Snúið til Drottins

Öldungur David A. Bednar

í Tólfpostulasveitinni


David A. Bednar
Að vita að fagnaðarerindið er sannleikur er kjarni fagnaðarerindisins. Að vera stöðugt trúr fagnaðarerindinu er kjarni trúskipta.

Boðskapur minn er um sambandið milli þess að hljóta vitnisburð um að Jesús sé Kristur og að snúast til trúar á hann og fagnaðarerindi hans. Yfirleitt fjöllum við aðskilið og áháð um vitnisburð og trúskipti. En við getum hlotið dýpri skilning og aukna andlega sannfæringu er við hugleiðum þetta tvennt í samhengi.

Ég bið þess að heilagur andi leiðbeini sérhverju okkar og uppbyggi.

Hvern segið þér mig vera?

Við getum lært heilmargt um vitnisburð og trúskipti af þjónustu Péturs postula.

Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína: „Hvern segið þér mig vera?“

Pétur svaraði skorinort:

„Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.

Þá segir Jesús við hann: Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum“ (Matt 16:15–17).

Líkt og fram kemur í svari Péturs og kennslu frelsarans, þá er vitnisburður persónuleg vitneskja um andlegan sannleika sem veitt er með opinberun. Vitnisburður er gjöf frá Guði og stendur öllum börnum hans til boða. Allir einlægir sannleiksleitendur geta hlotið vitnisburð með því að „sýna örlitla trú“ á Jesú Krist og „gjöra tilraun með“ (Alma 32:27) og „láta reyna á kraft Guðs orðs“ (Alma 31:5), að „[láta] undan umtölum hins heilaga anda“ (Mosiah 3:19), og vakna til Guðs (sjá Alma 5:7). Vitnisburður eykur persónulega ábyrgð og veitir tilgang, fullvissu og gleði.

Leit eftir vitnisburði um andlegan sannleika krefst þess að við biðjum, leitum og knýjum á (sjá Matt 7:7; 3 Ne 14:7) í hjartans einlægni og sönnum ásetningi og í trú á frelsarann (sjá Moró 10:4). Grunnþættir vitnisburðar er vitneskja um að himneskur faðir lifir og elskar okkur, að Jesús Kristur sé frelsari okkar og að fagnaðarerindið hafi verið endurreist á jörðu í fyllingu sinni á þessum síðari tímum.

þegar þú ert snúinn við

Frelsarinn kenndi lærisveinum sínum við síðustu kvöldmáltíðina og sagði við Pétur:

„Símon, Símon, Satan krafðist ... að sælda yður eins og hveiti.

En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við“ (Lúk 22:31–32).

Áhugavert er að vita, að þessi mikli postuli, sem hafði rætt við meistarann og verið í samfylgd hans, orðið vitni að mörgum kraftaverkum og átt sterkan vitnisburð um guðleika frelsarans, hafði samt þörf fyrir aukna fræðslu frá Jesú um trúar- og hreinsunarmátt heilags anda og skyldu hans um að þjóna af trúmennsku.

Kjarni fagnaðarerindis Jesú Krists felur í sér að friðþæging frelsarans gerir mögulegt að breyta innsta eðli okkar varanlega. Ávöxtur sannra trúskipta er breyting á viðhorfi, hjarta og lífi í samræmi við vilja Guðs (sjá Post 3:19; 3 Ne 9:20), ásamt einlægum ásetningi um að verða lærisveinn Krists.

Trúskipti eru aukin sýn og dýpri skilningur á sjálfri undirstöðu vitnisburðarins. Þau eru ávöxtur af opinberun frá Guði, sem leiðir til iðrunar, hlýðni og kostgæfni. Allir einlægir sannleiksleitendur geta snúist til trúar með því að upplifa gjörbreytingu í hjarta og fæðast andlega af Guði (sjá Alma 5:12–14). Þegar við heiðrum heilgiathafnir og sáttmála sáluhjálpar og upphafningar (sjá K&S 20:25), „[sækjum] fram, [staðföst] í Kristi“ (2 Ne 31:20), og stöndumst í trú allt til enda (sjá K&S 14:7), verðum við nýsköpun í Kristi (sjá 2 Kor 5:17). Trúskipti eru sjálfsfórn, sem við færum Guði af kærleika og hollustu, í þakklæti fyrir gjöf vitnisburðar.

Dæmi um trúskipti í Mormónsbók

Í Mormónsbók eru fjölmargar innblásnar frásagnir af trúskiptum. Amalekí, sem var afkomandi Jakobs, sagði: „Ég vildi að þér kæmuð til Krists, sem er hinn heilagi Ísraels, og tækjuð við hjálpræði hans og endurlausnarkrafti. Já, komið til hans og leggið fram sálir yðar óskiptar sem fórn til hans“ (Omní 1:26).

Að vita fyrir kraft heilags anda, að Jesús er Kristur, er mikilvægt og nauðsynlegt. En að koma til hans af einlægni og leggja fram sálir okkar óskiptar sem fórn til hans, er mun meira en að aðeins vitneskja. Trúskipti krefjast þess að við séum óskipt í hjarta, mætti, huga og styrk (sjá K&S 4:2).

Fólk Benjamíns konungs brást við kennslu hans með því að hrópa: „Já, við trúum öllum þeim orðum, sem þú hefur til okkar mælt. Og við vitum einnig, að þau eru áreiðanleg og sönn, því að andi Drottins almáttugs hefur valdið svo mikilli breytingu á okkur, eða í hjörtum okkar, að við hneigjumst ekki lengur til illra verka, heldur stöðugt til góðra verka“ (Mósía 5:2). Að taka á móti hinum töluðu orðum, að hljóta vitnisburð um sannleiksgildi þeirra, og iðka trú á Krist, olli gjörbreytingu hjartans og staðföstum ásetningi um að bæta allt sitt líf.

Lamanítarnir, sem snerust til trúar í Bók Helamans, eru sagðir hafa fylgt „vegi skyldunnar og [gengið] gætilega frammi fyrir Guði, og þeir [gættu] þess að halda boðorð hans, reglur og ákvæði. …

... og þeir [kappkostuðu] af óþreytandi elju að leiða aðra bræður sína til þekkingar á sannleikanum“ (Helaman 15:5–6).

Líkt og dæmi þessi sýna, þá eru persónueinkenni trúskipta að upplifa gjörbreytingu hjartans, hljóta þrá til að láta stöðugt gott af sér leiða, ganga veg skyldunnar, sýna forsjálni frammi fyrir Guði, halda boðorðin og þjóna af staðfastri kostgæfni. Þessar trúföstu sálir höfðu greinilega helgað sig algjörlega Drottni og kenningum hans.

Snúast til trúar

Trúskipti eru okkur flestum viðvarandi ferli, en ekki einstök, máttug og dramatísk upplifun. Orð á orð ofan og setning á setning ofan, smám saman og næstum ómerkjanlega, munu hugsanir okkar, orð og verk samræmast vilja Guðs. Að snúast til trúar á Drottin krefst bæði þolgæðis og þolinmæðar.

Lamanítinn Samúel greindi frá fimm grunnþáttum þess að snúast til trúar á Drottin: (1) Að hafa trú á kenningum og spádómum hinna helgu spámanna, eins og skráð er í ritningunum, (2) iðka trú á Drottin Jesú Krist, (3) iðrast, (4) upplifa gjörbreytingu hjartans og (5) verða „[ákveðin og staðföst] í trúnni“ (sjá Helaman 15:7–8). Trúskipti eru ávöxtur þessarar fyrirmyndar.

Vitnisburður og trúskipti

Vitnisburður er upphafið og forsendan að varanlegum trúskiptum. Vitnisburður er byrjunarreitur; ekki endanlegur ákvörðunarstaður. Trúskipti byggjast á sterkum vitnisburði.

Vitnisburður einn og sér dugar ekki til að vernda okkur í myrkri og stormi síðari tíma og gegn því illa sem við upplifum. Vitnisburður er mikilvægur og nauðsynlegur, en dugar ekki til þess að veita okkur nauðsynlegan andlegan styrk og vernd. Sumir meðlimir kirkjunnar sem eiga vitnisburð hafa fallið og villst frá. Andlega þekking þeirra og skuldbinding hafa ekki nægt í þeim erfiðleikum sem þeir hafa staðið frammi fyrir.

Mikilvæga lexíu má læra af trúboðsstarfi sona Mósía um tengsl vitnisburðar og trúskipta.

„Jafn margir og leiddir voru til þekkingar á sannleikanum fyrir prédikanir Ammons og bræðra hans, samkvæmt anda opinberunar og spádóms, fyrir kraft Guðs, sem gjörði kraftaverk á þeim ‒ já, ... sem Drottinn lifir, þá gjörðust þeir Lamanítar, sem trúðu á prédikanir þeirra og snerust til Drottins, aldrei fráhverfir.

Því að þeir urðu réttlát þjóð. Þeir lögðu niður uppreisnarvopn sín, svo að þeir berðust aldrei framar gegn Guði. ...

En þetta eru þeir sem snerust til trúar á Drottin“ (Alma 23:6–8).

Greint er frá tveimur megin þáttunum í þessum versum: (1) Þekkingu á sannleikanum, mætti útleggja sem vitnisburð og (2)  snúast til trúar á Drottin, sem skilningur minn segir að sé að snúast til trúar á frelsarann og fagnaðarerindi hans. Máttug samsetning bæði vitnisburðar og trúar á Drottin, leiðir til staðfestu og stöðugleika og veitir andlega vernd.

Þeir urðu aldrei fráhverfir og lögðu niður „uppreisnarvopn sín ‒ svo þeir berðust ekki framar gegn Guði.“ Að leggja niður kær „uppreisnarvopn,“ svo sem eigingirni, hroka og óhýðni, krefst meira en aðeins að hafa trú á og vita. Sannfæring, auðmýkt, iðrun og undirgefni eru undanfari þess að leggja niður uppreisnarvopn sín. Höfum við enn í fórum okkar uppreisnarvopn sem koma í veg fyrir að við snúumst til trúar á Drottin? Ef svo er, þurfum við að iðrast nú þegar.

Veitið athygli að Lamanítarnir snerust ekki til trúar á trúboðana sem kenndu þeim eða frábærra prógrama kirkjunnar. Þeir snerust ekki til trúar á persónuleika leiðtoga sinna eða til að varðveita menningarlega arfleifð eða hefðir feðranna. Þeir snerust til trúar á Drottin ‒ á hann sem frelsara, og á guðleika hans og kenningu ‒ og þeir urðu aldrei fráhverfir.

Vitnisburður er andleg þekking á sannleika sem hlýst með krafti heilags anda. Áframhaldandi trúskipti eru háð stöðugri trúmennsku við hinn opinberaða sannleika sem við hljótum ‒ af fúsu hjarta og réttlátum ásetningi. Að vita að fagnaðarerindið er sannleikur er kjarni fagnaðarerindisins. Að vera stöðugt trúr fagnaðarerindinu er kjarni trúskipta. Við þurfum að vita að fagnaðarerindið er sannleikur og að vera sönn fagnaðarerindinu.

Vitnisburður, trúskipti og dæmisagan um meyjarnar tíu

Ég ætla nú að greina frá einni túlkun af mörgum öðrum hugsanlegum um meyjarnar tíu, til að varpa ljósi á samhengi vitnisburðar og trúskipta. Meyjarnar tíu, en fimm af þeim voru vitrar og fimm heimskar, tóku lampana sína og fóru á fund brúðgumans. Lítið vinsamlega á lampana sem meyjarnar notuðu sem lampa vitnisburðar. Heimsku meyjarnar tóku mér sér vitnisburðarlampa sína, en enga olíu. Lítið á olíuna sem olíu trúskipta.

„En hinar hyggnu tóku olíu [trúskipta] á könnum með [vitnisburðarlömpum] sínum.

Nú dvaldist brúðgumanum, og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.

Um miðnætti kvað við hróp: Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann.

Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til [vitnisburðarlampa] sína.

En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á [vitnisburðarlömpum vorum og loginn orðinn veikur].

Þær hyggnu svöruðu: ,Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður‘“ (Matt 25:4–9).

Voru hinar fimm vitru meyjar eigingjarnar og ógjafmildar, eða sögðu þær réttilega að olíu trúskipta er ekki hægt að lána? Er hægt að gefa öðrum hinn andlega styrk sem hlýst af stöðugri hlýðni við boðorðin? Er hægt að yfirfæra á aðra í neyð þá þekkingu sem hlýst með kostgæfu námi og ígrundun ritninganna? Er hægt að færa frið fagnaðarerindisins sem trúfastir Síðari daga heilagir hljóta yfir á þá sem upplifa mótlæti eða mikla erfiðleika? Svarið við hverri þessara spurninga er ákveðið: Nei.

Líkt og vitru meyjarnar sögðu greinilega, þá verður hvert okkar að „kaupa handa sér.“ Þessar innblásnu konur voru ekki að tala um viðskiptahætti; þær voru öllu heldur að undirstrika einstaklingsbundna ábyrgð okkar á að halda vitnisburðarlömpum okkar logandi og verða okkur úti um umfram birgðir af olíu trúskipta. Þessa dýrmætu olíu er hægt að fá dropa fyrir dropa ‒ „orð á orð ofan og setning á setning ofan“ (2 Ne 28:30), stöðugt og af þolinmæði. Engin styttri leið er fyrir hendi; enginn skyndiundirbúningur er mögulegur.

„Verið þess vegna staðfastir og biðjið án afláts, látið loga á hreinum lömpum yðar og hafið olíu með yður, svo að þér séuð reiðubúnir við komu brúðgumans“ (K&S 33:17).

Vitnisburður

Ég heiti ykkur því að þegar við hljótum vitneskju um sannleikann og snúumst til trúar á Drottin, munum við standa stöðug og óhagganleg og verðum aldrei fráhverf. Við munum fúslega leggja niður uppreisnarvopn okkar. Við munum blessuð með björtu ljósi á vitnisburðarlömpum okkar og ríflegum birgðum af olíu trúskipta. Og þegar trú okkar fer að aukast, munum við styrkja fjölskyldur okkar, vini og samferðamenn. Um þann sannleika ber ég vitni í helgu nafni Drottins Jesú Krists, amen.