Bræður, við höfum verk að vinna

Öldungur D. Todd Christofferson

í Tólfpostulasveitinni


D. Todd Christofferson
Sem menn prestdæmisins höfum við nauðsynlegu hlutverki að gegna í samfélaginu, heima og í kirkjunni.

Bræður, margt hefur verið rætt og ritað á seinni árum um áskoranir manna og drengja. Af bókatitlum má til dæmis nefnaWhy There Are No Good Men Left,The Demise of Guys,The End of Men, Why Boys Fail, og Manning Up. Athyglisvert er, að flest af þessu virðist ritað af konum. Hvað sem því líður er hinn sameiginlegur þráður í þessum ritum sá, að í mörgum samfélögum í dag fái karlmenn ruglingsleg og mótsagnarkennd skilaboð um hlutverk og gildi sitt í samfélaginu.

Höfundur Manning Up dró þetta saman með þessum orðum: „Það hefur verið næstum algild menningarregla, að þótt stúlkur yrðu konur einfaldlega með því að ná líkamlegum þroska, yrðu drengirnir að standast prófraun. Þeir þurftu að sýna hugrekki, líkamlega færni, eða hafa til að bera nauðsynlega kunnáttu. Markmiðið var að sanna hæfni sína sem verndarar kvenna og barna; það var alltaf fremsta félagslega hlutverk þeirra. Í dag, þegar konur sækja fram í þróuðu hagkerfi, eru eiginmenn og feður sem fyrirvinna hinsvegar val, og persónueinkennin sem menn þörfnuðust í hlutverki sínu — hreysti, æðruleysi, hugrekki, trúmennska – eru úrelt og jafnvel dálítið hjákátleg.1

Í ákafa sínum við að skapa tækifæri fyrir konur, nokkuð sem við erum hlynnt, eru þeir til sem niðurlægja karlmenn og framlag þeirra. Þau virðast líta á lífið sem samkeppni milli karla og kvenna — að annað verði að vera yfir hitt hafið, og nú sé röðin komin að konunum. Sumir halda því fram að starfsferill skipti öllu máli og hjónaband og börn séu einungis valkostir ‒ og því þurfum við þá á karlmönnum að halda.2 Í allt of mörgum Hollywood myndum og sjónvarpsþáttum, og jafnvel í auglýsingum, eru karlar sýndir sem óhæfir, vanþroskaðir, og sjálfumglaðir. Þetta menningarlega vanmat á körlum hefur skaðleg áhrif.

Í Bandaríkjunum er til dæmis svo greint frá: „Stúlkur standa drengjum nú framar á öllum þrepum, frá grunnskóla og í gegnum framhaldsskóla. Í áttunda bekk eru til dæmis aðeins 20 prósent drengja snjallir í ritun og 24 prósent í lestri. Jafnframt var árangur pilta í inntökuprófum (SAT), á árinu 2011 sá versti í 40 ár. Samkvæmt National Center for Education Statistics (NCES) eru drengir 30 prósent líklegri en stúlkur til að hætta framhaldsskólanámi ... Því er spáð að árið 2016 verði 63 prósent kvenna með fyrsta stigs háskólapróf, 63 prósent með meistaragráðu og 54 prósent doktorsgráðu. Tveir þriðju nemenda á sérhæfðum námsbrautum fyrir þá sem eru á eftir eru strákar.“3

Sumir karlar og piltar hafa tekið neikvæðu ummerkjunum sem afsökun til að forðast ábyrgð og hreinlega vaxa aldrei upp. Í athugasemd, sem er allt of oft sönn lýsing, sagði háskólaprófessor: „Karlarnir koma í bekkinn með hafnarboltahúfurnar öfugar á höfðinu og [sínar vandræðalegu] afsakanir: ‚Ritvinnslan át heimavinnuna mína.’ En á meðan skoða konurnar dagskipan sína og biðja um meðmæli fyrir lagaskólann.“4 Einn kvenkyns kvikmyndagagnrýnandi lét í ljós þá heldur nöpru skoðun, að „það sem við getum treyst á karla með, ef við erum heppnar og veljum að hafa félaga, er bara það — félagi. Einhver sem heldur sig á sínum stað, jafnframt því að virða það að við stöndum á okkar eigin stað.“5

Bræður, svona getur þetta ekki gengið hjá okkur. Sem menn prestdæmisins höfum við nauðsynlegu hlutverki að gegna í samfélaginu, heima og í kirkjunni. En við verðum að vera karlar sem konur geta treyst, sem börn geta treyst, og sem Guð getur treyst. Í kirkjunni og ríki Guðs á þessum síðari dögum höfum við ekki efni á að vera með drengi og karla sem láta reka á reiðanum. Við höfum ekki efni á piltum sem skortir sjálfsögun og lifa aðeins fyrir að láta skemmta sér. Við höfum ekki efni á ungum ógiftum sem hafa enga stefnu í lífinu, sem hyggja ekki af alvöru á stofnun fjölskyldu og að leggja sitt raunverulega af mörkum í heiminum. Við höfum ekki efni á eiginmönnum og feðrum sem ekki veita andlega forystu á heimilinu. Við höfum ekki efni á að þeir sem hafa og iðka hið heilaga prestdæmi, eftir reglu Guðssonarins, sói styrk sínum í klám eða eyði lífi sínu í tölvuleikjaheimi (sem kaldhæðnislega, er af heiminum, en ekki í heiminum).

Bræður, við höfum verk að vinna

Ungu menn, þið þurfið að standa ykkur vel í skólanum og halda síðan áfram að mennta ykkur. Sumir munuð þið vilja fara í háskólanám og öðlast starfsframa í viðskiptum, landbúnaði, opinberum embættisstörfum, eða í öðrum starfsgreinum. Sumir vilja slá í gegn í listum, tónlist, eða kennslu. Aðrir munu kjósa herþjónustu eða iðnað. Í áranna rás hefur nokkur fjöldi manna úr iðngreinum unnið að verkefnum og viðgerðum á heimili mínu og ég hef dáðst að kunnáttu þeirra. Nauðsynlegt er að þið verðið samkeppnishæfir í hverju því starfi sem þið veljið, svo þið getið framfleytt fjölskyldu og lagt ykkar góða skerf af mörkum til samfélags ykkar og lands ykkar.

Ég horfði nýlega á myndband sem sýnir dag í lífi 14 ára drengs á Indlandi að nafni Amar. Hann rís árla úr rekkju og vinnur í tveimur störfum, fyrir og eftir skóla, sex og hálfan dag í viku. Tekjur hans eru verulegur hluti af tekjum fjölskyldunnar. Hann flýtir sér heim á slitnu reiðhjóli úr síðari starfinu eftir myrkur og einhvern veginn nær hann að vinna nokkrar stundir að heimavinnunni áður en hann hnígur niður í rúmfletið á gólfinu, innan um sofandi barnahópinn um kl. 10:30 eða 11:00 á kvöldin. Þótt ég hafi aldrei hitt hann, er ég hreykinn af honum vegna kostgæfni hans og hugprýði. Hann gerir sitt allra besta með þau takmörkuðu úrræði og tækifæri sem hann hefur, og hann er blessun fyrir fjölskyldu sína.

Þið fullorðnu menn — feður, hinir ógiftu, leiðtogar, heimiliskennarar – verið verðugar fyrirmyndir og hjálpið uppvaxandi kynslóð að verða að mönnum. Kennið þeim félagslega færni og aðra kunnáttu; hvernig á að taka þátt í samræðum, hvernig maður kynnist öðrum og bregst við þeim, hvernig maður bregst við gagnvart konum og stúlkum, hvernig á að þjóna, hvernig á að vera virkur og njóta afþreyingar, hvernig maður stundar tómstundaiðju án þess að ánetjast, hvernig á að leiðrétta mistök og velja skynsamlega.

Og til allra sem hlusta, hvar sem þessi boðskapur berst ykkur, segi ég eins og Jehóva sagði við Jósúa: „Ver þú hughraustur og öruggur“ (Jósúa 1:6). Herðið upp hugann og undirbúið ykkur eins og best verður á kosið, hverjar sem aðstæður ykkar eru. Búið ykkur undir að verða góðir eiginmenn og feður; búið ykkur undir að verða góðir og afkastamiklir borgarar; búið ykkur undir að þjóna Drottni, hvers prestdæmi þið berið. Himneskur faðir hefur ykkur í huga, hvar sem þið eruð. Þið eruð ekki einir og þið hafið prestdæmið og gjöf heilags anda.

Meðal þeirra mörgu staða þar sem ykkar er þörf, er einn sá mikilvægasti, prestdæmissveit ykkar. Við þurfum sveitir sem veita meðlimum andlega næringu á sunnudögum og þjóna líka. Við þurfum sveitarleiðtoga sem leggja áherslu á verk Drottins og styðja meðlimi sveitarinnar og fjölskyldur þeirra.

Íhugið trúboðsstarf. Piltar, þið megið engan tíma missa. Þið getið ekki beðið með alvarlegan undirbúning þar til þið eruð 17 eða 18 ára. Aronsprestdæmissveitir geta hjálpað meðlimum sínum að skilja eið og sáttmála prestdæmisins og að búa sig undir vígslu til öldungs. Þær geta hjálpað þeim að skilja og búa sig undir helgiathafnir musterisins, og þær geta hjálpað þeim að búa sig undir árangursríkt trúboð. Sveitir Melkísedeksprestdæmisins og Líknarfélagið geta hjálpað foreldrum að undirbúa trúboða sem þekkja Mormónsbók og fara munu út á akurinn fullkomlega skuldbundnir. Og í hverri deild og grein geta þessar sömu staðið fyrir árangursríku samstarfi við fastatrúboðana sem þjóna þar.

Verk skylt þessu, sem hvílir fyrst og fremst á herðum prestdæmisins, er ákall frelsarans, sem Thomas S. Monson forseti hefur endurómað, um að bjarga þeim sem hafa leiðst frá kirkjunni eða hafa orðið fráhverfir af einhverjum ástæðum. Við höfum náð dásamlegum árangri í þeirri viðleitni, meðal annars vegna frábærs starfs pilta. Aronsprestdæmissveit í Rio Grande deildinni (spænsk) í Albuquerque, Nýju Mexíkó, ræddi um hverja þeir gætu leitt til baka og fóru síðan sem hópur til að heimsækja þá hvern af öðrum. Einn sagði: „Þegar þeir komu fannst mér ég mikilvægur.“ Og annar sagði: „Mér hlýnaði um hjartarætur við að einhver vildi í raun fá mig í kirkju, svo að núna vil ég fara í kirkju.“ Þegar meðlimir sveitarinnar buðu einum piltinum að koma til baka, báðu þeir hann að koma með þeim í næstu heimsókn, og hann gerði það. Þeir buðu honum ekki aðeins að koma í kirkju, heldur sáu þeir til þess að hann varð þegar í stað hluti af sveitinni.

Önnur áskorun og hvetjandi prestdæmisstarf er ættfræði og musterið. Fylgist með bréfi sem senn mun koma frá Æðsta forsætisráðinu og verður endurnýjað kall og æðri sýn á þetta mikilvæga starf, sem við þurfum að leysa af höndum.

Sveitir okkar mynda einnig bræðralag gagnkvæms stuðnings. Gordon B. Hinckley forseti sagði eitt sinn: „Það verður dásamlegur dagur, kæru bræður, … þegar prestdæmissveitir okkar verða hverjum þeim manni er þeim tilheyrir sem akkeri, og hver slíkur getur réttilega sagt: „Ég tilheyri prestdæmissveit Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég er reiðubúinn að aðstoða bræður mína í hvívetna og er þess fullviss, að þeir munu gera hið sama gagnvart mér. ... Ef við störfum saman, getum við staðist hvern storm mótlætis, óttalaust og vandræðalaust, hvort heldur hann er fjárhagslegur, félagslegur eða andlegur.“6

Þrátt fyrir bestu viðleitni okkar fara hlutirnir ekki alltaf eins og við viljum og einn af þeim „stormum mótlætis“ sem skollið getur á í lífi manns er atvinnuleysið. Í eldri kirkjubæklingi um velferð segir: „Maður án atvinnu er sérstakt viðfangsefni fyrir kirkjuna, og sviptur þeirri arfleifð er hann reyndur á sama hátt og Job var reyndur — hvað ráðvendni varðar. Þegar dagar lengjast í vikur og vikur í mánuði og jafnvel margra ára mótlæti, verður sárið dýpra … Kirkjan getur ekki vonast eftir að bjarga manni á sunnudegi, ef hún á virkum dögum er sjálfsánægt vitni að krossfestingu sálar hans.“7

Í apríl 2009 sagði fyrrum ráðgjafi í Yfirbiskupsráði kirkjunnar, Richard C. Edgley, söguna af framúrskarandi sveit sem hjálpaði einum meðlimi sveitarinnar sem hafði misst vinnuna:

„Bílaverkstæði Phils í Centerville, Utah, er vitnisburður um hverju prestdæmisleiðtogar og sveit geta komið til leiðar. Phil var meðlimur öldungasveitar og vann sem vélvirki á viðgerðarverkstæði á svæðinu. Því miður komst verkstæðið, þar sem Phil vann, í fjárhagsvanda og þeir urðu að segja Phil upp störfum. Hann var niðurbrotinn út af þessum gangi mála.

Þegar vitnaðist um atvinnumissi Phils tók biskup hans, Leon Olson, og öldungasveitarráð hans í bænaranda að leita ráða til að koma Phil til hjálpar og út úr vandanum. Hann var félagi í sveitinni, bróðir, og hann þarfnaðist hjálpar. Þeir ályktuðu að Phil væri fær um að reka sitt eigið fyrirtæki. Einn að meðlimum sveitarinnar bauð fram gamla hlöðu, sem ef til vill mætti nota sem viðgerðarverkstæði. Aðrir meðlimir sveitarinnar gætu hjálpað með því að safna saman verkfærum og tækjum fyrir hið nýja verkstæði. Næstum allir í sveitinni gætu í það minnsta hjálpað til við að hreinsa gömlu hlöðuna.

Þeir greindu Phil frá hugmyndum sínum og sögðu síðan meðlimum sveitarinnar frá áætlun sinni. Hlaðan var hreinsuð og gerð upp, tækjum safnað, og öllu komið í lag. Bílaverkstæði Phils gekk vel og flutti síðar í betra framtíðarhúsnæði — allt gerðist þetta vegna þess að bræðurnir í sveitinni buðu fram hjálp á erfiðri stundu.“8

Auðvitað, eins og spámenn hafa síendurtekið um ára bil, verður „það mikilvægasta sem við munum nokkru sinni vinna í verki Drottins unnið innan veggja heimilis okkar.“9 Mikil vinna er framundan við að styrkja hjónabönd í samfélögum, sem í vaxandi mæli gera lítið úr mikilvægi og tilgangi þeirra. Mikil vinna er framundan við að kenna börnum okkar „að biðja og ganga grandvör frammi fyrir Drottni“ (K&S 68:28). Verkefni okkar er hvorki meira né minna en það, að hjálpa börnum okkar að upplifa þá máttugu umbreytingu hjartans, eða viðsnúning til Drottins, sem svo vel er greint frá í Mormónsbók (sjá Mósía 5:1–12; Alma 26). Í samstarfi við Líknarfélagið geta prestdæmissveitir styrkt foreldra og hjónabönd og sveitir geta veitt fjölskyldum einstæðra foreldra blessanir prestdæmisins.

Bræður, við höfum verk að vinna. Þakka ykkur fyrir fórnir ykkar og góðverk. Haldið áfram og Drottinn mun hjálpa ykkur. Stundum vitið þið ef til vill ekki alveg hvað á að gera eða segja ‒ en haldið bara áfram. Byrjið, og Drottinn tryggir að „áhrifamiklar dyr munu opnast [ykkur]“ (K&S 118:3). Byrjið að tala, og hann lofar: „Þér þurfið ekki að blygðast yðar fyrir mönnum – því að yður mun gefið einmitt á þeirri stundu, já, á því andartaki, hvað segja skal“ (K&S 100:5–6). Satt er að við erum á margan hátt venjulegir og ófullkomnir, en meistari okkar er fullkominn; hann framkæmdi fullkomna friðþægingu og við höfum kallað eftir náð hans og prestdæmi. Þegar við iðrumst og helgum sál okkar, er okkur lofað kennslu og krafti frá upphæðum (sjá K&S 43:16).

Kirkjan, heimurinn og konur hrópa á karlmenn, karlmenn sem eru að þroska færni og hæfileika, þá sem eru fúsir til að vinna og munu hjálpa öðrum að öðlast hamingju og sáluhjálp. Þau hrópa: „Rísið upp, ó, þér menn Guðs!”10 Guð hjálpi okkur að gera einmitt það. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1. Kay S. Hymowitz, Manning Up: How the Rise of Women Has Turned Men into Boys (2011), 16.

 2.  

  2. „Þegar þið spyrjið ungt fólk í dag hvað geri þau fullorðin, nefnir næstum enginn hjónaband. Þau eru miklu líklegri til að sjá málefni sem tengjast vinnu ‒ ljúka námi, fjárhagslegt sjálfstæði, föst vinna ‒ sem merki um að þau séu komin áleiðis. Vinna, starfsferill, sjálfstæði: Þetta eru aðal þættirnir sem einkenna okkur í dag“ (Hymowitz, Manning Up, 45). Þrýstingurinn á konur um að taka upp þessa and-hjónabands stefnu er sérstaklega mikill. Höfundur sem ritar í Times í London skrifar: „Enginn, ekki fjölskylda mín eða kennarar mínir, sagði nokkru sinni, ‘Ó já, og vel á minnst, þú kynnir að vilja verða eiginkona og einnig móðir líka.’ Þau voru svo ákveðin í að við myndum fylgja hinni nýju og nútíma jafnræðisleið og hinn sögulegi metnaður kynslóða kvenna — að giftast og ala upp fjölskyldu – var vísvitandi blásinn út úr sýn þeirra á hver framtíð okkar yrði.“ (Eleanor Mills, „Learning to Be Left on the Shelf,” Sunday Times, 18. apríl 2010, www.thetimes.co.uk; í Hymowitz, Manning Up, 72). Annar rithöfundur á fimmtugsaldri vitnaði til sumra viðbragða vegna greinar sem hún skrifaði um þá eftirsjá sína að hafa ekki gifst: „Mér blöskrar algjörlega að þú skulir þarfnast manns,“ „Hvar er sjálfsvirðingin!“ „Þú hefur lagst enn lægra í undirlægjuhættinum,“ og „ef dóttir mín vex upp og sækist eftir manni til hálfs við þig, veit ég að ég hef brugðist í uppeldi hennar“ (Lori Gottlieb, Marry Him: The Case for Settling for Mr. Good Enough [2010], 55).Góðu fréttirnar eru þær að flest fólk, þar á meðal ungir ógiftir, er ekki samþykkt and-hjónabands og and-fjölskyldu boðskapnum. „Samkvæmt rannsókn hagfræðings við Pennsylvania háskólann, voru í Bandaríkjunum árið 2008, 86 prósent framhaldsskólagenginna hvítra kvenna giftar við 40 ára aldur, en 88 prósent þeirra sem höfðu lokið minna en fjögurra ára framhaldsnámi. Tölurnar yfir hvíta karla með framhaldsskólamenntun eru svipaðar: 84 prósent þeirra voru kvongaðir við 40 ára aldur á árinu 2008. Almannarómur eða viska, sem vel að merkja styðst ekki við rannsóknir, kann að telja hjónaband vera hráan valkost fyrir konur. En framhaldsskólamenntaðar hvítar konur virðast ekki líta svo á. Þær eru líklegastar allra hópa til að álíta ‘gift fólk vera almennt hamingjusamara en ógift.’ … Mikill meirihluti ‒ 70 prósent – af fyrsta árs framhaldsskólanemum telja fjölskylduna vera ‘nauðsynlega’ eða ‘mjög mikilvæga’ fyrir framtíð sína“ (Hymowitz, Manning Up, 173–74).

 3.  

  3. Philip G. Zimbardo and Nikita Duncan, The Demise of Guys: Why Boys Are Struggling and What We Can Do about It (e-book, 80); skoðið kaflann „Behind the Headlines.”

 4.  

  4. Barbara Dafoe Whitehead, Why There Are No Good Men Left: The Romantic Plight of the New Single Woman (2003), 67.

 5.  

  5. Amanda Dickson, „‚Hunger Games’ Main Character a Heroine for Our Day,” Deseret News, 2 apríl 2012, www.deseretnews.com.

 6.  

  6. Gordon B. Hinckley, „Welfare Responsibilities of the Priesthood Quorums,” Ensign, nóv. 1977, 86.

 7.  

  7.  Helping Others to Help Themselves: The Story of the Mormon Church Welfare Program (1945), 4.

 8.  

  8. Richard C. Edgley, „This Is Your Phone Call,” Liahona og Ensign, maí 2009, 54.

 9.  

  9.  Teachings of Presidents of the Church: Harold B. Lee (2000), 134.

 10.  

  10. „Rise Up, O Men of God,” Hymns, nr. 323.