krists, við getum fullkomnast í honum.“1

Þið öll, sem eigið í erfiðleikum, hafið áhyggjur og eruð vonsvikin og sorgmædd yfir ástvini, vitið þetta: Af sinni óendanlegu elsku og samkennd, elskar Guð, okkar himneski faðir, ykkar þjakaða og hann elskar ykkur!

Sumir gætu spurt í slíkum þjáningum: Hvernig gat Guð almáttugur látið þetta gerast? Og síðan hin óumflýjanlega spurning: Hvers vegna kom þetta fyrir mig? Hvers vegna þurfum við að upplifa sjúkdóma og atburði þar sem dýrmætir ástvinir okkar verða örkumla eða eru kallaðir heim í blóma lífsins eða þeir þjást um ókomna tíð? Af hverju slíkt hugarangur?

Á slíkum stundum getum við snúið okkur að sæluáætluninni sem himneskur faðir er höfundur að. Sú áætlun fékk okkur öll til að hrópa af gleði2 þegar hún var kynnt okkur í fortilverunni. Og í raun er þetta líf þjálfun fyrir eilífa upphafningu og slíkt ferli krefst reynslu og prófrauna. Þannig hefur það alltaf verið og enginn er þar undanskilinn.

Að reiða sig á vilja Guðs skiptir sköpum í jarðlífinu. Í trú á hann hagnýtum við okkur kraft friðþægingar Krists þegar spurningar vakna og fátt er um svör.

Eftir upprisu sína, er hann vitjaði Ameríkubúa, færði frelsari okkar, Jesús Kristur, öllum mönnum þetta boð:

„Eru nokkrir sjúkir yðar á meðal? Færið þá hingað. Eru einhverjir lamaðir, blindir, haltir, særðir, holdsveikir, tærðir, daufir eða þjáðir á einhvern hátt? Færið þá hingað, og ég mun gjöra þá heila, því að ég hef samúð með yður. Hjarta mitt er fullt miskunnar. …

Og svo bar við, að þegar hann hafði mælt þetta, leiddi allur mannfjöldinn sem einn fram sína sjúku og þjáðu, lömuðu og blindu, mállausu og alla þá, sem þjáðir voru á einhvern hátt. Og hann læknaði þá, hvern og einn, er þeir voru leiddir fyrir hann.“3

Mikill styrkur felst í orðunum „leiddi allur mannfjöldinn sem einn fram“ ‒ allir, bræður og systur. Við upplifum öll erfiðleika. Og síðan orðin: „Sem þjáðir voru á einhvern hátt.“ Við þekkjum þetta öll, ekki satt?

Nokkru eftir að okkar dýrmæti Paxton fæddist, vissum við að himneskur faðir mundi blessa okkur og kenna okkur sérstakar lexíur. Þegar ég og faðir hans lögðum fingur okkar á litla höfuðið hans, til að gefa honum fyrstu prestdæmisblessunina af mörgum, komu í huga minn orðin í níunda kapítula Jóhannesar: „Til þess að verk Guðs verði opinber á honum.“4

Verk Guðs eru vissulega opinberuð með Paxton.

Við lærum þolinmæði, trú og þakklæti fyrir græðandi smyrsl þjónustunnar, á óendanlegum stundum innilegra tilfinninga, samúðartára, bæna og kærleikstjáningar til ástvina í neyð, einkum Paxtons og foreldra hans.

James E. Faust forseti, stikuforseti minn á æskuárunum, sagði: „Ég hef mikið dáæti á þeim ástúðlegu foreldrum sem æðrulausir takast á við og komast yfir sorgir og sálarkvalir vegna barns sem fæðst hefur með eða síðar hlotið alvarlega andlega eða líkamlega fötlun. Slík sálarkvöl er oft viðvarandi dag hvern, án líknar, á æviskeiði foreldris eða barns. Foreldrar þurfa ekki ósjaldan að veita langvarandi ofurmannlega umsjá, nótt sem dag. Margar mæður hafa árum saman erfiðað líkamlega og tilfinningalega við að veita barni sínu með sérþarfir huggun og líkn.“5

Líkt og tilgreint er í Mósía, þá höfum við upplifað hina hreinu ást frelsarans sem fjölskyldu Paxtons er gefin, og sú ást er okkur öllum tiltæk: „Og nú bar svo við, að byrðarnar, sem lagðar höfðu verið á Alma og bræður hans, urðu þeim léttari. Já, Drottinn gaf þeim svo mikinn styrk, að þeir gátu borið byrðar sínar léttilega og lutu vilja Guðs með gleði og þolinmæði.”6

Nótt eina, snemma í lífi Paxtons, vorum við á umönnunardeild nýbura í hinni dásamlegu Barnaheilsugæslustöð í Salt Lake City, Utah, og dáðumst að læknum og hjúkrunarfólki gefa sig óskipt að starfi sínu. Ég spurði dóttur mína að því hvernig við ættum að fara að því að greiða fyrir alla þessa þjónustu og nefndi einhverja hugsanlega kostnaðartölu. Læknir einn sem stóð þar nærri benti mér á að mat mitt væri „allt of lágt“ og að umsjá Paxtons litla mundi kosta tiltölulega meira en ég hafði tilgreint. Við komumst að því að stór hluti umönnunarútgjalda sjúkrahússins var greiddur með örlátum gjöfum á tíma og peningum annarra. Orð hans gerðu mig auðmjúkan og mér varð hugsað um verðmæti þessarar litlu sálar í augum þeirra sem umhyggjusamlega önnuðust hana.

Upp í hugann kom kunnugleg ritningargrein, sem fékk nýja merkingu: „Hafið hugfast að verðmæti sálna er mikið í augum Guðs.“7

Ég táraðist við að hugleiða hina óendanlegu elsku himnesks föður og hans ástkæra sonar, Jesú Krists, til sérhvers okkar, og lærði á áhrifaríkan hátt bæði um líkamlegt og andlegt virði sálar í augum Guðs.

Fjölskyldu Paxtons hefur lærst að þau eru umlukin ótal himneskum og jarðneskum þjónandi englum. Sumir hafa læðst hljóðlega inn þegar þörf er á og hljóðlega út aftur. Aðrir hafa komið upp að dyrum með mat, þvegið þvotta, sótt systkinin, hringt til að segja huggunarorð og einkum beðið fyrir Paxton. Þannig lærðist okkur önnur sérstök lexía: Ef þið kæmuð að einhverjum drukknandi, mynduð þið spyrja hvort hann þyrfti hjálp ‒ eða væri kannski betur við hæfi að stökkva bara út í til að bjarga honum úr djúpu vatninu? Boðið, sem oft er sett fram og vel meint: „Láttu mig vita, ef ég get hjálpað eitthvað,“ er í raun alls engin hjálp.

Við höldum áfram að læra mikilvægt gildi þess að vera vakandi og áhugasamur yfir fólki umhverfis, og við lærum ekki aðeins mikilvægi þess að veita hjálp, heldur upplifum við líka hina ólýsanlegu gleði af því að hjálpa öðrum.

Minn kæri Thomas S. Monson forseti, sem er svo stórkostleg fyrirmynd að því að uppörva hina þjáðu, sagði: „Guð blessi alla sem reyna að gæta bróður síns, sem leggja á sig að lina þjáningar, sem kappkosta af allri sinni góðsemi að bæta heiminn. Hafið þið tekið eftir því að slíkir einstaklingar brosa breiðar? Fótspor þeirra eru öruggari. Geislahjúpur gleði og ánægju umlykur þá, ... því menn geta ekki helgað sig því að hjálpa öðrum án þess að upplifa sjálfir ríkulegar blessanir.“8

Þótt við tökumst á við erfiðleika, mótlæti, sorgir, áskoranir og allskyns raunir, mun okkar umhyggjusami og ástríki frelsari alltaf verða okkur til reiðu. Hann hefur lofað:

„Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. …

Minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“9

Hve þakklát við erum himneskum föður fyrir hetjuna okkar, Paxton. Með honum hefur Drottinn staðfest verk sitt og heldur áfram að kenna okkur slíkar dýrmætar, helgar og sérstakar lexíur.

Ég ætla að ljúka máli mínu með orðum úr kærum sálmi:

Öll við erum kölluð þar til endar vort stríð,

við erum glöð, við erum glöð,

sjáið liðsmenn góðir ljóma sigurlaun fríð

er við munum allir vinna brátt.10

Bræður og systur, von mín og bæn er sú að við megum halda áfram að bera byrðar okkar drengilega og ná til þeirra meðal okkar sem þjást og þarfnast huggunar og hvatningar. Megum við öll þakka Guði fyrir blessanir hans og endurnýja skuldbindingu okkar við himneskan föður, um að þjóna börnum hans af auðmýkt. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. Russell M. Nelson, „We Are Children of God,” Líahóna, jan. 1999, 103; Ensign, nóv. 1998, 85, 86.

  2. Sjá Job 38:7.

  3. 3 Ne 17:7, 9.

  4. Jóh 9:3.

  5. James E. Faust, „The Works of God,” Ensign, nóv. 1984, 54.

  6. Mósía 24:15.

  7. Kenning og sáttmálar 18:10.

  8. Thomas S. Monson, „Our Brothers’ Keepers,” Ensign, júní 1998, 39.

  9. Jóh 14:18, 27.

  10. „Öll við erum kölluð,“ Sálmar, nr. 101.