2010–2019
Kenna börnum okkar að skilja
Apríl 2012


Kenna börnum okkar að skilja

Að kenna börnum okkar að skilja er meira en að miðla upplýsingum. Það er, að hjálpa börnum okkar að finna kenninguna í hjörtum sér.

Minningar um mörg af smáatriðum lífs míns dofna eftir því sem ég eldist en þær minningar sem ég man best eftir er fæðing sérhvers barna minna. Himinninn virtist vera svo nálægur og ef ég reyni, þá get ég næstum því fundið aftur þá lotningu og undrun sem ég upplifði í hvert sinn sem ég fékk sérhvert þessara dýrmætu kornabarna í faðminn.

„Synir [okkar] eru gjöf frá Drottni “ (Sálmar 127:3). Hann þekkir og elskar sérhvert barna sinna með fullkominni elsku (sjá Moró 8:17). Hún er heilög ábyrgðin sem himneskur faðir leggur á herðar okkar sem foreldra er við í samstarfi við hann hjálpum einstökum andabörnum hans að verða það sem hann veit að þau geta orðið.

Þessi himnesku forréttindi að ala upp börn okkar eru svo mikil ábyrgð að við getum ekki axlað hana ein án hjálpar Drottins. Hann veit nákvæmlega hvað börn okkar þurfa að vita, hvað þau þurfa að gera og hvað þau þurfa að vera til þess að geta komist aftur í návist hans. Hann veitir mæðrum og feðrum sérstaka tilsögn og leiðsögn með ritningunum, spámönnum sínum og heilögum anda.

Í síðari daga opinberun, sem gefin var spámanninum Joseph Smith, bauð Drottinn foreldrum að kenna börnum sínum að skilja kenninguna um iðrun, trú á Krist, skírn og gjöf heilags anda. Takið eftir að Drottinn segir ekki einungis að við eigum að „kenna kenningarnar,“ leiðbeiningar hans eru að við eigum að kenna börnum okkar „að skilja kenninguna.“ (Sjá K&S 68:25, 28; skáletrað hér.)

Í Sálmunum lesum við: „Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta“ (Sálm 119:34).

Að kenna börnum okkar að skilja er meira en að miðla upplýsingum. Það er, að hjálpa börnum okkar að finna kenninguna í hjarta sér á þann hátt að hún verði hluti af þeirra eigin tilveru og endurspeglist í viðhorfum þeirra og hegðun allt þeirra líf.

Nefí kenndi að hlutverk heilags anda væri að koma sannleikanum „til skila í hjörtum mannanna barna“ (2 Ne 33:1). Hlutverk okkar sem foreldra er að gera allt sem við getum til að skapa aðstæður þar sem börn okkar geta fundið fyrir áhrifum andans og hjálpa þeim síðan að skilja hvað þau eru að upplifa.

Ég man eftir símtali sem ég fékk fyrir nokkrum árum frá Michelle, dóttur okkar. Hún sagði af mikilli tilfinningu: „Mamma, ég var rétt í þessu að upplifa nokkuð ótrúlegt með Ashley.“ Ashley er dóttir hennar, sem var fimm ára þegar þetta átti sér stað. Michelle lýsti því hvernig Ashley og hinn þriggja ára gamli Andrew hefðu verið að karpa allan morguninn ‒ annað vildi ekki deila einhverju með hinu og hitt var að lemja. Michelle hjálpaði þeim að sættast og fór síðan að huga að yngsta barninu.

Stuttu síðar kom Ashley hlaupandi, hún var reið því Andrew vildi ekki deila einhverju með henni. Michelle minnti Ashley á skuldbindinguna sem þau höfðu gert á fjölskyldukvöldi um að vera vingjarnlegri við hvert annað.

Hún spurði Ashley hvort hún vildi fara með bæn og biðja himneskan föður um hjálp, en Ashley, sem enn var mjög reið, svaraði: „Nei.“ Þegar Ashley var spurð hvort hún tryði því að himneskur faðir myndi svara bæn hennar, svaraði hún því til að hún vissi það ekki. Móðir hennar bað hana að reyna og tók mjúklega í hendur hennar og kraup með henni.

Michelle lagði til að Ashley bæði himneskan föður að hjálpa Andrew að deila með sér ‒ og hjálpa henni að verða betri. Hugsunin um að himneskur faðir gæti hjálpað litla bróður hennar hlýtur að hafa vakið áhuga Ashleys og hún tók að biðja, fyrst bað hún himneskan föður um að hjálpa Andrew að deila með sér. Þegar hún bað himneskan föður að hjálpa sér að verða betri fór hún að gráta. Ashley lauk bæninni og gróf andlit sitt í faðm móður sinnar. Michelle tók utan um hana og spurði hvers vegna hún gréti. Ashley sagðist ekki vita það.

Móðir hennar sagði: „Ég held ég viti af hverju þú ert að gráta. Líður þér vel innra með þér?“ Ashley kinkaði kolli og móðir hennar hélt áfram: „Þér líður svona vegna þess að andinn er að hjálpa þér. Þetta er himneskur faðir að segja þér að hann elskar þig og vill hjálpa þér.“

Hún spurði Ashley hvort hún tryði þessu, hvort hún tryði að himneskur faðir gæti hjálpað henni. Með litlu augun full af tárum sagðist Ashley gera það.

Stundum er best að kenna börnum okkar að skilja einhverja kenningu með því að tengja hana því sem þau upplifa á einhverjum tilteknum stundum. Slíkar stundir koma fyrirvaralaust, óviðbúið og gerast í daglegu amstri fjölskyldulífsins. Slíkar stundir koma og fara hratt og því verðum við að vera á verði til að grípa tækifærin sem gefast til að kenna börnum okkar, þegar þau koma til okkar með spurningar eða áhyggjumál, þegar þau eiga erfitt með að umgangast systkini sín eða vini, þegar þau þurfa að stjórna reiði sinni, þegar þau gera mistök eða þegar þau þurfa að taka ákvörðun. (Sjá Teaching, No Greater Call: A Resource Guide for Gospel Teaching [1999], 140–41; Marriage and Family Relations Instructor’s Manual [2000], 61.)

Börnum okkar mun kennt á áhrifaríkari og dýpri hátt, ef við erum tilbúin og leyfum andanum að stjórna í þessum aðstæðum.

Þær kennslustundir sem við undirbúum reglubundið með íhugun, eins og fjölskyldubænir, fjölskylduritningarlestur, fjölskyldukvöld og aðrar fjölskylduathafnir, eru rétt eins mikilvægir.

Allur lærdómur og allur skilningur, í öllum kennsluaðstæðum, er best veittur í andrúmslofti hlýju og kærleika, þar sem andinn er til staðar.

Faðir einn skipulagði tíma í hverri viku, um tveimur mánuðum áður en börn hans urðu átta ára gömul, til að undirbúa þau fyrir skírn. Dóttir hans sagði að þegar röðin kom að henni, þá hafi hann gefið henni dagbók og þau sátu samam tvö ein og ræddu og deildu tilfinningum sínum um reglur fagnaðarerindisins. Hann bað hana að teikna útskýringarmyndir er þau ræddu saman. Myndirnar sýndu fortilveruna, þetta jarðlíf og sérhvert skref sem hún þurfti að taka til að komast aftur til himnesks föður. Hann bar vitnisburð sinn um sérhvert skref sáluhjálparáætluninnar er hann kenndi henni.

Þegar dóttir hans rifjaði upp þessa upplifum, síðar er hún var orðin fullorðin, þá sagði hún: „Ég mun aldrei gleyma þeirri elsku sem ég fann frá pabba er hann varði tíma með mér … Ég held að þessi upplifun sé stór ástæða þess að ég átti vitnisburð um fagnaðarerindið þegar ég skírðist“ (Sjá Teaching, No Greater Call, 129.)

Að kenna skilning krefst ákveðinnar og stefnufastrar fyrirhafnar. Það krefst þess að kennt sé með orði og með fordæmi, sérstaklega með því að hjálpa börnum okkar að lifa eftir því sem þau læra.

Harold B. Lee forseti kenndi: „Ef við höfum ekki tileinkað okkur einhverja trúarreglu í verki, er mjög erfitt að hafa trú á henni“ (Teachings of Presidents of the Church: Harold B. Lee [2000], 121).

Ég lærði fyrst að biðja bæna með því að krjúpa með fjölskyldu minni í fjölskyldubæn. Mér var kennt tungumál bænar er ég hlustaði á foreldra mína biðja og er þau hjálpuðu mér að fara með fyrstu bænir mínar. Mér lærðist að ég gæti talað við himneskan föður og beðið um leiðsögn.

Á hverjum morgni, án undantekninga, létu móðir mín og faðir minn okkur koma saman við eldhúsborðið fyrir morgunverðinn til að krjúpa saman í fjölskyldubæn. Við fórum með bænir við hverja máltíð. Við krupum saman á kvöldin í stofunni, áður en við fórum í rúmið, og lukum deginum með fjölskyldubæn.

Þótt ég hafi ekki skilið margt sem barn varðandi bænina, hefur hún orðið hluti af lífi mínu og haldist með mér. Ég held áfram að læra og skilningur minn um kraft bænarinnar heldur áfram að vaxa.

Öldungur Jeffrey R. Holland sagði: „Við skiljum öll að eigi boðskapur fagnaðarerindisins að ná fram að ganga, verða menn að taka á móti kennslu hans og síðan að skilja hann og loks að lifa þannig eftir honum, að loforð hans um hamingju og sáluhjálp verði að veruleika“ („Teaching and Learning in the Church” [heimsþjálfun leiðtoga, 10. feb. 2007], Líahóna, júní 2007, 57; Ensign, júní 2007, 89).

Það er ævilangt ferli að nema að fullu kenningar fagnaðarerindisins og það á sér stað „orð á orð ofan og setning á setning ofan, örlítið hér, örlítið þar“ (2 Ne 28:30). Skilningur barna eykst er þau læra og fylgja því sem þau hafa lært, sem hefur í för með sé meiri lærdóm, meira verk og jafnvel enn meiri og varanlegri skilning.

Við getum vitað að börn okkar eru farin að skilja kenninguna þegar við sjáum að hún birtist í viðhorfi þeirra og verkum, án ytri ógnana eða verðlauna. Börn okkar verða sjálfstæðari og ábyrgðarfyllri er þau læra að skilja kenningar fagnaðarerindisins. Þau verða hluti af lausn á fjölskylduvanda okkar og leggja á vogarskálarnar jákvætt framlag til heimilisins og velgengni fjölskyldunnar.

Við munum kenna börnum okkar að skilja er við notfærum okkur öll tækifæri sem bjóðast til kennslu, bjóðum andanum heim, sýnum fordæmi og hjálpum þeim að lifa eftir því sem þau læra.

Þegar við horfum í augun á ungabarni kemur í hugann söngurinn:

Guðs barnið eitt ég er,

og ekki margt hef reynt;

kenn mér svo hans ég eignist orð

og ekki verði´ of seint.

Leið mig, viltu vísa mér á

veg sem treysta má.

Kenn mér allt sem get ég gert,

svo Guði verði’ ég hjá.

(„Guðs barnið eitt ég er.“ Sálmar, nr. 112; skáletrað hér)

Við skulum lifa þannig. Í nafni Jesú Krists, amen.