„Komið til mín, ó, þér Ísraelsætt“

Öldungur Larry Echo Hawk

af hinum Sjötíu


Larry Echo Hawk
Er við komum til frelsara okkar, Jesú Krists, og hreinsum hjörtu okkar, munum við öll verða verkfæri við að uppfylla hin kröftugu loforð Mormónsbókar.

Ég bauð mig fram sem sjálfboðaliði í landgönguliðsflota Bandaríkjanna í Víetnam stríðinu. Skömmu eftir að ég kom til Quantico, Virginíu, til grunnþjálfunar, stóð ég í réttstöðu fyrir framan kojuna í herskálanum mínum ásamt 54 öðrum landgönguliðum. Ég hitti liðþjálfa minn, harðgerðan hermann, þegar hann sparkaði upp hurðinni á herskálanum og kom inn æpandi fullt af blótsyrðum.

Eftir þessa ógnvekjandi innkomu tók hann að spyrja sérhvern sjálfboðaliða spurninga og byrjaði fremst. Liðþjálfanum tókst skipulega og án undantekninga að finna eitthvað til að draga dár að hjá hverjum sjálfboðaliða, og gerði hann það með háværu og klúru málfari. Hann fylgdi röðinni og sérhver landgönguliði hrópaði svar sitt eins og honum var fyrirskipað: „Já“ eða „Nei, liðþjálfi.“ Ég gat ekki séð nákvæmlega hvað hann var að gera, því okkur hafði verið skipað að standa í réttstöðu og horfa beint fram fyrir okkur. Þegar röðin kom að mér, heyrði ég hann taka herpoka minn og tæma úr honum á dýnuna fyrir aftan mig. Hann skoðaði eigur mínar, kom síðan og horfði beint framan í mig. Ég bjó mig undir árás hans. Í hönd hans var Mormónsbókin mín. Ég bjóst við að hann myndi æpa á mig, en í staðinn færði hann sig nær mér og hvíslaði: „Ert þú mormóni?“

Ég hrópaði „Já liðþjálfi,“ eins og mér hafði verið fyrirskipað.

Ég bjóst aftur við hinu versta. Þess í stað staðnæmdist hann og lyfti höndinni með Mormónsbók og sagði afar lágværri röddu: „Trúir þú á þessa bók?“

Aftur æpti ég: „Já, liðþjálfi.“

Þegar hér var komið sögu taldi ég fullvíst að hann myndi öskra niðrandi orð um mormóna og Mormónsbók, en hann stóð bara hljóður. Eftir andartak gekk hann aftur að dýnunni og lagði Mormónsbókina varlega niður. Síðan gekk hann framhjá mér án þess að stansa og hélt áfram að draga dár að og tala klúr og niðrandi orð til allra sjálfboðaliðanna sem eftir voru í röðinni.

Ég hef oft hugleitt hvers vegna þessi harðgerði liðþjálfi hlífði mér þennan dag. Ég er þakklátur að ég gat sagt án þess að hika „Já, ég er meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu“ og „Já, ég veit að Mormónsbók er sönn.“ Þessi vitnisburður er dýrmæt gjöf sem heilagur andi gaf mér með hjálp tveggja trúboða og eins leiðbeinanda prestasveitar.

Þegar ég var 14 ára gamall kenndu tveir trúboðar, Lee Pearson og Boyd Camphuysen, fjölskyldu minni hið endurreista fagnaðarerindi og ég tók skírn. Tveimur árum síðar skoraði leiðbeinandi prestasveitar minnar, Richard Boren, á mig að lesa Mormónsbók. Ég tók þeirri áskorun og las að minnsta kosti 10 síður á hverju kvöldi þar til ég lauk við hana.

Á titilsíðunni las ég að hún væri „skrifuð fyrir Lamaníta, sem eru leifar af Ísraelsætt, og einnig fyrir Gyðinga og Þjóðirnar.“ Í formála Mormónsbókar: Annars vitnis um Jesú Krist, segir að Lamanítar „[séu] helstu forfeður amerísku Indíánanna.“ Er ég las Mormónsbók virtist mér hún vera um amerísku Indíánana, forfeður mína. Mormónsbók segir sögu fólks, sem sumt var síðar nefnt Lamanítar, er flutti frá Jerúsalem til „fyrirheitins lands“ (1 Ne 2:20) um 600 f.Kr. Mormónsbók er heimild um samskipti Guðs við þessa fornu íbúa, sem bjuggu einhvers staðar á meginlandi Ameríku. Í henni er frásögn um þjónustu Jesú Krists meðal þeirra, eftir upprisu hans. Kaflar í Mormónsbók gefa til kynna að smám saman hafi fólkið breiðst út um meginland Ameríku og eyjar í nálægum höfum (sjá Alma 63:9–10). Spámenn þeirra sögðu fyrir um að margir af Þjóðunum myndu að lokum koma til þessa fyrirheitna lands og að reiði Guðs myndi vera yfir Lamanítunum, að þeim yrði dreift, þeir lostnir og þeim næstum eytt (sjá 1 Ne 13:10–14).

Langafi minn, Echo Hawk, Pawnee Indíáni, fæddist á miðri nítjándu öld á svæði sem nú er kallað Nebraska. Þegar hann var 19 ára gamall var Pawnee fólkið neytt til að láta frá sér rúmlega níu milljónir hektara af landi sínu til að rýma fyrir landnemum. Árið 1874 var Pawnee fólkið látið ganga nokkur hundruð kílómetra leið til lítils verndarsvæðis sem staðsett er á Indíánasvæðinu í Oklahoma. Fólksfjöldi Pawnee Indíánanna hafði fækkað úr rúmlega 12.000 niður í tæplega 700 eftir komu þeirra til Oklahóma. Pawnee fólkinu, eins og öðrum ættbálkum, hafði verið dreift, það lostið og því næstum eytt.

Mormónsbók hefur að geyma sérstakan boðskap fyrir afkomendur Lamaníta, leifar Ísraelsættar. Nefí sagði frá þessum boðskap þegar hann var að túlka sýn föður síns um þessa síðari daga: „Og á þeim degi mun þeim, sem eftir eru af niðjum okkar, ljóst, að þeir eru af Ísraelsætt og jafnframt sáttmálsþjóð Drottins. Og þá munu þeir þekkja og fá vitneskju um forfeður sína og einnig um fagnaðarboðskap lausnara síns, sem hann sjálfur miðlaði feðrum þeirra. Þeir munu þess vegna kynnast lausnara sínum og einmitt þeim kenningaratriðum hans, sem þekkja þarf til að komast til hans og láta frelsast“(1 Ne 15:14).

Mormónsbók er heilög ritning. Hún geymir fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis. Spámaðurinn Joseph Smith skrifaði, að „Mormónsbók væri réttari en allar aðrar bækur á jörðinni og burðarsteinn trúar okkar, og að maðurinn kæmist nær Guði með því að fara eftir kenningum hennar, fremur en nokkurrar annarrar bókar“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 64). Og því geymir hún boðskap fyrir alla íbúa jarðar.

Þegar ég las Mormónsbók í fyrsta sinn þá 17 ára drengur, einbeitti ég mér að loforði Morónís: „Og þegar þér meðtakið þetta, þá hvet ég yður að spyrja Guð, hinn eilífa föður, í nafni Krists, hvort þetta er ekki sannleikur. Og ef þér spyrjið í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist, mun hann opinbera yður sannleiksgildi þess fyrir kraft heilags anda“ (Moró 10:4).

Ég hlaut kröftugt andlegt vitni um sannleiksgildi Mormónsbókar er ég kraup í bæn. Sá vitnisburður hefur hjálpað mér að marka stefnu mína í lífinu.

Ég hvet alla til að lesa Mormónsbók: Annað vitni um Jesú Krist.

Ég bið sérstaklega leifar Ísraelsættar, afkomendur fólks Mormónsbókar, hvar sem þeir kunna að vera, um að lesa og endurlesa Mormónsbók. Lærið um loforð Mormónsbókar. Fylgið kennslu og fordæmi Jesú Krists. Gerið og haldið sáttmála við Drottin. Sækist eftir og fylgið leiðsögn heilags anda.

Ég lýk með orðum Amalekís, sem var spámaður í Mormónsbók: „Og nú, ástkæru bræður. Ég vildi að þér kæmuð til Krists, sem er hinn heilagi Ísraels, og tækjuð við hjálpræði hans og endurlausnarkrafti. Já, komið til hans og leggið fram sálir yðar óskiptar sem fórn til hans og haldið áfram að fasta og biðja og standið stöðugir allt til enda. Og svo sannarlega sem Drottinn lifir, munuð þér hólpnir verða“ (Omní 1:26).

Er við komum til frelsara okkar, Jesú Krists, og hreinsum hjörtu okkar, munum við öll verða verkfæri við að uppfylla hin kröftugu loforð Mormónsbókar . Um það ber ég vitni, í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.