Ólýsanleg gjöf frá Guði

Öldungur Craig C. Christensen

af hinum Sjötíu


Craig C. Christensen
Heilagur andi vinnur í fullkominni einingu með himneskum föður og Jesú Kristi og gegnir mörgum mikilvægum hlutverkum og sérstökum ábyrgðarstörfum.

Árið 1994 bauð Howard W. Hunter forseti öllum meðlimum kirkjunnar að „gera musterið … að mikilvægu tákni um kirkjuaðild okkar.“1 Síðar sama ár lauk byggingu Bountiful-musterisins í Utah. Við, líkt og margir aðrir, hlökkuðum til þess að fara með unga fjölskyldu okkar að skoða musterið áður en það var helgað. Við unnum hörðum höndum að því að búa börn okkar undir að fara inn í musterið, og báðum þess einlæglega að þetta yrði þeim andleg upplifun, svo að musterið yrði þeim mikilvægt í lífinu.

Er við gengum í gegnum musterið í lotningu, dáðist ég að stórkostlegum byggingarstílnum, fáguðum frágangi, ljósinu er það skein í gegnum háa gluggana og andlega hvetjandi málverkunum. Hver einasti þáttur í þessari heilögu byggingu var einstakur.

Er við gengum inn í himneska herbergið tók ég skyndilega eftir því að yngsti sonur okkar Ben, sem var sex ára, hékk á fótlegg mínum. Hann virtist ráðvilltur ‒ jafnvel örlítið áhyggjufullur.

„Hvað er að, sonur?“ hvíslaði ég.

„Pabbi,“ svaraði hann „hvað er að gerast hérna? Mér hefur aldrei liðið svona áður.”

Ég gerði mér grein fyrir því að þetta var líklega í fyrsta sinn sem ungur sonur okkar hafði fundið svona sterkt fyrir áhrifum heilags anda, svo ég kraup á gólfið við hlið hans. Ben og ég eyddum nokkrum mínútum, hlið við hlið, og lærðum saman um heilagan anda , á meðan að aðrir gestir gengu framhjá okkur. Ég var undrandi yfir hve auðvelt við áttum með að ræða þessar helgu tilfinningar hans. Er við ræddum saman þá gerði ég mér grein fyrir því, að það sem hafði mestu áhrifin á Ben var ekki það sem hann , heldur það sem hann skynjaði ‒ ekki áþreifanlega fegurðin í kringum okkur, heldur hin lága hljóða rödd anda Guðs í hjarta hans. Barnsleg undrun hans endurvakti í mér djúpt þakklæti fyrir þessa ólýsanlegu gjöf frá Guði ‒ gjöf heilags anda ‒ og ég deildi með honum því sem ég hafði lært af eigin reynslu.2

Hver er heilagur andi?

Heilagur andi er þriðji aðili Guðdómsins og, sem slíkur, þekkir hann hugsanir okkar og áform hjarta okkar, eins og Guð faðirinn og Jesús Kristur.3 Heilagur andi elskar okkur og vill að við séum hamingjusöm. Þar sem hann þekkir áskoranirnar sem á vegi okkar verða, getur hann leitt og kennt okkur það sem okkur ber að gera til að snúa að nýju til dvalar hjá himneskum föður.4

Ólíkt himneskum föður og Jesú Kristi, sem hafa dýðlegan líkama holds og beina, þá er heilagur andi andavera sem talar til anda okkar í gegnum tilfinningar og með hugboði.5 Sem andavera hefur hann þá einstöku ábyrgð að vera sá aðili sem færir okkur persónulegar opinberanir. Í ritningunum er heilagur andi oft kallaður andi Drottins, heilagur andi fyrirheitisins eða einfaldlega andinn.6

Hvert er hlutverk heilags anda.

Heilagur andi vinnur í fullkominni einingu með himneskum föður og Jesú Kristi og gegnir mörgum mikilvægum hlutverkum og sérstökum ábyrgðarstörfum. Aðalhlutverk heilags anda er að bera vitni um Guð föðurinn og son hans Jesú Krist,7 og kenna okkur sannleiksgildi allra hluta.8 Öruggt vitni frá heilögum anda er mun áreiðanlegra en nokkurt annað vitni. Joseph Fielding Smith forseti kenndi: „Þegar andi Guðs talar sannleika til anda mannsins, er sannfæringin og skilningurinn meiri en ef þessum sannleika væri miðlað persónulega, jafnvel þótt hann kæmi frá himneskum verum.”9

Heilagur andi er einnig þekktur sem huggarinn.10 Á tímum erfiðleika eða örvæntingar, eða bara þegar við höfum þörf á því að vita af nærveru Guðs, þá getur heilagur andi lyft anda okkar, veitt okkur von og kennt okkur að þekkja „friðsæld ríkisins,“11 hjálpað okkur að skynja „frið Guðs, sem er æðri öllum skilningi.”12

Fyrir nokkrum árum, þegar stórfjölskyldan hittist við hátíðarkvöldverð, fór faðir minn í leiki með barnabörnunum sínum. Skyndilega og án viðvörunar, féll hann niður og var látinn. Þessi óvænti atburður hefði getað verið hörmulegur, sérstaklega fyrir barnabörnin hans og vakið spurningar sem erfitt hefði verið að svara. En við létum börnin koma saman umhverfis okkur, báðumst fyrir og lásum orð spámannanna í Mormónsbók, um tilgang lífsins, og heilagur andi huggaði hvert og eitt okkar. Svörin sem við leituðum eftir fundum við greinilega í hjörtum okkar, þannig að erfitt er að lýsa því með orðum. Við fundum frið þennan dag, sem var ofar okkar skilningi, en staðfestingin frá heilögum anda var afgerandi, óneitanleg og raunveruleg.

Heilagur andi er kennari og opinberari.13 Er við lærum, hugleiðum og biðjum varðandi sannleika fagnaðarerindisins, mun heilagur andi upplýsa huga okkar og auka skilning okkar.14 Hann veldur því að sannleikurinn verður varanlega ritaður í sál okkar og getur komið til leiðar máttugri umbreytingu í hjörtum okkar. Er við deilum þessum sannleika með fjölskyldum okkar, samþjónum okkar í kirkjunni og með vinum og nágrönnum í samfélagi okkar, mun heilagur andi einnig verða kennari þeirra, því hann kemur boðskapnum „til skila í hjörtum mannanna barna.“15

Heilagur andi blæs okkur í brjóst að þjóna öðrum. Bestu dæmin um að hlýða hvatningu heilags anda í þjónustu annarra eru, að mínu mati, úr lífi og þjónustu Thomas S. Monson forseta, sem sagði: „Þegar við gerum skyldu okkar og heyrum hljóðláta hvatningu og fylgjum henni, án þess að hika, þá hef ég lært að himneskur faðir leiðbeinir okkur og blessar líf okkar og líf annarra. Ég þekki enga tilfinningu eins ljúfa og þá að fylgja ábendingu, einungis til að komast að því að Drottinn hefur svarað bænum annarrar persónu í gegnum þig.”16

Mig langar að deila einni slíkri reynslu með ykkur: Þegar Monson forseti þjónaði sem biskup, heyrði hann eitt sinn að einn safnaðarmeðlimur deildar hans, Mary Watson væri komin á spítala. Þegar hann heimsótti hana komst hann að því að hún var í stórri stofu með nokkrum öðrum sjúklingum. Þegar hann nálgaðist systur Watson tók hann eftir því að sjúklingurinn í næsta rúmi breiddi snögglega yfir höfuð sér.

Eftir að hafa heimsótt systur Watson og veitt henni blessun, tók Monson foreseti í hönd hennar, kvaddi og bjóst til heimferðar. Þá gerðist nokkuð einfalt en undravert. Ég vitna nú beint í orð Monsons forseta úr minningum hans af þessari reynslu.

„Ég gat ekki yfirgefið hana. Það var eins og ósýnileg hönd lægi á öxl minni og í sál minni fannst mér ég heyra þessi orð: ,Farðu að næsta rúmi, þar sem litla konan breiddi yfir andlit sitt, er þú komst inn.‘ Ég gerði það. …

„Ég nálgaðist rúm hins sjúklingsins, bankaði létt á öxl hennar og dró sængina varlega frá andliti hennar. Og viti menn! Hún var líka í deildinni minni. Mér var ókunnugt um að hún væri sjúklingur á spítalanum. Hún hét Kathleen McKee. Þegar hún horfðist í augu mér, sagði hún í gegnum tárin; ,Ó biskup, þegar þú komst inn um dyrnar, fannst mér þú hafa komið til að heimsækja mig og blessa mig, sem svar við bænum mínum. Ég gladdist í hjarta yfir að þú skildir vita að ég væri hér, en þegar þú fórst að hinu rúminu, þá hvarf sú von, því mér varð ljóst að þú hefðir ekki komið til að heimsækja mig’.

„Ég sagði við [systur] McKee: ‚Það skiptir engu að ég vissi ekki að þú værir hér. Það er hinsvegar mikilvægt að himneskur faðir vissi það og að þú hafðir beðið hljóðlega um prestdæmisblessun. Það var hann sem hvatti mig til að rjúfa friðhelgi þína.”17

Hvernig talar heilagur andi til okkar?

Við eigum öll okkar reynslu af heilögum anda, jafnvel þótt við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því. Þegar innblásnar hugsanir vakna í huga okkar, vitum við að þær eru sannar, vegna þeirra andlegu tilfinninga sem koma í hjörtu okkar. Boyd K. Packer forseti kenndi okkur: „Heilagur andi talar með rödd sem við skynjum, fremur en heyrum. … þegar við tölum um að ,hlusta‘ á hljóða rödd andans, er oftar en ekki verið að tala um andlega hvatningu með því að segja ,ég fékk það á tilfinninguna ... ‘.“18 Það er í gegnum þessar helgu tilfinningar frá heilögum anda sem við lærum hvað Guð vill að við gerum, því eins og segir í ritningunum „þetta er andi opinberunar.“19

Hvað þýðir það að meðtaka gjöf heilags anda?

Þegar ég var að kenna sex ára syni mínum, Ben, fannst mér mikilvægt að greina á milli þess sem hann var að upplifa, eða áhrif heilags anda og gjöf heilags anda, sem hann myndi meðtaka eftir skírn. Allir sem einlæglega leita sannleikans geta endrum og eins fundið fyrir áhrifum heilags anda fyrir skírn. Hins vegar er stöðug samfylgd heilags anda, og fylling allra þeirra blessana sem fylgja honum, einungis í boði fyrir verðuga, skírða meðlimi sem meðtekið hafa gjöf heilags anda með handayfirlagningu þeirra sem hafa prestdæmisvald Guðs.

Það er í gegnum gjöf heilags anda sem við öðlumst aukna getu og andlegar gjafir, fleiri opinberanir og vernd, stöðuga handleiðslu og leiðsögn og loforð um blessun helgunar og upphafningar í himneska ríkinu. Allar þessar blessanir koma sem afleiðing af persónulegri þrá okkar eftir að hljóta þær og lifa lífi okkar í takt við vilja Guðs og leitum stöðugrar leiðsagnar hans.

Er ég hugsa til baka til þessarar reynslu með Ben í Bountiful musterinu þá finn ég margar ljúfar tilfinningar og hughrif. Ein skýr minning er sú, að á meðan ég var upptekinn af mikilleik þess sem ég gat séð, þá var lítið barn við hlið mér að upplifa þessar sterku tilfinningar í hjarta sínu. Með smá áminningu var mér boðið að staldra við og krjúpa niður og hlýða kalli frelsarans um að verða eins og lítið barn ‒ auðmjúkur, bljúgur og tilbúinn að hlusta á hina hljóðu, lágu rödd anda hans.

Ég ber vitni um hið raunverulega og guðlega hlutverk heilags anda og að með krafti heilags anda getum fengið að vita sannleiksgildi allra hluta. Ég ber vitni um að gjöf heilags anda er dýrmæt og ólýsanleg gjöf himnesks föður til allra sem vilja koma til sonar hans, skírast í nafni hans og meðtaka heilagan anda með staðfestingu í kirkju hans. Ég ber persónulegt vitni um þennan sannleika, í helgu nafni Jesús Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1. Howard W. Hunter, in Jay M. Todd, „President Howard W. Hunter: Fourteenth President of the Church,” Ensign, júlí 1994, 5; sjá einnig Howard W. Hunter, „The Great Symbol of Our Membership,“ Tambuli, nóv. 1994, 3; Ensign, okt. 1994, 2.

 2.  

  2. Sjá Kenning og sáttmálar 121:26.

 3.  

  3. Sjá Alma 12:7; 18:16–18; Kenning og sáttmálar 6:15–16.

 4.  

  4. Sjá 2 Ne 32:5.

 5.  

  5. Sjá Kenning og sáttmálar 130:22.

 6.  

  6. Sjá Lúk 4:1, 18; 11:13; Jóh 1:33; Efe 1:13; Kenning og sáttmálar 88:3.

 7.  

  7. Sjá 2 Ne 31:18; 3 Ne 28:11; Kenning og sáttmálar 20:27.

 8.  

  8. Sjá Moró 10:5.

 9.  

  9. Joseph Fielding Smith, Doctrines of Salvation, tekið saman af Bruce R. McConkie, 3 bindi. (1954–56), 1:47–48.

 10.  

  10. Sjá Jóh 14:26; Kenning og sáttmálar 35:19.

 11.  

  11.  Kenning og sáttmálar 36:2.

 12.  

  12.  Fil 4:7.

 13.  

  13. Sjá Lúk 12:12; 1 Kor 2:13; Kenning og sáttmálar 50:13–22; Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 132–33.

 14.  

  14. Sjá Kenning og sáttmálar 11:13.

 15.  

  15.  2 Ne 33:1.

 16.  

  16. Thomas S. Monson, „Peace, Be Still,” Liahona og Ensign, nóv. 2002, 55.

 17.  

  17. Sjá Thomas S. Monson, „Christ at Bethesda’s Pool,” Ensign, nóv. 1996, 18–19.

 18.  

  18. Boyd K. Packer, „Personal Revelation: The Gift, the Test, and the Promise,” Liahona, júní 1997, 10; Ensign, nóv. 1994, 60.

 19.  

  19.  Kenning og sáttmálar 8:3; sjá einnig vers 2.