Sleppa aðallóðsun
Apríl 2012 | Hugsjón spámannanna varðandi Líknarfélagið: Trú, fjölskylda, líkn

Hugsjón spámannanna varðandi Líknarfélagið: Trú, fjölskylda, líkn

Apríl 2012 Aðalráðstefna

Trú, fjölskylda og líkn ‒ þessi þrjú einföldu orð hafa verið notuð til að lýsa hugsjón spámannanna varðandi systurnar í kirkjunni.

Á nýliðnum árum hef ég oft fengið þann innblástur að ræða um Líknarfélagið ‒ tilgang þess og eiginleika,1 gildi sögu þess,2 starf þess og samstarf við biskupa og Melkísedeksprestdæmissveitir.3 Nú virðist mikilvægt að beina athyglinni að hugsjón spámannanna varðandi Líknarfélagið.4

Rétt eins og spámenn Drottins hafa stöðugt kennt öldungum og háprestum tilgang þeirra og skyldur, þá hafa þeir miðlað hugsjón sinni varðandi Líknarfélagið. Af ráðgjöf þeirra er augljóst að tilgangur Líknarfélagsins er að auka trú og persónulegt réttlæti, styrkja fjölskyldur og heimili og finna og aðstoða nauðstadda. Trú, fjölskylda og líkn ‒ þessi þrjú einföldu orð hafa verið notuð til að lýsa hugsjón spámannanna varðandi systurnar í kirkjunni.

Frá upphafi endurreisnarinnar hafa spámenn miðlað sýn sinni um sterkar, trúfastar og ákveðnar konur sem skilja eilíft gildi sitt og tilgang. Þegar spámaðurinn Joseph Smith stofnsetti Líknarfélagið hvatti hann fyrsta forseta þess til að „vaka yfir félaginu, annast hina fátæku ‒ uppfylla þarfir þeirra og sinna hinum fjölmörgu störfum félagsins.“5 Hann sá félagið fyrir sér sem „útvalið félag, aðskilið frá allri illsku heimsins.“6

Brigham Young, annar spámaður kirkjunnar, bauð ráðgjöfum sínum og Tólfpostulasveitinni að fela biskupum að „sjá um að [systurnar] stofnsettu Líknarfélag kvenna í hinum mismunandi deildum.“ Hann bætti við: „Sumir telja þetta ef til vill smávægilegt en sú er ekki raunin.“7

Síðar sagði Joseph F. Smith forseti að andstætt samtökum heimsins, sem „karlar og konur hafa stofnað,“ þá er Líknarfélagið „guðlega stofnað, guðlega skipað, guðlega innleitt og vígt af Guði.“8 Joseph Fielding Smith forseti sagði systrunum að þeim hefði „verið gefinn kraftur og vald til að gera marga stórkostlega hluti.“9 Hann sagði: „Þið eruð meðlimir stórkostlegustu kvensamtaka heimsins, samtaka sem eru nauðsynlegur hluti af ríki Guðs á jörðu og sem eru hönnuð og starfrækt á þann hátt að þau hjálpa trúföstum meðlimum þess að öðlast eilíft líf í ríki föður okkar.“10

Viðamikið áhrifasvið

Á hverju ári bætast hundruð þúsunda kvenna og stúlkna við þennan sívaxandi „hring systra.“11 Hvar svo sem systirin býr eða hvar sem hún þjónar, mun hún ætíð tilheyra og tengjast Líknarfélaginu.12 Æðsta forsætisráðið hefur sagt að vegna mikilvægi Líknarfélagsins sé ósk þess sú að sérhver stúlka byrji undirbúning sinn fyrir Líknarfélagið löngu áður en hún verður 18 ára.13

Líknarfélagið er ekki dagskrá. Það er opinber hluti af kirkju Drottins og er „vígt af Guði“ til að kenna, styrkja og innblása systur í takmarki þeirra varðandi trú, fjölskyldu og líkn. Líknarfélagið er lífsháttur fyrir Síðari daga heilagra konur og áhrif þess ná langt út fyrir sunnudagaskólabekk eða félagslega samkomu. Það fylgir forskrift kvenlærisveina sem þjónuðu með Drottni Jesú Kristi og postulum hans í kirkju hans fyrr á tímum.14 Okkur hefur verið kennt að „það er skylda konunnar að tileinka sér þær dyggðir sem Líknarfélagið stuðlar að, rétt eins og það er karlmanninum skylt að fylgja þeirri forskrift að persónuleika sem prestdæmið hvetur til.“15

Þegar spámaðurinn Joseph Smith stofnaði Líknarfélagið sagði hann konunum að þær ættu að „hjálpa hinum fátæku“ og „bjarga sálum.“16 Í þeirri ábyrgð að „bjarga sálum,“ var systrunum falið að skipuleggja og vinna áhrifamikið starf. Fyrsti forseti Líknarfélagsins var settur í embætti til að útskýra ritningarnar og Líknarfélagið ber enn grundvallarábyrgð á kennslu í kirkju Drottins. Þegar Joseph Smith sagði systrunum að Líknarfélagið myndi búa þær undir „forréttindi, blessanir og gjafir prestdæmisins“17 hófst sáluhjálparstarf Drottins hjá þeim. Að bjarga sálum felur í sér að miðla fagnaðarerindinu og taka þátt í trúboðsstarfi. Það felur í sér þátttöku í musterisverki og ættfræðistörfum. Það felur í sér að gera allt sem hægt er til að verða andlega og stundlega sjálfbjarga.

Öldungur John A. Widtsoe lýsti yfir að Líknarfélagið veiti „líkn í örbirgð, líkn í veikindum, líkn í efasemdum, líkn í fáfræði, líkn í öllu því sem kemur í veg fyrir gleði og framþróun kvenna. Hve stórkostlegt hlutverk!”18

Boyd K. Packer forseti hefur líkt Líknarfélaginu við „verndarvegg.“19 Ábyrgðin við að vernda systur og fjölskyldur þeirra eykur mikilvægi umönnunnar og þjónustu heimsóknarkennara og sýnir vilja okkar til að muna eftir sáttmálum okkar við Drottin. Er við „þjónum hinum þurfandi og þjáðu,“ fylgjumst við samhliða biskupum með stundlegri og andlegri þörf hinna heilögu.20

Spencer W. Kimball forseti sagði: „Það eru margar systur sem lifa í tötrum — andlegum tötrum. Þær eiga rétt á dásamlegum skikkjum, andlegum skikkjum … Það eru ykkar forréttindi að fara inn á heimili og skipta út tötrunum fyrir skikkjur.“21 Harold B. Lee forseti sagði frá sýn sinni. Hann sagði: „Sjáið þið ekki hvers vegna Drottinn hefur lagt það á … Líknarfélagið að heimsækja þessi heimili? Vegna þess að fyrir utan meistarann sjálfan, er enginn í kirkjunni sem hefur ástúðlegra viðmót og fyllri skilning á hjörtum og lífum þessara einstaklinga.“22

Joseph F. Smith forseti aðvaraði Líknarfélagssystur og leiðtoga þeirra er hann sagði að hann vildi ekki „sjá það gerast að Líknarfélagið flykti sér um eða gengi til liðs við önnur samtök stofnuð af konum ... og missti þannig eigið auðkenni. “ Hann vænti þess af systrunum að þær „leiddu heiminn og … einkum konur heimsins, í öllu lofsverðu, öllu guðlegu, öllu upplyftandi og öllu því sem er hreinsandi fyrir mannanna börn.“23 Ráðleggingar hans leggja áherslu á þörfina á að útrýma hefðum, tískustraumum og stefnum og innleiða venjur sem eru samhljóma tilgangi Líknarfélagsins.

Leiðtogar sem leita opinberunar geta tryggt að sérhver fundur, lexía, bekkur, athöfn og starfsemi Líknarfélagsins uppfylli þann tilgang sem að var stefnt með stofnun þess. Félagslyndin, vinskapurinn og einingin sem við þráum mun verða sá góði árangur sem næst með því að þjóna með Drottni í verki hans.

Uppfylla hugsjón spámannanna

Thomas S. Monson forseti og ráðgjafar hans vitnuðu nýlega: „Drottinn hefur endurreist fyllingu fagnaðarerindisins með spámanninum Joseph Smith og Líknarfélagið er mikilvægur hluti þeirrar endurreisnar.“ Æðsta forsætisráðið gaf nýlega út og dreifði um allan heim bókinni Daughters in My Kingdom: The history and Work of Relief Society til vitnis um þá þrá að varðveita hina „dýrðlegu arfleifð“ Líknarfélagsins.Á síðum þeirrar bókar getum við fundið mynstur og fordæmi systra og bræðra er vinna saman heima og kirkjunni og við lærum reglur um hver við erum, hverju við trúum og hvað okkur ber að vernda. Við höfum verið hvött af Æðsta forsætisráðinu til að lesa þessa mikilvægu bók og „leyfa sígildum sannleika og hvetjandi fordæmum að hafa áhrif á líf [okkar].“24

Hugsjón spámannanna verður að veruleika er systurnar vinna enn samstilltari að tilgangi Líknarfélagsins. Kimball forseti sagði: „[Líknar]félag þetta býr yfir krafti sem enn er ekki fyllilega nýttur til að efla heimili Síonar og byggja upp ríki Guðs ‒ og hann verður það ekki fyrr en bæði systurnar og prestdæmið skilja hugsjón Líknarfélagsins.“25 Hann spáði að „mikið af vexti kirkjunnar á efstu dögum muni að stórum hluta verða rakinn til þess að góðar konur í heiminum (sem oft búa yfir djúpu andríki) munu laðast að kirkjunni í fjöldavís. Þetta mun gerast því að litið verður á konurnar í kirkjunni … sem aðgreindar og öðruvísi — á gleðilegan hátt – en aðrar konur í heiminum“.26

Ég er þakklát fyrir hugsjón spámannanna varðandi Líknarfélagið. Ég, rétt eins og Gordon B. Hinckley forseti, „er þess fullviss að hvergi er neitt annað félag sambærilegt Líknarfélagi þessarar kirkju.“27 Það er ábyrgð okkar nú að verða samhljóma hugsjón spámannanna varðandi Líknarfélagið er við leitumst við að auka trú, styrkja fjölskyldur og veita líkn.

Ég lýk með orðum Lorenzo Snow forseta: „Framtíð [Líknar]félagsins er uppfull af fyrirheitum. Er kirkjan vex, mun gagnsemi þess aukast samhliða og það verður jafnvel áhrifaríkara til góðs en það hefur áður verið.“28 Hann sagði við systurnar sem hjálpuðu til við framgang ríkis Guðs: „Er þið hafið tekið þátt í þessari vinnu, þá munuð þið vissulega taka þátt í sigri verksins og í upphafningu og dýrð sem Drottinn mun veita trúföstum börnum sínum.“29 Um þessa hugsjón ber ég einnig vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Left
Right
Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. Sjá Julie B. Beck, „Fulfilling the Purpose of Relief Society,” Líahóna og Ensign, nóv. 2008, 108–11.

  2. Sjá Julie B. Beck, BYU Women’s Conference address (29. apríl 2011), http://ce.byu.edu/cw/womensconference/archive/2011/pdf/JulieB_openingS.pdf; „What I Hope My Granddaughters (and Grandsons) Will Understand about Relief Society,“ Líahóna og Ensign, nóv. 2011, 109–13; „Relief Society: A Sacred Work,” Líahóna og Ensign, nóv. 2009, 110–14.

  3. Sjá Julie B. Beck, „Why We Are Organized into Quorums and Relief Societies” (Brigham Young University devotional address, 17. jan. 2012), speeches.byu.edu.

  4. Boðskapur þessi telur ekki upp alla spádómlegar yfirlýsingar um Líknarfélagið. Þetta er einungis dæmi um sýn þeirra og leiðbeiningar. Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society, aðalráðstefnur og annað efni sem kirkjan hefur gefið út inniheldur frekari kennslu um þetta efni.

  5. Joseph Smith, í Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society (2011), 13.

  6. Joseph Smith, í Daughters in My Kingdom, 15.

  7. Brigham Young, í Daughters in My Kingdom, 41.

  8. Joseph F. Smith, í Daughters in My Kingdom, 65–66.

  9. Joseph Fielding Smith, í Daughters in My Kingdom, 142.

  10. Joseph Fielding Smith, í Daughters in My Kingdom, 97.

  11. Boyd K. Packer, í Daughters in My Kingdom, 85.

  12. Sjá Boyd K. Packer, „The Circle of Sisters,” Ensign, nóv. 1980, 110.

  13. Sjá bréf Æðsta forsætisráðsins, 19. mars 2003 og 23. febr. 2007.

  14. Sjá Daughters in My Kingdom, 3–6.

  15. Boyd K. Packer, í Daughters in My Kingdom, 16.

  16. Joseph Smith, í Daughters in My Kingdom, 17.

  17. Joseph Smith, í History of the Church, 4:602.

  18. John A. Widtsoe, í Daughters in My Kingdom, 25.

  19. Boyd K. Packer, Ensign, nóv. 1980, 110.

  20. Joseph Fielding Smith, í Daughters in My Kingdom, 142.

  21. Spencer W. Kimball, í Daughters in My Kingdom, 117.

  22. Harold B. Lee, „The Place of Relief Society in the Welfare Plan,” Relief Society Magazine, des. 1946, 842.

  23. Joseph F. Smith, í Daughters in My Kingdom, 66.

  24. The First Presidency, í Daughters in My Kingdom, ix.

  25. Spencer W. Kimball, í Daughters in My Kingdom, 142.

  26. Spencer W. Kimball, í Daughters in My Kingdom, 95.

  27. Gordon B. Hinckley, í Daughters in My Kingdom, 160.

  28. Lorenzo Snow, í Daughters in My Kingdom, 19.

  29. Lorenzo Snow, í Daughters in My Kingdom, 7.