Að verða sannur lærisveinn

Öldungur Daniel L. Johnson

af hinum Sjötíu


Daniel L. Johnson
Þegar við hlýðum boðorðum hans og þjónum náunga okkar, verðum við betri lærisveinar Jesú Krists.

Við sem höfum stigið niður í skírnarvatnið og meðtekið gjöf heilags anda, höfum gert sáttmála um að við séum reiðubúin að taka á okkur nafn Jesú Krists, eða með öðrum orðum, við lýsum því yfir að við séum lærisveinar Drottins. Við endurnýjum þennan sáttmála vikulega er við meðtökum sakramenntið og við sýnum fram á að við séum lærisveinar með lífi okkar. Nýlega sýndi þetta sig í atburðum sem gerðust í Mexíkó.

Vorið hafði verið yndislegt fyrir samfélögin í norðurhluta Mexíkó þar sem ræktaðir eru ávextir. Ávaxtatrén voru í fullum blóma og væntingar um góða uppskeru voru miklar. Þá þegar var búið að gera ráðstafanir til að greiða lán, endurnýja nauðsynlegan tækjakost og gömul tré, ásamt því að mæta kostnaði fjölskyldunnar af skólagjöldum og fleiru. Einnig voru áætlanir gerðar um fjölskylduferðir. Bjartsýni lá í loftinu. Það var svo einn mánudagseftirmiðdag, seint í mars, að skall á vetrarstormur og fór að snjóa. Það snjóaði til klukkan þrjú um morguninn. Þegar létti til féll hitastigið hratt. Alla nóttina og næsta morgun var allt gert til þess að reyna að bjarga, þó ekki væri nema hluta uppskerunnar. Ekkert dugði. Það var hreinlega orðið of kalt og uppskeran frosin. Það yrði enga ávaxtauppskeru að selja þetta árið. Þriðjudagurinn rann upp og honum fylgdi sár veruleikinn um allar brostnar áætlanir, væntingar og drauma gærdagsins

Ég fékk tölvupóst um þennan hræðilega þrjðjudagsmorgun frá Sandra Hatch, eiginkonu Johns Hatch, fyrsta ráðgjafa forsætisráðsins í Colonia Juárez Chihuahua musterinu. Ég les fyrir ykkur hluta þessa tölvupósts: „John fór á fætur um klukkan 6:30 ‒ og hljóp upp í musterið til að sjá hvort við ættum að fella niður morgunsetuna. Hann kom til baka og sagði að bílastæðin og vegurinn væru auð svo við ákváðum að halda áætlun. Við ákváðum að kannski myndu einhverjir þjónanna koma sem áttu ekki aldingarða og við gætum sett þá alla í setu. ... Það var mjög andlega upplífgandi að sjá þessa menn koma inn, hvern á fætur öðrum. Þarna voru þeir, algerlega óhvíldir, sannfærðir um að uppskera þeirra væri töpuð. ... Ég fylgdist með þeim á undirbúningsfundinum og þeir áttu erfitt með að halda sér vakandi. Þrátt fyrir að hafa góða afsökun fyrir því að koma ekki, voru þeir samt komnir. Það voru 38 manns í setunni (full seta)! Þetta var upplífgandi morgunn fyrir okkur og við þökkuðum himneskum föður fyrir það góða fólk sem sinnir skyldum sínum, sama hvað kemur upp. Ég fann sérstakan anda þennan morgun. Ég er viss um að Drottinn gladdist yfir að vita að við elskum hús hans og að okkur finnist það góður staður til að vera á, á svo erfiðum morgni.

Sagan endar ekki hér og í raun heldur hún enn áfram.

Flestir þeirra sem höfðu misst ávaxtauppskeru sína áttu annað landsvæði þar sem þeir gátu ræktað annað á uppskerutímanum, eins og til dæmis chillipipar eða baunir. Sú uppskera gat að minnsta kosti gefið af sér nægilegt fé til að lifa af fram að næstu ávaxtauppskeru. Það var hinsvegar einn ljúfur bróðir, með unga fjölskyldu, sem átti ekkert annað land og horfði fram á tekjulaust ár. Þegar aðrir þar í sveit horfði upp á skelfilega stöðu þessa bróður, fóru þeir af stað, af eigin frumkvæði og með eigið fé, og plægðu fyrir hann landskika og útveguðu honum chillipiparplöntur til að gróðursetja.

Ég þekki þessa menn sem um er að ræða. Þar sem ég þekki þá, var ég ekki hissa á því sem þeir gerðu. Þeir sem þekkja þá ekki munu örugglega spyrja tveggja spurninga sem báðar byrja á hvers vegna,Hvers vegna skyldu þeir koma til musterisins til að sinna skyldum sínum og þjóna, eftir að hafa verið á fótum alla nóttina, aðeins til þess að horfast í augu við að þeir hefðu tapað meirihluta tekna sinna þetta árið? Hvers vegna skyldu þeir taka af skorti sínum og mjög svo dýrmætum birgðum til þess að hjálpa öðrum í mikilli neyð, þegar þeir sjálfir voru í mjög erfiðri fjárhagsstöðu?

Ef þið skiljið merkingu þess að vera lærisveinn Jesú Krists, þá vitið þið svarið við þessum tveimur spurningum.

Að gera sáttmála um að vera lærisveinn Krists er upphaf ævilangrar ferðar og leiðin er ekki alltaf auðveld. Er við iðrumst synda okkar og vinnum að því að gera það sem hann myndi vilja að við gerðum, og þjónum náunga okkar eins og hann myndi þjóna þeim, þá munum við óhjákvæmilega verða líkari honum. Endanlegt markmið er að verða líkari honum og að verða eitt í honum ‒ og það er í meginatriðum skilgreining þess að vera lærisveinn.

Frelsarinn spurði lærisveina sína þegar hann heimsótti meginland Ameríku, „Hvers konar menn ættuð þið því að vera?” Síðan svaraði hann sinni eigin spurningu: „Sannlega segi ég yður, alveg eins og ég er“ (3 Ne 27:27).

Það er ekki auðvelt verk að verða eins og frelsarinn, sérstaklega í þeim heimi sem við lifum í. Við tökumst á við hindranir og mótlæti nánast allt okkar líf. Það er ástæða fyrir því, og hún er ein af megin markmiðum þessa dauðlega lífs Við lesum í Abraham 3:25; „Og með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim.”

Þessar prófraunir og erfiðleikar eru mismunandi að eðli og styrkleika. En enginn mun yfirgefa þessa jarðnesku tilvist án þess að fara í gegnum þær. Við ímyndum okkur oftast erfiðleika sem uppskerubrest, atvinnumissi, fráfall ástvinar, veikindi, líkamlega, andlega eða tilfinningalega vangetu, fátækt eða vinamissi. Ef menn hins vegar ná árangri á sviði sem virðist skipta máli, geta þeir átt á hættu að verða óþarflega drambsamir, og leitast meira eftir viðurkenningu manna en velþóknun himins. Þetta gætu verði vinsældir heimsins, opinber viðurkenning, líkamlegir yfirburðir, hæfileikar í listum eða íþróttum, velmegun og ríkidæmi. Mörg okkar líta kannski á þessa síðast upptöldu erfiðleika á svipaðan hátt og Tevye túlkaði í Fiðlaranum á þakinu: Ef ríkidæmi er bölvun, „megi þá Guð ljósta mig, svo ég nái mér aldrei aftur.”1

Svona erfiðleikar geta verið hættulegri og meira ógnvekjandi en þeir fyrri og erfiðara að sigrast á þeim. Sem lærisveinar verðum við reynd og við þroskumst, en ekki af því hvernig reynslu við hljótum, heldur af því hvernig við tökumst á við hana. Eins og Henry B. Eyring forseti hefur kennt okkur: Hin mikla prófraun lífsins er því að sjá hvort við hlustum eftir og hlýðum boðorðum Guðs mitt í stormum lífsins. Hún snýst ekki um að standast storma, heldur að velja hið rétta meðan þeir geisa. Og sorgarsaga lífsins er að mistakast á því prófi, og takast ekki að snúa að nýju í dýrð til okkar himneska heimilis.” („Spiritual Preparedness: Start Early and Be Steady,” Liahona og Ensign, nóv. 2005, 38).

Ég er stoltur afi 23ja barnabarna. Þau koma mér sífellt á óvart með skilningi sínum á eilífum sannleika, jafnvel á sínum yngri og viðkvæmari árum. Þegar ég bjó mig undir þessa ræðu, bað ég sérhvert þeirra að senda mér stutta skilgreiningu á merkingu þess að vera lærisveinn eða fylgjandi Jesú Krist. Mér bárust dásamleg svör frá þeim öllum. Ég ætla að deila með ykkur svari hins átta ára gamla Benjamíns: „Að vera lærisveinn Jesú Krists þýðir að vera fordæmi.Það þýðir að vera trúboði og að undirbúa sig undir að verða trúboði. Það þýðir að þjóna öðrum.Það þýðir að lesa í ritningunum og fara með bænirnar þínar.Það þýðir að þú heldur hvíldardaginn heilagan.Það þýðir að þú hlustar á áminningar heilags anda.Það þýðir að þú ferð í kirkju og í musterið.“

Ég er sammála Benjamín. Að vera lærisveinn snýst um að gera og að verða. Þegar við hlýðum boðorðum hans og þjónum náunga okkar, verðum við betri lærisveinar Jesú Krists. Hlýðni og undirgefni við vilja hans mun færa okkur samfélag heilags anda, ásamt blessunum friðar, gleði og öryggis, sem ætíð fylgja heilögum anda, þriðja aðila Guðdómsins. Þær hljótum við á engan annan hátt. Þegar allt kemur til alls, er það með því að beygja okkur algerlega undir vilja hans sem við getum orðið eins og frelsarinn er. Enn á ný, hið endanlega markmið og viðfangsefni er að verða líkari honum og að verða eitt í honum ‒ og það er í meginatriðum skilgreining þess að vera sannur lærisveinn.

Þjónustan sem ég sá innta af hendi í Colonia Juárez musterinu og á ekrunum í kring, var þjónusta lærisveina, er trúbræður og systur staðfestu hollustu sína við Guð og hvert annað, þrátt fyrir átakanlegt mótlæti.

Ég ber vitni um að þegar við hlýðum boðorðum hans, þjónum hvert öðru og beygjum okkur undir vilja hans, munum við sannlega verða sannir lærisveinar hans. Um það ber ég vitni, í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

  1.  

    1. Sjá Joseph Stein, Jerry Bock, Sheldon Harnick, Fiddler on the Roof (1964), 61.