2010–2019
Verkamenn í víngarðinum
Apríl 2012


Verkamenn í víngarðinum

Ég bið ykkur að hlusta á það sem heilagur andi segir ykkur nú, einmitt á þessari stundu, að ykkur beri að taka á móti friðþægingargjöf Drottins Jesú Krists.

Í sambandi við þær kallanir og aflausnir sem Æðsta forsætisráðið tilkynnti um hér rétt áður, þá tala ég fyrir munn allra er ég segi að við erum þakklát fyrir og unnum þeim sem þjónað hafa trúfastlega með okkur, og við elskum líka þá sem koma til starfa og bjóðum þá velkomna. Hjartanlegar þakkir til ykkar allra.

Í dag ætla ég að ræða dæmisögu frelsarans um eigandann sem „sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn.“ Eftir að hafa ráðið fyrsta hópinn klukkan sex að morgni, fór hann aftur klukkan níu, tólf á hádegi og þrjú um miðjan dag til að ráða fleiri verkamenn, eftir því sem uppskeran krafðist. Ritningarnar segja hann loks hafa komið „síðdegis“ (sem er um klukkan 5) og ráðið síðasta hópinn. Aðeins einni stundu síðar komu verkamennirnir saman til að fá daglaunin sín. Furðulegt var að allir fengu sömu launin, þrátt fyrir að þeir hefðu unnið mis lengi. Þeir sem ráðnir voru fyrst urðu þegar reiðir og sögðu: „Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund, og þú gjörir þá jafna oss, er höfum borið hita og þunga dagsins.“1 Við lestur þessarar dæmisögu gætuð þið kannski komist að sömu niðurstöðu og verkamennirnir, að þeir nytu ekki sanngirnis. Ég ætla að ræða stuttleg það umhugsunarefni.

Í fyrsta lagi er mikilvægt að gera sér ljóst að hér hefur engum verið sýnd ósanngirni. Fyrstu verkamennirnir samþykktu full daglaun, sem þeir og fengu. Þeir voru auk þess, að ég tel, afar þakklátir fyrir að fá starfið. Á tíma frelsarans náði meðalmaður og fjölskylda hans rétt svo lifa af launum hvers dags. Ef menn höfðu ekki atvinnu eða stunduðu búskap, fiskveiðar eða viðskipti, var líklegt að þeir sultu. Þar sem verkamennirnir voru fleiri en þörf var fyrir, voru fyrstu mennirnir sem valdir voru um morguninn þeir lánsömustu af þeim öllum.

Já, ef samúð á hér rétt á sér, ætti hún fyrst og fremst að beinast að þeim mönnum sem ekki voru valdir, en líka þurftu að fæða og klæða aðra. Lánið virtist ekki leika við suma þeirra. Með hverri komu ráðsmannsins yfir daginn, sáu þeir alltaf aðra tekna fram fyrir sig.

En rétt fyrir dagslok kom eigandinn óvænt í fimmta sinn með sitt undraverða elleftu stundar tilboð. Þessir síðustu og vonsviknustu verkamenn, sem aðeins var sagt að þeir mundu njóta sanngirnis, tóku stafið án þess að vita um launin, vitandi að allt væri betra en ekkert, sem fram að því hafði fallið í þeirra hlut. Þegar þeir svo komu saman til að fá launin, urðu þeir undrandi yfir að fá það sama og allir hinir! Hve undrandi og gagnteknir af þakklæti þeir hljóta að hafa verið! Vissulega höfðu þeir ekki áður notið slíkrar samkenndar alla sína starfsdaga.

Það er þeim augum sem ég tel að líta þurfi á óánægjumögl fyrstu verkamannanna. Því eigandinn í dæmisögunni sagði við þá (og ég umorða aðeins): „Vinir mínir, ég sýni ykkur ekki ósanngirni. Þið samþykktuð dagslaunin, sem voru góð. Þið voruð afar glaðir yfir að fá starfið og ég er afar ánægður með þjónustu ykkar. Þið hafið fengið greitt að fullu. Takið launin og njótið blessunar þeirra. Hvað hina varðar, þá hlýtur mér að vera frjálst að gera það sem ég vil við mína peninga.” Og þá hljómar þessi skerandi spurning í eyrum allra sem hana þurfa að heyra: „Hvers vegna þarft þú að vera öfundsjúkur yfir því að ég sýni góðvild?

Bræður og systur, í lífi okkar kemur upp sú staða að einhver annar hlýtur óvænta blessun eða sérstaka viðurkenningu. Ég bið ykkur um að láta ekki særast ‒ og vissulega ekki finna til öfundar ‒ þegar lánið leikur við aðra. Það er ekki lítið gert úr okkur, ef einhver hlýtur eitthvað hnoss. Samkeppni á ekki að ríkja á milli okkar um að vera auðugastur eða hæfileikaríkastur eða fallegastur eða jafvel blessunarríkastur. Hin raunverulega barátta okkar ætti að vera gegn syndinni og vissulega er öfund ein algengasta syndin.

Auk þess er öfund mistök sem hreinlega aldrei linnir. Auðvitað þjáumst við örlítið þegar við verðum fyrir einhverju óláni, en öfundin veldur því að við þjáumst yfir hverri þeirri gæfu sem fellur öllum sem við þekkjum í skaut! Hve dásamleg tilhugsun það er ‒ að verða alltaf vonsvikinn þegar aðrir eiga ánægjustund! Það er jafnvel enn skammarlegra þegar við komumst að lokum að því að Guð er bæði réttvís og miskunnsamur, og gefur öllum sem með honum standa „allar eigur sínar,“2 líkt og sagt er í ritningunum. Mikilvægasta lexían sem tengist víngarði Drottins er því: Að öfunda, sýna ólund eða jafnvel að skaða aðra, mun ekki veita ykkur aukna upphefð, og að lítilsvirða aðra bætir ekki ykkar eigin sjálfsímynd. Verið því ljúf og þakklát fyrir að Guð er góður. Það gerir lífið skemmtilegra.

Annað atriði sem ég ætla að nefna út frá dæmisögunni, eru þau sorglegu mistök sem menn gætu gert, að sleppa því að taka á móti laununum í lok, hvers dags því þeir væru of uppteknir af fyrri vandamálum þess dags. Það segir ekki að einhver hafi kastað peningi sínum í andlit eigandans og stormað burtu auralaus, en það gæti allt eins hafa gerst.

Kæru bræður og systur, það sem gerðist í sögunni að morgni, að hádegi eða á miðjum degi, ætti að falla í skugga hinna rausnarlegu launa sem greidd voru í lok dags. Fyrirmynd trúar er að sækja fram, starfa áfram og ljúka verkinu og láta armæðu liðinna stunda ‒ raunverulegrar eða ímyndaðrar ‒ falla í skugga hinna endanlegu launa. Dveljið ekki við eldri vandamál eða gremju ‒ hvorki hvað sjálf ykkur varðar eða náunga ykkar, eða jafnvel þessa sönnu og lifandi kirkju, gæti ég bætt við. Stórfengleiki lífs ykkar, lífs náunga ykkar og fagnaðarerindis Jesú Krists verður opinberaður á efsta degi, jafnvel þótt slíkur mikilleiki hafi áður verið öllum öðrum ókunnugur. Takið ekki andköf yfir einhverju sem gerst hefur að morgni, þegar Guð af náð sinni reynir að launa ykkur síðdegis ‒ hvert sem starfsfyrirkomulag ykkar hefur verið yfir daginn.

Við eyðum þrjóskufull dýrmætri tilfinningalegri og andlegri orku í að viðhalda minningu okkar um falska nótu sem við slógum í æsku á píanóið eða eitthvað sem maki okkar gerði fyrir 20 árum, sem við höfum einsett okkur að nota gegn honum eða henni í önnur 20 ár, eða atvik í kirkjusögu okkar, sem reyndist hvorki meira eða minna en sú barátta sem dauðlegir menn takast á við til að fá staðið undir þeim væntingum sem gerðar eru til þeirra. Og jafnvel þótt einn af þessum ófögnuðum hafi ekki átt upptök sín hjá ykkur, kann hann að verða ykkar örlög. Og hver verða svo launin fyrir slíkt framlag, þegar Drottinn víngarðsins horfir í augu ykkar og reikningsskil verða gerð í lok okkar jarðneska dags.

Og það leiðir að þriðja og síðasta atriðinu. Þessi dæmisaga ‒ líkt og á við um allar dæmisögur ‒ er í raun ekki um verkamenn og laun þeirra, fremur en aðrar eru um sauði og hafra. Þetta er frásögn um góðleika Guðs, þolinmæði hans og fyrirgefningu og friðþægingu Drottins Jesú Krists. Þetta er frásögn um örlæti og meðaumkun. Þetta er frásögn um náð. Hún dregur fram þá hugmynd sem ég heyrði fyrir mörgum árum, um að Guð nyti þess mest að vera Guð af þeim unaði sem fælist í því að sýna miskunn, einkum þeim sem síst eiga þess von og finnst oft að þeir verðskuldi hana ekki.

Ég veit ekki hverjir meðal okkar mörgu áheyrenda í dag hafa þörf fyrir þann boðskap fyrirgefningar sem felst í dæmisögu þessari, en þótt þið teljið það um seinan, að tækifærin séu glötuð, að þið hafið gert of mörg mistök eða þið hafið ekki hæfileikann til þess, eða að þið hafið fjarlægst heimili ykkar, fjölskyldu og Guð of mikið, þá ber ég vitni um að þið eruð ekki utan guðlegrar elsku. Þið getið ekki sokkið svo djúpt að geislar hins óendanlegs ljóss friðþægingar Krists nái ekki til ykkar.

Hvort sem þið eruð enn ekki okkar trúar eða voruð það eitt sinn og hurfuð frá, þá er ekkert sem þið hafið gert sem ekki er hægt að leiðrétta. Það er enginn vandi sem ekki er hægt að sigrast á. Það er enginn draumur sem um tíma og eilífð fær ekki ræst. Jafnvel þótt ykkur finnist þið vera týnd og síðasti verkamaður hinnar elleftu stundar, þá gefur Drottinn víngarðsins merki: „[Gangið] ... með djörfung að hásæti náðarinnar,“3 og fallið að fótum hins heilaga Ísraels. Komið að borði Drottins og endurnærist „endurgjaldslaust.“4

Ég hvet sérstaklega eiginmenn og feður, prestdæmishafa og verðandi prestdæmishafa, með orðum Lehís: „Vaknið og rísið úr duftinu ... og ... verið karlmenni.“5 Oft en ekki alltaf eru það karlarnir sem einsetja sér að svara ekki kallinu: „Hver vill leggja okkur lið.“6 Konur og börn virðast oft fúsari til þess. Bræður, rísið á fætur. Gerið það sjálfra ykkar vegna. Gerið það vegna þeirra sem elska ykkur og biðja þess að þið bregðist við. Gerið það vegna Drottins Jesú Krists, sem galt hið óskiljanlega gjald fyrir þá framtíð sem hann ætlar ykkur.

Kæru bræður og systur, ykkur sem hafið notið blessana fagnaðarerindisins í mörg ár, því þið voruð svo lánsöm að finna það árla, ykkur sem hafið smám saman tileinkað ykkur fagnaðarerindið og ykkur ‒ sem eruð meðlimir eða ekki ‒ sem enn eruð hikandi, sérhverju ykkar ber ég vitni um endurnýjandi kraft kærleika Guðs og undursamlega náð hans. Hann lætur sig varða endanlega trú ykkar, ekki hvernig sú trú varð til dag frá degi.

Ef þið hafið gert sáttmála, haldið þá. Ef þið hafið ekki gert þá, gerið þá. Ef þið hafið gert þá og brotið þá, iðrist þá og bætið fyrir það. Það er aldrei of seint, svo framarlega sem meistari víngarðsins segir tíma enn inni. Ég bið ykkur að hlusta á það sem heilagur andi segir ykkur nú, einmitt á þessari stundu, að ykkur beri að taka á móti friðþægingargjöf Drottins Jesú Krists og njóta samfélags verkamanna hans. Frestið því ekki. Það er orðið áliðið. Í nafni Jesú Krists, amen.