2010–2019
Að hið týnda megi finnast
Apríl 2012


Að hið týnda megi finnast

Er þið leitist við að lifa samkvæmt fagnaðarerindi og kenningu Krists, þá mun heilagur andi leiðbeina ykkur og fjölskyldu ykkar.

Samkvæmt ritningunum var Líahóna „hnöttótt kúla, hin mesta völundarsmíð“ með tveimur vísum og vísaði annar í þá átt sem fjölskylda föður Lehís átti að halda í óbyggðunum (1 Ne 16:10).

Ég held að ég viti hvers vegna Lehí varð mjög undrandi þegar hann hann sá hana fyrst, vegna þess að ég man viðbrögð mín þegar ég sá GPS tæki að verki. Í mínum huga var það nútíma tæki „hin mesta völundarsmíð.“ Einhvern veginn, á einhvern hátt sem ég get ekki ímyndað mér, getur þetta litla tæki í símanum mínum, staðsett nákvæmlega hvar ég er og sagt mér nákvæmlega hvernig ég kemst þangað sem ég vil fara.

Bæði fyrir mig og Barböru konu mína er GPS tækið blessun. Fyrir Barböru þýðir það að hún þarf ekki að segja mér að stoppa og spyrja til vegar; og fyrir mig er það blessun að ég get nú með sanni sagt: „Ég þarf ekki að spyrja neinn. Ég veit nákvæmlega hvert ég er að fara.“

Bræður og systur, við höfum okkur tiltækt tæki sem er jafnvel enn merkilegra en hin bestu GPS tæki. Allir villast af leið einhvern tíma, að einhverju marki. Það er með leiðbeiningum heilags anda sem við getum komist örugg aftur á rétta braut og það er friðþægingarfórn frelsarans sem getur komið okkur aftur heim.

Að vera týnd getur átt við heil samfélög engu síður en einstaklinga. Í dag lifum við þá tíma að mikill hluti af þessum heimi hefur villst af leið, sérstaklega hvað varðar gildi og forgangsröðun innan heimila okkar.

Fyrir eitt hundrað árum, tengdi Joseph F. Smith forseti hamingjuna beint við fjölskylduna og hvatti okkur til að einbeita okkur að henni. Hann sagði: „Ekki er að finna neina sanna hamingju aðskilda eða utan heimilisins … Ekki er um neina hamingju að ræða án þjónustu, og engin þjónusta er fremri þeirri sem breytir heimilinu í guðlega stofnun, og sem eflir og varðveitir fjölskyldulífið … Það er heimilið sem þarfnast endurmótunar“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph F. Smith [1998], 382, 384).

Það eru heimili okkar og fjölskyldur sem þarfnast endurmótunar í þessum síaukna efnislega og veraldarvædda heimi. Sláandi dæmi er vaxandi vanvirðing gagnvart hjónabandinu hér í Bandaríkjunum. Fyrr á þessu ári greindi New York Times frá því að „fjöldi barna sem fædd eru af ógiftum konum hefur náð ákveðnum þröskuldi: Meira en helmingur fæðinga amerískra kvenna á sér stað utan hjónabands“ (Jason DeParle and Sabrine Tavernise, „Unwed Mothers Now a Majority Before Age of 30,” New York Times, 18. feb. 2012, A1).

Við vitum einnig að meðal þeirra í Bandaríkjunum sem giftast, skilur næstum helmingur þeirra. Jafnvel þau sem haldast í hjónabandi tapa oft áttum með því að láta aðra hluti hafa áhrif á hjónaband sitt.

Ekki veldur minni áhyggjum hið sístækkandi bil milli ríkra og fátækra og milli þeirra sem keppast við að viðhalda fjölskyldugildum og skyldurækni og þeirra sem hafa gefist upp við það. Tölfræðilega eru þeir minna menntuðu og þar af leiðandi með lægri tekjur síður líklegir til að giftast og fara í kirkju og miklu líklegri til að taka þátt í glæpum og eignast börn utan hjónabands. Og þessi gangur mála veldur einnig áhyggjum í flestum öðrum heimshlutum. (sjá W. Bradford Wilcox og aðrir, „No Money, No Honey, No Church: The Deinstitutionalization of Religious Life among the White Working Class,” fáanleg á www.virginia.edu/marriageproject/pdfs/Religion_WorkingPaper.pdf)

Gagnstætt því sem margir hafa haldið virðist velmegun og menntun tengjast meiri líkum á hefðbundinni fjölskyldu og gildum.

Auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um orsök og afleiðingu. Hafa sumir hlutar samfélagsins sterkari gildi og eiga sterkari fjölskyldur vegna þess að þeir eru betur menntaðir og auðugri, eða eru þeir betur menntaðir og auðugri vegna þess að þeir hafa ákveðin gildi og eiga sterkar fjölskyldur? Í þessari heimskirkju vitum við að það er hið síðarnefnda. Þegar fólk sýnir skyldurækni gagnvart fjölskyldu sinni og trúarreglum fagnaðarerindisins, tekur því að vegna betur andlega og oft einnig stundlega.

Og auðvitað styrkjast samfélög í heild þegar fjölskyldur styrkjast. Skuldbinding við fölskylduna og lífsgildi eru grundvallar orsök. Næstum því allt annað er afleiðing. Þegar par giftir sig og þau skuldbindast hvort öðru, auka þau til mikilla muna möguleika sína til efnahagslegrar velmegunar. Þegar börn fæðast innan hjónabands og eiga bæði mömmu og pabba, aukast líkur þeirra á velgengni í starfi verulega. Og þegar fjölskyldur vinna og leika sér saman, blómstra nágrenni og samfélög, efnahagur batnar og minni þörf er fyrir afskipti stjórnvalda og kostnaðarsöm öryggisnet.

Svo að slæmu fréttirnar eru að niðurbrot fjölskyldna er orsök fjölmargra þjóðfélagslegra og efnahagslegra meina. En góðu fréttirnar eru þær, að eins og með hverja aðra orsök og afleiðingu, er hægt að snúa þessu við, ef því sem er orsakavaldur er breytt. Ranglæti hverfur þegar lifað er eftir réttum reglum og gildum. Bræður ogf systur, mikilvægasti orsakavaldur okkar tíma eru fjölskyldur okkar. Ef við viljum helga okkur þessum málstað, munum við bæta alla aðra þætti lífs okkar og munum verða, sem fólk og sem kirkja, fordæmi og leiðarljós fyrir allar þjóðir jarðar.

En þetta er ekki auðvelt í heimi þar sem hugurinn beinist í margar áttir og þar sem öll plánetan virðist á sífelldri hreyfingu og breytast með hraða sem menn gátu ekki áður ímyndað sér. Ekkert helst óbreytt til lengdar. Stíll, tilhneigingar, tískufaraldur, pólitískur rétttrúnaður, og jafnvel meðvitund um rétt og rangt, breytist og riðlast. Eins og Jesaja spámaður spáði fyrir um, er rangt túlkað sem rétt og rétt sem rangt (sjá Jes 5:20).

Andlega bilið breikkar stöðugt eftir því sem hið illa verður stöðugt meiri blekking og lúmskari og dregur fólk til sín eins og dimmur segull ‒ rétt eins og fagnaðarerindi sannleika og ljóss dregur til sín þá hjartahreinu og hina heiðarlegu jarðarinnar sem leita þess sem siðlegt er og gott.

Við kunnum að vera tiltölulega fámenn, en sem meðlimir þessarar kirkju getum við brúað þessi breikkandi bil. Við þekkjum kraft þjónustu sem er í anda Krists og sameinar börn Guðs hvað sem líður andlegri eða efnahagslegri stöðu þeirra. Fyrir einu ári síðan bauð Æðsta forsætisráðið okkur að taka þátt í eins dags þjónustu í tilefni 75 ára afmælis velferðarstarfsins, sem hjálpar fólki að verða betur sjálfbjarga. Meðlimir okkar víðs vegar í heiminum gáfu milljónir klukkustunda .

Kirkjan er kjölfesta í þessum ólgusjó, akkeri í hvítfyssandi hafróti breytinga og sundrungar, og leiðarljós þeim sem kunna að meta og leita eftir réttlæti. Drottinn notar þessa kirkju sem verkfæri til að beina börnum sínum í átt að þeirri vernd sem fagnaðarerindi hans veitir.

Andi Elía, sem á sér engin takmörk, er einnig mikill kraftur í tilgangi Drottins varðandi eilíf örlög barna hans. Með orðum Malakís mun andi heilags anda „sætta feður við sonu og sonu við feður“ (Mal 4:6).

Kirkjan stendur sem dæmi um umbreytingu hjartans og sem áhrifavaldur til góðs í heiminum. Meðal kirkjumeðlima sem eru giftir í musterinu og sem reglulega sækja sunnudagssamkomur, eru skilnaðir merkjanlega færri en gerist í heiminum og fjölskyldurnar standa þéttar saman og hafa meiri samskipti sín í milli. Heilsa er betri í fjölskyldum okkar, og við lifum nokkrum árum lengur en meðalævi allra íbúa segir til um. Við leggum fram meiri fjárhagsaðstoð og meiri þjónustu miðað við höfðatölu til þeirra sem þarfnast hjálpar, og við erum líklegri til að sækjast eftir æðri menntun. Ég bendi á þessa hluti ekki til að hrósa okkur heldur til að vitna um að lífið er betra (og miklu ánægjulegra) þegar hjörtun beinast að fjölskyldunni og fjölskyldur lifa í ljósi fagnaðarerindis Jesú Krists.

Hvað getum við þá gert til að fara ekki villu vegar? Í fyrsta lagi legg ég til að við forgangsröðum. Látið allt sem þið gerið utan heimilisins undir það sett sem þið gerið innan heimilis ykkar og vera til stuðnings því. Munið eftir ráðgjöf Harold B. Lee forseta, að „það mikilvægasta sem við munum nokkru sinni vinna … verður unnið innan veggja heimilis okkar“ (Teachings of Presidents of the Church: Harold B. Lee [2001], 134) og sígild orð David nb}O. McKay forseta: „Engir sigrar á öðru sviði geta bætt fyrir mistök á heimilinu“ (tilvitnun J. E. McCulloch, Home: The Savior of Civilization [1924], 42; í Conference Report, apríl 1935, 116).

Skipuleggið einkalíf ykkar þannig að þið hafið tíma fyrir bænir og ritningar og fjölskylduna. Felið börnum ykkar ábyrgð innan heimilisins sem kennir þeim hvernig vinna skal. Kennið þeim að hlýðni við fagnaðarerindið muni forða þeim frá sora, lauslæti, og ofbeldi Alnetsins og annarra miðla og vídeóleikja. Þau munu ekki týnast, og þau verða tilbúin að axla ábyrgð sína þegar þar að kemur.

Í öðru lagi, verðum við að gera hlutina í réttri röð! Hjónabandið fyrst og síðan fjölskylda. Of margir í heiminum hafa gleymt eðlilegri röð hlutanna og halda að hægt sé að breyta röðinni eða jafnvel snúa henni við. Fjarlægið allan ykkar ótta með trú. Treystið krafti Guðs til að leiðbeina ykkur.

Til ykkar sem eruð ekki gift, leggið ykkur fram við leitina að ykkar eilífa félaga. Piltar, minnist annars sem Joseph F. Smith forseti sagði: „Að kvænast ekki … kann að virðast aðlaðandi fyrir hinn grunnhyggna, sem heldur að það sé gott vegna þess af því fylgir minnst ábyrgð. ... Vandann er raunverulega að finna hjá piltunum sjálfum. Aðhaldsleysi okkar tíma leiðir þá frá braut skyldu og ábyrgðar … Systur þeirra eru fórnarlömbin … (og) mundu giftast ef þær gætu, og mundu glaðar taka á sig ábyrgð fjölskyldulífs“ (Gospel Doctrine, 5. útg. [1939], 281).

Og til stúlknanna vil ég bæta við, að þið megið heldur ekki missa sjónar á þessari ábyrgð. Enginn starfsferill getur fært ykkur eins mikla fyllingu og það að ala upp börn. Og þegar þið komist á minn aldur, verður ykkur þetta enn ljósara.

Í þriðja lagi, eiginmenn og eiginkonur, þið eigið að vera jafnir félagar í hjónabandi ykkar. Lesið oft og skiljið til fulls yfirlýsinguna um fjölskylduna og farið eftir henni. Forðist óréttlát yfirráð af öllu tagi. Enginn á maka sinn eða börn; Guð er faðir okkar allra og hann hefur veitt okkur þau forréttindi að eignast eigin fjölskyldu, sem áður tilheyrði honum einum, til þess að hjálpa okkur að verða líkari honum. Sem börn hans ættum við að læra heima að elska Guð og vita að við getum beðið hann um þá hjálp sem við þörfnumst. Allir, giftir eða ógiftir, geta verið hamingjusamir og stoð innan hverrar þeirrar fjölskyldu sem þeir eiga.

Og að lokum, notið fjölskylduhjálp kirkjunnar. Við uppeldi barna geta fjölskyldur leitað til deildarinnar. Styðjið og vinnið samstíga prestdæmi og leiðtogum aðildarfélaga og nýtið ykkur til fulls starfsemi kirkjunnar fyrir unglingana og fjölskyldur. Munið eftir enn einni eftirminnilegri setningu Lee forseta ‒ að kirkjan er vinnupallur okkar er við byggjum upp eilífar fjölskyldur (sjá Teachings of Presidents of the Church: Harold B. Lee [2000], 148).

Og ef þið af einhverjum ástæðum hafið sem einstaklingar eða sem fjölskylda villst af leið, þurfið þið aðeins að tileinka ykkur kenningu frelsarans í Lúkasarguðspjalli, 15. kapítula, til að leiðrétta ferð ykkar. Þar segir frelsarinn frá viðleitni fjárhirðis sem leitar að týndum sauði, frá konu sem leitar að týndri drökmu, og frá þeim góðu móttökum sem glataði sonurinn fékk er hann sneri aftur. Hvers vegna kenndi Jesús þessar dæmisögur? Hann vildi að við vissum að ekkert okkar mun nokkru sinni verða svo heillum horfið að við getum ekki fundið aftur leiðina fyrir tilverknað friðþægingar hans og kenningar.

Er þið leitist við að lifa samkvæmt fagnaðarerindi og kenningu Krists, þá mun heilagur andi leiðbeina ykkur og fjölskyldu ykkar. Þið munuð hafa andlegt GPS tæki til að segja ykkur hvar þið eruð og hvert þið eruð að fara. Ég ber vitni um að hinn upprisni lausnari mannkyns elskar okkur öll, og hann hefur lofað okkur, að ef við viljum fylgja honum, mun hann leiða okkur örugg aftur í návist okkar himneska föður, um hvern ég vitna í nafni Jesú Krists, amen.