Sleppa aðallóðsun
Apríl 2012 | Tilgangur prestdæmisþjónustu

Tilgangur prestdæmisþjónustu

Apríl 2012 Aðalráðstefna

Að skilja tilgang fagnaðererindisins og tilgang prestdæmisins hjálpar okkur að greina guðlegan tilgang alls þessa.

Mér þykir vænt um að fá að vera með ykkur prestdæmisbræðrunum og fagna með ykkur í undrun og fegurð fagnaðarerindis Jesú Krists. Ég hrósa ykkur fyrir trú ykkar, góð verk og réttlæti.

Við erum tengdir saman böndum, því allir höfum við verið vígðir til prestdæmis Guðs, af þeim sem treyst hefur verið fyrir helgu valdi og krafti prestdæmisins. Það er engin venjuleg blessun. Það er helg ábyrgð.

Kraftur tilgangsins

Nýverið hef ég verið að ígrunda tvær mikilvægar kallanir sem ég hlaut sem prestdæmishafi í kirkjunni.

Þá fyrri hlaut ég þegar ég var djákni. Við fjölskylda mín sóttum kirkjugrein í Frankfurt í Þýskalandi. Við vorum blessuð með mörgu dásamlegu fólki í greininni okkar. Einn þeirra var greinarforseti okkar, bróðir Landschulz. Ég dáðist mjög að honum, jafnvel þótt hann virtist alltaf vera frekar alvarlegur, afar embættislegur, og flestum stundum íklæddur svörtum jakkafötum. Ég minnist þess sem piltur að hafa gert gys að því með vinum mínum hve gamaldags greinarforseti okkar væri.

Það vekur mér hlátur að hugsa um þetta núna, því að afar líklegt er að æskufólkið okkar nú líti mig sömu augum.

Sunnudag einn spurði Landschulz forseti hvort hann gæti átt við mig orð. Fyrsta hugsunin var: „Hvað gerði ég af mér?” Í huganum fór ég yfir allt sem ég gæti hafa gert sem hefði getað blásið greinarforsetanum í brjóst nauðsyn þessa djáknaspjalls.

Landschulz forseti bauð mér inn í litla kennslustofu ‒ í kapellu okkar var ekki skrifstofa fyrir greinarforsetann ‒ og þar færði hann mér þá köllun að þjóna sem forseti djáknasveitarinnar.

„Þetta er mikilvæg köllun,” sagði hann, og gaf sér síðan tíma til að segja hvers vegna. Hann útskýrði hvers hann og Drottinn væntu af mér og hvernig ég gæti fengið hjálp.

Ég man ekki eftir öllu sem hann sagði, en ég man mjög vel hvernig mér leið. Helgur, guðlegur andi fyllti hjarta mitt er hann talaði. Ég skynjaði að þetta væri kirkja frelsarans. Og ég skynjaði að köllunin sem hann færði mér væri innblásin af heilögum anda. Ég man að þegar ég gekk út úr litlu kennslustofunni fannst mér ég aðeins hærri en áður.

Liðin eru 60 ár frá þessum degi og ég minnist enn þessarar tilfinningar trausts og elsku.

Þegar ég var að hugsa sum þessa reynslu, reyndi ég að muna hve djáknarnir voru margir í greininni á þessum tíma. Eftir því sem ég best man, þá voru þeir tveir. En það kunnu þó að vera miklar ýkjur.

En það skipti í raun engu hvort það var einn djákni eða margir. Ég fann til virðingar og ég vildi þjóna af bestu getu og hvorki valda greinarforseta mínum né Drottni vonbrigðum.

Mér er nú ljóst að greinarforsetinn hefði svo auðveldlega getað lagt minna í þetta þegar hann kallað mig í stöðuna. Hann hefði einfaldlega getað sagt mér í ganginum eða á prestdæmisfundi að ég væri nýi sveitarforseti djáknanna.

Þess í stað gaf hann sér tíma og hjálpaði mér ekki aðeins að skilja hvað mér bæri að gera í kölluninni, heldur líka það sem mikilvægara var hvers vegna.

Því gleymi ég aldrei.

Kjarni þessarar frásagnar er ekki aðeins að greina frá því hvernig veita á kallanir í kirkjunni (þótt þetta hafi verið dásamleg lexía um hvernig á að gera það). Þetta er mér fordæmi um hinn knýjandi kraft prestdæmisstjórnunar sem glæðir andann og hvetur til dáða.

Stöðugt þarf að minna okkur á þær eilífu ástæður sem liggja að baki því sem okkur er boðið að gera. Grundvallarreglur fagnaðarerindisins þurfa að vera hluti af lífsmynstri okkar, jafnvel þótt það þýði að við þurfum stöðugt að vera að læra þær. Það merkir ekki að slíkt ferli þurfi að vera leiðinlegt stagl. Við ættum fremur, þegar við kennum grundvallarreglur á heimili okkar eða í kirkjunni, að láta áhuga okkar á fagnaðarerindinu og eldmóð vitnisburðar okkar vekja ljós, hlýju og gleði í hjörtum þeirra sem við kennum.

Við höfum allir, allt frá hinum nývígða djákna til hins elsta háprests, lista yfir hvað við getum gert og ættum að gera í prestdæmisábyrgð okkar. Skylduverkin eru mikilvæg í starfi okkar og þeim þarf að sinna En það er tilgangurinn að baki skylduverkunum sem vekur eldmóð og kraft prestdæmisins.

Verkefni prestdæmisþjónustunnar sýna hvað gera þarf. Tilgangurinn innblæs sálina.

Verkefnin upplýsa, en tilgangurinn umbreytir.

Fjöldi „góðra” hluta sem gefa þarf.

Aðra prestdæmisköllun sem ég hef ígrundað fékk ég mörgum árum síðar þegar ég hafði sjálfur stofnað fjölskyldu. Við höfðum flutt aftur til Frankfurt, Þýskalandi, og ég hafði nýverið fengið stöðuhækkun sem var frek á tíma og athygli. Á þessum annasama tíma í lífi mínu veitti öldungur Joseph B. Wirthlin mér köllun til þjónustu sem stikuforseti.

Meðan á viðtalinu við hann stóð komu margar hugsanir upp í hugann og ekki hvað síst áhyggur af því að ég hefði ekki þann tíma sem köllunin krefðist. Þótt ég fyndi til auðmýktar og heiðurs yfir kölluninni, velti ég aðeins fyrir mér hvort ég gæti tekið á móti henni. En það var aðeins skammvin hugsun, því ég vissi að öldungur Wirthlin var kallaður af Guði og að hann væri að framfylgja verki Drottins. Hvað annað gat ég gert en að taka á móti henni?

Stundum þurfum við að stíga út í myrkrið í trú og trausti á að Guð muni sjá til þess að við stígum þá á trausta jörð. Og ég tók því fús á móti henni, viss um að Guð yrði með mér.

Á fyrri árum þessarar köllunar nutum við þeirra forréttinda sem stika að hljóta þjálfun frá sumum hæfustu kennurum og leiðtogum kirkjunnar ‒ menn líkt og öldungur Russell M. Nelson og Thomas S. Monson forseti komu á svæðið okkar. Kennsla þeirra var eins og dögg af himni og innblástur fyrir okkur. Ég á enn minnispunktana sem ég skráði á þessum þjálfunarfundum. Þessir bræður veittu okkur skilning á merkingu þess að stofna ríki Guðs með því að byggja upp persónulegan vitnisburð og efla fjölskyldur. Þeir hjálpuðu okkur að skilja hvernig á að hagnýta sér sannleika og reglur fagnaðarerindisins á okkar sérstaka tíma. Með öðrum orðum hjálpuðu þessir innblásnu leiðtogar okkur að skilja tilgang fagnaðarerindisins og síðan urðum við að bretta upp ermarnar og taka til starfa.

En fyrr en varði áttuðum við okkur á að það var fjölmargt gott sem stikurforsætisráð gat komið í verk ‒ svo margt í raun, að ef við forgangsröðuðum ekki af innblæstri, hefði það mikilvægasta getað farið framhjá okkur. Forgangsröðun verkanna sköpuðu togstreitu og drógu athygli okkar frá sýninni sem bræðurnir miðluðu okkur. Það var margt „gott” hægt að gera, en misjafnlega mikilvægt.

Okkur lærðist mikilvæg lexía: Sú staðreynd að eitthvað sé gott er ekki næg ástæða til að helga því tíma okkar og krafta. Verk okkar, frumkvæði og áætlanir ættu að vera innblásin af og grundvölluð á tilgangi þjónustu prestdæmisins, en ekki áberandi tískusveiflum eða stundaráhuga. Að öðrum kosti getur það dregið úr árangri okkar og þrótti og fest okkur í eigin viðfangsefnum, andlegum eða stundlegum, sem ekki falla algjörlega að lærisveinshlutverkinu.

Bræður, við vitum allir að það þarf sjálfsaga til þess að einbeita sér stöðugt að því sem mestan kraft hefur til að auka elsku okkar til Guðs og samferðafólks okkar, styrkja hjónabönd og fjölskyldur og byggja upp ríki Guðs á jörðu. Líkt og stundum þarf að sniðla greinamikið og laufskrúðugt ávaxtatré, þá þurfum við reglubundið að leiðrétta líf okkar til að tryggja að við notum tíma okkar og orku í að starfa að okkar raunverulega tilgangi ‒ að „bera góðan ávöxt“!1

Þið eruð ekki einsamlir

Hvernig vitum við þá hvað ber að velja? Við berum þá ábyrgð að ákveða það fyrir okkur sjálfa. En okkur er boðið að læra ritningarnar af kostgæfni, hlíta orðum spámannanna, og gera það af fullri alvöru í trúarbæn.

Bræður, Guð er trúfastur. Hann mun gefa okkur frið í huga og hjarta, með heilögum anda, varðandi þá stefnu sem okkur ber að taka á hverju æviskeiði okkar.

Ef hjarta okkar er hreint ‒ ef við leitum ekki eigin dýrðar, heldur dýrðar almáttugs föður, ef við leitumst við að gera vilja hans, ef við þráum að blessa fjölskyldu okkar og samferðafólk ‒ þá munum við ekki ganga einir. Líkt og Monson forseti hefur oft sagt við okkur: „Ef við erum í erindum Drottins, eigum við rétt á hjálp hans.”2

Faðir ykkar á himnum „mun fara fyrir ykkur. [Hann] mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi [hans] mun vera í hjörtum yðar og englar [hans] umhverfis yður, yður til stuðnings.”3

Máttur framkvæmdar

Kæru bræður, guðlegar blessanir prestdæmisþjónustu verða virkar með kostgæfnu starfi, fúsleika okkar til að fórna og þrá okkar til að gera hið rétta. Við ættum að hafa áhrif, en verða ekki aðeins fyrir áhrifum. Prédikun er í lagi, en ræður sem leiða ekki til verka eru líkt og eldur sem ekki hitar eða vatn sem ekki seður þorsta.

Það er með því að tileinka sér kenningar sem hinn hreinsandi eldur fagnaðarerindisins vex og kraftur prestdæmisins fágar sálir okkar.

Thomas Edison, sá maður sem lýsti upp heiminn með glóandi ljósi, sagði „gildi hugmyndar felast í hagnýtingu hennar.”4 Kenning fagnaðarerindisins verður á líkan hátt dýrmætari þegar hún er hagnýtt.

Við megum ekki láta kenningu prestdæmisins liggja í dvala í hjörtum okkar og vera óvirka í lífi okkar. Ef hjónaband eða fjölskylda þarfnast björgunar ‒ hugsanlega ykkar eigin ‒ bíðum þá ekki og sjáum til. Þökkum heldur Guði fyrir sæluáætlun hans, sem felur í sér trú, iðrun, fyrirgefningu og nýtt upphaf. Þegar við hagnýtum okkur kenningar prestdæmisins, verðum við hæfir eiginmenn, feður og synir, sem skilja tilgang prestdæmisins og kraft þess til að enduheimta og tryggja fegurð og heilagleika eilífra fjölskyldna.

Aðalráðstefna er ætíð góður tími til að hlusta og líka framkvæma. „Verðið [því] gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess.”5 Bræður, ég býð ykkur að ígrunda þau orð sem þjónar Guðs hafa mælt þessa helgi. Krjúpið síðan á kné. Biðjið Guð, okkar himneska föður, að upplýsa huga ykkar og snerta hjarta ykkar. Ákallið Guð um leiðsögn í ykkar daglega lífi og í kirkjuábyrgð ykkar og í þeim sérstöku erfiðleikum sem þið glímið við á þessum tíma. Fylgið innblæstri andans ‒ dragið það ekki. Ef þið gerið allt þetta, heiti ég ykkur að Drottinn mun ekki láta ykkur eftir eina.

Halda áfram af þolinmæði

Við vitum að hlutirnir fara ekki alltaf eins og til var ætlast, þrátt fyrir góðan ásetning okkar. Við gerum mistök bæði í daglegu lífi og í prestdæmsiþjónustu okkar. Stundum hrösum við og okkur verður á.

Þegar Drottinn býður okkur að „[halda] … áfram af þolinmæði, þar til [við verðum] fullkomnaðir,”6 er hann að segja okkur að það krefjist tíma og þolgæðis. Að skilja tilgang fagnaðarerindisins og tilgang prestdæmisins hjálpar okkur að greina guðlegan tilgang alls þessa. Það veitir okkur hvatningu og styrk til að gera hið rétta, jafnvel þegar það er erfitt. Að einbeita sér að því að lifa eftir grundvallarreglum fagnaðarerindisins, mun blessa okkur með skýrleika, visku og stefnufestu.

„Eigum við ekki að halda áfram í þágu svo mikils málstaðar?“7 Jú, bræður, gerum það!

Með leiðsögn heilags anda munum við læra af mistökum okkar Ef við hrösum, stöndum við upp. Ef okkur verður á, höldum við áfram. Við munum aldrei gefa eftir; við munum aldrei gefast upp.

Við munum, sem öflugt bræðralag hins eilífa prestdæmis Guðs, standa saman, hlið við hlið, með einbeittum augum að grundvallarreglum hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists, og þjóna Guði og samferðafólki okkar af þakklæti, eldmóði og kærleika.

Guð lifir!

Kæru bræður, ég ber vitni í dag um að Guð, faðirinn, og sonur hans, Jesús Kristur, lifa. Þeir eru raunverulegir! Þeir eiga sér tilveru!

Þið eruð ekki einir. Faðir ykkar á himnum lætur sér annt um ykkur og þráir að blessa ykkur og efla í réttlæti.

Verið vissir um að Guð talar til mannkyns á okkar tímum. Hann mun tala til ykkar!

Spámaðurinn Joseph Smith sá það sem hann sagðist hafa séð. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er endurreist á jörðu með krafti og valdi almáttugs Guðs.

Bæn mín er að við, sem prestdæmishafar hans, munum ætíð vera samhljóma tilgangi þjónustu prestdæmisins og hagnýta okkur reglur hins endurreista fagnaðarerindis, til að umbreyta okkur og þeim sem við þjónum.

Þegar við gerum það, mun hinn óendanlegi kraftur friðþægingarinnar hreinsa og fága anda okkar og persónuleika, þar til við verðum þeir menn sem okkur er ætlað að verða. Um þetta vitna ég í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir