Starfið af kappi

Öldungur M. Russell Ballard

í Tólfpostulasveitinni


M. Russell Ballard
Hið mikla verður að veruleika og byrðir léttbærari með átaki margra handa, sem „starfa af kappi fyrir góðan málstað.“

Öldungur Perry, ég held að þú sért sá yngsti í kirkjunni af þeim sem eru 90 ára og eldri. Sáuð þið hvernig hann stökk upp úr stólnum sínum.

Kæru bræður og systur, í hvert sinn sem ég nýt ferskra, vel þroskaðra tómata eða borða safaríka ferskju beint af trénu, hverfur hugur minn 60 ár aftur í tímann, til þess tíma er faðir minn átti lítinn ferskjulund í Holliday, Utah. Hann var með býflugur til að fræva ferskjublómin sem síðan mundu vaxa og verða að mjög stórum, ljúffengum ferskjum.

Pabba þótti vænt um hinar ljúfu hunangsflugur og dáðist að því hvernig þúsundir þeirra unnu saman og breyttu hunangsleginum sem þær safna úr ferskjublómunum í sætt, gullið hunang ‒ eina næringarríkustu fæðu sem finnst í náttúrunni. Næringarfræðingar okkur segja raunar að það sé ein af fæðutegundunum sem inniheldur öll efnin ‒ ensím, vítamín, málma, og vatn – sem nauðsynleg eru til viðhalds lífi.

Faðir minn reyndi alltaf að fá mig til að taka þátt í verkinu með býflugurnar, en ég var mjög svo ánægður að láta hann annast sínar flugur. Nú, löngu síðar, hef ég hinsvegar lært meira um hina vel skipulögðu býkúpu — sambú um 60.000 býflugna.

Hunangsflugur eru drifnar áfram, til að safna saman blómasykrinum, og breyta honum í hunang. Það er hin stórfenglega þráhyggja þeirra sem skapari okkar hefur innprentað í genakerfi þeirra. Áætlað er að til að framleiða aðeins 0,45 kg af hunangi, verði meðal býflugnabú, með 20.000 til 60.000 býflugum, samtals að vitja milljóna blóma og ferðast sem jafngildir tvisvar sinnum umhverfis jörðina. Á stuttu æviskeiði sínu, aðeins sex vikur til fjórir mánuðir, er framlag einnar stakrar hunangsflugu af hunangi til búsins aðeins einn tólfti hluti af einni teskeið.

Þótt það virðist ómerkilegt í samanburði við heildina, er einn tólfti hluti teskeiðar af hunangi frá hverri býflugu lífsnauðsynlegur til viðhalds býflugnabúinu. Býflugurnar eru hver annarri háðar. Verk sem væri yfirþyrmandi fyrir fáeinar flugur verður léttara vegna þess að allar flugurnar vinna sitt verk af staðfestu.

Býkúpan hefur alltaf verið mikilvægt tákn í sögu kirkjunnar okkar. Við lærum í Mormónsbók að Jaredítarnir fluttu hunangsflugur með sér (sjá Eter 1:2) þegar þeir ferðuðust til Ameríku fyrir þúsundum ára. Brigham Young valdi býkúpuna sem tákn til að hvetja til og örva samvinnuanda meðal frumherjanna, er þeir breyttu hinni ófrjóu eyðimörk umhverfis Saltvatnið í þá frjóu dali sem þar eru í dag. Við njótum sameiginlegrar framsýni þeirra og iðjusemi.

Býkúputáknið er að finna bæði innan dyra og utan í mörgum af musterum okkar. Ræðustóllinn sem ég stend við er gerður úr viði valhnotutrés sem óx í bakgarði Gordons B. Hinckley forseta og er skreyttur útskornum býkúpumyndum.

Allt eru þetta táknmyndir sem benda til einnar staðreyndar: Hið mikla verður að veruleika og byrðir léttbærari með átaki margra handa, sem „starfa af kappi fyrir góðan málstað“ (K&S 58:27). Hugsið ykkur hverju milljónir Síðari daga heilagra geta komið til leiðar í heiminum, ef við ynnum líkt og býfluga, einbeitt, staðföst og skyldurækin við kenningar Drottins Jesú Krists.

Frelsarinn kenndi: „Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð:

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. …

Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.

Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir“ (Matt 22:37, 39–40).

Orð frelsarans eru einföld, en samt er merking þeirra djúp og ákaflega mikilvæg. Við eigum að elska Guð og elska og bera umhyggju fyrir nágrönnum okkar, rétt eins og okkur sjálfum. Hugsið ykkur hversu mikið gott við getum gert í heiminum, ef við sameinuðumst öll, einhuga sem fylgjendur Krists, og sinntum af kappi og ákefð þörfum annarra og þjónuðum þeim sem umhverfis okkur eru — fjölskyldum okkar, vinum okkar, nágrönnum okkar, meðborgurum okkar.

Eins og segir í Jakobsbréfinu, þá er þjónusta einmitt skilgreining á hreinni trú (sjá Jakbr 1:27).

Við lesum um þjónustu sem kirkjumeðlimir veita um heim allan og sérstaklega þá mannúðarþjónustu sem veitt er á tímum straumhvarfa — eldsvoða, flóða, storma, fellibylja. Þessi mjög svo nauðsynlegu og viðurkenndu neyðarviðbrögð ættu vissulega að halda áfram sem leið til að bera hver annars byrðar. En hvað um hversdagslíf okkar? Hver mundu verða sameinuð áhrif milljóna lítilla samúðargjörninga, sem við framkvæmdum daglega vegna hjartnæms, kristilegs kærleika okkar til annarra? Er tímar liðu mundi þetta hafa umbreytandi áhrif á öll börn okkar himneska föður og þau gætu fundið ást hans til þeirra fyrir okkar tilstilli. Okkar stormasami heimur þarfnast þessarar ástar Krists í dag meira en nokkru sinni fyrr, og hann mun þarfnast hennar enn meira á komandi árum.

Þessi einföldu, daglegu þjónustuverk kunna að sýnast lítils virði ein og sér, en metin sameiginlega verða þau líkt og einn tólfti hluti úr teskeið af hunangi, sem ein einstök býfluga leggur af mörkum til býkúpunnar. Það er kraftur fólginn í ást okkar til Guðs og barna hans, og þegar sú ást er áþreifanleg í milljónum gjörninga kristilegrar góðvildar, mun hún milda og næra heiminn með lífgefandi hunangsvökva trúar, vonar, og kærleika.

Hvað þurfum við að gera til að verða lík hinum einbeittu hunangsflugum og að sú einbeitni verði okkur eðlislæg? Mörg mætum við í kirkju samviskusamlega, og vinnum ötullega í köllunum okkar, einkum og sér í lagi á sunnudögum. Það er vissulega lofsvert. En beinast hugur okkar og hjarta jafn ötullega að hinu góða aðra daga vikunnar? Erum við bara hálfvolg, eða höfum við sannlega snúist til trúar á fagnaðarerindi Jesú Krists? Hvernig tökum við fræ trúar sem nærst hefur í huga okkar og plöntum því djúpt í frjóan jarðveg sálar okkar? Hvernig komum við til leiðar hinni máttugu breytingu sem Alma segir nauðsynlega fyrir eilífa hamingju okkar og frið? (sjá Alma 5:12–21).

Munið að hunang inniheldur öll efnin sem nauðsynleg eru til að viðhalda jarðnesku lífi. Og kenning og fagnaðarerindi Jesú Krists eru eini vegurinn sem leiðir til eilífs lífs. Aðeins þegar vitnisburður okkar nær út yfir það sem býr í huga okkar og grefst djúpt í hjarta okkar mun hvati okkar til að elska og þjóna verða sambærileg og hjá frelsaranum. Það er þá og aðeins þá, sem við höfum fyllilega snúist til trúar sem lærisveinar Krists, og okkur veitist kraftur til að ná til hjarta meðbræðra okkar.

Þegar hjörtu okkar beinast ekki lengur að því sem þessa heims er, leitum við ekki lengur mannlegrar upphefðar eða leitumst við að seðja hroka okkar (sjá K&S 121:35–37). Við öðlumst fremur þá kristilegu eiginleika, sem Jesús kenndi:

  1. Við erum mild, hógvær og umburðarlynd (sjá K&S 121:41).
  2. Við sýnum góðvild, án hræsni og án flærðar (sjá K&S 121:42).
  3. Við finnum til kærleika til allra manna (sjá K&S 121:45).
  4. Hugsanir okkjar eru dyggðum prýddar (sjá K&S 121:45).
  5. Við hneigjumst ekki lengur til illra verka (sjá Mósía 5:2).
  6. Heilagur andi er okkur stöðugur förunautur, og kenning prestdæmisins fellur á sál okkar eins og dögg af himni (sjá K&S 121:45–46).

Bræður og systur, nú er ég ekki að hvetja til trúaröfga eða einstrengingsháttar. Þvert á móti! Ég er einfaldlega að leggja til að við tökum næsta rökrétta skrefið í fullkomnum viðsnúningi okkar til fagnaðarerindis Krists með því að safna kenningum þess í hjartafylgsni okkar og í sálu okkar, svo við störfum og lifum samviskusöm — og ráðvönd – eftir því sem við segjumst trúa.

Þessi ráðvendni einfaldar líf okkar og gerir okkur næmari fyrir andanum og þörfum annarra. Hún færir gleði inn í líf okkar og frið í sálu okkar — þá gleði og þann frið sem við öðlumst þegar við iðrumst synda okkar og fylgjum frelsaranum með því að halda boðorð hans.

Hvernig komum við þessari breytingu á? Hvernig rótfestum við þessa ást Krists í hjörtum okkar? Það er einn einfaldur daglegur siður sem getur gert gæfumuninn fyrir sérhvern meðlim kirkjunnar, þar á meðal ykkur, drengir og telpur, piltar og stúlkur, ykkur ungu og ógiftu, og ykkur feður og mæður.

Sá einfaldi siður er: Biðjið himneskan föður í morgunbæn ykkar á hverjum nýjum degi, að hjálpa ykkur að koma auga á tækifæri til að þjóna einu hinna dýrmætu barna hans. Lifið síðan daginn með hjarta fullt af trú og ást, í leit að einhverjum til að hjálpa. Verið einbeitt, rétt eins og hunangsflugurnar einbeita sér að blómunum sem þær safna hunangsleginum og frjóduftinu úr. Ef þið gerið þetta, mun andleg næmni ykkar aukast, og þið munuð uppgötva tækifæri til að þjóna sem ykkur hefði aldrei til hugar komið.

Thomas S. Monson forseti hefur sagt, að í mörgum tilvikum svari himneskur faðir bænum annarrar manneskju í gegnum okkur — í gegnum ykkur og mig – í gegnum ljúf orð okkar og gjörðir – í gegnum einföld þjónustuverk okkar og ást.

Og Spencer W. Kimball forseti sagði: „Guð gefur okkur gaum, og hann vakir yfir okkur, en það er venjulega fyrir tilverknað annarra sem hann uppfyllir þarfir okkar. Þess vegna er nauðsynlegt að við þjónum hvert öðru í ríkinu“ (Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball [2006], 82).

Ég veit að ef þið gerið þetta — heima, í skólanum, í vinnunni, og í kirkjunni – mun andinn leiðbeina ykkur, og þið munuð geta greint þá sem þarfnast tiltekinnar þjónustu, sem jafnvel þið ein kunnið að geta veitt. Þið munuð hvött áfram af andanum og með afgerandi hætti vera reiðubúin að hjálpa til við að frjóvga heiminn með hinni sönnu ást Krists og fagnaðarerindi hans.

Og minnist þess, að ef við margföldum verk okkar með tugum þúsunda eða jafnvel milljónum bænþrunginna gjörninga og deilum ást Guðs til barna hans með kristilegri þjónustu, þá munu samverkandi áhrif góðsemi okkar, líkt og skerfur litlu hunangsflugunnar, einn tólfti hluti einnar teskeiðar sem lagður er í búið, færa ljós Krists inn í þennan sífellt dimmari heim. Samtengd munum við sýna ást og umhyggju okkar eigin fjölskyldum og hinum einmana, fátæku og niðurbrotnu, og þeim börnum okkar himneska föður sem eru að leita sannleika og friðar.

Það er auðmjúk bæn mín, bræður og systur, að við munum biðja í daglegum bænum okkar um innblástur til að finna einhvern sem við getum veitt einhverja markverða þjónustu, þar á meðal þá þjónustu að deila með þeim sannleika fagnaðarerindisins og vitnisburði. Að við munum í lok hvers dags geta svarað spurningunni játandi: „Hef ég drýgt nokkra göfuga dáð í dag? Hef ég huggað í harmi og neyð?“ (Sálmar, nr. 91).

Þetta er verk Guðs. Megum við sýna sömu ástundun og trúfestu og einbeittu litlu hunangsflugurnar við iðju sína, þess bið ég í auðmýkt í nafni Jesú Krists, amen.