Fylgjast fyrst með, síðan þjóna

Linda K. Burton

aðalforseti Líknarfélagsins


Linda K. Burton
Með æfingunni getum við, hvert um sig, orðið líkara frelsaranum þegar við þjónum börnum Guðs.

Einn stærsti vitnisburðurinn um að okkar ástkæri spámaður, Thomas S. Monson, sé útvalinn þjónn Drottins er fólginn í því að hann hefur lært að fylgja fordæmi frelsarans — þjóna hverjum einstökum. Þau okkar sem hafa farið niður í skírnarvatnið hafa gert sáttmála um að gjöra slíkt hið sama. Við höfum gert sáttmála um að „hafa [frelsarann] ávallt í huga og halda boðorð hans,“1 og hann hefur sagt: „Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.“2

Takið eftir hvernig eftirfarandi orð Monsons forseta fela í sér þetta sama boð: „Við erum umkringd þeim sem þarfnast umönnunar okkar eða hvatningar, stuðnings, huggunar og vinsemdar okkar ... Við erum hendur Drottins hér á jörðinni, undir tilskipun um að þjóna og lyfta börnum hans. Hann treystir á sérhvert okkar.”3

Heyrðuð þið það — boðið um að elska hvert annað? Sumum reynist ekki auðvelt að fylgja því fordæmi frelsarans, að þjóna hverjum einstökum. En með æfingunni getum við öll orðið líkara frelsaranum þegar við þjónum börnum Guðs. Til að hjálpa okkur að elska hvert annað betur, vil ég benda á fimm orð til að muna: „Fylgjast fyrst með, síðan þjóna.“

Fyrir nærri 40 árum fórum við hjónin í musterið á föstudagskvöldi. Við höfðum aðeins verið gift í stuttan tíma, og ég var óstyrk vegna þess að þetta var aðeins í annað sinn eftir giftinguna. Systir sem sat við hlið mér hlýtur að hafa veitt því athygli. Hín hallaði sér nær mér og hvíslaði lotningarfull: „Hafðu ekki áhyggjur. Ég mun hjálpa þér.“ Ótti minn rénaði, og ég fékk notið þess sem eftir var af musterissetunni. Hún fylgdist fyrst með, síðan þjónaði hún.

Okkur er öllum boðið að fylgja kenningum Jesú og þjóna öðrum. Það boð nær ekki bara til englum líkra systra. Þegar ég deili nú með ykkur fáeinum hversdagslegum dæmum um meðlimi, sem hafa lært að fylgjast fyrst með og þjóna síðan, hlustið þá eftir kenningum Jesú sem þær bera vott um.

Sex ára barn í Barnafélaginu sagði: „Þegar ég var valinn til að vera hjálparmaður í bekknum, mátti ég velja vin til að vinna með mér. Ég valdi [dreng í bekknum mínum sem stríddi mér] vegna þess að hann er aldrei valinn af öðrum. Ég vildi láta honum líða vel.”4

Hverju tók þetta barn eftir? Hann tók eftir að stríðnispúkinn í bekknum var aldrei valinn. Hvað gerði hann til að þjóna? Hann einfaldlega valdi hann til að vera vinur sinn við hjálparstarfið í bekknum. Jesús kenndi: „Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður.“5

Í einni deild fylgdust Aronsprestdæmishafarnir fyrst með og þjóna nú á þýðingarmikinn hátt. Í hverri viku mæta piltarnir snemma og standa fyrir framan samkomuhúsið, í regni, snjókomu eða steikjandi hita, og bíða eftir að hinir mörgu eldri meðlimir deildarinnar mæti. Þeir lyfta hjólastólum og göngugrindum út úr bílunum, bjóða fram sterka arma sína, og með þolinmæði fylgja þeir hinum silfurhærðu inn í bygginguna. Þeir eru sannarlega að vinna skylduverk sitt gagnvart Guði. Þegar þeir fylgjast fyrst með og þjóna síðan, eru þeir lifandi dæmi um kennslu frelsarans: „Það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“6 Eftir því sem nýtt námsefni fyrir unga fólkið er tekið í notkun, munu augu þessara ungu manna vafalaust opnast fyrir nýjum tækifærum til að veita kristilega þjónustu.

Að fylgjast fyrst með og þjóna síðan krefst stundum mikils átaks. Innblásin stúlka að nafni Alexandria tók eftir að frænka hennar, Madison, gat ekki lokið Eigin framþróunar verkefninu sínu vegna þess að hún þjáðist af einhverfu á háu stigi. Alexandria fékk stúlkurnar í deild sinni í lið með sér, leitaði ráða hjá leiðtogum sínum, og ákvað að gera dálítið fyrir Maddy sem hún gat ekki gert hjálparlaust. Hver stúlknanna lauk við hluta af verkefnum Eigin framþróunar sem staðgenglar svo að Maddy gæti fengið sína eigin medalíu.7

Þessar stúlkur munu þroskast vel inn í það sem bíður þeirra, mæðrahlutverkið og systralag Líknarfélagsins, vegna þess að þær læra að fylgjast fyrst með og þjóna síðan á kærleiksríkan hátt.

Monson forseti hefur minnt okkur á að kærleikurinn, „hin hreina ást Krists“8 — eða með öðrum orðum, fylgjast fyrst með, þjóna síðan – „birtist þegar umhyggja er borin fyrir roskinni ekkju og farið með hana á athafnir í kirkjunnar“ og „þegar systur sem situr ein í Líknarfélaginu er boðið: ‚Kom – sestu hjá okkur.‘“9 Gullna reglan á hér við: „Allt, sem þér viljið því, að aðrir menn [eða konur] gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“10

Athugull eiginmaður þjónaði með tvennum mikilvægum hætti. Hann segir svo frá:

„Ég var að aðstoða konu mína sunnudag einn við Barnafélagsbekkinn hennar, fullan af kraftmiklum 7 ára börnum. Þegar samverustund Barnafélagsins hófst, tók ég eftir að ein telpan í bekknum sat hnípin á stól sínum og leið auðsjáanlega ekki vel. Andinn hvíslaði að mér að hún þarfnaðist hughreystingar, svo að ég settist hjá henni og spurði hljóðlega hvað væri að. Hún svaraði ekki …  , svo að ég tók að syngja ljúflega fyrir hana.

Í Barnafélaginu var verið að æfa nýjan söng, og þegar við sungum: ‚Ef ég hlusta í hjarta mínu heyri ég rödd frelsarans,’ tók ég að finna fyrir furðulegu ljósi og varma sem fyllti sál mína … Ég fékk persónulegan vitnisburð um ást frelsara okkar til hennar, …og til mín … Ég lærði að við erum hendur frelsarans þegar við þjónum þessum eina.“11

Þessi kristilegi bróðir tók ekki bara eftir þörf konu sinnar fyrir hjálp við kennslu bekkjar með kraftmiklum sjö ára börnum, hann veitti einnig sértæka þjónustu barni í nauð. Hann fylgdi frelsaranum, sem kenndi: „Því að þau verk, sem þér hafið séð mig vinna, þau skuluð þér einnig vinna.“12

Nýlega varð flóð þess valdandi að mörg tækifæri buðust lærisveinum Jesú Krists til að fylgjast fyrst með og þjóna síðan. Karlar, konur, unglingar og börn sáu fyrirtæki og heimili eyðilögð og köstuðu öllu frá sér til að hjálpa til við að hreinsa og gera við skemmdar byggingar. Sum þeirra sáu hjálparþörfina í því yfirþyrmandi verki að sinna þvotti á fatnaði. Aðrir unnu það nákvæmnisverk að þurrka ljósmyndir, lögfræðiskjöl, bréf, og aðra mikilvæga pappíra, og hengja þá síðan til þerris til að varðveita allt sem unnt var. Að fylgjast með og þjóna síðan er ekki alltaf þægilegt og hentar ekki alltaf okkar eigin tímaáætlun.

Hvaða staður til að fylgjast með og síðan þjóna er betri en heimilið. Dæmi úr lífi öldungs Richard G. Scott lýsir þessu vel:

„Eina nóttina vaknaði litli sonur okkar, Richard, grátandi, en hann var með hjartagalla. ... Venjulega vaknaði konan mín til að sinna grátandi barni, en í þetta skipti sagði ég: ‚Ég skal annast hann.‘

Vegna vanda hans tók litla hjartað að slá mjög hratt, þegar hann grét. Hann átti það til að kasta upp og óhreinka rúmfatnaðinn. Þessa nótt hélt ég honum mjög þétt í fangi mínu til þess að reyna að róa hraðan hjartsláttinn og stöðva grátinn, um leið og ég skipti um föt hans og náði í ný rúmföt. Ég hélt á honum uns hann sofnaði. Ég vissi það ekki þá að hann mundi deyja aðeins nokkrum mánuðum síðar. Ég gleymi því aldrei þegar ég hélt honum í fangi mínu þarna um miðja nótt.“13

Jesús sagði: „Sá sem mikill vill verða meðal yðar, [sé] þjónn yðar.“14

Stundum freistumst við til að þjóna á þann hátt sem við viljum þjóna og ekki endilega á þann hátt sem þörf er fyrir á þeirri stundu. Þegar öldungur Robert D. Hales kenndi reglu um ráðdeildarsamt líferni, sagði hann frá því þegar hann keypti gjöf handa konu sinni. Hún spurði: „Ertu að kaupa þetta fyrir mig eða fyrir þig?“15 Ef við lögum þessa spurningu að okkur er við þjónum og spyrjum: „Er ég að gera þetta fyrir frelsarann, eða gera þetta fyrir mig?“ er líklegra að þjónusta okkar líkist þjónustu frelsarans. Frelsarinn spurði og það ættum við einnig að gera: „Hvers óskið þér af mér?“16

Fyrir fáeinum vikum var ég á þeytingi og stressuð, hafði í allt of mörgu að snúast. Ég hafði vonast eftir að komast í musterið þennan dag, en mér fannst ég hafa of mikið á minni könnu. Strax eftir að hugsunin um að ég ætti of annríkt til að komast í musterið vaknaði, varð mér ljóst hvers ég þarfnaðist mest að gera. Ég yfirgaf skrifstofu mína og á leið til Salt Lake musterisins hugsaði ég þó um hvernig ég gæti unnið upp þann tíma sem ég væri að tapa. Þökk sé Drottni fyrir þolinmæði hans og náð, en hann kenndi mér dásamlega lexíu þann dag.

Þegar ég settist niður í salnum þar sem musterisgjöfin er veitt, hallaði ung systir sér að mér og hvíslaði lotningarfull; „Ég er svo taugaóstyrk. Þetta er bara í annað sinn sem ég kem í musterið. Vildir þú vera svo góð að hjálpa mér?“ Hvernig gat hún vitað að þetta voru nákvæmlega orðin sem ég þarfnaðist að heyra? Hún vissi það ekki, en himneskur faðir vissu það. Hann hafði tekið eftir hver var mín brýnasta þörf. Ég þarfnaðist þess að þjóna. Hann kom þessari auðmjúku ungu systur til að þjóna mér með því að biðja mig um þjónustu. Ég fullvissa ykkur um að það var ég sem hafði mestan ávinninginn.

Ég er innilega þakklát því marga kristilega fólki sem hefur þjónað fjölskyldu okkar í áranna rás. Ég læt í ljós hjartans þakklæti mitt til míns elskaða eiginmanns og fjölskyldunnar, sem þjóna af óeigingirni og með miklum kærleika.

Megum við öll fylgjast fyrst með, síðan þjóna. Þegar við gerum svo, erum við að halda sáttmála okkar og þjónusta okkar, eins og þjónusta Monson forseta, mun bera vitni um lærisveinsstöðu okkar. Ég veit að frelsarinn lifir. Friðþæging hans gerir okkur kleift að lifa eftir kenningum hans. Ég veit að Monson forseti er spámaður okkar í dag. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1.  Kenning og sáttmálar 20:77.

 2.  

  2.  Jóh 15:12.

 3.  

  3. Thomas S. Monson, „What Have I Done for Someone Today?“ Liahona og Ensign, nóv. 2009, 86.

 4.  

  4. Canyon H., „A Good Choice,” Friend, jan. 2012, 31.

 5.  

  5.  Matt 5:44.

 6.  

  6.  Matt 25:40.

 7.  

  7. Sjá „For Madison,” lds.org/youth/video/for-madison.

 8.  

  8.  Moró 7:47.

 9.  

  9. Thomas S. Monson, „Charity Never Faileth,” LiahonaogEnsign, nóv. 2010, 125; sjá einnig Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society (2011), 101.

 10.  

  10.  3 Ne 14:12.

 11.  

  11. Al VanLeeuwen, „Serving the One,” Liahona, ágúst 2012, 19; Ensign, Ágúst 2012, 15; sjá einnig Sally DeFord, „If I Listen with My Heart,” 2011 Outline for Sharing Time, 28.

 12.  

  12.  3 Ne 27:21.

 13.  

  13. Richard G. Scott, „The Eternal Blessings of Marriage,” Liahona og Ensign, maí 2011, 96.

 14.  

  14.  Matt 20:26.

 15.  

  15. Robert D. Hales, „Becoming Provident Providers Temporally and Spiritually,” Liahona og Ensign, maí 2009, 9.

 16.  

  16.  Matt 20:32.