Fyrir trú uppfyllast allir hlutir

Öldungur Marcus B. Nash

af hinum Sjötíu


Marcus B. Nash
Trúin hjálpar okkur að ganga veg fagnaðarerindisins í öryggi, að sigrast á veraldlegum vanda og snúa aftur til tignarlegrar nærveru himnesks föður.

Fyrir ekki löngu fórum við nokkur úr Nash fjölskyldunni og gengum á Huayna Picchu, háan tind í fjöllum Perú, við hliðina á Inkarústunum í Machu Picchu. Þetta er mjög brött ganga með hrífandi útsýni og þverhníptum klettum. Því miður hafa fjallgöngumenn týnt lífi sínu er þeir hafa fallið af þessari þröngu og bröttu slóð. Til að forðast slíka harmleiki hafa sterkir kaðlar verið festir í kletta meðfram hlíð Huayna Picchu. Við héldum okkur í þessa kaðla er við klifum og þeir gerðu okkur kleift að komast örugglega á toppinn, þar sem útsýnið var stórfenglegt.

Það er eins með líf okkar og stíginn á Huayna Picchu, að ferðin er brött og erfið og kallar á aðstoð himnesks föður, ef við ætlum að komast örugglega á leiðarenda. Af þeirri ástæðu hefur hann komið á grundvallarreglum og helgiathöfnum fagnaðarerindisins, til þess að leiða okkur nær frelsaranum og endurleysandi krafti hans.1 Fyrst þessara grundvallarreglna, trúin á Drottin Jesú Krist,2 er eins og kaðlarnir á Huayna Picchu: Ef trúin er sterk og fest í „öruggu bjargi lausnara okkar,“3 mun hún hjálpa okkur að ganga veg fagnaðarerindisins í öryggi, sigrast á öllum veraldlegum vanda,4 og snúa aftur til tignarlegrar nærveru himnesks föður. Fyrir trú uppfyllast allir hlutir.5

Trú er grundvallarregla bæði verka og máttar.6 „Trú er ekki að eiga fullkomna þekking. Ef þið þess vegna eigið trú, þá hafið þið von um það, sem eigi er auðið að sjá, en er sannleikur.“7 Það er fullvissa8 sem okkur hefur hlotnast í gegnum nám okkar, sem knýr okkur til framkvæmdar9 og fylgja fordæmi frelsarans og halda boðorð hans með bæn í huga, jafnvel á tímum fórnar og mótlætis.10 Trúin færir okkur kraft Drottins, sem sýnir sig meðal annars í von okkar um góða hluti,11 í kraftaverkum sem staðfesta trú okkar,12 og í guðlegri vernd í andlegum og veraldlegum málum.13

Líf landnemans, Ann Rowley, frá fyrstu árum kirkjunnar, sýnir hvernig trúariðkun getur haft áhrif á líf okkar til góðs. Systir Rowley var ekkja frá Englandi sem fylgdi trú sinni og hlýddi kalli spámannsins um að safnast til Síonar. Hún var í handvagnahópi Willies sem lenti í miklu snjófoki á vegaslóðanum, haustið 1856. Það var komið að þeim tímapunkti í ferðinni, að sjö börn hennar voru bókstaflega að farast úr hungri. Hún skrifaði: „Það nísti mig að sjá börn mín svo svöng. ... Það var að koma nótt og enginn matur til kvöldverðar. Ég bað um Guðs hjálp eins og alltaf. Ég féll á kné, og mundi eftir tveimur hörðum kexkökum…sem höfðu orðið eftir frá skipsferðinni. Þær voru ekki stórar, og svo harðar að það var ekki hægt að brjóta þær í sundur. Það gat ekki verið að það væri nóg til að metta 8 manns, en 5 brauðhleyfar og 2 fiskar voru heldur ekki nóg til að fæða 5000 manns, en með kraftaverki hafði Jesús gert það. Sé Guð með í ráðum er ekkert ómögulegt. Ég fann kexið og setti það í pottinn og lét vatn fljóta yfir og bað um blessun Guðs. Þá setti ég lokið á pottinn og setti hann á kolin. Þegar ég tók lokið af litlu seinna, var potturinn fullur af mat. Ég kraup með fjölskyldu minni og þakkaði Guði fyrir góðvild hans. Þetta kvöld fékk fjölskylda mín nóg að borða.”14

Ann Rowly fórnaði miklu til að lifa eftir fagnaðarerindinu. Hún þurfti á hjálp að halda og bað um hana í bæn. Vegna trúar hennar var hún uppfull vonar og kraftaverk varð til þess að sjá fjölskyldu hennar fyrir mat. Drottinn blessaði hana einnig með þeim þýðingamikla eiginleika að „standast í trú allt til enda.“15 Þrátt fyrir óvissa framtíð krafðist hún þess ekki að fá að vita hvernig hún ætti að metta börnin sín næsta dag; þess heldur „vonaði hún á Drottin“16 og hélt áfram í þeirri von ‒ eins og sagt er í hinum fallega sálmi:

Lýs milda ljós í gegnum þennan geim, mig glepur sýn,
Því nú er nótt og harla langt er heim, ó hjálpin mín,
styð þú minn fót; þótt fetin nái skammt,
Ég feginn verð ‒ ef áfram miðar samt.17

Við getum líka sýnt slíka trú á Drottin, trúað því og treyst að okkar góði og staðfasti Guð18 muni veita okkur blessanir með undursamlegum mætti sínum, samkvæmt hans tímasetningu. Ef við gerum þetta, munum við sjá áhrif Guðs í lífi okkar.

Drottinn býður okkur að bera „skjöld trúarinnar, en með honum getið þér að engu gjört glóandi örvar hinna ranglátu.“19 Satan mun nota efann, óttann og syndina til að freista okkar, svo að við látum af trúnni og missum vernd hennar. Skoðum hverja ögrun fyrir sig, eina í einu, svo að við getum borið kennsl á þær og forðast freistingar andstæðingsins.20

Í fyrsta lagi, vantrú á Drottin og fagnaðarerindi hans mun valda því að við stöndum gegn anda Guðs.21 Mótefni Drottins við efa er einfalt. Eins og Benjamín konungur sagði: „Trúið á Guð, trúið, að hann sé til og hafi skapað allt, bæði á himni og á jörðu. Trúið, að hans sé öll viska og allt vald, jafnt á himni sem á jörðu. Trúið, að maðurinn geti ekki haft skilning á öllu, sem Drottinn skilur.“22

Ef við finnum að trú okkar flöktir vegna vantrúar eða efa, munum þá, að jafnvel postularnir til forna grátbáðu Drottin „auk oss trú.“23 Höfum í huga að trú og skynsemi eru nauðsynlegir félagar og íhugum eftirfarandi hliðstæðu: Trú og skynsemi eru eins og vængir flugvélar. Báðir eru nauðsynlegir til að haldast á flugi. Ef okkur finnst að skynsemi sé í andstæðu við trú, stöldrum þá við og munum eftir því að yfirsýn okkar er ótrúlega takmörkuð í samanburði við yfirsýn Drottins.24 Við ættum ekki að henda trúnni frá okkur, ekki frekar en við myndum taka væng flugvélar af í miðju flugi. Í stað þess ættum við að hlú að hverju trúarfræi og leyfa voninni sem það framkallar að vera akkeri sálar okkar — og skynsemi.25 Þess vegna er okkur boðið að „ sækjast eftir fræðslu með námi og einnig með trú.“26 Munum að trú kemur á undan og framkallar kraftaverk sem við höfum engar haldbærar útskýringar á, eins og fullan pott af mat úr tveimur litlum kexkökum eða einfaldlega að standa stöðugur í trú á móti öllum rökum.27

Í öðru lagi, ótti dreifir huganum frá og grefur undan trú á frelsarann. Pétur postuli horfði til Drottins á stormasömu kvöldi og gekk á vatni, þangað til hann leit af honum og „sá vindinn, [þá] hræddist hann“ — og sökk niður í ofsafengið hafið.28 Hann hefði getað haldið áfram göngunni ef hann hefði ekki óttast! Frekar en að einblýna á og óttast storm og öldugang lífsins, býður Drottinn okkur: „Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki.”29

Í þriðja lagi, synd dregur úr nærveru andans í lífi okkar og án heilags anda skortir okkur það andlega úthald sem við þurfum til að halda og iðka trú okkar. Til þess að iðka trú er best að „ snerta ekki hina illu gjöf, né það, sem óhreint er“30 og að „halda [boðorðin] af kostgæfni svo að…trú yðar bregðist yður ekki og óvinir yðar fagni ekki sigri yfir yður.”31 Ef synd hefur blettað líf ykkar, þá býð ég ykkur að „iðka trú til iðrunar“32 og frelsarinn mun hreinsa og græða líf ykkar með friðþægingunni.

Bræður og systur, samkvæmt trú okkar mun Drottinn uppfylla loforð sín og vinna með okkur við að sigrast á öllum áskorunum.33 Hann gerði það fyrir Ann Rowley og hann hefur gert það fyrir fólk sitt af öllum þjóðernum, á öllum tímum og með öllum kynslóðum. Af því að hann er „Guð kraftaverka“ og „breytist ekki„ mun hann blessa hvert og eitt okkar með von, vernd og mætti í samræmi við trú okkar á hann.34 Eins og kaðlarnir á veginum á Huayna Picchu mun staðföst trú á Jesús Krist festa ykkur og ástvini ykkar við „bjarg lausnara okkar“35 og óviðjafnalegan mátt hans til að frelsa.

Thomas S. Monson forseti hefur sagt, „Framtíðin er jafn björt og trú ykkar.“36 Ég ber vitni um þennan göfuga, vongóða sannleik og býð okkur öllum að halda stöðugt áfram í trú á Drottin, „án þess að efast.”37 Ég veit að frelsarinn lifir, hann „upphóf og fullnaði trú þeirra“38 og „hann lætur þeim umbunað er hans leita.“39 Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1. Sjá Kenning og sáttmálar 84:19–21.

 2.  

  2. Sjá Trúaratriðin 1:4.

 3.  

  3.  Helaman 5:12.

 4.  

  4. Sjá Kenning og sáttmálar 76:53.

 5.  

  5. Sjá Eter 12:3.

 6.  

  6. Sjá Lectures on Faith (1985), 3; sjá einnig Jakob 4:6; Eter 12:7–22; Hebr 11:4–40.

 7.  

  7.  Alma 32:21.

 8.  

  8. Sjá Þýðing Josephs Smith, Hebr 11:1 (í Hebr 11:1, neðanmálstexti b).

 9.  

  9. Sjá 2 Ne 25:23; Alma 34:15–17; Eter 12:6; Jakbr 2:17–26.

 10.  

  10. Sjá Eter 12:4–6; Lectures on Faith, 69.

 11.  

  11. Sjá Moró 7:40–42.

 12.  

  12. Sjá Bible Dictionary, „Faith”; sjá einnig Morm 9:8–21; Moró 7:33–37.

 13.  

  13. Sjá Kenning og sáttmálar 27:17; Alma 57:19–27; 58:10–13.

 14.  

  14. Ann Rowley, í Andrew D. Olsen, The Price We Paid: The Extraordinary Story of the Willie and Martin Handcart Pioneers (2006), 113.

 15.  

  15.  Kenning og sáttmálar 20:25.

 16.  

  16.  Jes 40:31.

 17.  

  17. „Lead, Kindly Light,” Hymns, nr. 97.

 18.  

  18. Sjá Jakob 4:10; Morm 9:9.

 19.  

  19.  Kenning og sáttmálar 27:17; skáletrað hér.

 20.  

  20. Sjá 1 Ne 8:33–34; Alma 37:33; Kenning og sáttmálar 20:22.

 21.  

  21. Sjá Alma 32:28.

 22.  

  22.  Mósía 4:9.

 23.  

  23.  Lúk 17:5.

 24.  

  24. Sjá Mósía 4:9–10; Okv 3:5–7; Jes 55:8–9.

 25.  

  25. Sjá Eter 12:4.

 26.  

  26.  Kenning og sáttmálar 88:118; skáletrað hér.

 27.  

  27. Sjá Moró 7:33–38; Eter 12:19.

 28.  

  28. Sjá Matt 14:25–31.

 29.  

  29.  Kenning og sáttmálar 6:36.

 30.  

  30.  Moró 10:30.

 31.  

  31.  Kenning og sáttmálar 136:42.

 32.  

  32. Sjá Alma 34:15–17; sjá einnig Eter 12:3.

 33.  

  33. Sjá Eter 12:29; Alma 7:27.

 34.  

  34. Sjá Morm 9:18–21; sjá einnig Moró 7:33–38; Alma 37:16–17.

 35.  

  35.  Helaman 5:12.

 36.  

  36. Thomas S. Monson, „Be of Good Cheer,” Liahona og Ensign, maí 2009, 92.

 37.  

  37. Sjá Jakbr 1:6–8.

 38.  

  38.  Moró 6:4; sjá einnig Hebr 12:2.

 39.  

  39.  Hebr 11:6; sjá einnig Eter 12:41.