2010–2019
Guði sé þökk
Apríl 2012


Guði sé þökk

Hversu miklu betra það væri ef allir gerðu sér betur grein fyrir forsjá Guðs og kærleika og létu í ljós þakklæti til hans.

Kæru bræður og systur, við þökkum ykkur fyrir stuðning ykkar og trúfestu. Við látum í ljós þakklæti og kærleik til hvers og eins ykkar.

Nýlega nutum við hjónin þess að skoða fagra hitabeltisfiska í litlu lagardýrasafni í einkaeign. Fiskar í skærum litum og af margvíslegri lögun og stærð skutust fram og aftur. Ég skurði umsjónarkonu þar rétt hjá: „Hver sér þessum fögru fiskum fyrir mat?“

Hún svaraði: „Ég geri það.“

Þá spurði ég: „Hafa þeir nokkurn tíma þakkað þér fyrir?“

Hún svaraði: „Ekki ennþá!“

Mér varð hugsað til sums fólks sem ég þekki og er alveg jafn ómeðvitandi um skapara sinn og sitt sanna „brauð lífsins.“1 Þau fara í gegnum lífið án þess að vera meðvituð um Guð og góðsemi hans í þeirra garð.

Hversu miklu betra það væri ef allir gerðu sér betur grein fyrir forsjá Guðs og kærleika og létu í ljós þakklæti til hans. Ammon kenndi: „Færum [Guði] þakkir, því að hann vinnur réttlætisverk að eilífu.“2 Þakklæti okkar er mælikvarðinn á kærleika okkar til hans.

Guð er faðir anda okkar.3 Hann hefur líkama af holdi og beinum sem er dýrðlegur og fullkominn.4 Við lifðum hjá honum á himnum áður en við fæddumst.5 Og þegar hann skapaði okkur líkamlega, vorum við sköpuð í líkingu Guðs, hvert með sinn persónulega líkama.6

Hugsið um líkamlegt viðurværi okkar. Sannlega er það himnasending. Nauðsynjar okkar í formi lofts, fæðu og vatns berast okkur sem gjöf frá elskuríkum himneskum föður. Jörðin var sköpuð okkur til lífsviðurværis á okkar skamvinnu ferð í jarðvistinni.7 Við fæðumst með möguleikum til að vaxa, elska, giftast og mynda fjölskyldu.

Hjónabandið og fjölskyldan eru vígð af Guði. Fjölskyldan er mikilvægasta félagslega einingin um tíma og eilífð. Í hinni miklu sæluáætlun Guðs geta fjölskyldur innsiglast í musterum og búið sig undir að dvelja í hans heilögu návist til eilífðar. Það er eilíft líf! Það uppfyllir djúpstæðustu löngun mannlegrar sálar — náttúrulega þrá eftir óendanlegu sambandi við ástkæra meðlimi eigin fjölskyldu.

Við erum hluti af guðlegum tilgangi hans: „[Það] er verk mitt og dýrð mín,“ sagði hann, „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“8 Til þess að ná þessum markmiðum, „elskaði Guð heiminn [svo], að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“9 Sú framkvæmd var guðleg staðfesting á kærleika Guðs. „Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.“10

Þungamiðjan í eilífri áætlun Guðs er þjónusta sonar hans, Jesú Krists.11 Hann kom til að endurleysa börn Guðs.12 Vegna friðþægingar Drottins, verður upprisan (eða ódauðleiki) að veruleika.13 Vegna friðþægingarinnar varð eilíft líf að möguleika fyrir alla sem uppfylla skilyrðin. Jesús útskýrði þetta þannig:

„Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.

Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“14

Fyrir friðþægingu Drottins og upprisugjöf hans — fyrir háleitan boðskap páskanna – Guði sé þökk!

Líkamlegar gjafir

Himneskur faðir okkar elskar börn sín.15 Hann hefur blessað hvert og eitt með líkamlegum og andlegum gjöfum. Ég ætla að ræða um hverja þeirra. Þegar þið syngið: „Guðs barnið eitt ég er,“ hugsið þá um gjöf hans til ykkar sem er ykkar eigin líkami. Fjölmargir undursamlegir eiginleikar líkama ykkar vitna um ykkar eigin „guðlega eðli.“16

Hvert og eitt líffæri líkama ykkar er undraverð gjöf frá Guði. Hvert auga hefur sjálfvirka stilli-linsu. Taugar og vöðvar gera það að verkum að augun tvö geta dregið upp þrívíddarmynd. Augun eru tengd heilanum, sem skráir það sem augun sjá.

Hjarta ykkar er undaverð dæla.17 Í því eru fjórar fínlegar lokur sem stjórna blóðflæðinu. Þær opnast og lokast yfir 100.000 sinnum á hverjum degi ‒ 36 milljón sinnum á ári. Þær geta haldið áfram að starfa þannig um ómældan tíma, ef sjúkdómur aftrar þeim þess ekki.

Hugsið um varnarkerfi líkamans. Til að vernda hann fyrir skaða, skynjar hann sársauka. Hann framleiðir mótefni til að verjast sýkingu. Húðin leggur til vernd. Hún varar við meiðslum sem of mikill hiti eða kuldi gætu orsakað.

Líkaminn endurnýjar sínar úreltu sellur og stillir sína eigin nauðsynlegu virkni. Líkaminn græðir sína skurði, sár, og brotnu bein. Hæfileiki hans til að fjölga sér er enn ein helg gjöf frá Guði.

Verum þess minnug að fullkominn líkami er ekki skilyrði fyrir guðlegum örlögum manna. Staðreyndin er sú, að sumir ljúfustu andarnir búa í veikburða eða ófullkomnum líkama. Fólk með líkamlegar áskoranir byggir oft upp mikinn andlegan styrk, einmitt vegna þessa að það hefur slíkar áskoranir.

Hver sá sem kynnir sér starfsemi mannslíkamans hefur örugglega „séð Guð hreyfa sig í hátign sinni og veldi.“18 Vegna þess að líkaminn stjórnast af guðlegu lögmáli, fæst öll lækning fyrir hlýðni við það lögmál sem sú blessun er bundin við.19

Samt heldur sumt fólk ranglega að þessir dásamlegu líkamlegu eiginleikar hafi orðið til fyrir tilviljun eða séu niðurstaðan af einhverjum stórum hvelli einhvers staðar. Spyrjið sjálf ykkur: „Gæti sprenging í prentsmiðju framleitt orðabók?“ Líkurnar eru í hæsta máta litlar. En ef svo væri, þá gæti hún aldrei læknað rifnar eigin blaðsíður eða fjölgað sér í nýjum útgáfum!

Ef hæfileikar líkamans til eðlilegra starfa, varna, viðgerðar, stjórnunar, og fjölgunar héldu áfram takmarkalaust, mundi lífið hér halda áfram ótakmarkað. Já, við værum strandaglópar hér á jörðinni! Til allrar hamingju fyrir okkur, gerði skapari okkar ráð fyrir öldrun og öðru ferli sem að lokum mundu leiða til líkamsdauða okkar. Dauðinn, eins og fæðingin, er hluti lífsins. Ritningin kennir að „ekki var æskilegt, að maðurinn yrði heimtur úr greipum hins stundlega dauða, því að það hefði gert að engu hina miklu sæluáætlun.“20 Að hverfa aftur til Guðs í gegnum hliðið sem við köllum dauða er gleðilegt fyrir þá sem elska hann og eru undir það búnir að mæta honum.21 Að lokum kemur að því hjá hverjum og einum að „andinn og líkaminn munu aftur sameinast í fullkominni mynd sinni, bæði limir og liðir skulu endurreistir í sinni réttu mynd,“22 og aldrei aðskiljast framar. Guði sé þökk fyrir þessar líkamlegu gjafir.

Andlegar gjafir

Svo mikilvægur sem líkaminn er, þá þjónar hann sem tjaldbúð fyrir eilífan anda okkar. Andar okkar voru til á fortilverustiginu og23 og munu halda áfram að lifa eftir að líkaminn deyr.24 Andinn veitir líkamanum líf og persónuleika.25 Í þessu lífi og í því næsta, gerast andi og líkami, þegar þeir sameinast, lifandi sál sem er ómetanlega verðmæt.

Vegna þess að andi manns er svo mikikvægur, hefur þroski þess anda eilífar afleiðingar. Hann styrkist þegar við höfum samband í auðmjúkri bæn við elskuríkan himneskan föður okkar.26

Eiginleikarnir sem við verðum dæmd eftir dag einn eru allir andlegir.27 Meðal þeirra eru ást, dyggð, ráðvendni, samúð og þjónusta við aðra.28 Andi ykkar, tengdur við og dveljandi í líkama ykkar, er fær um að þroskast og sýna þessa eiginleika með þeim hætti sem er lífsnauðsynlegur fyrir eilífa framþróun ykkar.29 Andleg framþróun fæst með hverju skrefi trúar, iðrunar, skírnar, og gjöf heilags anda, og að standast allt til enda, þar með talin gjöf og innsiglun helgiathafna hins heilaga musteris.30

Alveg eins og líkaminn þarfnast daglegrar fæðu til að komast af, þarfnast andinn einnig næringar. Andinn nærist á eilífum sannleika. Á liðnu ári héldum við upp á 400 ára afmæli þeirrar þýðingar Biblíunnar sem kennd er við Jakob konung. Og við höfum haft Mormónsbók í hartnær 200 ár. Hún hefur nú verið þýdd í heild eða að hluta á 107 tungumál. Vegna þessara og annarra dýrmætra ritninga, vitum við að Guð er okkar eilífi faðir og að sonur hans, Jesús Kristur, er frelsari okkar og endurlausnari. Guði sé þökk fyrir þessar andlegu gjafir!

Gjafir fagnaðarerindisins

Við vitum að spámenn margra ráðstöfunartíma, svo sem Adam, Nói, Móse og Abraham, kenndu allir um guðleika himnesks föður okkar og um Jesú Krist. Núverandi ráðstöfunartími var kynntur af himneskum föður og Jesú Kristi þegar þeir birtust spámanninum Joseph Smith árið 1820. Kirkjan var stofnuð 1830. Nú, 182 árum síðar, erum við enn undir þeim sáttmála að kunngjöra fagnaðarerindið „öllum þjóðum, kynkvíslum, tungum og lýðum.“31 Þegar við gerum svo, munu bæði gefendur og þiggjendur hljóta blessun.

Það er okkar ábyrgð að kenna börnum hans og vekja í þeim meðvitund um Guð. Fyrir óralöngu sagði Benjamín konungur:

„Trúið á Guð, trúið, að hann sé til og hafi skapað allt, bæði á himni og á jörðu. Trúið, að hans sé öll viska og allt vald, jafnt á himni sem á jörðu. …

„… Og trúið því enn fremur, að yður sé nauðsyn að iðrast synda yðar, láta af þeim og sýna auðmýkt fyrir Guði og biðja hann af einlægu hjarta um fyrirgefningu. Og ef þér trúið öllu þessu, sýnið það þá í verki.“32

Guð er sá sami í gær og í dag og að eilífu, en það erum við ekki. Á hverjum degi er það áskorun okkar að sækja okkur kraft í friðþæginguna, svo að við getum sannlega breyst, orðið líkari Kristi, og orðið hæf fyrir gjöf upphafningar og lifað eilíflega með Guði, Jesú Kristi, og fjölskyldum okkar.33 Guði sé þökk fyrir kraft, forréttindi og gjafir fagnaðarerindisins!

Ég vitna um að hann lifir, að Jesús er Kristur, og að þetta er hans kirkja, endurreist á þessum síðari dögum til þess að ná fram sínum guðlegu örlögum. Við erum leidd í dag af Thomas S. Monson forseta, sem við elskum og styðjum af öllu hjarta, eins og við einnig styðjum ráðgjafa hans og postulana tólf sem spámenn, sjáendur og opinberara. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.