2010–2019
Varðveita hið heilaga
Apríl 2012


Varðveita hið heilaga

Hið heilaga á að meðhöndla af meiri aðgát, gefa því meiri gaum og sýna því meiri lotningu.

Um 1.500 árum fyrir Krist dróst fjárhirðir nokkur að brennandi runna í hlíðum Hóreb fjallsins. Þessi guðdómlegu kynni voru upphafið að umbreytingu Móse, frá því að vera fjárhirðir í að verða spámaður, og verk hans breyttist frá því að gæta hjarðar yfir í að safna saman Ísrael. Þrettánhundruð árum síðar varð ungur prestur í konungshirð nokkurri altekinn af andlegum vitnisburði dauðadæmds spámanns. Þau kynni urðu upphafið að þróun Alma frá því að vera borgaralegur þjónn í að verða þjónn Guðs. Nærri 2.000 árum síðar fór 14 ára gamall drengur út í skóg í leit að svari við einlægri spurningu. Það sem mætti Joseph Smith þar beindi honum á veg spámanna og endurreisnar.

Líf Móse, Alma og Josephs Smith tók algjörum breytingum vegna kynna þeirra af guðdómnum. Þessi atvik styrktu þá svo, að þeir urðu trúfastir Drottni og verki hans allt sitt líf, þrátt fyrir þá yfirþyrmandi andstöðu og erfiðu reynslu sem á eftir fylgdi.

Vera má að upplifun okkar af hinu guðlega sé ekki eins beinskeytt eða tilkomumikil, né áskoranir okkar eins óvænlegar. En eins og með spámennina veltur styrkur okkar á því að þekkja, muna eftir og varðveita helgi þess sem við meðtökum að ofan.

Valdsumboð, lyklar og helgiathafnir hafa verið endurreist á jörðu á okkar tíma. Einnig eru hér ritningar og sérstök vitni. Þeir sem leita Guðs geta látið skírast til fyrirgefningar syndanna og fengið staðfestingu „með handayfirlagningu til skírnar með eldi og heilögum anda“ (K&S 20:41). Með þessum endurreistu gjöfum munu guðdómleg kynni okkar að mestu fela í sér þriðja meðlim guðdómsins, heilagan anda.

Innst í sál mér andinn talar, undur blítt og hljótt.

Leiðsögn fæ ég ljósan dag og ljúfa nótt.

(„The Still Small Voice,” Children’s Songbook, 106)

Lát þinn anda leiða hér.

Lát hann kenna eilíft kver,

veita vitnisburð um Krist,

visku kenna af hjartans lyst.

(„Let the Holy Spirit Guide,” Hymns, nr. 143)

Við finnum hljóðu, kyrrlátu röddina hvísla að anda okkar er við leitum svara frá Guði. Þær tilfinningar ‒ þau áhrif – eru svo eðlileg og svo hljóðlát að vera má að við tökum ekki eftir þeim eða teljum þau röksemd eða innsæi. Hvert þessara boða vitnar um persónulegan kærleik Guðs og umhyggju hans fyrir hverju barna sinna og þeirra eigin dauðlegu tilvist. Það er tvíþættur tilgangur í því að hugleiða daglega og skrá áhrif andans, það hjálpar okkur (1) að gera okkur ljós persónuleg kynni okkar af hinu guðlega og (2) að varðveita þau fyrir okkur sjálf og afkomendur okkar. Með því að skrá þau er það einnig formleg staðfesting á þakklæti okkar til Guðs, því „í engu misbýður maðurinn Guði, eða gegn engum tendrast heilög reiði hans, nema þeim, sem ekki játa hönd hans í öllu“ (K&S 59:21).

Um það sem við meðtökum með andanum sagði Drottinn: „Hafið hugfast, að það sem að ofan kemur er heilagt“ (K&S 63:64). Staðhæfing hans er meira en áminning, hún er einnig skilgreining og útskýring. Ljós og þekking frá himni eru heilög. Heilög vegna þess að himinninn er uppspretta þess.

Heilagleiki þýðir það sem er verðugt lotningar og virðingar. Með því að útnefna eitthvað sem heilagt er bendir Drottinn á að það hafi meira gildi og forgang en annað. Hið heilaga á að meðhöndla af meiri aðgát, gefa því meiri gaum og sýna því meiri lotningu. Heilagleiki vegur hátt meðal himneskra gilda.

Það sem er Guði heilagt verður okkur heilagt eingöngu með því að við iðkum valfrelsi; sérhver verður að velja að meðtaka það sem Guð skilgreinir sem heilagt og varðveita helgi þess. Hann sendir ljós og þekkingu frá himni. Hann býður okkur að meðtaka og meðhöndla það sem heilagt.

En „andstæður eru ... í öllu“ (2 Ne 2:11). Andstæðan við heilagleika er guðlast eða veraldarhyggja ‒ það sem er stundlegt eða veraldlegt. Hið veraldlega keppir stöðugt við hið heilaga um athygli okkar og forgang. Þekking á hinu veraldlega er okkur nauðsynleg í okkar daglega jarðneska lífi. Drottinn býður okkur að leita lærdóms og visku, að nema og læra úr hinum bestu bókum og að kynnast tungumálum, tungum og fólki (sjá K&S 88:118; 90:15). Því er valið að velja hið heilaga fram yfir hið veraldlega, valið um ákveðna forgangsröðun, ekki útilokun; „en gott er að vera lærður, ef hlítt er ráðum Guðs“ (2 Ne 9:29; skáletrað hér).

Hægt er líkja hinni stöðugu baráttu um forgangsröðun milli hins helga og hins veraldlega í hverju mannshjarta við upplifun Móse við brennandi runnann. Þar hlaut Móse sína heilögu köllun frá Jehóva um að frelsa börn Ísraels úr ánauð. Hins vegar olli veraldleg þekking hans á valdi Egyptalands og Faraó honum efasemdum í byrjun. Að lokum sýndi Móse trú á það sem Drottinn hafði sagt, sniðgekk veraldlega þekkingu sína og treysti á hið heilaga. Þetta traust veitti honum mátt til að yfirstíga stundlegar raunir og leiða Ísrael út úr Egyptalandi.

Alma gæti hafa efast um hinn andlega vitnisburð sem hann hlaut er hann hlustaði á Abinadí, eftir að hafa flúið her Nóa, aðeins til að verða ánauðugur Amúlon. Hann reiddi sig hins vegar á hið heilaga og hlaut styrk til að standast og flýja undan sínum stundlegu raunum.

Joseph Smith tókst á við álíka vanda á upphafsdögum þýðingar Mormónsbókar. Hann þekkti heilagt eðli taflanna og þýðingarverksins. Samt lét hann sannfærast af Martin Harris um að láta veraldlegar áhyggjur af vinskap og fjárhag hafa forgang fram yfir heilagar leiðbeiningar. Handrit þýðingarinnar glataðist sökum þess. Drottinn ávítaði Joseph fyrir að afhenda „ranglætinu það … sem heilagt er“ (K&S 10:9) og tók frá honum töflurnar og gjöf þýðingar um stund. Þegar forgangsröðun Josephs var aftur orðin rétt fékk hann hið heilaga aftur og starfið hélt áfram.

Mormónsbók veitir önnur dæmi um baráttuna við að láta hið heilaga hafa forgang. Hún fjallar um trúað fólk sem vegna trúar sinnar var leitt að lífsins tré til að neyta hins heilaga ávaxtar, elsku Guðs. Síðan tóku þeir sem voru í hinni stóru og rúmmiklu byggingu að hæða fólkið, sem olli því að hinir trúuðu sneru frá hinu heilaga og að hinu veraldlega. (Sjá 1 Ne 8:11, 24–28.) Síðar völdu Nefítarnir drambsemi og afneituðu anda spádóms og opinberunar „drógu dár að því, sem heilagt var“ (Helaman 4:12). Jafnvel nokkrir þeirra sem sáu táknin og kraftaverkin sem tengdust fæðingu Drottins völdu að hafna heilögum vitnisburði frá himni fyrir veraldlegar útskýringar (sjá 3 Ne 2:1–3).

Baráttan heldur áfram í dag. Raddir heimsins vaxa að magni og styrk. Þær hvetja hina trúuðu í auknum mæli til að yfirgefa trú sína, sem heimurinn lítur á sem órökrétta og óskynsama. Vegna þess að „vér [sjáum] svo sem í skuggsjá“ (1 Kor 13:12) og „[þekkjum] ekki merkingu allra hluta“ (1 Ne 11:17), og okkur finnst stundum við vera varnarlaus og í mikilli þörf fyrir ríkari andlegri fullvissu. Drottinn sagði við Oliver Cowdery:

„Ef þú þráir frekari vitnisburð, hugleiddu þá nóttina, er þú ákallaðir mig í hjarta þínu til að fá að vita um sannleiksgildi þessa hluta.

Veitti ég þér ekki hugarró varðandi þetta? Hvaða stærri vitnisburð getur þú fengið en þann, sem frá Guði kemur?“ (K&S 6:22–23).

Drottinn minnti Oliver og okkur á að reiða okkur á heilagan persónulegan vitnisburð, sem við þegar höfum hlotið, þegar reynt er á trú okkar. Eins og Móse, Alma og Joseph, sem á undan honum komu, þá eru himneskir atburðir andlegt akkeri sem verja okkur og halda okkur á réttri stefnu á erfiðum tímum.

Ekki er hægt að láta hið heilaga hverfa að eigin vali. Hugur þeirra sem velja að hverfa frá, jafnvel aðeins einum heilögum hlut, mun myrkvast K&S 84:54), og ljósið sem þeir hafa mun tekið frá þeim, nema þeir iðrist (sjá K&S 1:33). Þeim, sem ekki hafa akkerisfestu þess sem heilagt er, mun ljóst að þeir eru siðferðislega stefnulausir á hinu veraldlega hafi. Andstætt því munu þeir, sem velja að varðveita hið heilaga, hljóta loforðin: „Það, sem er frá Guði, er ljós. Og sá, sem veitir ljósinu viðtöku og er staðfastur í Guði, öðlast meira ljós. Og það ljós verður skærara og skærara þar til hinn fullkomna dag.“ (K&S 50:24).

Megi Drottinn blessa okkur, að við fáum alltaf og ætíð viðurkennt og munað eftir því sem að ofan kemur og varðveitt helgi þess. Ég ber því vitni, að er við gerum svo, þá munum við fá kraft til að standast raunir og yfirstíga áskoranir okkar tíma. Í nafni Jesú Krists, amen.