2010–2019
Kenning Krists
Apríl 2012


Kenning Krists

Í kirkjunni í dag, alveg eins og til forna, snýst staðfesting á kenningum Krists, eða leiðrétting á afbrigðum frá kenningu, um guðlega opinberun.

Við færum systur Beck, systur Allred, systur Thompson og Líknarfélagsnefndinni okkar innilegustu þakkir.

Við höfum upp á síðkastið séð vaxandi áhuga almennings á trú Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Þetta er nokkuð sem við tökum fagnandi, þar sem grundvallarverkefni okkar er að kenna fagnaðarerindi Jesú Krists, kenningu hans, um allan heim (sjá Matt 28:19–20; K&S 112:28). En við verðum að viðurkenna að það hefur verið og er enn nokkur ruglingur varðandi kenningu okkar og hver grundvöllur hennar er. Um það ætla ég að fjalla í dag.

Frelsarinn kenndi kenningu sína á hádegisbaugi tímans og postular hans lögðu hart að sér við að varðveita kenningu hans gegn ágangi falskra hefða og heimspeki. Pistlar Nýja testamentisins greina frá fjölda atvika sem sýna að alvarlegt og mjög útbreitt fráhvarf var þegar fyrir hendi á þjónustutíma postulanna.1

Næstu aldirnar náðu einstaka ljósgeislar fagnaðareridins öðru hverju að lýsa upp nótt fráhvarfs, en á 19. öld birti í heiminum af skæru ljósi endurreisnarinnar og fagnaðarerindi Krists, í heild sinni og fullkomið, var aftur á jörðu. Sá dýrðlegi dagur hófst þegar Guð faðirinn og hans elskaði sonur, Jesús Kristur, birtust hinum unga Joseph Smith í ljósstólpa, „skærari en sólin“ (Joseph Smith‒Saga 1:16), og komu af stað því sem síðan varð bókstaflega flóð opinberana tengdum guðlegum krafti og valdi.

Í þessum opinberunum finnum við það sem kalla má kjarna kenningar Kirkju Jesú Krists sem endurreist var á jörðu. Jesús Kristur skilgreindi þá kenningu með þessum orðum sem skráð eru í Mormónsbók: Annað vitni um Jesú Krist:

„Þetta er kenning mín, og það er sú kenning, sem faðirinn hefur gefið mér. Og ég ber föðurnum vitni, og faðirinn ber vitni um mig og heilagur andi ber vitni um föðurinn og mig. Og ég ber þess vitni, að faðirinn býður öllum mönnum alls staðar að iðrast og trúa á mig.

Og hver, sem trúir á mig og hefur hlotið skírn, mun hólpinn verða. Og það eru þeir, sem erfa skulu Guðs ríki.

En hver, sem ekki trúir á mig og ekki hefur hlotið skírn, mun fordæmdur verða.

… Og hver, sem trúir á mig, trúir einnig á föðurinn, og honum mun faðirinn bera vitni um mig, því að hann mun vitja hans með eldi og heilögum anda. …

Sannlega, sannlega segi ég yður, að þetta er mín kenning, og allir þeir, sem á henni byggja, byggja á bjargi mínu, og hlið heljar munu ekki á þeim sigrast“ (3 Ne 11:32–35, 39).

Þetta er boðskapur okkar, kletturinn sem við byggjum á, grundvöllur alls annars í kirkjunni. Eins og allt sem kemur frá Guði, er þessi kenning hrein, hún er skír, hana er auðvelt að skilja — jafnvel fyrir barn. Glöð í hjarta, bjóðum við öllum að taka á móti henni.

Í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu trúum við „öllu, sem Guð hefur opinberað, öllu, sem hann nú opinberar, og vér trúum að hann muni enn opinbera margt stórfenglegt og mikilvægt varðandi Guðs ríki“ (Trúaratriðin 1:9). Þetta merkir, að þótt það sé margt sem við vitum ekki, hefur sannleikurinn og kenningin sem við höfum meðtekið borist og heldur áfram að berast með guðlegri opinberun. Í sumum trúarhefðum segjast guðfræðingar hafa jafnan rétt til að kenna og hið trúarlega stigskipta kirkjuvald, og kenningarnar sjálfar geta orðið að bitbeini þeirra í milli. Sumir reiða sig á hin miklu kirkjuþing miðaldanna og þeirra yfirlýsingar. Aðrir leggja höfuðáherslu á röksemdir guðfræðinga tímabilsins eftir tíð postulanna, eða á biblíulegar ritskýringar og rannsóknir. Við metum einnig mikils fræðimennsku sem eykur skilning, en í kirkjunni í dag, alveg eins og til forna, er uppbygging kenningar Krists eða leiðrétting á frávíkjandi kenningum spurning um guðlega opinberun til þeirra sem Drottinn felur hið postullega vald.2

Á árinu 1954 útskýrði J. Reuben Clark yngri, forseti, þá ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, hvernig kenning er kynnt í kirkjunni og forystuhlutverk forseta kirkjunnar. Talandi um meðlimi Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar, sagði hann: „[Við] ættum að hafa í huga að sumum af aðalvaldhöfunum hefur verið veitt sérstök köllun; þeir hafa sérstaka gjöf; þeir eru studdir sem spámenn, sjáendur, og opinberarar, sem veitir þeim sérstaka andlega gjöf í sambandi við kennslu þeirra til fólksins. Þeir hafa réttinn, kraftinn, og valdið til að lýsa yfir huga og vilja Guðs til fólks hans, í samræmi við heildarumsjón og vald forseta kirkjunnar. Öðrum aðalvaldhöfum er ekki veitt þessi sérstaka andlega gjöf og vald sem nái yfir kennslu þeirra; þeir hafa þar af leiðandi takmarkanir, og þær takmarkanir á krafti þeirra og valdi til kennslu eiga einnig við um alla aðra embættismenn og meðlimi kirkjunnar, því enginn þeirra hefur hlotið andlega gjöf sem spámaður, sjáandi og opinberari. Þar að auki, eins og þegar er að vikið, hefur forseti kirkjunnar enn frekari og sérstakar andlegar gjafir hvað þetta varðar, því hann er spámaður, sjáandi og opinberari fyrir kirkjuna í heild.“3

Hvernig opinberar þá frelsarinn vilja sinn og kenningu til spámanna, sjáenda, og opinberara? Hann kann að vinna með sendiboða eða í eigin persónu. Hann getur talað með eigin röddu eða með röddu heilags anda — samskiptum anda til anda sem getur orðið með orðum eða tilfinningum sem veita skilning orðum æðri (sjá 1 Ne 17:45; K&S 9:8). Hann getur einbeitt sér að þjónum sínum hverjum um sig eða fleirum í ráði (sjá 3 Ne 27:1–8).

Ég nefni tvö dæmi úr Nýja testamentinu. Hið fyrra var opinberun sem beindist að höfði kirkjunnar. Framarlega í Postulasögunni segir að postular Krists hafi boðað fagnaðarerindið einungis til Gyðinga, og fylgt þannig fordæmi Krists á þjónustutíma hans (sjá Matt 15:24), en nú var, samkvæmt tímatöflu Drottins, kominn tími til breytinga. Í Joppe, dreymdi Pétur draum, sem var endurtekinn þrisvar sinnum. Hann sá alls kyns dýr látin síga til jarðar frá himni í hlut „líkan stórum dúki … á fjórum skautum“ (Post 10:11) og var skipað að „slátra og eta“ (Post 10:13). Pétur var tregur til þess, þar sem að minnsta kosti sum dýranna voru „óhrein“ eða „vanheilög“ samkvæmt Móselögmálinu og Pétur hafði aldrei brotið boðorðið gegn slíku áti. Engu að síður sagði röddin við Pétur í draumi hans: „Eigi skalt þú kalla það vanheilagt sem Guð hefur lýst hreint“ (Post 10:15).

Merking þessa draums varð ljós þegar fljótlega þar á eftir komu nokkrir menn, sendir frá rómverska hundraðshöfðingjanum Kornelíusi, til dvalarstaðar Péturs með beiðni um að hann kæmi og kenndi meistara þeirra. Kornelíus hafði safnað saman álitlegum hópi ættmenna og vina, og þegar Pétur sá að þau biðu í ofvæni eftir boðskap hans, sagði Pétur:

„Guð hefur sýnt mér, að ég á engan að kalla vanheilagan eða óhreinan. …

… Sannlega skil ég nú að Guð fer ekki í manngreinarálit.

Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er“ (Post 10:28, 34–35; sjá einnig vers 17–24).

„Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð, kom heilagur andi yfir alla þá, er orðið heyrðu.

[Og þeir], sem komið höfðu með Pétri, urðu furðu lostnir, að heilögum anda … skyldi einnig úthellt yfir heiðingjana.

… Þá mælti Pétur:

„Hver getur varnað þess, að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem vér.“ (Post 10:44–47).

Með þessari reynslu og opinberun til Péturs, breytti Drottinn starfháttum kirkjunnar og opinberaði lærisveinum sínum fullkomnari skilning á kenningunni. Og þannig útvíkkaðist boðun fagnaðarerindisins þannig að hún næði til alls mannkyns.

Aftar í Postulasögunni finnum við annað nokkuð skylt dæmi, sem í þetta sinn sýnir hvernig opinberun varðandi kenningu getur borist á ráðsfundi. Ósamkomulag kom upp um það hvort umskurður, sem var skylda samkvæmt Móselögmálinu, skyldi samþykkt sem boðorð fagnaðarerindisins og Kirkju Krists (sjá Post 15:1, 5). „Postularnir og öldungarnir komu nú saman til að líta á þetta mál“ (Post 15:6). Fundargerð okkar frá þessu ráði er vissulega ekki fullkomin, en okkur er sagt að eftir „mikla umræðu“ (Post 15:7), hafi Pétur, postulinn með lengstan starfsaldur, risið upp og lýst yfir því sem heilagur andi hafi staðfest fyrir honum. Hann minnti ráðið á, að þegar byrjað var að boða fagnaðarerindið til óumskorinna meðal Þjóðanna í húsi Kornelíusar, hafi þeir tekið á móti heilögum anda engu síður en hinir umskornu gyðinglegu trúskiptingar. Hann sagði: „Engan mun gjörði [Guð] á oss og þeim, er hann hreinsaði hjörtu þeirra með trúnni.

Hví freistið þér nú Guðs með því að leggja ok á háls lærisveinanna, er hvorki feður vorir né vér megnuðum að bera?

„Vér trúum þó því, að vér verðum hólpnir fyrir náð Drottins Jesú á sama hátt og þeir“ (Post 15:9–11; sjá einnig vers 8).

Þar á eftir töluðu Páll, Barnabas, og ef til vill fleiri, til stuðnings við yfirlýsingu Péturs. Jakob lagði til að ákvörðuninni yrði hrint í framkvæmd með bréfi til kirkjunnar, og ráðið samþykkti það „einróma“ (Post 15:25; sjá einnig vers 12–23). Í bréfinu sem tilkynnti ákvörðun þeirra, sögðu postularnir: „Það er ályktun heilags anda og vor“ (Post 15:28), eða með öðrum orðum, þessi ákvörðun kom með guðlegri opinberun með heilögum anda.

Sama aðferð er notuð í dag í endurreistri kirkju Jesú Krists. Forseti kirkjunnar getur lýst yfir eða túlkað kenningar byggt á opinberun til hans (sjá, til dæmis, K&S 138). Kenningarlegar skýringar geta einnig komið frá sameinuðu ráði Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar (sjá, til dæmis, Opinber yfirlýsing 2). Umræður í ráði snúast oft um mat á ritningargreinum helgiritanna, kenningum kirkjuleiðtoga, og fyrri framkvæmd. En að lokum, alveg eins og í kirkju Nýja testamentisins, er markmiðið ekki einfaldlega sameiginleg niðurstaða ráðsmeðlima heldur opinberun frá Guði. Það er ferill þar sem bæði er beitt skynsemi og trú til að vita ósk og vilja Guðs.4

Jafnframt verður að hafa í huga að ekki fela allar yfirlýsingar kirkjuleiðtoga, fyrr og nú, endilega í sér kenningu. Það er almennur skilningur í kirkjunni að yfirlýsing frá einum leiðtoga í eitt skipti felur oft í sér persónulega, en samt vel útfærða, skoðun sem ekki er ætlað að vera bindandi fyrir kirkjuna í heild. Spámaðurinn Joseph Smith kenndi að „spámaður [er] spámaður aðeins þegar hann [er] að störfum sem slíkur.“5 Clark forseti, sem ég vitnaði í áður, sagði:

„Í þessu sambandi minnist ég einfaldrar sögu sem faðir minn sagði mér þegar ég var drengur, ég veit ekki nánar um tildrög sögunnar, en hún útskýrir þetta mál. Saga hans var um það að þegar mest gekk á í kringum komu Johnstons hersins, hafi bróðir Brigham flutt yfir fólkinu á morgunsamkoma ræðu sem mótaðist af andstöðu við herinn sem var að koma og hafi hann lýst yfir vilja til að standa gegn hernum og hrekja hann til baka. Á kvöldfundi reis hann upp og sagði að Brigham Young hafi verið að tala um morguninn, en nú mundi Drottinn tala. Síðan flutti hann ávarp, sem var í algjörri andstöðu við morgunræðuna. …

„… Kirkjan mun vita með vitnisburði heilags anda til meðlimanna í heild hvort bræðurnir sem eru að kveða upp úr með skoðanir sínar eru að „tala með heilögum anda“, og á sínum tíma mun sú vitneskja staðfest.“6

Með einni kjarnasetningu staðfesti spámaðurinn Joseph Smith hvaða hlutverki frelsarinn gegnir í kenningu okkar. „Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn, og reis upp á þriðja degi og sté upp til himins; og allt annað í trúarbrögðum okkar er aðeins viðauki við það.“7 Vitnisburður Josephs Smith um Jesú er, að hann lifir, því að við sáum hann, „já, Guði til hægri handar, og við heyrðum röddina, sem bar vitni um, að hann er hinn eingetni föðurins“ (K&S 76:23; sjá einnig vers 22). Ég ráðlegg öllum þeim sem heyra eða lesa þennan boðskap að leita þess sama vitnisburðar, um guðlegt eðli, friðþæginguna, og upprisu Jesú Krists. Meðtakið kenningu hans með iðrun, skírn, meðtöku gjafar heilags anda, og fylgið síðan í öllu lífi ykkar lögmálum og sáttmálum fagnaðarerindis Jesú Krists.

Nú þegar páskahátíðin nálgast, læt ég í ljós minn eigin vitnisburð um að Jesús frá Nasaret var og er sonur Guðs, sjálfur Messías hinna fornu spádóma. Hann er Kristur, sem þjáðist í Getsemane, dó á krossinum, var grafinn, og sem vissulega reis upp aftur á þriðja degi. Hann er hinn upprisni, endurlífgaði Drottinn, og fyrir hans tilstilli munum við öll verða endurlífguð og af honum geta allir sem vilja orðið endurleystir og upphafnir í hans himneska ríki. Þetta er kenning okkar, og staðfestir alla fyrri vitnisburði um Jesú Krist, og ítrekuð er á nýjan leik fyrir okkar eigin tíma. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Neal A. Maxwell, „From the Beginning,” Ensign, nóv. 1993, 18–19: „Jakob varaði við ‚stríði og sennum‘ meðal kirkjunnar (Jakbr 4:1). Páll harmaði ágreining innan kirkjunnar og hvernig ‚skæðir vargar‘ mundu ‚eigi þyrma hjörðinni‘(1 Kor 11:18; Post 20:29–31). Hann vissi að fráhvarf var framundan og ritaði til Þessaloníkumanna að síðari koma Jesú yrði ekki ‚nema fráhvarfið komi fyrst‘; og benti einnig á að ‚lögleysið er þegar farið að starfa‘ (2 Þess 2:3, 7). Undir lokin staðfesti Páll hversu mjög útbreytt fráhvarfið var orðið: ‚Allir Asíumenn sneru við mér bakinu‘ (2 Tím 1:15). … Útbreitt siðleysi og skurðgoðadýrkun ollu postulunum áhyggjum (sjá 1 Kor 5:9; Ef 5:3; Dóm 1:7). Bæði Jóhannes og Páll hörmuðu komu falskra spámanna (sjá 2 Kor 11:13; Op 2:2). Kirkjan hafði greinilega orðið fyrir árás. Sumir féllu ekki aðeins frá heldur unnu opinskátt gegn kirkjunni. Í einu tilviki stóð Páll einn, kvartaði og sagði ‚heldur yfirgáfu mig allir‘ (2 Tím 4:16). Hann lýsti einnig þeim, sem ‚kollvarpa heilum heimilum‘ (Tít 1:11). Sumir staðarleiðtogar gerðu uppreisn, eins og einn, sem í stórlæti sínu, neitaði að taka á móti bræðrunum (sjá 3 Jóh 1:9–10). Ekki að undra að Brigham Young forseti skyldi segja: ‚Sagt er að prestdæmið hafi verið tekið frá kirkjunni, en svo er ekki, kirkjan hvarf frá prestdæminu‘ (í Journal of Discourses, 12:69).“ Ástandið varð, þegar tímar liðu, eins og öldungur Neal A. Maxwell lýsti því: „Rökhyggjan, heimspekihefð Grikkja, ríkti og kom síðan í staðinn fyrir að treyst væri á opinberun, og sú niðurstaða náðist trúlega fyrr vegna velmeinandi kristinna óska um að koma trúaratriðum þeirra inn í meginstraum þáverandi menningar … … Förum [einnig] varlega í að aðlaga opinberaða guðfræði að hefðbundinni visku“ (Ensign, nóv. 1993, 19–20).

  2. Postular og spámenn eins og Joseph Smith lýsa yfir orði Guðs, en þar að auki trúum við að karlar og konur almennt, og jafnvel börn, geti lært af og fylgt guðlegri opinberun sem fæst með bænum og námi í ritningunum. Rétt eins og á dögum hinna fornu postula er meðlimum Kirkju Jesú Krists veitt gjöf heilags anda, sem greiðir fyrir viðvarandi samskiptum við himneskan föður eða, með öðrum orðum, persónulegri opinberun (sjá Post 2:37–38). Þannig verður kirkjan að hópi skuldbundinna, andlega þroskaðra einstaklinga, hverra trú er ekki blind heldur sjáandi ‒ upplýst og staðfest af heilögum anda. Þetta merkir ekki að hver meðlimur geti talað fyrir kirkjuna eða geti ákvarðað kenningar hennar, heldur að hver og einn geti meðtekið guðlega leiðsögn þegar hann eða hún tekst á við áskoranir og tækifæri eigin lífs.

  3. J. Reuben Clark Jr., „When Are Church Leaders’ Words Entitled to Claim of Scripture?” Church News, 31. júlí 1954, 9–10; sjá einnig Kenningu og sáttmála 28:1–2, 6–7, 11–13.

  4. Sá undirbúningur og þeir eiginleikar sem krafist er af þátttakendum í starfi ráða er „réttlæti, … heilagleiki, og lítillæti, auðmýkt og langlundargeð, … trú, dyggð, þekking, jafnaðargeð, þolinmæði, guðleiki, bróðurleg vinsemd og kærleikur– Vegna þess að fyrirheitið er, að þrífist þetta í þeim, verða þeir ekki ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni“ (Kenning og sáttmálar 107:30–31).

  5. Joseph Smith, í History of the Church, 5:265.

  6. J. Reuben Clark yngri, „Church Leaders’ Words,” 10. Clark forseti skrifaði ennfremur um frásögnina sem faðir hans sagði honum um Brigham Young: „Ég veit ekki hvort þetta raunverulega gerðist, en ég segi að það útskýri þá reglu ‒ að jafnvel forseti kirkjunnar, sjálfur, sé ekki alltaf ‚að tala af heilögum anda,‘ þegar hann talar til fólksins. Þetta hefur gerst varðandi kenningarleg atriði (venjulega af mjög óvissum toga) og í tilvikum þar sem síðari forsetum kirkjunnar og fólkinu almennt hefur fundist að við framsetningu kenningarinnar, hafi kynnirinn ekki ‚talað af heilögum anda.‘ Hvernig á kirkjan að vita hvenær þessir ævintýralegu leiðangrar bræðranna inn í land óþekktra reglna og kenninga standast kröfur sem gerðar eru til yfirlýsinga sem fluttar eru af þeim sem ‚tala af heilögum anda‘? Kirkjan mun vita með vitnisburði heilags anda til meðlimanna í heild hvort bræðurnir sem eru að kveða upp úr með skoðanir sínar séu að ‚tala með heilögum anda‘; og á sínum tíma mun sú vitneskja staðfestast.“ (J. Reuben Clark yngri, „Church Leaders’ Words,” 10).

  7. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 49.