Finnið þér slíkt nú?

Öldungur Quentin L. Cook

í Tólfpostulasveitinni


Quentin L. Cook
Sumum í kirkjunni finnst þeir ekki geta svarað spurningu Alma óhikað játandi. Þeir „[finna ekki] slíkt nú.“

Monson forseti, við elskum, heiðrum og styðjum þig! Þessi sögulega og mikilvæga tilkynning um trúboðsþjónustu er uppörvandi. Ég minnist eftirvæntingarinnar árið 1960, þegar aldurstakmarki ungra manna í þjónustu var breytt úr 20 ára í 19 ára. Ég var 20 ára og nýkallaður þegar ég kom í breska-trúboðið. Sá sem fyrstur kom til trúboðsstarfa okkar 19 ára gamall var öldungur Jeffrey R. Holland, frábær viðbót. Hann átti nokkra mánuði eftir í 20 ára aldurinn. Ótal fleiri 19 ára gamlir komu svo yfir árið. Þeir voru hlýðnir og trúfastir trúboðar og starfið varð öflugra. Ég er viss um að nú verði uppskeran jafnvel enn meiri, er réttlátir og staðfastir trúboðar hlýða boði frelsarans um að prédika fagnaðarerindið.

Ég tel að þið sem tilheyrið hinni upprennandi kynslóð séuð betur undirbúin en allar fyrri kynslóðir. Þekking ykkar á ritningunum er einkar aðdáunarverð. En áskoranirnar sem ykkar kynslóð stendur frammi fyrir, er hún býr sig undir þjónustu, eru álíka og þær sem allir meðlimir kirkjunnar standa frammi fyrir. Við vitum öll að menning flestra svæða heimsins hvetur ekki til réttlætis eða andlegrar staðfestu. Frá upphafi hafa kirkjuleiðtogar aðvarað fólkið og hvatt það til að iðrast. Í Mormónsbók lét Alma sig svo miklu skipta óréttlætið og ábyrgðarleysið að hann sagði af sér sem yfirdómari, eða leiðtogi Nefíþjóðarinnar, og helgaði sig algjörlega spámannlegri köllun sinni.1

Í einu djúpstæðasta versi allra ritninganna, segir Alma: „Ef þér hafið fundið umbreytingu í hjörtum yðar og hafi yður langað til að syngja söng hinnar endurleysandi elsku, þá spyr ég: Finnið þér slíkt nú?“2

Svæðisleiðtogar víðsvegar um heim hafa sagt að almennt séð hafi kirkjumeðlimir, sér í lagi æskufólkið, aldrei verið sterkari. En næstum alltaf greina þeir frá tvíþættu áhyggjuefni: Í fyrsta lagi auknu óréttlæti í heiminum og í öðru lagi sinnuleysi og ábyrgðarleysi sumra meðlima. Þeir leita ráða um hvernig hjálpa megi meðlimum að fylgja frelsaranum og öðlast sterkari og varanlegri trú.

Spurningin „finnið þér síkt nú?“ hljómar í gegnum aldirnar. Þegar allt er talið sem við höfum hlotið í þessari ráðstöfun ‒ þar með talið endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists í fyllingu sinni, úthelling andlegra gjafa og óumdeilanlegra blessana himins ‒ verður þessi áskorun Alma aldrei mikilvægari en nú.

Nokkru eftir að Ezra Taft Benson var kallaður sem postuli árið 1943, sagði George Albert Smith forseti3: „Hlutverk þitt er að ... aðvara fólkið ... á eins ljúfan hátt og mögulegt er, um að iðrun sé eina lausnin varðandi alla illsku heimsins.“4 Þegar þessi orð voru sögð stóðu átök okkar í Síðari heimstyrjöldinni sem hæst.

Siðferðisleysið hefur stigmagnast á okkar tíma. Þekktur rithöfundur sagði nýverið: „Öllum er ljóst að menningin er mannskemmandi og enginn á von á að það breytist.“5 Hið stöðuga ofbeldi og siðleysi í tónlist, skemmtunum, listum og öðrum miðlum í menningu okkar tíma, er fordæmislaust. Þessu lýsti afar virtur guðfræðingur baptista mikilfenglega með því að segja: „Andlegt varnarkerfi heillrar siðmenningar hefur verið skaðað.“6

Það vekur ekki furðu þótt sumum í kirkjunni finnist þeir ekki geta svarað spurningu Alma óhikað játandi. Þeir „[finna ekki] slíkt nú.“ Þeim finnst þeir líða andlegan skort. Aðrir eru reiðir eða vonsviknir. Ef þessi lýsing á við ykkur,7 er mikilvægt að átta sig á hvers vegna þið „finnið [ekki] slíkt nú.“

Margir sem líða andlegt hungur og skort á staðfestu hafa ekki endilega verið viðriðnir alvarlega synd eða brot, heldur hafa tekið óskynsamlegar ákvarðanir. Sumir eru kærulausir um að halda helga sáttmála. Aðrir eyða mestum tíma og orku í málstað sem hefur minna gildi. Sumir láta sterkar menningarlegar og pólitískar skoðanir veikja tryggð sína við fagnaðarerindi Jesú Krists. Aðrir hafa sökkt sér niður í efni á Alnetinu, sem miklar og ýkir ófullkomleika fyrrum leiðtoga kirkjunnar og bera á þá tilefnislausar sakir í sumum tilvikum. Þeir draga síðan rangar ályktanir sem geta haft áhrif á vitnisburð. Allir sem hafa tekið slíkan valkost geta iðrast og endurnýjast í anda.

Að sökkva sér niður í ritningarnar er nauðsynlegt til andlegrar endurnæringar.8 Orð Guðs hvetur til staðfestu og er sem smyrsl á særðar tilfinningar, reiði eða vonbrigði.9 Þegar dregur úr staðfestu okkar af einhverri ástæðu, er iðrun hluti af lausninni.10 Staðfesta og iðrun eru vandlega samtvinnuð.

C. S. Lewis, hinn raunsæi og vinnusami kristni rithöfundur, fjallaði beinskeytt um málið. Hann staðhæfði að kristindómurinn byði fólki að iðrast og héti því fyrirgefningu; en að kristindómurinn höfði ekki til fólks fyrr en það viti og finni að það hafi þörf fyrir fyrirgefningu. Hann staðhæfði líka: „Þegar við erum sjúk, þá hlustum við á lækninn.“11

Spámaðurinn Joseph Smith benti á að fyrir skírn okkar hefði okkur verið mögulegt að vera á hlutlausu svæði, á milli góðs og ills. En „þegar við gengum í þessa kirkju, hefðum við valið að þjóna Guði. Þegar við gerðum það, hefðum við yfirgefið hlutlausa svæðið og gætum aldrei snúið þangað aftur.“ Hann ráðlagði að við mættum aldrei yfirgefa meistarann.12

Alma undirstrikar að fyrir friðþægingu Jesú Krists sé „armur miskunnarinnar ... útréttur“ til þeirra sem iðrast.13 Hann spyr síðan beinskeyttra og nærgöngulla spurninga, líkt og: Erum við undir það búin að mæta Guði? Höldum við okkur hreinum? Öll ættum við að ígrunda þessar spurningar. Reynsla Alma sjálfs, er hann lét bregðast að fylgja trúföstum föður sínum og hlaut síðan skilning á áhrifamikinn hátt um það hve fyrirgefning væri honum nauðsynleg og hvað fælist í því að syngja söng ævarandi elsku, er áhrifamikil og sannfærandi.

Þótt vert sé að ígrunda hvaðeina sem dregið getur úr staðfestu okkar, er tvennt þessu viðkomandi í menningu okkar, sem bæði er almennt og skiptir miklu. Fyrst er að nefna óvinsemd, ofbeldi og valdbeitingu á heimilinu. Hið síðara er kynferðisleg ósiðsemi og óhreinar hugsanir. Oft er þetta undanfari eða rótin að skorti á skyldurækni.

Hvernig við komum fram við okkar nánustu er grundvallaratriði. Ofbeldi, misnotkun, skortur á hugprýði og vanvirðing á heimilinu er ekki ásættanlegt ‒ hvorki fyrir fullorðna, né fyrir hina upprennandi kynslóð. Faðir minn var ekki virkur í kirkjunni, en var afar gott fordæmi, einkum í því hvernig hann kom fram við móður mína. Hann var vanur að segja: „Guð gerir menn ábyrga fyrir hverju því tári sem þeir eiga sök á að eiginkonur þeirra fella.“ Þetta sama efni er undirstrikað í „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins.“ Þar segir: „[Þeir] sem misþyrma maka eða barni, ... munu síðar meir verða að standa ábyrgir gerða sinna frammi fyrir Guði.“14 Burtséð frá þeirri menningu sem við erum alin upp í og hvort foreldrar okkar hafi misboðið okkur eða ekki, þá megum við ekki misbjóða neinum líkamlega, tilfinningalega eða með orðum.15

Þörfin á háttprýði í samfélaginu hefur aldrei verið mikilvægari. Vinsemd og háttprýði lærist fyrst á heimilinu. Ekki er að furða að almennri umræðu hraki til jafns við sundrung fjölskyldunnar. Fjölskyldan er undirstaða kærleika og stöðugs andríkis. Fjölskyldan skapar það andrúmsloft sem iðkun trúarbragða fær dafnað í. „Allt er fagurt, allt er blítt, ást ef heima býr,“ vissulega er það svo.16

Kynferðisleg ósiðsemi og óhreinar hugsanir brjóta gegn þeim viðmiðunarstaðli sem frelsarinn setti.17 Við vorum vöruð við því í upphafi þessarar ráðstöfunar að kynferðisleg ósiðsemi yrði hugsanlega mesta áskorunin.18 Slík breytni mun, án iðrunar, draga úr andlegum styrk og staðfestu. Í kvikmyndum, sjónvarpi og á Alnetinu eru oft niðurlægjandi skilaboð og myndefni. Dieter F. Uchtdorf forseti og ég vorum nýverið í þorpi í Amazonskóginum og jafnvel þar í hinum fábrotnu kofum gátum við horft á sjónvarpsefni í gegnum gervihnött. Við fögnuðum yfir þeim dásamlegu upplýsingum sem aðgengilegar voru á þessu afskekkta svæði. Við áttuðum okkur líka á að í raun væri enginn staður á jörðinni þar sem ekki væri hægt að fá aðgang að lostafullu, ósæmilegu og tælandi myndefni. Það er ein ástæða þess að klámið er orðið slík plága á okkar tíma.

Nýverið átti ég athyglisvert samtal við 15 ára gamlan Aronsprestdæmishafa. Hann upplýsti mig um hve auðvelt væri fyrir ungt fólk á þessari Alnetsöld að lenda næstum óvart á síðum með ósiðsömu og jafnvel klámfengnu myndefni. Hann benti á að almennt væri viðurkennt í samfélaginu að velferð og heilsu væri stefnt í voða við að brjóta flestar þeirra reglna sem kirkjan hefur verið að kenna. Hann tók sem dæmi vindlingareykingar og lyfja- og áfengisneyslu ungs fólks. En sagði jafnframt að samfélagið legði ekki að jöfnu að vara almennt við klámefni og ósiðsemi.

Kæru bræður og systur, útskýringar þessa unga manns eru réttar. Hver er lausnin? Árum saman hafa spámenn og postular kennt mikilvægi trúariðkunar á heimilinu.19

Foreldrar, sá tími er löngu liðinn að nóg sé að taka reglubundið þátt í samkomum og annarri starfssemi kirkjunnar, þótt það sé mikilvægt, til að uppfylla þá helgu ábyrgð að kenna börnum okkar að lifa siðsömu og réttlátu lífi og ganga grandvör frammi fyrir Drottni. Í ljósi þess sem Monson forseti tilkynnti í morgun, þá er nauðsynlegt að gera það af kostgæfni á heimilinu, sem er það athvarf þar sem vinsemd, fyrirgefning, sannleikur og réttlæti fá dafnað. Foreldrar verða að hafa þor til að sía eða vakta aðgang að efni á Alnetinu, í sjónvarpi, kvikmyndum og tónlist. Foreldrar verða að hafa þor til að segja nei, standa með sannleikanum og gefa máttugan vitnisburð. Börn ykkar þurfa að vita að þið trúið á frelsarann, elskið föður ykkar á himnum og styðjið kirkjuleiðtogana. Andríki þarf að dafna á heimili ykkar. Ég vona að enginn hverfi frá þessari ráðstefnu án þess að skilja að ræða þarf siðferðismál okkar tíma í fjölskyldunni. Biskupar og leiðtogar prestdæmis og aðildarfélaga þurfa að styðja fjölskyldur og tryggja að andlegar reglur séu kenndar. Heimilis- og heimsóknarkennarar ættu að aðstoða, einkum varðandi börn einstæðra foreldra.

Ungi maðurinn sem ég ræddi um spurði einlæglega hvort postular gerðu sér grein fyrir því hve snemma þyrfti að byrja á því að kenna æskunni og verja hana gegn klámi og óhreinum hugsunum. Hann staðhæfði með áherslu að á sumum svæðum væri jafnvel ekki of snemmt að byrja slíka kennslu áður en æskan útskrifaðist úr Barnafélaginu.

Æskufólk, sem á unga aldri hefur virt fyrir sér slíkt ósæmilegt myndefni, óttast að það sé þegar orðið vanhæft til að helga sig trúboðsþjónustu og helgum sáttmálum. Þar af leiðir að trú þess skaðast alvarlega. Ég fullvissa ungt fólk um að það geti gert sig hæft fyrir allar blessanir himins með því að iðrast, eins og kennt hefur verið.20 Um það snýst friðþægingin algjörlega. Ræðið vinsamlega við foreldra ykkar eða áreiðanlegan ráðgjafa og ráðgist við biskup ykkar.

Sumir fullorðnir telja sér trú um, í tengslum við siðferði, að það nægi að helga sig einu mikilvægu mannúðarverkefni eða einni reglu til að hlíta kenningum frelsarans. Þeir telja sér trú um að kynferðisbrot sé „smávægilegt ... ef þeir ... séu góðir og kærleiksríkir.“21 Slík hugsun er mikil sjálfsblekking. Sumt ungt fólk segir mér að í menningu okkar sé ekki „töff“ að leggja mikið á sig á of mörgum sviðum, þar með talið að lifa algjörlega eftir réttlátum reglum.22 Fallið ekki í þessa gryfju.

Í skírninni lofum við að taka á okkur „nafn [Jesú] Krists og [vera ákveðin í] að þjóna honum allt til enda.“23 Slíkur sáttmáli krefst þess að við breytum af hugdirfsku, séum staðföst og ráðvönd, ef við óskum að syngja stöðugt söng hinnar ævarandi elsku og vera trúföst.

Breskur Ólympíufari sem keppti á leikunum 1924, í París, Frakklandi, er sígilt dæmi um staðfestu, styrk og óhagganleika.

Eric Liddell var sonur skosks trúboða í Kína og staðfastlega trúaður maður. Hann reitti hina bresku yfirstjórn Ólympíuleikana til reiði með því að neita að taka þátt í undanrásum í 100 metra hlaupi sem vera átti á sunnudegi, þótt þrýstingurinn væri gríðarlegur. Að endingu stóð hann uppi sem siguvegari í 400 metra hlaupi. Fordæmi Liddells um að neita að keppa á sunnudegi var einkar hvetjandi.

Vísað hefur verið í hin innblásnu orð Jesaja, honum til heiðurs og virðingar: „En þeir, sem vona á Drottin, fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“24

Hin aðdáunarverða breytni Liddells hafði mikil áhrif á þá ákvörðun yngsta sonar míns að taka ekki þátt í íþróttum á sunnudögum, og það sem mikilvægara var, að halda sig frá óréttlátri og veraldlegri breytni. Hann vitnaði í Jesaja í orðum sínum í árbók sinni. Liddell sýndi máttugt fordæmi um festu og skyldurækni.

Þegar æskufólk okkar fylgir leiðsögn Monsons forseta, með því að búa sig undir að þjóna í trúboði, og er við lifum öll eftir þeim reglum sem frelsarinn kenndi og búum okkur undir að mæta Guði,25 erum við að sigra í mun mikilvægara kapphlaupi.26 Við munum hafa heilagan anda sem veitir okkur andlega leiðsögn. Ef einhver þarf að koma reglu á líf sitt, hafið þá í huga að það er aldrei of seint að gera friðþægingu frelsarans að undirstöðu trúar ykkar og lífs.27

Hér eru orð Jesaja: „Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll. Þó að þær séu rauðar sem purpuri, skulu þær verða sem ull.“28

Einlæg bæn mín er að sérhvert okkar geri allt nauðsynlegt til að fá skynjað andann, svo við fáum sungið söng hinnar ævarandi elsku af öllu hjarta. Ég ber vitni um kraft friðþægingar frelsarans, í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1. Sjá Alma 4:15–19.

 2.  

  2.  Alma 5:26.

 3.  

  3. George Albert Smith var þá forseti Tólfpostulasveitarinnar. Hann varð forseti kirkjunnar 21. maí 1945. (Sjá Deseret News 2012 Church Almanac [2012], 98.)

 4.  

  4. George Albert Smith, í Sheri L. Dew, Ezra Taft Benson: A Biography (1987), 184.

 5.  

  5. Peggy Noonan, „The Dark Night Rises,” Wall Street Journal, 28.-29. júlí 2012, A17.

 6.  

  6. Dr. R. Albert Mohler yngri, forseti, The Southern Baptist Theological Seminary, kynning fyrir trúarleiðtoga, New York City, 5. sept. 2012.

 7.  

  7. Sjá 2 Ne 2:27.

 8.  

  8. Sjá Jóh 5:39; Amos 8:11; sjá einnig James E. Faust, „A Personal Relationship with the Savior,” Ensign, nóv. 1976, 58–59.

 9.  

  9. Sjá Alma 31:5.

 10.  

  10. Sjá Alma 36:23–26.

 11.  

  11. C. S. Lewis, Mere Christianity (1952), 31–32. Lewis var félagi í English literature (enskum bókmenntum) í Oxford háskóla og eftir það formaður Medieval and Renaissance English í Cambridge háskóla.

 12.  

  12. Sjá Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 324; sjá einnig Op 3:15–16.

 13.  

  13.  Alma 5:33.

 14.  

  14. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,” Liahona og Ensign, nóv. 2010, 129.

 15.  

  15. Sjá Richard G. Scott, „Removing Barriers to Happiness,” Ensign, maí 1998, 85–87. Sumt sem skiptir máli í menningarlegu samhengi er í andstöðu við kenningar frelsarans og getur villt okkur sjónir. Þegar ég var á Suður-Kyrrahafseyjum kynntist ég manni nokkrum sem hafði árum saman rannsakað kirkjuna. Hann sagðist hafa orðið fyrir miklum áhrifum þegar kirkjuleiðtogi kenndi á prestdæmisráðstefnu: „Þá hönd sem þú áður hefur beitt til að hýða börn þín skaltu nú nota til að blessa börn þín.“ Hann tók á móti trúboðslexíunum, var skírður og hefur verið mikilhæfur leiðtogi.

 16.  

  16. „Ást ef heima býr,” Sálmar, nr. 110.

 17.  

  17. Sjá Alma 39.

 18.  

  18. Sjá Ezra Taft Benson, „Cleansing the Inner Vessel,” Ensign, maí 1986, 4.

 19.  

  19. Gordon B. Hinckley forseti kynnti „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“ á aðalfundi Líknarfélagsins í september árið 1995. Thomas S. Monson forseti hafði yfirumsjón með breytingu á fyrsta kafla í Handbook 2: Administering the Church (2010), „Families and the Church in God’s Plan.”

 20.  

  20. Sjá Alma 13:27–30; 41:11–15.

 21.  

  21. Ross Douthat, Bad Religion: How We Became a Nation of Heretics (2012), 238; sjá einnig Alma 39:5.

 22.  

  22. Leyfið ekki menningu, sem er full af ofbeldi og siðleysi og hættuleg fyrir þá sem lifa eftir þeim reglum sem frelsarinn kenndi, að draga úr trú ykkar. Líkt og skáldið Wordsworth sagði ljúflega: „Nærið [huga ykkar] af háleitum hugsunum, sem hvorki illar tungur né hvatvísir dómar eða háð eigingjarnra manna ... fá nokkru sinni sigrað ... eða raskað fá gleðilegri trú [ykkar]“ („Lines Composed a Few Miles above Tintern Abbey,“ í The Oxford Book of English Verse, ritst. af Christopher Ricks [1999], 346).

 23.  

  23.  Moró 6:3; skáletrað hér; sjá einnig Mósía 18:13.

 24.  

  24.  Jes 40:31; sjá Robert L. Backman, „Day of Delight,” New Era, júní 1993, 48–49.

 25.  

  25. Sjá Alma 34:32.

 26.  

  26. Sjá 1 Kor 9:24–27.

 27.  

  27. Sjá Helaman 5:12. Oliver Wendell Holmes ráðlagði: „Mér finnst hið mikilsverða í heiminum ekki snúast svo mikið um hvar við stöndum, heldur hvert ferðinni er heitið: Stundum höfum við meðvind og stundum mótvind er við siglum í átt til himinshafnar ‒ en við verðum að sigla, ekki láta reka eða liggja við akkeri“ (The Autocrat of the Breakfast-Table [1858], 105).

 28.  

  28.  Jes 1:18.