Sleppa aðallóðsun
Apríl 2012 | Hvað virðist Kristi um mig?

Hvað virðist Kristi um mig?

Apríl 2012 Aðalráðstefna

Þegar við elskum hann, treystum honum, trúum honum og fylgjum honum, munum við skynja elsku hans og velþóknun.

Fréttamaður frá leiðandi brasilísku tímariti kynnti sér kirkjuna til undirbúnings viðamikillar fréttagreinar.1 Hann rannsakaði kenningar okkar og heimsótti trúboðsskóla og hjálparstofnanir. Hann ræddi við vini kirkjunnar og aðra miður vinsamlega. Í viðtali við mig virtist fréttamaðurinn einlæglega undrandi þegar hann spurði: „Hvernig getur nokkur litið svo á að þið séuð ekki kristnir?“ Ég vissi að hann var að tala um kirkjuna, en einhvern veginn tók ég þetta til mín persónulega, og í huga minn kom spurningin: „Endurspeglar líf mitt þann kærleik og þá hollustu sem ég ber til frelsarans?“

Jesús spurði faríseana: „Hvað virðist yður um Krist?“2 Lokaniðurstaðan, persónuleg staða okkar sem lærisveina, ræðst ekki af dómi vina eða andstæðinga. Fremur eins og Páll sagði: „Allir munum vér verða að koma fram fyrir dómstól Guðs.“3 Á þeim degi verður mikilvæga spurningin fyrir hvert og eitt okkar: „Hvað virðist Kristi um mig?“

Þrátt fyrir kærleik hans til alls mannkyns, sagði Jesús ávítandi suma samferðamenn sína vera hræsnara,4 heimskingja,5 og illgjörðamenn.6 Með velþóknun nefndi hann aðra börn ríkisins7 og ljós heimsins.8 Af vanþóknun talaði hann um suma sem blindaða9 og að þeir bæru engan ávöxt.10 Hann hrósaði öðrum sem hjartahreinum11 og að þá hungraði eftir réttlætinu.12 Hann harmaði að sumir væru vantrúa13 og að þeir væru af þessum heimi,14 en öðrum hrósaði hann sem útvöldum,15 lærisveinum,16 vinum.17 Og því spyrjum við hvert um sig: „Hvað virðist Kristi um mig?“

Thomas S. Monson forseti hefur lýst okkar dögum þannig að þeir hafi vikið „langt af leið hins andlega. … Vindar snúast og siðferðisþræðir samfélags okkar halda áfram að flosna upp fyrir augum okkar.“18 Þetta er tími vaxandi vantrúar og vanvirðingar á Krist og kenningar hans.

Í þessu taumlausa umhverfi fögnum við því að vera lærisveinar Jesú Krists. Við sjáum hönd Drottins umlykja okkur. Fagur áfangastaðurinn blasir við okkur. „Það er hið eilífa líf,“ sagði Jesús í bæn sinni, „að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“19 Að vera lærisveinn á þessum örlagaríku dögum verður heiðurssveigur um eilífð.

Boðskapurinn sem við höfum heyrt á þessari ráðstefnu er leiðarvísir frá Drottni á leið okkar sem lærisveinar. Þegar við höfum hlustað undanfarna tvo daga, með bæn um andlega leiðsögn, og þegar við nemum og biðjum varðandi þann boðskap á komandi dögum, blessar Drottinn okkur með sérhæfðri leiðsögn með gjöf heilags anda. Þær tilfinningar snúa okkur enn þá meira til Guðs, í iðrun, hlýðni, trú og trausti. Frelsarinn bregst við hverju okkar trúarverki. „Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum.“20

Kall Jesú, „kom … og fylg mér“21 er ekki einungis til þeirra sem undir það eru búnir að keppa á andlegum Ólympíuleikum. Staðreyndin er sú, að hlutverk lærisveinsins er ekki keppni við alla heldur boð til allra. Lærisveinsleiðangur okkar er hvorki spretthlaup, né er hægt að líkja því algjörlega við langt maraþon. Hann er í raun ævilöng ferð í átt að himneskari heimi.

Boð hans er kall til daglegrar skyldu. Jesús sagði: „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.“22 „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.“23 Það kann að takast misjafnlega dag frá degi, en ef við reynum, er bón Jesú studd hvatningu og von: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“24

Hvar svo sem þið eruð nú stödd á vegi lærisveinsins, þá eruð þið á rétta veginum, veginum til eilífs lífs. Saman getum við styrkt hvert annað á hinum miklu og mikilvægu dögum sem framundan eru. Í hverjum þeim erfiðleikum sem mæta okkur, veikleikum sem há okkur, hindrunum sem umkringja okkur, skulum við eiga trú á syni Guðs, sem sagði: „Sá getur allt sem trúir.“25

Leyfið mér að deila tveimur dæmum um lærisveinshlutverkið. Það fyrra er úr lífi Thomas S. Monson forseta, og sýnir kraft einfaldrar góðvildar og kenningar Jesú: „Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar.“26

Fyrir nærri 20 árum talaði Monson forseti á aðalráðstefnu um 12 ára stúlku sem þjáðist af krabbameini. Hann talaði um hugrekki hennar og góðsemi vina hennar sem báru hana upp á Timpanogos fjallið í miðhluta Utah.

Fyrir fáeinum árum hitti ég Jami Palmer Brinton og heyrði sögu hennar frá öðru sjónarhorni ‒ út frá því hvað Monson forseti hafði gert fyrir hana.

Jami hitti Monson forseta í mars 1993, daginn eftir að henni var sagt að þykkildi ofan við hægra hné hennar væri hraðvaxandi beinkrabbi. Með aðstoð föður hennar veitti Monson forseti henni prrestdæmisblessun og lofaði henni: „Jesús verður þér til hægri handar og þér við vinstri hlið, þér til upplyftingar.“

„Þegar ég yfirgaf skrifstofu hans þennan dag,“ sagði Jami, „losaði ég blöðru sem bundin var við hjólastólinn minn og gaf honum. ‚Þú ert bestur!‘ stóð þar með litríku letri.“

Á meðan lyfjameðferð og útlimsbjargandi skurðaðgerðir fóru fram gleymdi Monson forseti henni ekki. Jami sagði: „Monson forseti sýndi í verki hvað felst í því að vera sannur lærisveinn Krists. [Hann] lyfti mér upp úr örvæntingu til varanlegrar vonar.“ Þremur árum eftir fyrsta fund þeirra sat Jami aftur í skrifstofu Monsons forseta. Við lok fundarins gerði hann dálítið sem Jami mun aldrei gleyma. Svo dæmigert fyrir tillitssemi Monsons forseta, kom hann henni á óvart með sömu blöðrunni og hún hafði gefið honum fyrir þremur árum síðan. „Þú ert best!“ stóð á blöðrunni. Hann hafði geymt hana, vitandi að hún mundi koma aftur á skrifstofu hans þegar hún hefði læknast af krabbameininu. Fjórtán árum eftir fyrsta fund þeirra, vígði Monson forseti Jami Palmer og Jason Brinton í hjónaband í Salt Lake musterinu.27

Við getum lært svo mikið af lærisveinshlutverki Monsons forseta. Hann minnir aðalvaldhafana oft á eina einfalda spurningu: „Hvað mundi Jesús gera?“

Jesús sagði við samkundustjórann: „Óttast ekki, trú þú aðeins.“28 Lærisveinshlutverkið felur í sér að trúa á hann á friðarstundu og trúa á hann á erfiðum stundum, þegar þjáning okkar og ótti láta einungis sefast vegna fullvissunnar um að hann elskar okkur og heldur loforð sín.

Ég hitti nýlega fjölskyldu sem er fagurt dæmi um hvernig við trúum á hann. Olgan og Soline Saintelus frá Port-au-Prince, Haíti, sögðu mér sögu sína.

Hinn 12. janúar 2010 var Olgan í vinnunni og Soline í kirkjunni þegar mikill jarðskjálfti skók Haíti. Börn þeirra þrjú ‒ Gancci, fimm ára, Angie, þriggja ára, og Gansly, eins árs – voru heima í íbúð þeirra ásamt vini þeirra.

Mikil eyðilegging blasti við hvarvetna. Eins og þið munið týndu þúsundir lífi sínu þarna á Haíti í janúar. Olgan og Soline hlupu eins hratt og þau gátu heim til sín til að huga að börnum sínum. Þriggja hæða byggingin þar sem Saintelus fjölskyldan bjó hafði hrunið.

Börnin höfðu ekki sloppið. Engum björgunaráformum yrði beint að byggingu sem væri svo algjörlega eyðilögð.

Olgan og Soline höfðu bæði þjónað sem fastatrúboðar og höfðu gifst í musterinu. Þau trúðu á frelsarann og á loforð hans til þeirra.. Samt voru þau niðurbrotin. Þau grétu óstjórnlega.

Olgan sagði mér að á erfiðustu stundu sinni hafi hann tekið að biðja. „Himneski faðir, sé það þinn vilji að eitthvert barna minna sé á lífi, viltu þá hjálpa okkur.“ Aftur og aftur gekk hann í kringum bygginguna og bað um innblástur. Nágrannarnir reyndu að hugga hann og hjálpa honum að sætta sig við missi barna sinna. Olgan hélt áfram að ganga kringum rústir hruninnar byggingarinnar í von og bæn. Þá gerðist algjört kraftaverk. Olgan heyrði næstum óheyranlegan barnsgrát. Það var grátur barnsins hans.

Klukkustundum saman hömuðust nágrannarnir við að grafa í rústunum og lögðu líf sitt í hættu. Í myrkri næturinnar og þrátt fyrir hljóðin í hömrum og meitlum, heyrðu björgunarmennirnir annað hljóð. Þeir stöðvuðu hamaganginn og hlustuðu. Þeir trúðu ekki sínum eigin eyrum. Þetta voru hljóð frá litlu barni ‒ og það var að syngja. Hinn fimm ára gamli Gancci sagði síðar að hann hafi vitað að faðir hans myndi heyra í honum ef hann syngi. Undir þungri steinsteypuhellu, sem síðar varð þess valdandi að nema þurfti brott handlegg hans, var Gancci að syngja uppáhalds sönginn sinn: „Guðs barnið eitt ég er.“29

Þegar stundirnar liðu í myrkri, dauða og örvæntingu svo margra annarra dýrmætra sona og dætra Guðs á Haíti, upplifði Saintelus-fjölskyldan kraftaverk. Gancci, Angie og Gansly fundust lifandi undir fallinni byggingunni.30

Kraftaverk gerast ekki alltaf svona þegar í stað. Stundum íhugum við vandlega hvers vegna kraftaverkin sem við höfum beðið fyrir af mikilli einlægni gerast ekki hér og nú. En þegar við treystum á frelsarann, gerast þau kraftaverk sem lofað hefur verið. Hvort heldur það gerist í þessu lífi eða því næsta, þá mun allt komast í lag. Frelsarinn sagði: „Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“31 „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“32

Ég vitna um að þegar við elskum hann, treystum honum, trúum honum og fylgjum honum, munum við finna kærleik hans og velþóknun. Þegar þið spyrjið: „Hvað virðist Kristi um mig?“ munuð þið vita að þið eruð lærisveinar hans; þið eruð vinir hans. Af náð sinni mun hann gera það fyrir ykkur sem þið getið ekki gert sjálf.

Við bíðum í ofvæni eftir lokaorðum okkar ástfólgna spámanns. Thomas S. Monson forseti var vígður postuli Drottins Jesú Krists þegar ég var 12 ára gamall. Í meira en 48 ár höfum við notið þeirrar blessunar að heyra hann bera vitni um Jesú Krist. Ég vitna um að hann er með lengstan starfsaldur postula sem nú lifa á jörðinni.

Af miklum kærleika og aðdáun á þeim mörgu lærisveinum Jesú Krists sem ekki eru meðlimir þessarar kirkju, lýsum við því auðmjúklega yfir að englar hafa komið aftur til jarðar á okkar dögum. Kirkja Jesú Krists eins og hann stofnaði hana til forna hefur verið endurreist, með krafti, helgiathöfnum, og blessunum himins. Mormónsbók er annað vitni um Jesú Krist.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur er frelsari heimsins. Hann kvaldist og dó fyrir syndir okkar og reis upp á þriðja degi. Hann er upprisinn. Á sínum tíma munu öll kné beygja sig og sérhver tunga viðurkenna að hann er Kristur.33 Á þeim degi mun hugsun okkar ekki snúast um: „Telja aðrir okkur vera kristna?“ Á þeim degi mun ásýnd okkar beinast að honum, og sál okkur mun einbeita sér að spurningunni: „Hvað virðist Kristi um mig?“ Hann lifir. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. Sjá André Petry, „Entre a Fé e a Urna,” Veja, 2. nóv. 2011, 96.

  2. Matt 22:42.

  3. Róm 14:10.

  4. Sjá Matt 6:2.

  5. Sjá Matt 23:17.

  6. Sjá Matt 7:23.

  7. Sjá Matt 13:38.

  8. Sjá Matt 5:14.

  9. Sjá Matt 15:14.

  10. Sjá Matt 13:22.

  11. Sjá Matt 5:8.

  12. Sjá Matt 5:6.

  13. Sjá Matt 17:17.

  14. Sjá Jóh 8:23.

  15. Sjá Jóh 6:70.

  16. Sjá Jóh 13:35.

  17. Sjá Jóh 15:13.

  18. Thomas S. Monson, „Stand in Holy Places,” Líahóna og Ensign, nóv. 2011, 83, 86.

  19. Jóh 17:3.

  20. Jóh 14:23.

  21. Lúk 18:22.

  22. Jóh 14:15.

  23. Lúk 9:23.

  24. Matt 11:28.

  25. Mark 9:23.

  26. Matt 23:11.

  27. Jami Brinton, bréf til höfundar, 27. jan. 2012.

  28. Mark 5:36.

  29. „Guðs barnið eitt ég er,” Barnasöngbókin, 2.

  30. Úr samtali við Olgan og Soline Saintelus, 10. feb. 2012; sjá einnig Jennifer Samuels, „Family Reunited in Miami after Trauma in Haiti,” Church News, 30. jan. 2010, 6.

  31. Jóh 14:27.

  32. Jóh 16:33.

  33. Sjá Róm 14:11.