„Því ég lifi og þér munuð lifa“

Öldungur Shayne M. Bowen

af hinum Sjötíu


Shayne M. Bowen
Vegna hans, já, frelsara okkar Jesú Krists, munu þessar tilfinngar sorgar, einmanaleika og örvæntingar einn daginn hverfa í fyllingu gleðinnar.

Félagi minn og ég hittum sjö manna fjölskyldu í greininni þar sem ég þjónaði sem ungur trúboði í Chíle. Móðirin sótti kirkju í hverri viku með börnunum sínum. Við töldum að þau hefðu verið meðlimir kirkjunnar allt sitt líf. Nokkrum vikum síðar komumst við að því að þau höfðu ekki tekið skírn.

Við höfðum samstundis samband við fjölskylduna og spurðum hvort við gætum komið heim til þeirra og kennt þeim. Faðirinn hafði ekki áhuga á að læra um fagnaðarerindið, en hafði ekkert á móti því að við kenndum fjölskyldu hans.

Systir Ramirez fór hratt í gegnum lexíurnar. Óþreyjufull vildi hún læra allar kenningarnar sem við kenndum. Kvöld eitt, er við vorum að ræða skírnir ungbarna, kenndum við að lítil börn væru saklaus og þyrftu ekki á skírn að halda. Við buðum henni að lesa í bók Morónís:

„Sjá, ég segi þér, að þetta skuluð þið kenna — iðrun og skírn þeim, sem ábyrg eru og geta drýgt synd. Já, kennið foreldrum, að þeir verði að iðrast og láta skírast og auðmýkja sig eins og lítil börn þeirra, og þeir munu allir frelsast ásamt litlum börnum sínum.

Og lítil börn þeirra þarfnast hvorki iðrunar né skírnar. Sjá, skírn er til iðrunar til uppfyllingar boðorðunum um fyrirgefningu syndanna.

En lítil börn eru lifandi í Kristi, allt frá grundvöllun heimsins. Væri ekki svo, væri Guð hlutdrægur Guð og einnig hverflyndur Guð og fer í manngreinarálit. Því að hversu mörg lítil börn hafa dáið án skírnar!“1

Systir Ramirez tók að snökta eftir að við lukum við að lesa ritningarversið. Við félagi minn urðum ráðvilltir. Ég spurði: „Systir Ramirez, höfum við sagt eða gert eitthvað sem hefur sært þig?“

Hún svaraði: „Ó, nei öldungar, þið hafið ekki gert neitt rangt. Fyrir sex árum eignaðist ég dreng. Hann dó áður en við gátum látið skíra hann. Presturinn okkar sagði að þar sem hann hefði ekki verið skírður, þá yrði hann í forgarði vítis um alla eilífð. Í sex ár hef ég þurft að bera þennan sársauka og sekt. Eftir að hafa lesið þessa ritningargrein veit ég fyrir kraft heilags anda að Mormónsbók er sönn. Mikilli byrði hefur verið létt af mér og þetta eru gleðitár.“

Ég minntist kennslu spámannsins Joseph Smith sem kenndi þessa hughreystandi kenningu: „Drottinn tekur marga í burtu, jafvel ungbörn, svo þau megi komast hjá öfund mannsins, og sorg og illsku þessa heims. Þau voru of hrein, of yndisleg til að lifa á jörðinni, þess vegna, ef réttilega er hugsað, höfum við ástæðu til að fagna í stað þess að syrgja, því þau eru frelsuð frá hinu illa og við munum senn fá þau á ný.“2

Eftir að hafa þjást af nærri óbærilegri sorg og sársauka í sex ár, hafði hin sanna kenning, opinberuð af ástkærum föður á himnum með lifandi spámanni, fært þessari hrjáðu konu indælan frið. Óþarft er að segja að systir Ramirez og þau börn hennar sem voru átta ára og eldri tóku skírn.

Ég man að ég skrifaði fjölskyldu minni um þakklætið sem ég fann í hjarta mínu fyrir að eiga þessa vitneskju og fyrir margan annan augljósan og dýrmætan sannleik fagnaðarerindis Jesú Krists. Mig óraði ekki fyrir því að þessi dásamlega og sanna regla myndi síðar meir verða mér sjálfum smyrsl í Gíleað.

Mig langar að tala til þeirra sem misst hafa barn og spurt, „hvers vegna ég?“ eða hafa jafnvel efast um sína eigin trú á kærleiksríkan föður á himnum. Það er bæn mín að ég geti með krafti heilags anda veitt ykkur að einhverju leyti von, frið og skilning. Það er þrá mín að geta stuðlað að því að endurreisa trú ykkar á ástkæran föður á himnum, sem veit allt og leyfir að við séum reynd, svo við getum þekkt hann og elskað hann og fáum skilið að án hans höfum við ekkert.

Fjórða febrúar 1990 fæddist þriðji sonur okkar og sjötta barnið. Við nefndum hann Tyson. Hann var fallegur lítill drengur og fjölskyldan tók honum fúslega opnum örmum. Systkini hans voru afar stolt af honum. Okkur fannst hann vera fullkomnasti litli drengurinn sem nokkurn tíma hefði fæðst.

Þegar Tyson var átta mánaða gamall sogaði hann upp í sig krít sem hann fann á teppinu. Krítin festist í hálsi hans og hann hætti að anda. Eldri bróðir Tysons kom með hann upp á efri hæðina og kallaði örvæntingarfullur: „Barnið er hætt að anda, barnið er hætt að anda.“ Við hófum endurlífgunartilraunir og hringdum í neyðarnúmerið.

Bráðaliðarnir komu og hröðuðu sér með Tyson á spítalann. Við héldum áfram heitri bænagjörð okkar á biðstofunni og báðum Guð um kraftaverk. Læknirinn kom inn í stofuna, eftir að því er virtist heila eilífð, og sagði: „Mér þykir það leitt. Það var ekkert meira sem við gátum gert. Takið ykkur þann tíma sem þið þurfið.“ Síðan fór hún.

Þegar við komum inn í herbergið þar sem Tyson lá, sáum við gleðigjafann okkar líflausan. Svo virtist sem himneskur ljómi væri í kringum litla líkama hans. Hann var svo geislandi og tær.

Á því andartaki var líkt og heimurinn hefði hætt að snúast. Hvernig gætum við farið heim til hinna barnanna og einhvern veginn reynt að útskýra að Tyson kæmi ekki aftur heim?

Ég mun nú tala í fyrstu persónu er ég segi frá því sem eftir er af sögunni. Ég og ástkær eiginkona mín fórum í gegnum þessa raun saman, en ég get ómögulega reynt að tjá tilfinningar móður og mun ekki einu sinni reyna að gera það.

Það er ógerlegt að útskýra þær blendnu tilfinningar sem ég upplifði á þessum tímapunkti í lífi mínu. Oftast leið mér eins og ég væri í vondum draumi og að ég myndi brátt vakna og þessari hræðilegu martröð myndi ljúka. Í margar nætur gat ég ekki sofið. Ég ráfaði oft á nóttunni úr einu svefnherbergi í það næsta til að tryggja að allt væri í lagi með hin börnin okkar.

Sektarkenndin kvaldi sál mína. Mér fannst ég svo sekur. Mér fannst þetta mér að kenna. Ég var faðir hans og hefði átt að gera meira til að vernda hann. Ef ég hefði bara gert þetta eða hitt. Enn í dag, 22 árum síðar, finn ég stundum þessar tilfinningar læðast inn í hjarta mitt og ég þarf að losa mig við þær strax, því þær geta verið skaðlegar.

Ég fór í viðtal til öldungs Dean L. Larsen um mánuði eftir að Tyson lést. Hann gaf sér tíma til að hlusta á mig og ég mun ætíð vera honum þakklátur fyrir ráðgjöf hans og kærleika. Hann sagði: „Ég tel ekki að Drottinn vilji að þú refsir sjálfum þér fyrir dauða litla drengsins þíns.“ Ég fann ást himnesks föður í gegnum einn af þjónum hans.

Hins vegar héldu kveljandi hugsanir áfram að hrjá mig og brátt fann ég til reiði. „Þetta er ekki sanngjarnt! Hvernig gat Guð gert mér þetta? Hvers vegna ég? Hvað gerði ég til að verðskulda þetta?“ Ég fór jafnvel að finna fyrir reiði í garðs fólks sem einungis reyndi að hugga okkur. Ég man eftir að vinir sögðu: „Ég veit hvernig þér líður.“ Ég hugsaði með sjálfum mér: „Þið hafið ekki hugmynd um hvernig mér líður. Látið mig bara vera.“ Brátt komst ég að því að sjálfsvorkunn getur verið mjög lamandi. Ég skammaðist mín fyrir óvinsamlegar hugsanir í garð kærra vina, sem einungis reyndu að hjálpa.

Þegar ég fann að samviskubit, reiði og sjálfsvorkunn voru að gera út af við mig, bað ég þess að hjarta mitt myndi breytast. Drottinn veitt mér nýtt hjarta, með mjög persónulegri og heilagri upplifun, og þrátt fyrir að það væri enn einmana og sársaukafullt breyttist viðhorf mitt. Mér var veitt sú vitneskja að ég hefði ekki verið rændur neinu, heldur biðu mín stórkostlegar blessanir, ef ég sannaði trúfesti mína.

Líf mitt tók að breytast og ég gat horft fram á við með von í stað þess að horfa til baka í örvæntingu. Ég ber vitni um að þetta líf er ekki endirinn. Andaheimurinn er raunverulegur. Kenningar spámannanna varðandi líf eftir dauðann eru sannar. Þetta líf er einungis lítið skref í ferðalagi okkar aftur til himnesks föður.

Tyson er enn óaðskiljanlegur hluti fjölskyldu okkar. Í gegnum árin hefur það verið dásamlegt að sjá miskunn og góðsemd ástkærs föður á himnum, sem hefur leyft fjölskyldu okkar að finna á mjög áþreifanlegan hátt áhrif Tysons. Ég ber vitni um að hulan er þunn. Tilfinningar tryggðar, kærleika og fjölskyldueiningar hverfa ekki þegar ástvinir okkar hverfa handan hulunnar, heldur eflast þess í stað.

Stundum spyr fólk: „Hversu langan tíma tók fyrir ykkur að komst yfir þetta?“ Sannleikurinn er sá að maður kemst aldrei algjörlega yfir þetta, fyrr en við sameinumst látnum ástvinum okkar að nýju. Ég mun aldrei njóta fyllingar gleðinnar fyrr en við erum sameinuð að morgni fyrstu upprisunnar.

„Því að maðurinn er andi. Frumefnin eru eilíf, og andi og frumefni, óaðskiljanlega samtengd, taka á móti fyllingu gleðinnar–

En þegar þau eru aðskilin, getur maðurinn ekki tekið á móti fyllingu gleðinnar.“3

Á meðan getum við, eins of frelsarinn hefur kennt, haldið áfram hughraust.4

Ég hef lært að bitur og nánast óbærileg þjáning getur orðið ljúf, ef við snúum okkur að föður okkar á himnum og sárbiðjum um huggun hans sem kemur með áætlun hans, syni hans Jesú Kristi, og huggara hans, sem er heilagur andi.

Þvílík blessun þetta er í lífi okkar. Væri ekki hörmulegt ef við myndum ekki finna til mikillar sorgar við að missa barn? Hve þakklátur ég er fyrir föður minn á himnum, sem leyfir okkur að elska heitt og eilíflega. Hve þakklátur ég er fyrir eilífar fjölskyldur. Hve þakklátur ég er fyrir að hann hefur enn á ný opinberað með spámanni sínum hina dýrðlegu áætlun endurlausnar.

Munið eftir tilfinningum hjartans, eftir útför ástvinar, er þið ókuð burt úr kirkjugarðinum og horfðuð til baka á einmanalega kistuna ‒ og veltuð því fyrir ykkur hvort hjarta ykkar myndi bresta.

Ég vitna að vegna hans, já, frelsara okkar Jesú Krists, munu þessar tilfinningar sorgar, einmanaleika og örvæntingar einn daginn hverfa í fyllingu gleðinnar. Ég vitna um að við getum reitt okkur á hann og hann sagði:

„Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar.

Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa.“5

Ég vitna, eins og stendur í Boða fagnaðarerindi mitt, að „þegar við reiðum okkur á friðþægingu Jesú Krists, getur hann hjálpað okkur að standast mótlæti, sjúkdóma og sársauka. Við getum fyllst gleði, friði og huggun. Hvaðeina sem ósanngjarnt er í lífinu er unnt að leiðrétta fyrir friðþægingu Jesú Krists.“6

Ég vitna um, að á hinum bjarta og dýrðlega morgni fyrstu upprisunnar munu ástvinir mínir og ykkar koma úr gröfunum, eins og Drottinn sjálfur hefur lofað, og við munum njóta fyllingar gleðinnar. Hann lifir, því munu þau og við einnig lifa. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1.  Moró 8:10–12.

 2.  

  2.  Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 173.

 3.  

  3.  Kenning og sáttmálar 93:33–34.

 4.  

  4. Sjá Jóh 16:33.

 5.  

  5.  Jóh 14:18–19.

 6.  

  6.  Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að trúboðsþjónustu (2004), 52.