Guð sé með þér uns við hittumst heil

Thomas S. Monson forseti


Thomas S. Monson
Við verðum blessuð, ef boðskapur síðast liðinna daga festir rætur í hjörtum okkar.

Bræður mínir og systur, enn og aftur er komið að lokum innblásinnar aðalráðstefnu. Sjálfur hef ég notið andlegrar næringar og uppörvunar og veit að þið hafið líka fundið sérstakan anda þessarar ráðstefnu.

Við færum þeim innilegar þakkir sem hafa á einhvern hátt komið að ráðstefnunni. Sannleikur fagnaðarerindisins hefur verið kenndur dásamlega og endurtekið. Við verðum blessuð, ef boðskapur síðast liðinna daga festir rætur í hjörtum okkar.

Líkt og alltaf verður þessi ráðstefna fáanleg í væntanlegum útgáfum tímaritanna Ensign og Líahóna. Ég hvet ykkur til að lesa ræðurnar þar og ígrunda boðskap þeirra. Sjálfum hefur mér fundist ég læra jafnvel enn meira af þessum innblásnu ræðum, þegar ég ígrunda þær vandlega.

Umfang ráðstefnunnar er fordæmislaust, spannar yfir höf og meginlönd og nær til fólks hvarvetna. Þótt vegalengdin sé löng á milli okkar, skynjum við anda ykkar og færum ykkur þakkir og elsku.

Ykkur, bræðrunum sem hafið verið leystir frá störfum á ráðstefnunni, færi ég innilegar þakkir frá okkur öllum fyrir þau mörgu ár sem þið hafið þjónað af dyggð. Þeir eru óteljandi sem hlotið hafa blessun af framlagi ykkar til verks Drottins.

Bræður og systur, nýlega hélt ég 85 afmælið mitt hátíðlegt og er þakklátur fyrir hvert það ár sem Drottinn eykur við lífsspönn mína. Þegar ég íhuga lífsreynslu mína, þakka ég honum fyrir hans mörgu blessanir. Líkt og ég sagði í boðskap mínum nú í morgun, þá hef ég fundið hönd hans leiða mig, er ég hef reynt að þjóna honum og ykkur öllum af kostgæfni.

Embætti forseta kirkjunnar er krefjandi. Hve þakklátur ég er fyrir tvo trúfasta ráðgjafa, sem þjóna mér við hlið og eru ávallt fúsir og einstaklega hæfir til að aðstoða við það verk, sem Æðsta forsætisráðið ber ábyrgð á. Ég tjái líka þakklæti mitt fyrir hina göfugu menn sem skipa Tólfpostulasveitina. Þeir vinna sleitulaust við málstað meistarans, ásamt þeim sem skipa sveitir hinna Sjötíu, er veita þeim innblásna aðstoð.

Ég vil líka hrósa ykkur, bræður mínir og systur, hvar sem þið eruð í heiminum, fyrir allt það sem þið gerið í deildum ykkar og greinum, stikum og umdæmum. Þegar þið takið fúslega við köllunum, sem þið eruð beðin um, hjálpið þið til við að byggja upp ríki Guðs á jörðu.

Megum við ætíð vaka yfir hvert öðru og aðstoða á neyðarstundum. Við skulum ekki vera gagnrýnin og dómhörð, heldur umburðarlynd og tileinka okkur ætið fordæmi frelsarans um elsku og góðvild. Við skulum vera fús til að þjóna hvert öðru í þeim anda. Við skulum biðja um innblástur til að þekkja þarfir þeirra sem umhverfis eru, og bregðast síðan við og veita aðstoð.

Við skulum vera hughraust í lífi okkar. Þótt við lifum á stöðugt örðugri tímum, þá elskar Drottinn okkur og er minnugur okkar. Hann stendur ætíð með okkur þegar við gerum hið rétta. Hann hjálpar okkur á neyðarstundum. Erfiðleikar verða í lífi okkar, vandamál sem við væntum ekki og hefðum aldrei valið okkur. Ekkert okkar er ónæmt. Tilgangur jarðlífsins er að læra og þroskast, til að líkjast betur föðurnum, og oft lærum við mest á erfiðum tímum, þótt lexían kunni að vera sársaukafull. Líf okkar getur líka verið gleðiríkt, er við lifum eftir kenningum fagnaðarerindis Jesú Krists.

Drottinn hvatti okkur: „Verið [hughraustir]. Ég hef sigrað heiminn.“1 Hve mikla gleði sú vitneskja ætti að færa okkur. Hann lifði og dó fyrir okkur. Hann greiddi gjaldið fyrir syndir okkar. Megum við tileinka okkur fordæmi hans. Megum við sýna honum okkar innilega þakklæti, með því að taka á móti fórn hans og lifa þannig að við verðum hæf til að dvelja hjá honum að nýju.

Líkt og ég hef sagt á fyrri ráðstefnum, þá þakka ég ykkur fyrir bænir ykkar í mína þágu. Ég þarfnast þeirra; ég skynja þær. Við, sem aðalvaldhafar, minnumst líka ykkar allra og biðjum þess að bestu blessanir himnesks föður verði ykkar.

Bræður mínir og systur, við gerum nú hlé í sex mánuði. Megi Guð vera með ykkur uns við hittumst á ný að þeim tíma liðnum. Í nafni frelsara okkar og lausnara, já, Drottins Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

  1.  

    1.  Jóh 16:33.