Gætið yðar

Öldungur Anthony D. Perkins

af hinum Sjötíu


Anthony D. Perkins
Haldið ykkur á prestdæmisbrautinni með því að dýpka trúarumbreytingu ykkar og styrkja fjölskyldur ykkar. … Forðist hörmungar með því að fara eftir viðvörunarmerkjum sem Guð og spámennirnir hafa sett á leið okkar.

Þegar ég var á unga aldri, ók fjölskylda okkar stundum yfir Klettafjöll Norður-Ameríku til þess að heimsækja afa og ömmu. Vegurinn lá fyrst um malurtarflatlendi, reis upp í brattar hlíðar þaktar furutrjám, og lá síðan inn í asparlundi og fjalllendi þar sem útsýni var til allra átta.

En þessi fallegi vegur var ekki fullkomlega öruggur. Mikill hluti vegarins var grafinn inn í brattar fjallshlíðar. Til verndar ferðalöngum, höfðu vegagerðarmenn byggt vegrið og sett upp skilti sem á stóð: „Hætta: Varist grjóthrun!“ Við sáum fyllstu ástæður fyrir þessum viðvörunum. Klettar og stærðar björg lágu dreifð um árfarveginn langt fyrir neðan veginn. Sums staðar gat að líta illa farin bílhræ á gilbotninum, sorgleg merki um ökumenn sem ekki höfðu gætt að sér.

Eiður og sáttmáli prestdæmisins

Bræður, allir höfum við nú þegar, eða munum fljótlega taka á okkur eið og sáttmála Melkísedeksprestdæmisins.1 Með þeim sáttmála hefst dýrðleg ferð sem byrjar á því að við tökum á móti bæði lægra og æðra prestdæminu, og hún heldur áfram er við eflum kallanir okkar og stefnum æ ofar í dýrðlegri fjallasýn Guðs, þar til við meðtökum „allt sem [faðirinn] á.“2

Hinn vitri vegagerðarmaður þessa himneska vegar hefur sett viðvörunarskilti á leið okkar. Eiður og sáttmáli prestdæmisins hefur að geyma þessa sálarrannsakandi viðvörun: „Og nú gef ég yður boð um að gæta yðar af kostgæfni.“3

Hvers vegna skyldi Guð bjóða okkur að sýna aðgát? Hann veit að Satan er raunveruleg vera4 sem leitast við að draga sál okkar niður í djúp eymdar.5 Guð veit einnig að í prestdæmishafanum leynist „hinn náttúrlegi maður,“6 „sem hættir til að villast af leið.“7 Þannig hvetja spámenn okkur til að „afklæðast hinum gamla manni“8 og „íklæðast Kristi“9 með trú, iðrun, frelsandi helgiathöfnum, og daglegu trúarlífi.

Forðast hörmungar

Í göngunni upp prestdæmisstigann getur hvaða drengur eða maður sem er dregist niður, ef hann gætir ekki að sér. Hefur ykkur brugðið og þið orðið daprir vegna óvæntrar hrösunar framúrskarandi pilts, trúboða sem nýkominn er frá trúboði, virðingarverðs prestdæmisleiðtoga eða kærs fjölskyldumeðlims?

Frásögn Gamla testamentisins af Davíð er sorglegt dæmi um prestdæmiskraft sem sólundað var. Þrátt fyrir að hafa sigrast á Golíat sem piltur og hafa lifað réttlátlega í áratugi.10 var þessi spámaður og konungur enn berskjaldaður. Á því afgerandi augnabliki þegar hann sá hina fögru Batsebu í baðinu, stóð enginn siðgæðisvörður nærri til að hrópa: „Varaðu þig Davíð, kjáninn þinn!“ Aðgæsluleysi hans11 og óhlýðni við aðvörun andans12 leiddi til þess að hann missti eilífa fjölskyldu sína.13

Bræður, ef jafnvel hinum máttuga Davíð verður svift út af veginum til upphafningar, hvernig getum við þá varast svipuð örlög?

Hið tvöfalda handrið djúprar persónulegrar trúarumbreytingar og sterkra fjölskyldutengsla getur hjálpað okkur að halda okkur á hinni himnesku braut.

Vitandi þetta, losar Satan um umbreytingar-eyðandi og fjölskyldu-molandi björg á prestdæmisleið okkar. Sem betur fer hafa Jesús Kristur og spámenn hans sett „viðvörunarskilti“ meðfram veginum. Þeir vara okkur þráfaldlega við trúareyðandi hroka14 og fjölskyldu-molandi syndum eins og reiði, ágirnd, og losta.

Fyrir löngu sagði Móse: „[Gleym] ekki Drottni.“15 Í okkar hraða og afþreygingarsinnaða heimi, eru menn fljótir til að „gleyma Drottni Guði sínum, … fljótir til misgjörða og fljótir að láta hinn illa leiða sig afvega.“16

Dýpkun trúarumbreytingar og styrking fjölskyldu

Til þess að haldast öruggur á prestdæmisveginum meðal grjóthruns freistinganna, minni ég okkur á sex grundvallarreglur sem dýpka trúarumbreytingu og styrkja fjölskylduna.

Í fyrsta lagi, bænin opnar alltaf dyrnar að guðlegri hjálp til að „sigra Satan.“17 Í hvert sinn sem Jesús aðvarar prestdæmishafa, að „Satan þráir að sálda [þá] sem hismi,“ ráðleggur hann bæn sem þá gjörð er stendur gegn freistingum.18 Thomas S. Monson forseti hefur kennt: Ef einhver hefur verið tregur til að hlíta þeirri ráðgjöf, að biðja stöðugt, þá er engin stund betri en nú til að byrja. … maðurinn er aldrei hærri en þegar hann er á hnjánum.“19

Í öðru lagi, nám í fornum ritningum og nýjum tengir okkur Guði. Drottinn aðvaraði kirkjumeðlimi að „gæta þess að fara ekki léttúðlega með [orð spámannanna], svo að þeir komist ekki þannig undir fordæmingu og hrasi og falli.“20 Til þess að forðast þessa alvarlegu fordæmingu, ættum við að lesa af kostgæfni í ritningunum, svo og í kirkjutímaritum og vefsíðum sem gera okkur kleift að „fá ráðgjöf á náinn og persónulegan hátt frá útvöldum spámanni [Drottins].“21

Í þriðja lagi, þátttaka í helgiathöfnum býr okkur undir að hafa „hinn heilaga anda [okkur] til leiðsagnar.“22 Þegar Drottinn varaði við: „Verið … á verði svo þér látið eigi blekkjast,“ lofaði hann að það myndum við ekki gera, ef við leitum „af einlægni hinna bestu gjafa“ andans.23 Að meðtaka verðugir sakramentið í hverri viku gerir meðlimina hæfa til að „hafa anda hans ávallt með [sér].“24 Í musterisathöfnum er okkur unnt að „hljóta fyllingu heilags anda.“25

Í fjórða lagi, að sýna sanna ást er kjarninn í persónulegum trúarumskiptum og fjölskyldutengslum. Benjamín konungur leiðbeindi: „Varist að ágreiningur vakni yðar á meðal.“26 Gleymið aldrei að Satan er „faðir sundrungar“27 og leitar eftir því að fjölskyldumeðlimir „takist á og munnhöggvist.“28 Bræður, ef við misbjóðum einhverjum meðlim fjölskyldu okkar, tilfinningalega, í orðum, eða líkamlega, þá missum við prestdæmiskraftinn.29 Veljið að hafa stjórn á reiði. Fjölskyldumeðlimir ættu að heyra blessunarorð af munni okkar, ekki blótsyrði. Við eigum að hafa áhrif á aðra með fortölum, með umburðarlyndi, með mildi og hógværð og með fölskvalausri ást.30

Í fimmta lagi, að fylgja tíundarlögmálinu er nauðsynlegur þáttur í trú og samstöðu fjölskyldunnar. Satan notar eftirsókn eftir eigum til þess að ýta fjölskyldum út af himneska veginum, og því varaði Jesús við: „Varist alla ágirnd.“31 Hömlur eru lagðar á ágirndina þegar við ráðstöfum tekjum okkar, greiðum heiðarlega tíund og rausnarlega föstufórn, áætlum nauðsynleg útgjöld, forðumst skuldir, söfnum fyrir framtíðar nauðsynjum, og gerumst stundlega sjálfbjarga. Loforð Guðs til okkar er: „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“32

Í sjötta lagi, að lifa fyllilega eftir skírlífislögmálinu veitir öryggi til að standa „í návist Guðs“ með heilagan anda sem okkar „stöðuga förunaut.“33 Satan ræðst á dyggð og hjónaband með aurskriðu af klámi. Þegar Drottinn aðvaraði þá sem hór drýja að „gæta sín og iðrast í skyndi,“ náði skilgreining hans út fyrir líkamlegt atferli hórdóms og til lostafullra hugsana sem eru undanfari þeirra.34 Nútíma spámenn og postular hafa oft og ítarlega fjallað um plágu klámsins. Gordon B. Hinckley forseti kenndi: „[Klám] er eins og æðandi stormur, eyðileggur einstaklinga og fjölskyldur, leggur í rúst það sem eitt sinn var heilnæmt og fagurt … Tími er kominn til að hver okkar sem kann að hafa ánetjast slíku dragi sig upp úr foraðinu.“35 Ef ykkar er freistað að brjóta skírlífislögmálið með einhverjum hætti, fylgið þá fordæmi Jósefs í Egyptalandi, sem „flýði og hljóp út“36

Þessar sex grundvallarreglur hjálpa prestdæmishöfum að halda áfram upp himnesku brautina, öruggir innan andlegra handriða persónulegrar umbreytingar og fjölskyldubanda. Piltar, með því að fylgja þessum reglum færist þið nær prestdæmisleiðinni í átt að musterissáttmálum, fastatrúboðsþjónustu, og eilífu hjónabandi. Eiginmenn og feður, að lifa eftir þessum reglum gerir ykkur hæfa til að vera í forsæti fyrir heimilinu í réttlæti, sem andlegir leiðtogar fjölskyldu ykkar, með eiginkonu ykkar sem jafnréttháum félaga.37 Prestdæmisleiðin er ferðalag sem uppfullt er af gleði.

Haldast á prestdæmisbrautinni

Hverfum aftur að reynslu minni á unga aldri, einni minningunni um það er við fórum yfir Klettafjöllin. Eftir að hafa farið fram hjá viðvörunarskiltinu „Hætta, varist grjóthrun,“ varð faðir minn var við að smásteinar skullu á veginn framundan okkur. Hann var fljótur að hægja á bílnum uns hann var að stöðvast þegar hnullungur á stærð við körfubolta þaut framhjá okkur. Pabbi beið eftir að grjóthruninu slotaði áður en við héldum áfram. Stöðug aðgæsla og skjót viðbrögð föður míns tryggðu að fjölskyldan komst heil á húfi á lokaáfangastað sinn.

Bræður, Satan „leitast við að tortíma sálum manna.“38 Ef sál ykkar rekur af leið fram að brún andlegra kletta, stansið þá núna áður en þið fallið, og haldið aftur í rétta stefnu.39 Ef ykkur finnst sál ykkar liggja í rúst á gilbotninum fremur en hátt uppi á prestdæmisveginum,vegna þess að þið vanræktuð „viðvörunarskiltin“ og syndguðuð, þá vitna ég að með einlægri iðrun og fyrir kraft friðþægingarfórnar Jesú Krists, er mögulegt að ykkur verði lyft upp og þið komist aftur á himneska braut Guðs.40

Jesús kenndi: „Varist ... [hræsni].“41 Ef þið eruð óverðugir þess að bera prestdæmið, vinsamlega hittið þá biskup ykkar, sem getur hjálpað ykkur að iðrast. Það er hughreysting fólgin í því að vita að þótt frelsarinn segi: „Gætið yðar … og haldið yður frá synd,“42 lofar hann einnig: „Ég, Drottinn, mun ekki telja yður neitt til syndar. Farið og syndgið ekki framar.“43

Ég býð hverjum dreng og hverjum manni að halda sig á prestdæmisbrautinni með því að dýpka trúarumbreytingu sína og styrkja fjölskyldu sína. Bænir, ritningar, og helgiathafnir dýpka trúarumbreytinguna. Ást, tíund, og hreinlífi styrkja fjölskylduna. Forðist hörmungar með því að fara eftir viðvörunarmerkjum sem Guð og spámennirnir hafa sett á leið okkar. Kappkostið að fylgja fullkomnu fordæmi frelsarans, sem „þoldi freistingar, en sinnti þeim engu.“44

Ég lofa því, að ef menn halda þann prestdæmissáttmála að „gæta vandlega sálar [sinnar],“45 þá munum við og fjölskyldur okkar örugg ná okkar upphafna áfangastað í himneska ríkinu. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1. Sjá Kenning og sáttmálar 84:33–44.

 2.  

  2.  Kenning og sáttmálar 84:38.

 3.  

  3.  Kenning og sáttmálar 84:43.

 4.  

  4. Sjá Joseph Smith–Saga 1:16; sjá einnig HDP Móse 1:12–22.

 5.  

  5. Sjá Helaman 5:12; sjá einnig 2 Ne 1:13; Helaman 7:16.

 6.  

  6.  Mósía 3:19; sjá einnig 1 Kor 2:14.

 7.  

  7. „Come, Thou Fount of Every Blessing,” Hymns (1948), nr. 70.

 8.  

  8. Sjá Kol 3:8–10; sjá einnig Efe 4:22–24.

 9.  

  9.  Gal 3:27; sjá einnig Róm 13:14.

 10.  

  10. Sjá 1 Sam 13:14; 17:45–47 .

 11.  

  11. Sjá 2 Sam 11:1–17.

 12.  

  12. „Þið munuð ekki gera alvarleg mistök, ef þið hljótið viðvarandi innblástur heilags anda í tíma“ (Boyd K. Packer, „Counsel to Youth,” Liahona og Ensign, nóv. 2011, 18).

 13.  

  13. Sjá Kenning og sáttmálar 132:39; sjá einnig Bible Dictionary, „David.”

 14.  

  14. Sjá Kenning og sáttmálar 23:1; 25:14; 38:39; sjá einnig Ezra Taft Benson, „Beware of Pride,” Ensign, maí 1989, 4–7.

 15.  

  15.  5. Móse 6:12; sjá einnig 5. Móse 8:11–19.

 16.  

  16.  Alma 46:8.

 17.  

  17.  Kenning og sáttmálar 10:5.

 18.  

  18. Sjá Kenning og sáttmálar 52:12–15; sjá einnig Lúk 22:31–32; Alma 37:15–17; 3 Ne 18:18–19.

 19.  

  19. Thomas S. Monson, „Come unto Him in Prayer and Faith,” Liahona, mars 2009, 4; Ensign, mars 2009, 6.

 20.  

  20.  Kenning og sáttmálar 90:5; sjá einnig Kenning og sáttmálar 41:1, 12.

 21.  

  21. Gordon B. Hinckley, „Faith: The Essence of True Religion,” Ensign, nóv. 1981, 5.

 22.  

  22.  Kenning og sáttmálar 45:57.

 23.  

  23.  Kenning og sáttmálar 46:8; sjá einnig Efe 4:14; Kenning og sáttmálar 52:14–16; Kol 2:8.

 24.  

  24.  Moró 4:3; Kenning og sáttmálar 20:77; sjá einnig 3 Ne 18:1–11.

 25.  

  25.  Kenning og sáttmálar 109:15.

 26.  

  26.  Mósía 2:32.

 27.  

  27. Sjá 3 Ne 11:29–30.

 28.  

  28.  Mósía 4:14.

 29.  

  29. Sjá Kenning og sáttmálar 121:36–37; sjá einnig Kenning og sáttmálar 63:61–63.

 30.  

  30. Sjá Kenning og sáttmálar 121:41–45.

 31.  

  31.  Lúk 12:15; sjá einnig Kenning og sáttmálar 38:39.

 32.  

  32.  Matt 6:33; sjá einnig 3 Ne 13:33.

 33.  

  33.  Kenning og sáttmálar 121:45–46; sjá einnig Kenning og sáttmálar 67:11; HDP Móse 1:11.

 34.  

  34. Sjá Kenning og sáttmálar 63:14–16; sjá einnig Matt 5:27–28; 3 Ne 12:27–30.

 35.  

  35. Gordon B. Hinckley, „A Tragic Evil among Us,” Liahona and Ensign, nóv. 2004, 59, 62; sjá einnig Dallin H. Oaks, „Pornography,” Liahona og Ensign, maí 2005, 87–90; Jeffrey R. Holland, „Place No More for the Enemy of My Soul,” Liahona og Ensign, maí 2010, 44–46.

 36.  

  36.  1 Mós 39:12.

 37.  

  37. Sjá Handbook 2: Administering the Church (2010), 2.3.

 38.  

  38.  Kenning og sáttmálar 10:27; sjá einnig 1 Pét 5:8.

 39.  

  39. Sjá Kenning og sáttmálar 3:9–10; 1 Kor 10:12–13; 2 Pét 3:17.

 40.  

  40. Sjá Alma 13:27–29; Kenning og sáttmálar 109:21.

 41.  

  41.  Lúk 12:1; sjá einnig Kenning og sáttmálar 50:6–9.

 42.  

  42.  Kenning og sáttmálar 82:2.

 43.  

  43.  Kenning og sáttmálar 82:1 , 7.

 44.  

  44.  Kenning og sáttmálar 20:22; sjá einnig Hebr 2:17–18; 4:14–16.

 45.  

  45.  Kenning og sáttmálar 84:43; sjá einnig 5 Mós 4:9; Mósía 4:29–30.