Blessanir sakramentisins

Öldungur Don R. Clarke

af hinum Sjötíu


Don R. Clarke
Við munum verða blessuð þegar við erum þakklát fyrir friðþægingu Jesú Krists, endurnýjum skírnarsáttmála okkar, finnum fyrirgefningu og hljótum innblástur frá heilögum anda.

Ég ólst upp í Rexburg, Idaho, þar sem dásamleg fjölskylda, vinir, kennarar og leiðtogar kenndu mér og höfðu áhrif á mig. Það eru sérstök atvik í lífi okkar allra sem snerta sálir okkar og hafa eilíf áhrif. Eitt slíkt átti sér stað í æsku minni. Sú upplifun gjörbreytti lífi mínu.

Ég var ætíð virkur í kirkjunni og tók framförum í Aronsprestdæminu. Þegar ég var unglingur bað kennarinn minn, bróðir Jacobs, mig um að skrifa á spjald það sem ég hafði hugsað um meðan á sakramentinu stóð. Ég tók spjaldið mitt og fór að skrifa. Efst á listanum var körfuboltaleikurinn sem við höfðum unnið kvöldinu áður. Og síðan skráði ég stefnumótið þar á eftir og þannig hélt listinn áfram. Mjög aftarlega og vissulega ekki feitletrað var nafnið Jesús Kristur.

Á hverjum sunnudegi fyllti ég út spjaldið. Sakramentið og sakramentissamkoman fór að fá nýja, útvíkkaða og andlega þýðingu fyrir hinn unga Aronsprestdæmishafa. Ég hlakkaði mikið til sunnudaganna og að meðtaka sakramentið þar sem skilningur á friðþægingarfórn frelsarans hafði breytt mér. Enn í dag get ég á hverjum sunnudegi, er ég meðtek sakramentið, séð fyrir mér spjaldið og farið yfir listann. Frelsari mannkyns er nú alltaf efstur á lista mínum.

Í Nýja testamentinu lesum við um atburðinn, þegar frelsarinn og postular hans komu saman í loftsalnum fyrir páskahátíðina.

„Og hann tók brauð, gjörði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.

Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: ,Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt.‘“1

Jesús innleiddi einnig helgiathöfn sakramentisins í heimsókn sinni til Nefíta.2Ég hef lært mikilvægi þessara tveggja atburða.

David O. McKay forseti sagði: „Mér finnst ég þurfa að leggja áherslu á það sem Drottinn hefur útvalið sem mikilvægustu samkomuna í kirkjunni, og það er sakramentissamkoman.“3 Sakramentið getur breytt lífi okkar, ef við búum okkur rétt undir það. Ég ætla að leggja til fimm reglur sem geta blessað líf okkar er við meðtökum sakramentið verðug.

I. Vera þakklát í hjarta fyrir friðþægingu Jesú Krists

Fyrsta reglan er þakklæti í hjarta til himnesks föður fyrir friðþægingu sonar hans, meðan sakramentið er blessað og því útdeilt. Eftirfarandi saga hefur verið sögð um útdeilingu sakramentisins:

„Sakramentið skipti mig ekki miklu máli fyrr en sunnudaginn sem ég var vígður djákni. Þann dag útdeildi ég sakramentinu í fyrsta sinn. Fyrir samkomuna varaði einn af djáknunum mig við: ,Passaðu þig á bróðir Schmidt. Þú þarft kannski að vekja hann!’ Loks kom að því að tók þátt í útdeilingu sakramentisins. Mér gekk nokkuð vel með fyrstu sex raðirnar. Börn og fullorðnir meðtóku af brauðinu, hugsunarlaust að því er virtist og án vandræða. Þá kom ég að röð sjö, í þeirri röð sat bróðir Schmidt alltaf. En ég varð undrandi. Hann var glaðvakandi en ekki sofandi. Ólíkt mörgum öðrum sem ég hafði þjónað, meðtók hann brauðið lotningarfullur og djúpt hugsi, að því er virtist.

„Nokkrum mínútum síðar kom ég að röð sjö með vatnið. Nú hafði vinur minn aftur á móti á réttu að standa. Bróðir Schmidt sat álútur með stóru þýsku augun sín lokuð. Hann var greinilega steinsofandi. Hvað átti ég að gera eða segja? Ég horfði um stund á andlit hans, sem var hrukkótt og markað af margra ára striti og erfiði. Hann hafði gengið í kirkjuna sem unglingur og hafði upplifað miklar ofsóknir í litla þýska bænum sínum. Ég hafði heyrt söguna margsinnis á vitnisburðarsamkomu. Ég ákvað loks að snerta öxl hans varlega og vonaðist til að vekja hann. Er ég hugðist snetra hann, lyfti hann höfðinu rólega. Tár streymdu niður vanga hans og er ég leit í augu hans sá ég kærleika og gleði. Hann lyfti hönd sinni hljóðlega og tók vatnið. Jafnvel þó að ég væri aðeins 12 ára gamall þegar þessi atburður átti sér stað, man ég enn greinilega tilfinninguna sem ég fann er ég horfði á þennan hrjúfa mann taka sakramentið. Ég vissi án nokkurs vafa að hann upplifði eitthvað varðandi sakramentið sem ég hafði aldrei upplifað. Ég einsetti mér þá að finna þessar sömu tilfinningar.“4

Bróðir Schmidt hafði átt samskipti við himininn og himinninn átti samskipti við hann.

II. Minnast þess að við erum að endurnýja skírnarsáttmálann

Önnur reglan er að minnast þess að við erum að endurnýja skírnarsáttmála okkar með því að meðtaka sakramentið. Nokkur af loforðunum sem við gerum, eru skráð í ritningunun, og eru:

„[Koma] í hjörð Guðs og kallast hans lýður … bera hver annars byrðar, … syrgja með syrgjendum… , standa sem vitni Guðs.“5

„Koma með sundurkramin hjörtu og sáriðrandi anda … [vera fús] að taka á sig nafn Jesú Krists, [ákveðin] í að þjóna honum allt til enda,”6 og halda boðorð hans og hafa hann ávallt í huga.7

Sakramentisbænirnar minna okkur á þessa sáttmála. Við skuldbindum okkur að nýju um að lifa samkvæmt þessum sáttmálum þegar við meðtökum sakramentið. Mér finnst við hæfi að læra sakramentisbænirnar utanbókar í huga og hjarta. Það mun hjálpa okkur að einbeita okkur að endurnýjun skírnarsáttmálans. Ég vona að við munum aldrei gleyma skírnardegi okkar og sáttmálanum sem við höfum gert, hvort sem við skírðumst 8 eða 80 ára.

III. Við getum fundið fyrirgefningu synda okkur meðan á sakramentinu stendur

Í þriðja lagi getum við fundið fyrirgefningu synda okkur meðan á sakramentinu stendur. Ef við höfum gefið okkur tíma til að iðrast áður en sakramentissamkoma hefst, getum við fundið til hreinleika þegar henni er lokið. Boyd K. Packer forseti sagði: „Sakramentið endurnýjar ferli fyrirgefningar. … Hvern sunnudag, þegar sakramentið er borið fram, fer fram athöfn sem endurnýjar ferli fyrirgefningar. ... Hvern sunnudag hreinsið þið ykkur, þannig að þegar að því kemur að þið deyið, mun andi ykkar vera hreinn.“8 Að meðtaka sakramentið verðuglega getur hjálpað okkur eins og þegnum Benjamíns konungs, sem „fylltust fögnuði yfir að hafa fengið fyrirgefningu synda sinna og frið við samvisku sína.9

IV. Við getum hlotið innblástur og lausn á vanda okkar

Fjórða reglan er að við getum hlotið innblástur og lausn á vanda okkar meðan á sakramentissamkomu stendur. Þegar ég var trúboðsforseti í Bólivíu, nutum við, ég og eiginkona mín Mary Anne, þeirrar blessunar að sækja námskeið fyrir trúboðsforseta með Eyring forseta. Á þeim fundi kenndi hann þrjár mikilvægar leiðir til að búa sig undir að njóta góðs af samkomu. Við þyrftum að koma með vanda okkar, auðmjúk sem börn, reiðubúin að læra og með þrá eftir að hjálpa börnum Guðs.

Við getum notið þeirrar blessunar að hljóta innblástur varðandi dagleg vandamál, er við komum auðmjúk á sakramentissamkomu. Við verðum að koma undirbúin, reiðubúin að hlusta og einbeita okkur. Í ritningunum lesum við: „En sjá, ég segi þér, að þú verður að kanna það vel í huga þínum, síðan að spyrja mig hvort það sé rétt, og sé það rétt, mun ég láta brjóst þitt brenna hið innra með þér. Þú munt þess vegna finna að það er rétt.10 Við getum vitað hvað við eigum að gera til að leysa vandamál okkar.

V. Að meðtaka sakramentið verðug mun hjálpa okkur að fyllast heilögum anda

Fimmta reglan er að við getum fyllst heilögum anda, ef við meðtökum sakramentið verðug. Þegar Jesús innleiddi sakramentið í heimsókn sinni til Nefíta, sagði hann: „Sá, sem etur þetta brauð, etur af líkama mínum fyrir sál sína, og sá sem drekkur þetta vín, drekkur af blóði mínu fyrir sál sína. Og sál hans mun aldrei hungra né þyrsta, heldur skal mett vera.“11 Þeim hafði verið lofað, að ef þau hungraði og þyrsti eftir réttlæti, myndu þau fyllast heilögum anda. Sakramentisbænin lofar einnig, að ef við höldum sáttmála okkar, munum við ávallt hafa anda hans með okkur.12

Öldungur Melvin J. Ballard sagði: „Ég er vitni þess að við þjónustu sakramentisins er andi sem vermir sálina, allt frá toppi til táar. Þið finnið meinsemdir anda ykkar læknast og byrðina verða léttari. Sálinni veitist hughreysting og hamingja, sem er mikils virði og vekur sanna löngun til að neyta þessarar andlegu máltíðar.“13

Við munum verða blessuð þegar við erum þakklát fyrir friðþægingu Jesú Krists, endurnýjum skírnarsáttmála okkar, finnum fyrirgefningu og hljótum innblástur frá heilögum anda, þegar við meðtökum sakramentið hverja viku. Sakramentissamkoma mun ætíð verða dásamleg, ef sakramentið er miðpunktur tilbeiðslu okkar. Ég læt í ljós þakklæti fyrir friðþægingu Jesú Krists. Ég veit að hann lifir. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1.  Lúk 22:19–20; skáletrað hér.

 2.  

  2. Sjá 3 Ne 18.

 3.  

  3. David O. McKay, í Conference Report, okt. 1929, 11.

 4.  

  4.  Book of Mormon Student Manual (Church Educational System manual, 1979), 417.

 5.  

  5.  Mósía 18:8–9.

 6.  

  6.  Kenning og sáttmálar 20:37.

 7.  

  7. Sjá Kenning og sáttmálar 20:77.

 8.  

  8. Boyd K. Packer, Mine Errand from the Lord (2008), 196.

 9.  

  9.  Mósía 4:3; skáletrað hér.

 10.  

  10.  Kenning og sáttmálar 9:8; skáletrað hér.

 11.  

  11.  3 Ne 20:8.

 12.  

  12. Sjá Kenning og sáttmálar 20:77.

 13.  

  13. Melvin J. Ballard, in Bryant S. Hinckley, Sermons and Missionary Services of Melvin Joseph Ballard (1949), 149.