Spyrjið trúboðana! Þeir geta hjálpað ykkur!

Öldungur Russell M. Nelson

í Tólfpostulasveitinni


Russell M. Nelson
Allir trúboðar, ungir sem aldnir, þjóna í þeirri einu von að geta létt öðrum lífið.

Ástkæru bræður mínir og systur, og vinir, ég færi ykkur öllum kærleikskveðjur. Við erum í sjöunda himni yfir tilkynningu Thomas S. Monson forseta nú í morgun, um að breyta aldurstakmarki trúboðsþjónustu í 18 ára fyrir unga menn og 19 ára fyrir ungar konur. Þessi valkostur hefur í för með sér að fleira ungt fólk fær notið blessana trúboðs.

Fyrir tveimur árum staðhæfði Monson forseti, og staðfesti kröftuglega nú í morgun, „að sérhver verðugur og hæfur ungur maður ætti að búa sig undir trúboðsþjónustu. Trúboðsþjónusta er prestdæmisskylda ‒ skuldbinding sem Drottinn væntir af okkur, sem svo mikið hefur verið gefið.“1 Hann útskýrði að nýju að trúboð væri ungum systrum kærkominn valkostur, en ekki skylda. Og enn á ný bauð hann mun fleiri eldri hjónum að veita þjónustu sína.

Að búa sig undir trúboð er mikilvægt. Trúboð er sjálfviljug þjónusta við Guð og mannkynið. Trúboðar leggja sjálfir til fé til þessarar þjónustu. Foreldrar, ættmenni, vinir og gefendur í almennan trúboðssjóð geta líka aðstoðað. Allir trúboðar, ungir sem aldnir, þjóna í þeirri einu von að geta létt öðrum lífið.

Sú ákvörðun, að þjóna í trúboði, mun móta hin andlegu örlög trúboðans, maka hans eða hennar, og afkomenda þeirra meðal komandi kynslóða. Þrá til að þjóna er eðlilegur ávöxtur trúskipta, verðugleika og undirbúnings.

Margir meðal hinna fjölmennu áheyrenda eru ekki meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og þekkja afar lítið til okkar og trúboða okkar. Þið eruð hér eða hlustið vegna þess að þið viljið vita meira um mormóna og það sem trúboðar okkar kenna. Þegar þið lærið meira um okkur, munuð þið komast að því að margt er líkt í gildismati okkar. Við hvetjum ykkur til að halda öllu góðu og sönnu og sjá hvort ekki má bæta fleiru við. Í þessum heimi áskorana þörfnumst við af og til hjálpar. Trúarbrögð, eilífur sannleikur og trúboðarnir okkar, eru mikilvægir þættir í þeirri hjálp.

Okkur ungu trúboðar gera hlé á menntun sinni, starfi og kynnum við hitt kynið, og hverju því sem dæmigert er fyrir fólk á þessu aldursskeiði. Þeir gera hlé á þessu í 18 til 24 mánuði, sökum einlægrar þrár til að þjóna Drottni.2 Og sumir trúboða okkar þjóna á efri árum sínum. Ég veit að fjölskyldur þeirra eru blessaðar. Í minni fjölskyldu eru nú átta manns sem þjóna í fastatrúboði ‒ þrjár dætur mínar, eiginmenn þeirra, ein barnadóttir og einn barnasonur.

Sum ykkar kunna að velta fyrir ykkur nafninu mormónar. Það er viðurnefni yfir okkur. Það er ekki okkar raunverulega nafn, þótt við séum almennt þekkt sem mormónar. Hugtakið er sótt í bók helgrar ritningar, kunn sem Mormónsbók.

Hið rétta nafn kirkjunnar er Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hún er hin endurstofnaða upprunalega kirkja Jesú Krists. Þegar hann var á jörðu, skipulagði hann kirkju sína. Hann kallaði postula, hina Sjötíu og aðra leiðtoga og veitti þeim prestdæmisvald til að starfa í sínu nafni.3 Eftir að Kristur og postular hans dóu, breyttu mann helgiathöfnunum og kenningunum. Hin upprunalega kirkja og prestdæmið glötuðust. Við lok hinna myrku miðalda endurreisti Jesús Kristur kirkju sína, undir handleiðslu himnesks föður. Nú á hún sér tilveru að nýju, endurreist, og starfar undir guðlegri leiðsögn hans.4

Við fylgjum Drottni Jesú Kristi og kennum um hann. Við vitum að Drottinn birtist lærisveinum sínum upprisinn við fjölda tækifæra, eftir hinn dýrðlega sigur sinn yfir dauðanum. Hann borðaði með þeim. Hann gekk með þeim. Fyrir endanlega uppstigningu sína bauð hann þeim: „Farið, ... og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda.“5 Postularnir hlýddu því boði. Þeir kölluðu líka aðra sér til hjálpar við að uppfylla boð Drottins.

Í dag hafa trúboðar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, undir leiðsögn nútíma postula og spámanna, fengið þetta sama boð. Trúboðar þessir þjóna í meira en 150 löndum. Sem fulltrúar Drottins Jesú Krists, reyna þeir af kappi að fylgja þessu guðlega boði ‒ sem Drottinn sjálfur hefur endurtekið ‒ að boða fyllingu fagnaðarerindisins erlendis og blessa líf fólk hvarvetna.6

Trúboðar undir og um tvítugt eru ungir og óreyndir að hætti heimsins. En þeir eru blessaðir með gjöfum ‒ svo sem með krafti heilags anda, elsku Guðs og vitnisburði um sannleikann ‒ og þær gera þá máttuga fulltrúa Drottins. Þeir miðla öllum þeim sem hlýða á boðskap þeirra hinum góðu tíðindum fagnaðarerindisins, og þau færa þeim sanna gleði og varanlega hamingju. Og í mörgum tilvikum gera þeir það í ókunnugu landi og á ókunnu tungumáli.

Trúboðar kappkosta að fylgja Jesú Kristi bæði í orði og verki. Þeir prédika um Jesú Krist og friðþægingu hans.7 Þeir kenna um raunverulega endurreisn hinnar fornu kirkju Krists, fyrir tilverknað fyrsta spámanns síðari daga, Josephs Smith.

Kannski hafið þið áður rekist á trúboðana og jafnvel sniðgengið þá. Von mín er sú að þið óttist þá ekki, heldur lærið af þeim. Þeir geta verið ykkur himnasending.

Þannig var það hjá Jerry, mótmælanda og heiðursmanni á miðjum sextugs aldri, sem býr í Mesa, Arisóna. Faðir Jerrys var baptistaprestur og móðir hans meþódistaprestur. Dag einn sagði Pricilla, sem var náin vinkona Jerrys, honum frá sorg sinni yfir dauða barnsins síns við fæðingu og sárum skilnaði hennar nokkru síðar. Pricilla var einstæð móðir með fjögur börn ‒ þrjár dætur og einn son. Þegar hún lauk upp hjarta sínu fyrir Jerry, viðurkenndi hún að hafa íhugað að svipta sig lífi. Af öllu þeim styrk og kærleika sem Jerry hafði yfir að ráða, reyndi hann að hjálpa henni að skilja að líf hennar væri dýrmætt. Hann bauð henni að koma í kirkju, en Pricilla sagðist hafa gefist upp á Guði.

Jerry var ráðalaus. Síðar, er hann var að vökva gróðurinn í garðinum sínum, bað þessi trúaði maður til Guðs um handleiðslu. Þegar hann baðst fyrir, heyrði hann rödd í huga sínum segja: „Stöðvaðu piltana á hjólunum.“ Jerry varð svolítið ráðvilltur og velti fyrir sér hvað þetta merkti. Þegar hann ígrundaði skilaboðin, varð honum litið upp götuna og sá þar tvo unga menn í hvítum skyrtum með bindi koma hjólandi í átt að húsinu. Furðulostinn fyrir þessari „tilviljun“ horfði hann á þá hjóla hjá. Síðan varð honum ljóst að hann yrði að bregðast við og hann hrópaði: „Halló, þið þarna, stoppið! Ég þarf að tala við ykkur!“

Ungu mennirnir stönsuðu og urðu undrandi og eftirvæntingarfullir. Þegar þeir nálguðust Jerry tók hann eftir nafnspjaldi þeirra, sem auðkenndi þá sem trúboða í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Jerry horfði á þá og sagði: „Þetta kann að hljóma svolítið undarlega, en ég var að biðjast fyrir og mér var sagt að ‚stöðva piltana á hjólunum.‘ Mér varð litið upp götuna og sá ykkur þar. Getið þið hjálpað mér?“

Trúboðarnir brostu og annar þeirra sagði: „Já, það getum við vissulega.“

Jerry útskýrði kvíðvænlegar aðstæður Pricillu. Trúboðarnir áttu brátt fund með Pricillu, börnum hennar, og Jerry. Þeir ræddu tilgang lífsins og eilífa áætlun Guðs fyrir þau. Trú Jerry, Pricillu og barnanna hennar efldust við einlægar bænir, nám á Mormónsbók og kærleiksríkt samband þeirra við meðlimi kirkjunnar. Hin sterka trú Jerrys á Jesú Krist varð jafnvel enn sterkari. Efasemdir og sjálfsvígshugsanir Pricillu hurfu og hún fylltist von og hamingju. Þau voru skírð og urðu meðlimir hinnar endurreistu kirkju Krists.8

Já, trúboðarnir geta veitt margvíslega hjálp. Sum ykkar gætu til að mynda viljað vita meira um ættmenni ykkar. Þið kunnið að þekkja nöfn foreldra ykkar og afa ykkar og ömmu, en hvað með langaafa ykkar og langömmur? Þekkið þið nöfn þeirra? Langar ykkur að þekkja þau betur? Spyrjið trúboðana! Þeir gera hjálpað ykkur!9 Þeir hafa aðgang að yfirgripsmiklum ættarsöguskýrslum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Sum ykkar eruð meðlimir en takið ekki þátt eins og er. Þið elskið Drottin og ígrundið oft að snúa að nýju í hjörð hans. En þið vitið ekki hvernig bregðast á við. Ég legg til að þið spyrjið trúboðana!10 Þeir geta hjálpað ykkur! Þið getið líka hjálpað með því að kenna ástvinum ykkar. Við og trúboðarnir elskum ykkur og þráum að færa gleði og ljós fagnaðarerindisins að nýju inn í líf ykkar.

Sum æskið þið að vita hvernig sigrast má á ávanafíkn eða lifa má lengur og vera heilsuhraustari. Spyrjið trúboðana! Þeir geta hjálpað ykkur! Einstakar kannanir hafa sýnt að meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu séu almennt afar heilsuhraustir. Dánartíðni meðal þeirra er ein sú lægsta og fram til þessa eru þeir langlífari en allir aðrir skilgreindir hópar, sem kannaðir hafa verið um langt árabil í Bandaríkjunum.11

Sumum ykkar kann að finnast lífið of erilsamt og hraðinn of mikill, en hið innra finnið þið mikinn tómleika og eruð án stefnu og tilgangs. Spyrjið trúboðana! Þeir geta hjálpað ykkur! Þeir geta hjálpað ykkur að læra meira um sannan tilgang lífsins ‒ hvers vegna þið eruð á jörðu og hvert þið farið eftir dauðann. Þið getið lært hvernig hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists megnar að blessa ykkur meira en þið fáið nú ímyndað ykkur.

Ef þið hafið áhyggjur af fjölskyldu ykkar, spyrjið þá trúboðana! Þeir geta hjálpað ykkur! Að styrkja hjónabönd og fjölskyldur er Síðari daga heilögum afar mikilvægt. Fjölskyldur geta verið saman að eilífu. Biðjið trúboðana að kenna ykkur hvernig þetta er mögulegt í fjölskyldu ykkar.

Trúboðarnir geta líka hjálpað ykkur, ef þið þráið að aukna þekkingu. Í mannsandanum býr þrá eftir auknum skilningi. Hvort sem sannleikurinn kemur frá vísindastofnun eða opinberun frá Guði, þá tökum við feginshendi á móti honum! Dýrð Guðs er vissulega vitsmunir.12

Að vaxa í visku felur bæði í sér andlega og stundlega þekkingu. Við leggjum áherslu á mikilvægi þess að skilja helgar ritningar. Óháð nýleg könnun sýndi að Síðari daga heilagir búa yfir mestri þekkingu á kristindómi og Biblíunni.13 Ef þið æskið að skilja betur Biblíuna, að skilja betur Mormónsbók, og hljóta meiri skilning á bræðralagi manna og föðurhlutverki Guðs, spyrjið þá trúboðana! Þeir geta hjálpað ykkur!

Mörg ykkar þrá heitt að hjálpa fólki í neyð. Síðari daga heilagir fylgja Jesú Kristi og eru einnig haldnir þeirri brýnu þörf.14 Allir geta gegnið til liðs við okkur við að hjálpa hinum þurfandi og líkna fórnarlömbum hamfara og hörmunga hvarvetna um heim. Ef þið óskið að taka þátt, spyrjið þá trúboðana! Þeir geta hjálpað ykkur!

Og ef þið æskið að vita meira um lífið eftir dauðann, um himininn, um áætlun Guðs fyrir ykkur; ef þið óskið að vita meira um Drottin Jesú Krist, friðþægingu hans og endurreisn kirkju hans, líkt og hún var upprunalega, spyrjið þá trúboðana! Þeir geta hjálpað ykkur!

Ég veit að Guð lifir. Jesús er Kristur. Kirkjan hans hefur verið endurreist. Ég bið þess heitt og innilega að Guð megi blessa okkur öll og alla okkar dýrmætu trúboða. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1. Thomas S. Monson, „As We Meet Together Again,” Líhóna og Ensign, nóv. 2010, 5–6.

 2.  

  2. Sjá Kenning og sáttmálar 4:3.

 3.  

  3. Sjá Matt 10:1; Lúk 6:13; 10:1; Efe 4:11–12.

 4.  

  4. Sjá Kenning og sáttmálar 1:30.

 5.  

  5.  Matt 28:19.

 6.  

  6. Sjá Kenning og sáttmálar 68:8; 84:62; 112:28.

 7.  

  7. Sjá 1 Kor 2:2; 2 Ne 25:26.

 8.  

  8. Persónuleg samskipti við W. Tracy Watson, fyrrverandi forseta Arisóna Mesa trúboðsins.

 9.  

  9. Þar sem ég hef sett fram boðið um að „spyrja trúboðana,“ mætti líka biðja vin sem er meðlimur kirkjunnar um aðstoð.

 10.  

  10. Virk ættmenni, vinir og kirkjuleiðtogar gætu líka haft ánægju af því að hjálpa.

 11.  

  11. Sjá James E. Enstrom and Lester Breslow, „Lifestyle and Reduced Mortality among Active California Mormons, 1980–2004,” Preventive Medicine, bindi 46 (2008), 135.

 12.  

  12. Sjá Kenning og sáttmálar 93:36.

 13.  

  13. Sjá U.S. Religious Knowledge Survey (Pew Forum on Religion and Public Life, Sept. 28, 2010), 7.

 14.  

  14. Sjá Ram Cnaan, Van Evans, and Daniel W. Curtis, Called to Serve: The Prosocial Behavior of Active Latter-day Saints (University of Pennsylvania School of Social Policy and Practice, 2012); „Mormon Volunteerism Highlighted in New Study” (16. mars 2012), http://www.mormonnewsroom.org/article/mormon-volunteerism-report; Mormons in America: Certain in Their Beliefs, Uncertain of Their Place in Society (Pew Forum on Religion and Public Life, 12. jan 2012), 43; Robert D. Putnam and David E. Campbell, American Grace: How Religion Divides and Unites Us (2010), 444–54.