Verið hugdjarfir og kjarkmiklir, sterkir og athafnasamir

Gary E. Stevenson biskup

Yfirbiskup kirkjunnar


Gary E. Stevenson
Skilgreinið ykkur á sama hátt og þessir 2.000 ungliðar, með því að vera hugdjarfir og kjarkmiklir sem verðugir prestdæmishafar.

Í kvöld upplifi ég þá sérstöku blessun að tala sem biskup til ungu Aronsprestdæmishafanna sem safnast hafa saman um allan heim til þess að taka þátt í þessum aðalprestdæmisfundi. Ég ætla að deila með ykkur sögu úr Mormónsbók þar sem Helaman og 2.000 ungliðunum hans er lýst. Þessi saga úr ritningunum mun veita sýn inn í siðferðisþrek þessara fornu, ungu manna ‒ veita ykkur, síðari daga ungu mönnum, innblástur. Ég vitna í eina uppáhalds ritningargrein: „Og allir voru þeir ungir menn og voru sérlega hugdjarfir og kjarkmiklir, sterkir og athafnasamir. En sjá. Þetta var ekki allt — þetta voru menn, sem alltaf voru trúir.“1 Hugrekki, styrkur, athafnasemi og sannleikur — hve aðdáunarverðir eiginleikar!

Mig langar að leggja áherslu á fyrsta eiginleikann sem lýsir þeim: „Hugdjarfir og kjarkmiklir.“ Í mínum huga lýsir þetta sannfæringu þessara ungu manna að vera hugdjarfir í því að gera það sem rétt er, eða eins og Alma lýsir því, „að standa sem vitni Guðs, alltaf…og allstaðar.“2 Þessir 2.000 ungliðar fengu óteljandi tækifæri til að sýna hugrekki sitt. Sérhver ykkar mun einnig standa frammi fyrir afdrifaríkum stundum í lífi ykkar sem munu kalla á hugrekki. John, vinur minn, deildi með mér einni slíkri stundu úr lífi sínu.

Fyrir nokkrum árum fékk John inngöngu inn í mjög hátt metinn japanskan háskóla. Hann átti að vera þátttakandi í alþjóðlegu nemendaverkefni með mörgum öðrum framúrskarandi nemendum allsstaðar að úr heiminum. Sumir höfðu skráð sig í þeirri von að auka skilning sinn á menningunni og tungumálinu, aðrir litu á það sem skref í átt að því að starfa seinna í Japan, en allir höfðu þeir yfirgefið heimili sín til að nema á erlendri grundu.

Fljótlega eftir að John kom fréttist af því meðal erlendu nemendanna, að samkvæmi yrði uppi á þaki á einkahúsnæði. Þetta kvöld héldu John og vinir hans tveir til þessa heimilisfangs.

Eftir lyftuferð upp á efstu hæð hússins gengu John og vinir hans upp þröngan stiga upp á þakið, þar sem þeir fóru að spjalla við hina nemendurna. Er leið á kvöldið, breyttist andrúmsloftið. Hávaðinn, tónlistin, og áfengið magnaðist ásamt vanlíðan Johns. Skyndilega fór einhver að raða nemendunum í hring með það í huga að deila maríjúana vindlingum. John gretti sig og sagði vinum sínum að það væri kominn tími til að fara. Næstum því í háði svaraði annar vinanna: „John, þetta er lítið mál — við stöndum bara í hringnum og þegar kemur að okkur þá réttum við hana bara áfram í stað þess að reykja hana. Þannig þurfum við ekki að gera lítið úr okkur sjálfum fyrir framan alla hina með því að fara.“ Þetta hljómaði auðvelt í eyrum Johns, en það hljómaði samt ekki rétt. Hann vissi að hann yrði að tilkynna ætlun sína og framkvæma hana. Hann tók sér smá stund, safnaði hugrekki og sagði svo að þeir gætu gert það sem þeir vildu, en að hann væri að fara. Annar vinanna ákvað að verða eftir og taka þátt í hringnum, en hinn fylgdi John hikandi niður tröppurnar og í lyftuna. Þeim til mikillar undrunar streymdu japanskir lögreglmenn út úr lyftunni þegar hún opnaðist og flýttu sér upp tröppurnar upp á þakið. John og vinur hans fóru í lyftuna og héldu á brott.

Þegar lögreglan kom upp tröppurnar fleygðu nemendurnir ólöglegu lyfjunum fram af þakinu, svo að þeir yrðu ekki gripnir. Eftir að lögreglan hafði lokað stiganum raðaði hún nemendunum upp og bað þá að rétta fram báðar hendur. Svo gengu þeir eftir röðinni og þefuðu af þumli og vísifingri hvers nemanda. Allir sem höfðu haldið á maríjúana vindlingi, hvort sem þeir höfðu reykt hann eða ekki, voru taldir sekir og því fylgdu verulegar afleiðingar. Næstum án undantekningar var hver nemandi, sem hafði verið áfram á þakinu, rekinn úr háskólanum og þeir sem voru ákærðir um glæpi voru líklega reknir frá Japan. Draumar um menntun, mörg undirbúningsár og atvinnutækifæri í Japan fóru út um þúfur á einu augnabliki.

Leyfið mér nú að segja ykkur hvað gerðist með þessa þrjá vini. Vinurinn sem varð áfram á þakinu var rekinn úr skólanum í Japan, sem hann hafði lagt mikið á sig að komast í, og þurfti að fara heim. Vinurinn sem yfirgaf samkvæmið með John þetta kvöld, kláraði skólann í Japan og hélt svo áfram námi og lauk háskólagráðu frá mjög hátt metnum háskóla í Bandaríkjunum. Starfsferill hans leiddi hann aftur til Asíu þar sem hann naut mikils frama. Fram á þennan dag er hann þakklátur John fyrir kjarkmikið fordæmi hans. Hvað John varðar hafa afleiðingarnar í lífi hans verið ómælanlegar. Á sama ári í Japan giftist hann hamingjusamlega og eignaðist síðan tvo syni. Hann hefur átt mjög góðan viðskiptaferil og nýlega var hann ráðinn sem prófessor við japanskan háskóla Ímyndið ykkur hve ólíkt líf hans hefði verið, ef hann hefði ekki haft hugrekki til að yfirgefa samkvæmið á þessu örlagaríka kvöldi í Japan.3

Ungu menn, það koma þær stundir að þið, líkt og John, munuð þurfa að sýna réttlátt hugrekki ykkar frammi fyrir vinum ykkar, og afleiðingarnar gætu orðið háð og niðurlæging. Í ykkar heimi getur baráttan við andstæðinginn einnig verið háð á hljóðum, einmanalegum orrustuvelli fyrir framan skjáinn. Þrátt fyrir marga kosti getur tæknin einnig fært ykkur miklar áskoranir sem kynslóðirnar á undan þurftu ekki að kljást við. Nýleg könnun á landsvísu komst að þeirri niðurstöðu að unglingar í dag verða ekki einungis fyrir auknum freistingum daglega í skólanum, heldur einnig í tölvuheimum. Hún sýndi fram á að unglingum, sem komast í kynni við myndir af áfengis og eiturlyfjanotkun á félagsnetsíðum, er þrisvar eða fjórum sinnum hættara við því að fara í neyslu. Fyrrverandi ráðuneytisfulltrúi frá Bandaríkjunum sagði í tengslum við þessa könnun: „Könnun þessa árs sýnir fram á nýja tegund af hópþrýstingi — rafrænan hópþrýsting. Rafrænn hópþrýstingur fer út fyrir vinahóp barnsins og þeirra sem barnið er í samskiptum við. Hann ræðst inn á heimilið og í herbergi barnsins í gegnum alnetið.“4 Réttlátt hugrekki mun oft greinast á því hvort músinni sé smellt eða ekki smellt. Trúboðum er kennt í Boða fagnaðarerindi mitt, „Það sem þú velur að hugsa um og gera í einrúmi, og trúir að enginn sé að fylgjast með, er góður mælikvarði á hversu dyggðugur þú ert.“5 Verið hugrakkir! Verið sterkir! „Standið á ... helgum stöðum og haggist ekki.”6

Ungu menn, ég lofa ykkur að Drottinn mun veita ykkur kraft. „Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar.“7 Hann mun launa ykkur fyrir hugrekki ykkar og réttláta hegðun, með hamingju og gleði. Slíkt hugrekki mun verða árangur trúar ykkar á Jesús Krist og friðþægingarfórn hans, bæna ykkar og hlýðni við boðorðin.

N. Eldon Tanner forseti sagði: „Einn ungur drengur getur haft mikil áhrif til góðs á skólalóðinni. Ungur maður í fótboltaliðinu, eða á skólalóðinni eða á meðal vinnufélaga, getur gert ómælda góða hluti með því að lifa eftir fagnaðarerindinu, heiðra prestdæmi sitt og standa með þvi sem rétt er. Þið munuð oft mæta mikilli gagnrýni og háði, jafnvel frá þeim sem trúa eins og þið trúið, jafnvel þó að þeir virði ykkur fyrir að gera það sem er rétt. Munið eftir því að frelsarinn sjálfur var píndur, niðurlægður, hrækt var á hann og hann loks krossfestur, því hann vildi ekki láta af sannfæringu sinni. Hafið þið einhvern tíma staldrað við og hugleitt hvað hefði gerst, ef hann hefði gefist upp og sagt, ,hver er tilgangurinn með þessu?‘ og gefið ætlunarverk sitt upp á bátinn? Viljum við gefast upp, eða viljum við vera hugdjarfir þrátt fyrir allt mótlæti og alla illsku sem er í heiminum? Verum hugrakkir, stöndum upp og sýnum að við séum sannir og dyggir fylgjendur Krists.“8

Ég býð ykkur að skilgreina ykkur á sama hátt og þessir 2.000 ungliðar, með því að vera hugdjarfir og kjarkmiklir sem verðugir prestdæmishafar. Munið að hvað sem þið gerið, hvert sem þið farið og hvað sem þið sjáið, mun það gera ykkur að þeim mönnum sem þið verðið. Hvers konar maður viljið þið verða? Verið verðugur djákni, verðugur kennari, verðugur prestur. Setjið ykkur markmið um að verða verðugur þess að fara í musterið í dag og að meðtaka næstu vígslu á réttum aldri og að ná svo á endanum að meðtaka Melkísedeksprestdæmið. Þetta er vegur réttlætis sem opnar leið fyrir guðlega hjálp. Drottinn hefur sagt „Í helgiathöfnum þess opinberast því kraftur guðleikans.“9

Foreldrar, prestdæmisleiðtogar og forgangsatriði sem hafa verið opinberuð og sem þið getið lesið um í bæklingunum Skyldurækni við Guð og Til styrktar æskunni, munu leiða ykkur áleiðis.

Thomas S. Monson forseti ráðlagði nýlega:

„Við þurfum hugrekki til skynsamlegrar ákvarðanatöku — hugrekki til að segja nei, hugrekki til að segja já. …

Ég sárbið ykkur að einsetja ykkur hér og nú að fara ekki af veginum sem liggur að takmarki ykkar: Eilífu lífi hjá föður ykkar á himnum.”10

Eins og þessir 2.000 hermenn svöruðu herópi Helaman, leiðtoga þeirra, og íklæddust hugrekki sínu, þá getið þið einnig gert það sama með því að fylgja herópi spámannsins og leiðtogans, Thomas S. Monson, forseta.

Ungu Aronsprestæmishafar, að lokum gef ég ykkur vitnisburð minn um Guð föðurinn og Jesú Krist og þessi orð Josephs Smiths: „Bræður, eigum við ekki að halda áfram í þágu svo mikils málstaðar? Halda áfram en ekki aftur á bak. Hugrekki, bræður: og áfram, áfram til sigurs!“11 Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1.  Alma 53:20.

 2.  

  2.  Mósía 18:9.

 3.  

  3. Persónuleg saga sögð höfundi.

 4.  

  4. Joseph A. Califano yngri, stofnandi og heiðursformaður National Center for Addiction and Substance Abuse við Columbia Háskólann, í fréttayfirlýsingu varðandi rannsóknina casacolumbia.org.

 5.  

  5.  Boða fagnaðarerindi mitt : Leiðarvísir að trúboðsþjónustu (2004), 118.

 6.  

  6.  Kenning og sáttmálar 87:8.

 7.  

  7.  2 Tím 1:7.

 8.  

  8. N. Eldon Tanner, „For They Loved the Praise of Men More Than the Praise of God,” Ensign, nó. 1975, 74–75.

 9.  

  9.  Kenning og sáttmálar 84:20.

 10.  

  10. Thomas S. Monson, „The Three Rs of Choice,” Liahona og Ensign, nóv. 2010, 68.

 11.  

  11.  Kenning og sáttmálar 128:22.