2010–2019
Kraftur björgunar
Apríl 2012


Kraftur björgunar

Við getum bjargast frá leiðum illsku og óréttlætis með því að snúa okkur að kennslunni í hinum heilögu ritningum.

Ég á mjög góðan vin sem sendir mér nýtt hálsbindi til að nota í þeim hluta aðalráðstefnunnar sem ég flyt ræðu mína. Hann hefur afbragðs góðan smekk, finnst ykkur ekki?

Þessi ungi vinur minn glímir við erfiðar áskoranir. Á vissan hátt takmarka þær hann en að öðru leyti gera þær hann einstakan. Hugrekki hans sem trúboði jafnast til dæmis á við syni Mósía. Einfaldleiki trúar hans veitir sannfæringu hans afar mikla festu. Ég held að í huga Scotts sé óhugsandi að ekki séu allir meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og að allir hafi ekki lesið Mormónsbók og allir eigi ekki vitnisburð um sannleiksgildi hennar.

Leyfið mér að segja ykkur frá atburði í lífi Scotts, þegar hann fór í sínu fyrstu flugferð aleinn til að heimsækja bróður sinn. Nágranni nokkur sat nálægt Scott og heyrði samtalið sem Scott átti við sessunaut sinn:

„Hæ, ég heiti Scott. Hvað heitir þú?“

Sessunautur hans greindi frá nafni sínu.

„Við hvað starfar þú?“

„Ég er verkfræðingur.“

„Það er gott. Hvar býrð þú?“

„Í Las Vegas.“

„Við erum með musteri þar. Veist þú hvar mormónamusterið er?“

„Já. Það er falleg bygging.“

„Ert þú mormóni?“

„Nei.“

„Nú, þú ættir að vera það. Þetta er frábær trú. Hefur þú lesið Mormónsbók?”

„Nei.“

„Nú, þú ættir að gera það. Það er frábær bók.“

Ég er hjartanlega sammála Scott — Mormónsbók er frábær bók. Orðin sem spámaðurinn Joseph Smith sagði og skrifuð eru í formála Mormónsbókar hafa ætíð endurómað í huga mér: „Ég sagði bræðrunum að Mormónsbók væri réttari en allar aðrar bækur á jörðunni og burðarsteinn trúar okkar, og að maðurinn kæmist nær Guði með því að fara eftir kenningum hennar, fremur en nokkurrar annarrar bókar.“

Námsefni sunnudagaskólans á þessu ári er Mormónsbók. Megum við hljóta hvatningar af hugrökku fordæmi Scotts og deila dálæti okkar á þessari sérstöku ritningu með öðrum sem ekki eru okkar trúar, er við undirbúum okkur og tökum þátt í sunnudagaskólanum.

Ríkjandi þema Mormónsbókar kemur fram í síðasta versi fyrsta kapítula í 1 Ne. Nefí ritaði: „En sjá. Ég, Nefí, mun sýna yður fram á, að hin milda miskunn Drottins vakir yfir öllum þeim, sem hann hefur útvalið, trúar þeirra vegna, til að gjöra þá máttuga, jafnvel með krafti til frelsunar“ (1 Ne 1:20).

Mig langar að tala um hvernig Mormónsbók, sem er mild miskunn Drottins og varðveitt er til hinna síðari daga, frelsar okkur með því að kenna á hreinan og „réttari“ hátt kenningar Krists.

Margar sögur í Mormónsbók fjalla um björgun. Ferð Lehís út í óbyggðina með fjölskyldu sína fjallar um björgun frá eyðileggingu Jerúsalem. Saga Jaredítana er saga um björgun, sem og saga Múlekítanna. Alma yngri var bjargað frá synd. Hinir ungu hermenn Helamans björguðust úr orrustunni. Nefí og Lehí björguðust úr fangelsi. Þema slíkrar björgunar er skýr hvarvetna í Mormónsbók.

Það eru tvær sögur í Mormónsbók sem eru mjög líkar og kenna mikilvæga lexíu. Sú fyrri er í bók Mósía og hefst í 19. kapítula. Þar lesum við að Limí konungur hafi búið í Nefílandi. Lamanítar hófu stríð við fólk Limís. Stríðinu lauk þannig að Lamanítar leyfðu Limí konungi að stjórna fólki sínu, en það yrði ánauðugt þeim. Þetta var mjög óstöðugur friður. (Sjá Mósía 19–20.)

Þegar fólk Limís hafði fengið sig fullsatt af ofbeldi Lamaníta, sannfærði það konunginn um að fara í stríð. Þrisvar sinnum var fólk Limís sigrað. Þungar byrðar voru á það lagðar. Að lokum auðmýkti það sig og bað í kröftugri bæn til Drottins um að hann myndi bjarga því. (Sjá Mósía 21:1–14.) Vers 15 í 21. kapítula segir frá svari Drottins: „En Drottinn var tregur til að heyra hróp þeirra vegna misgjörða þeirra. Engu að síður heyrði Drottinn hróp þeirra og tók að milda hjörtu Lamaníta, svo að þeir léttu á byrðum þeirra. Samt þóknaðist Drottni ekki að bjarga þeim úr ánauð.“

Stuttu eftir að Ammon og fámennur hópur manna kom frá Sarahemla, gerðu þeir áætlun ásamt Gídeon ‒ einum af leiðtogum fólks Limís – sem bar árangur og fólkið flýðu undan oki Lamaníta. Drottinn var tregur til að heyra hróp þeirra. Hvers vegna? Vegna misgjörða þeirra.

Seinni sagan er svipuð á margan hátt en þó öðruvísi. Sú frásögn er skráð í Mósía 24.

Alma og fólk hans hafði komið sér fyrir í Helamslandi þegar her Lamaníta kom inn fyrir landamærin. Fólkið hittist og náði að komast að friðsamlegri lausn. (Sjá Mósía 23:25–29.) Nokkru síðar tóku leiðtogar Lamaníta að neyða fólk Alma til þjónustu og lagði á það þungar byrðar sem erfitt var að bera. (sjá Mósía 24:8). Í versi 13lesum við: Og svo bar við, að rödd Drottins barst til þeirra í þrengingum þeirra og sagði: Lyftið höfðum yðar og látið huggast, því að mér er kunnugt um sáttmálann, sem þér hafið gjört við mig. Og ég mun gjöra sáttmála við fólk mitt og leysa það úr ánauð.“

Fólki Alma var bjargað úr höndum Lamaníta og það gat í öryggi farið og sameinast aftur fólkinu í Sarahelma.

Hver er munurinn á fólki Alma og fólki Limís konungs? Augljóslega greinir nokkuð á milli: Fólk Alma var friðsamara og réttlátara; það hafði verið skírt og gert sáttmála við Drottin; það auðmýkti sig frammi fyrir Drottni, jafnvel áður en raunir þess hófust. Allt þetta gerði það rétt og sanngjarnt að Drottinn bjargaði því skjótt og á undursamlegan hátt frá þeim sem haldið höfðu því í ánauð. Þessar ritningar kenna okkur um kraft Drottins til björgunar.

Spádómar sem segja fyrir um líf og þjónustu Jesú Krists lofa okkur þeirri björgun sem hann muni veita. Friðþæging hans og upprisa veita okkur öllum lausn frá líkamlegum dauða og lausn frá andlegum dauða, ef við iðrumst, sem færir blessanir eilífs lífs. Guð lýsti yfir loforðum friðþægingarinnar og upprisunnar, loforðum lausnar frá líkamlegum og andlegum dauða þegar hann sagði við Móse: „Þetta er verk mitt og dýrð mín ‒ að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39).

Andstætt hinni fögru trú sem fyrir okkur liggur í heilögum ritningum sjáum við öfl veraldarhyggjunnar sem ögra hinni ævafornu trú sem fyrirfinnst í hinum heilögu ritum - ritum sem hafa veitt okkur leiðsögn í aldanna rás við að skilgreina eilíf gildi og reglur sem við getum lifað eftir í lífi okkar. Þau lýsa því yfir að kenningar Biblíunnar séu falskar og kenningar meistarans séu úreltar. Raddir þeirra gera kröfur um að sérhver maður hafi frelsi til að setja sínar eigin reglur; þau reyna að breyta rétti hinna trúuðu, andstætt því sem kennt er í ritningunum og í orðum spámannanna.

Hvílík blessun það er að hafa frásögn af þjónustu Drottins okkar og frelsara skráða í Mormónsbók sem annað vitni um kenninguna sem kennd er í Biblíunni. Hví er það mikilvægt fyrir heiminn að hafa bæði Biblíuna og Mormónsbók? Ég held að svarið sé að finna í 13. kapítula í 1 Nefí. Nefí skráði: „Og engillinn talaði til mín og mælti: Þessar síðustu heimildir, sem þú hefur séð meðal Þjóðanna [Mormónabók], munu staðfesta sannleiksgildi hinna fyrri, sem eru frá hinum tólf postulum lambsins, og þær munu leiða í ljós þau skýru og dýrmætu atriðið, sem felld hafa verið úr þeim. Og þær munu gjöra öllum kynkvíslum, tungum og lýðum kunnugt, að Guðslambið er sonur hins eilífa föður og frelsari heimsins og allir menn verða að koma til hans, að öðrum kosti geti þeir ekki frelsast.“ (ver 40).

Hvorki Biblían né Mormónsbók ein og sér er nægjanleg. Báðar eru okkur nauðsynlegar til að kenna og læra hina heilskiptu og algjöru kenningu Krists. Þörfin fyrir aðra þeirra dregur ekki úr gildi hinnar. Bæði Biblían og Mormónsbók eru nauðsynlegar fyrir okkar sáluhjálp og upphafningu. „Biblían og Mormónsbók, þegar þær eru notaðar saman, afhjúpa falskar kenningar“ („A New Witness for Christ,” Ensign, nóv. 1984, 8).

Mig langar í lokin að fjalla um tvær sögur — aðra úr Gamla testamentinu og hina úr Mormónsbók – til að sýna hversu vel bækurnar vinna saman.

Frásögnin um Abraham hefst á björgun hans frá skurðgoðadýrkun Kaldea (sjá 1 Mós 11:27–31; Abraham 2:1–4). Honum og eiginkonu hans, Saraí, var síðar bjargað frá sorgum þeirra og lofað að allar þjóðir jarðar yrðu blessaðar fyrir tilstilli niðja þeirra (sjá 1 Mós 18:18).

Gamla testamentið inniheldur frásögn af því þegar Abraham fer með Lot, frænda sinn, út úr Egyptalandi. Lot fékk að velja sér land og valdi Jórdan sléttuna og sneri tjaldi sínu í átt að Sódómu, borg mikils ranglætis. (Sjá 1 Mós 13:1–12.) Flest vandamál sem Lot lenti í síðar í lífinu, og þau voru mörg, má rekja til þessarar ákvörðunar, sem hann tók snemma, að snúa dyrum tjaldsins í átt að Sódómu.

Abraham, faðir hinna trúföstu, upplifði lífið á annan hátt. Vissulega voru margar áskoranir en líf hans var blessunarrríkt. Við vitum ekki í hvaða átt tjalddyr Abrahams sneru en það er kröftug vísbending í síðasta versi í 13. kapítula 1. Mósebókar. Þar segir: „Og Abram [eða Abraham] færði sig með tjöld sín og kom og settist að í Mamrelundi, sem er í Hebron, og reisti Drottni þar altari“ (1 Mós 13:18).

Þótt ég viti það ekki, þá trúi ég því persónulega að dyrnar á tjaldi Abrahams hafi snúið í átt að altarinu sem hann reisti Drottni. Hvernig kemst ég að þeirri niðurstöðu? Vegna þess að ég þekki söguna í Mormónsbók um leiðbeiningar Benjamíns konungs til fólks síns þegar það safnaðist saman til að heyra lokaræðu hans. Benjamín konungur bauð þeim að snúa tjalddyrum sínum í átt að musterinu. (sjá Mósía 2:1–6).

Við getum bjargast frá leiðum illsku og óréttlætis með því að snúa okkur að kennslunni í hinum heilögu ritningum. Frelsarinn er hinn mikli bjargvættur, því hann bjargar okkur frá dauða og synd (sjá Róm 11:26; 2 Ne 9:12).

Ég lýsi því yfir að Jesús er Kristur og að við getum nálgast hann með því að lesa Mormónsbók. Mormónsbók er annað vitni um Jesú Krist. Hið fyrra vitni um Jesú Krist er Gamla og Nýja testamentið ‒ eða Biblían.

Við skulum á ný minnast lýsingar vinar míns Scott á Mormónsbók: „Hún er frábær.“ Og ég vitna fyrir ykkur að mikið af stórfengleika Mormónsbókar stafar af því að hún er samhljóma hinni heilögu Biblíu, í nafni Jesú Krists, amen.