Sleppa aðallóðsun
Apríl 2012 | Hinum miskunnsama mun miskunnað verða

Hinum miskunnsama mun miskunnað verða

Apríl 2012 Aðalráðstefna

Þegar hjörtu ykkar eru fyllt elsku Guðs, verðum við „[góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa].“

Kæru bræður og systur, fyrir nokkru barst mér bréf frá áhyggjufullri móður, sem sárbað um að rætt væri á aðalráðstefnu um efni sem væri sérstaklega sniðið að þörfum tveggja barna hennar. Gjá hafði myndast á milli þeirra og þau töluðust ekki lengur við. Móðirin varð harmþrungin. Í bréfinu fullvissar hún mig um að boðskapur á aðalráðstefnu um efnið muni sætta börn hennar og allt falla í ljúfa löð.

Hjartnæm bón þessarar góðu systur var aðeins ein af mörgum hugboðum sem ég hlaut á umliðnum mánuðum um að segja nokkur orð í dag um vaxandi áhyggjuefni ‒ ekki aðeins áhyggjuefni móður, heldur margra í kirkjunni og vissulega heimsins.

Ég hrífst af trú þessarar kærleiksríku móður um að aðalráðstefnuræða geti stuðlað að því að græða sambandið milli barna hennar. Ég er viss um að hún bindur ekki allar vonir sínar við hæfni ræðuflytjenda, heldur „á kraft Guðs orðs.” Sem hefur „kröftugri áhrif á huga fólks en … nokkuð annað.”1 Kæra systir, ég bið þess að andinn hafi áhrif á hjörtu barna þinna.

Þegar illa fer í samböndum manna á milli

Erfið og sundruð sambönd eru jafn gömul mannkyni. Til forna var það Kain sem fyrst leyfði biturð og illgirni að ná tökum á hjarta sínu. Hann fyllti sál sína af öfund og illvilja og leyfði slíkum tilfinningum að grafa um sig, þar til hann gerði það óhugsanlega ‒ myrti sinn eigin bróður og varð þar með faðir lyga Satans.2

Allt frá fyrstu tíð hefur andi öfundar og illvilja leitt til hörmulegustu atburða mannkynssögunnar. Hann sneri Sál gegn Davíð, sonum Jakobs gegn Jósef bróður sínum, Laman og Lemúel gegn Nefí og Amalikkía gegn Moróní.

Ég held að sérhver einstaklingur á jörðu hafi á einhvern hátt orðið fyrir áhrifum af anda misklíðar, gremju og hefndar. Stundum skynjum við jafnvel slíkan anda í sjáfum okkur. Þegar við erum særð, reið eða afbrýðissöm, er afar auðvelt að dæma aðra, og ætla að ásetningur gjörða þeirra sé slæmur, í þeim tilgangi að réttlæta eigin gremju.

Kenningin

Við vitum auðvitað að það er rangt. Kenningin er skýr. Við reiðum okkur öll á frelsarann; ekkert okkar getur frelsast án hans. Friðþæging Krists er algjör og eilíf. Fyrirgefning synda okkar er háð skilyrðum. Við verðum að iðrast og vera fús til að fyrirgefa öðrum. Jesús kenndi: „[Fyrirgefið] hver öðrum, því að sá, sem ekki fyrirgefur ... stendur dæmdur frammi fyrir Drottni, því að í honum býr hin stærri synd“3 og „sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.“4

Auðvitað virðast þessi orð algjörlega rökrétt ‒ þegar þau eiga við einhvern annan. Við fáum svo augljóslega séð afleiðingar sem af hljótast þegar aðrir dæma og ala á óvild. Og vissulega finnst okkur ekki gott þegar aðrir dæma okkur.

En þegar kemur að okkar eigin hleypidómum og gremju, segjum við of oft reiði okkar vera réttlætanlega og dómgreind okkar áreiðanlega og fyllilega viðeigandi. Þótt við fáum ekki séð hvað býr í hjörtum annarra, gerum við ráð fyrir að þar búi slæmur ásetningur og jafnvel slæmur einstaklingur. Við erum undanskilin þegar kemur að eigin biturð, því okkur finnst við, í okkar tilviki, hafa alla nauðsynlegar upplýsingar til að vanvirða aðra.

Páll postuli sagði í bréfi sínu til Rómverja að sá sem felldi dóma yfir öðrum ætti sér „enga afsökun.“ Um leið og við dæmum aðra, útskýrði hann, fordæmum við okkur sjálf, því engin er án syndar.5 Að neita að fyrirgefa er alvarleg synd ‒ ein þeirra sem frelsarinn varaði okkur við. Jafnvel lærisveinar Jesú „leituðu saka hver gegn öðrum og fyrirgáfu ekki hver öðrum í hjörtum sínum, og vegna þeirrar illsku var að þeim þrengt og þeir sárlega agaðir.“6

Frelsari okkar hefur rætt svo gjörla um þetta efni að lítið rúm er fyrir eigin túlkun á því. „Ég, Drottinn, mun fyrirgefa þeim, sem ég vil fyrirgefa,“ sagði hann, „en af yður er krafist, að þér fyrirgefið öllum mönnum.“7

Má ég bæta hér við neðanmáls? Þegar Drottinn gerir kröfu um að við fyrirgefum öllum mönnum, á það líka við um að fyrirgefa okkur sjálfum. Stundum er það svo, að af öllu fólki hér í heimi, er það sá sem erfiðast er að fyrirgefa ‒ og sá sem kannski hefur mesta þörf fyrir fyrirgefningu okkar ‒ sem við okkur blasir í speglinum.

Niðurstaðan

Í raun er hægt að segja í tveimur orðum það sem læra þarf um efnið að dæma ekki aðra. Sé um að ræða óvild, baktal, hunsun, háðung, kala eða tilhneigingu til að skaða, gerið þá vinsamlega eftirfarandi:

Hættið strax!

Það er svona einfalt. Við verðum einfaldlega að hætta að dæma aðra og fylla þess í stað huga okkar og hjarta af kærleika til Guðs og barna hans. Guð er faðir okkar. Við erum hans börn. Við erum öll bræður og systur. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig leggja á áherslu á að dæma ekki aðra af nægilegum myndugleika og sannfæringu til að það festi rætur. Ég get vitnað í ritningarnar, ég get reynt að útlista kenninguna, og ég get jafnvel vitnað í stuðaramiða sem ég sá nýverið. Ég var fastur aftan við bíl og bílsjóri hans virtist nokkuð óheflaður, en orðin á miðanum á stuðaranum kenndu mikilvæga lexíu. Á honum stóð: „Ekki dæma mig fyrir að syndga öðruvísi en þú.“

Við verðum að átta okkur á að við erum öll ófullkomin ‒ að við erum beiningamenn frammi fyrir Guði. Höfum við ekki öll, í einn eða annan tíma, beðið bljúg um miskunn og sárbeðið um náð? Höfum við ekki þráð miskunn af allri sálu okkar ‒ að hljóta fyrirgefningu fyrir mistök okkar og drýgðar syndir?

Þar sem við erum öll háð miskunn Guðs, hvernig getum við þá að einhverju leyti neitað öðrum um þá náð sem við þráum svo innilega að njóta sjálf? Bræður og systur, ber okkur ekki að fyrirgefa, því við þráum fyrirgefningu?

Kærleikur Guðs

Er erfitt að gera það?

Já, auðvitað.

Það er ekki auðvelt að fyrirgefa sjálfum sér og öðrum. Hvað flest okkar áhrærir, krefst það mikillar breytingar á viðhorfi og hugsun ‒ já, umbreytingu hjartans. En hér koma góðu fréttirnar. Þessi „gjörbreyting hjartans“8 er nákvæmlega það sem fagnaðarerindi Jesú Krists er ætlað að ná fram í lífi okkar.

Hvernig er það gert? Með kærleika Guðs.

Þegar hjörtu okkar eru fyllt kærleika Guðs, upplifum við eitthvað gott og hreint. Við „höldum boðorð hans; og boðorð hans eru ekki þungbær. Því hver sá fær sigrað heiminn, sem fæðist af Guði.“9

Því meira sem við leyfum kærleika Guðs að ríkja yfir huga okkar og tilfinningum ‒ því meira leyfum við kærleika himnesks föður að fylla hjörtu okkar ‒ og því auðveldar mun okkur reynast að elska aðra með hinni hreinu ást Krists. Þegar við ljúkum upp hjörtum okkar fyrir ljúfri dagrenningu kærleika Guðs, mun myrkur og kuldi óvildar og öundar að lokum hverfa.

Kristur er, eins og alltaf, fyrirmynd okkar. Hann sýndi okkur veginn með kenningum sínum og lífi. Hann elskaði hina ranglátu, óhefluðu og þá sem reyndu að skaða hann og meiða.

Jesús sagði að auðvelt væri að elska þá sem elska okkur; jafnvel hinir ranglátu geta gert það. En Jesús Kristur kenndi æðra lögmál. Orð hans hljóma um aldir og eru líka fyrir okkur. Þau eru fyrir alla sem þrá að vera lærisveinar hans. Þau eru fyrir mig og ykkur: „Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður.“10

Þegar hjörtu ykkar eru fyllt elsku Guðs, verðum við „[góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið okkur].“11

Hin hreina ást Krists megnar að fjarlægja ský gremju og reiði úr augum okkar, og gera okkur kleift að sjá aðra með augum himnesks föður: Sem breiska og ófullkomna menn, sem búa yfir möguleikum og eru dýrmætari en við fáum skilið. Við verðum að elska og fyrirgefa hvert öðru, því Guð elskar okkur svo heitt.

Vegur lærisveinsins

Kæru bræður og systur, ígrundið eftirfarandi spurningar til sjálfsprófunar:

Alið þið á óvild til einhvers?

Baktalið þið aðra, jafnvel þótt það sé satt sem þið segið?

Útilokið þið aðra, haldið þeim fjarri eða refsið þeim vegna einhvers sem þeir hafa gert?

Berið þið leynda öfund í brjósti til einhvers?

Viljið þið valda einhverjum skaða?

Ef þið svarið einhverjum þessara spurninga játandi, þurfið þið að hagnýta ykkur orðin tvö, sem áður voru nefnd: Hættið strax!

Í heimi ásakana og óvinsemdar er auðvelt að finna steina til að kasta. En áður en við getum það, skulum við hugsa um orð hans sem er meistari okkar og fyrirmynd: „Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini.“12

Bræður og systur, leggjum frá okkur steinana.

Verum ljúfari.

Verum fús að fyrirgefa.

Tölum saman af friðsemd.

Látum kærleika Guðs fylla hjörtu okkar.

„[Gjörum] öllum gott.“13

Frelsarinn hefur lofað: „Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur. ... Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“14

Ættu þessi loforð ekki að nægja til að beina kröftum okkar ætíð að kærleiksverkum, fyrirgefningu og elsku í stað neikvæðrar breytni?

Við skulum, sem lærisveinar Jesú Krists, greiða gott fyrir illt.15 Leitum ekki hefndar eða leyfum reiði að ná yfirtökum.

„Því að ritað er: Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn.

En ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. …

Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.“16

Hafið í huga: Að lokum mun hinum miskunnsömu miskunnað verða.17

Hvar sem við erum, sem meðlimir kirkju Jesú Krists, skulum við auðkenna okkur sem fólk er „[ber] elsku hvert til annars.“18

Elskið hver annan

Bræður og systur, nóg er um hörmungar og sorgir í þessu lífi og því ættum við ekki að auka það með eigin þrjósku, beiskju og óvild.

Við erum ekki fullkomin.

Fólkið umhverfis okkur er ekki fullkomið.19 Fólk gerir það sem veldur leiðindum, vonbrigðum og reiði. Það verður alltaf þannig í þessu dauðlega lífi.

Við verðum þó að láta af gremju okkar. Hluti af tilgangi jarðlífsins er að læra að láta af öllu slíku. Það er háttur Drottins.

Minnist þess að á himnum eru allir þeir sem eiga þetta sameiginlegt: Þeim er fyrirgefið. Og þeir fyrirgefa.

Leggið byrði ykkar við fætur frelsarans. Látið af dómhörku. Leyfið friðþægingu Krists að umbreyta og græða hjarta ykkar. Elskið hvert annað. Fyrirgefið hvert öðru.

Hinum miskunnsama mun miskunnað verða.

Um það ber ég vitni í nafni þess er elskaði svo heitt og innilega að hann gaf okkur, vinum sínum, líf sitt ‒ í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Right
Sýna tilvísanirFela tilvísanir