Hjálpa þeim að setja markið hátt

Henry B. Eyring forseti

fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu


Henry B. Eyring
Með leiðsögn ykkar munu þeir sem þið leiðið fá séð, þráð og trúað að þeir geti beitt sér til hins ýtrasta í þjónustu í ríki Guðs.

Ég er afar þakklátur fyrir að vera á þessum fjölmenna prestdæmisfundi, að hafa hlýtt á slíka dásamlega kennslu og vitnisburði. Það fær mig til að hugsa um eigin reynslu. Næstum allt sem ég hef áorkað sem prestdæmishafi má rekja til þess að aðrir sem þekktu mig hafa séð í mér það sem ég sjálfur hef ekki getað séð.

Þegar ég var ungur faðir bað ég þess að fá að vita hvað börnin mín gætu lagt af mörkum fyrir ríki Drottins. Mér var ljóst að drengirnir gætu starfað í prestdæminu. Mér var ljóst að stúlkurnar gætu þjónað og verið fulltrúar Drottins. Allir gætu unnið að verki hans. Mér var ljóst að hver þeirra var sérstakur einstaklingur og því hafði Drottinn veitt þeim sérstakar gjafir til að nota í þjónustu við hann.

Ég get ekki sagt öllum feðrum og leiðtogum æskufólks nákvæmlega hvað best er fyrir þá að gera. En ég get heitið ykkur því, að þið munuð blessa það með því að hjálpa því að sjá og skilja þær andlegu gjafir sem þau fæðast með. Allir eru sérstakir og leggja sitt ákveðna framlag af mörkum. Engum er ætlað að mistakast. Þegar þið leitið eftir opinberun til að greina þær gjafir sem Guð sér í þeim sem þið leiðið í prestdæminu ‒ einkum hinum ungu ‒ munuð þið blessaðir og getið beint sjónum þeirra að þeirri þjónustu sem þeir fá veitt. Með leiðsögn ykkar munu þeir sem þið leiðið fá séð, þráð og trúað að þeir geti beitt sér til hins ýtrasta í þjónustu í ríki Guðs.

Ég bað um opinberun, hvað mín eigin börn varðar, til að fá að vita hvernig ég gæti hjálpað hverju þeirra að búa sig undir ákveðin verkefni í þjónustu Guðs. Og síðan reyndi ég að hjálpa þeim að sjá fyrir sér þá framtíð, vænta hennar og stefna að henni. Ég skar út í fjöl tilvitnun úr ritningunum fyrir hvern son minn, sem var lýsandi fyrir þeirra sérstöku gjafir, ásamt mynd sem táknaði þær. Undir hverja mynd og texta risti ég dagsetningar skírnar og prestdæmisvígslu hvers drengs, og hæðarmál þeirra við dagsetningu hvers áfanga.

Ég mun nú lýsa hinni ristuðu fjöl fyrir hverjum þeirra, til að hjálpa þeim að skilja hinar andlegu gjafir og hvað þeir gætu lagt af mörkum til verks Drottins. Þið getið hlotið innblástur, líkt og ég gerði, til að greina ákveðnar gjafir og tækifæri hvers æskumanns sem þið elskið og leiðið.

Þegar elsti sonur minn varð djákni og Arnarskáti, kom upp í huga minn mynd af erni, er mér var hugsað um hann og framtíð hans. Við áttum heima í Idaho, nærri rótum South Teton fjallsins, þar sem við gengum á fjallið saman og horfðum á svífandi ernina. Sú mynd í huga mínum rifjaði upp orð Jesaja:

„Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa.

Ungir menn þreytast og lýjast, og æskumenn hníga,

en þeir, sem vona á Drottin, fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“1

Við höfðum í raun stansað og kastað mæðinni fyrir neðan tind South Teton fjallsins, því sonur minn varð þreyttur. Hann vildi hætta. Hann sagði: „Mun ég alltaf sjá eftir að hafa ekki komist á tindinn? Pabbi, halt þú áfram ‒ ég vil ekki valda þér vonbrigðum.“

Ég svaraði: „Ég verð aldrei vonsvikinn og þú sérð aldrei eftir því. Við munum ætíð muna að við gengum hingað saman á þetta fjall.“ Efst á fjölina skar ég út örn og hinn innblásna texta: „Á arnarvængjum.“

Í áranna rás sveif sonur minn hærra í trúboði sínu en ég hafði ímyndað mér eða gat vonast eftir. Sumar áskoranirnar sem hann glímdi við á trúboðsakrinum virtust ofar getu hans. Líkt kann að vera á komið með þeim dreng sem þið hvetjið til dáða og syni mínum, sem Drottinn veitti meiri kraft til að prédika fagnaðarerindið á erfiðu tungumáli, en ég taldi mögulegt. Ef þið viljið reyna að skynja möguleika ungs manns í prestdæminu, hver sem hann er, þá heiti ég ykkur því að Drottinn mun segja ykkur það sem þið þurfið að vita. Drengurinn kann að búa yfir meiri möguleikum en Drottinn opinberar ykkur. Hjálpið honum að setja markið hátt.

Drengurinn sem þið hvetjið til dáða kann að virðast of huglítill til að verða kröftugur prestdæmisþjónn. Annar sonur minn var svo óframfærinn sem lítill drengur, að hann gat ekki talað við búðarafgreiðslumanninn. Ég var áhyggjufullur og baðst fyrir vegna prestdæmisframtíðar hans. Mér varð hugsað um hann á trúboðsakrinum ‒ það lofaði ekki góðu. Ég var leiddur að ritningargrein í Orðskviðunum: „Hinir óguðlegu flýja, þótt enginn elti þá, en hinir réttlátu eru öruggir eins og ungt ljón.“2

Ég risti út „Öryggir eins og ungt ljón“ á fjölina hans, undir mynd af stóru öskrandi ljónshöfði. Í trúboði sínu og árunum þar á eftir uppfyllti hann mínar útskornu vonir. Hinn eitt sinn óframfærni sonur minn prédikaði fagnaðarerindið af mikilli sannfæringu og tókst á við hættur af hugdirfsku. Hann efldist í ábyrgð sinni sem fulltrúi Drottins.

Það sama getur gerst með unga manninn sem þið leiðið. Þið þurfið að byggja upp trú hans á að Drottinn geti umbreytt honum í hugdjarfari þjón en huglitla drenginn sem þið nú sjáið.

Við vitum að Drottinn gerir þjóna sína hugdjarfa. Ungi pilturinn, Joseph, sem sá Guð föðurinn og son hans Jesú Krist, í trjálundi, umbreyttist í andlegan risa. Í fangelsinu sá og heyrði Parley P. Pratt þegar spámaðurinn Joseph Smith hastaði á fangaverðina vegna orðbragðs þeirra. Öldungur Pratt skráði:

„Skyndilega spratt hann á fætur og mælti þrumuröddu, eða líkt og öskrandi ljón, og sagði eftir mínu besta minni:

„‚ÞÖGN, þið föruneyti elds og vítis! Í nafni Jesú Krists, býð ég ykkur að hafa hljótt; ég líð ekki slíkt málfar eina einustu mínútu í viðbót. Hættið þegar slíku tali, ella munuð þið eða ég láta lífið ÞEGAR Í STAÐ!’“

Um þá reynslu ritaði öldungur Pratt: „Hátign og virðuleika hef ég aðeinseinu sinni orðið vitni að, er ég stóð hlekkjaður á miðnætti, í dýflissu í dimmu þorpi í Missouri.“3

Drottinn mun veita sínum réttlátu þjónum tækifæri til að vera hugdjarfir sem ljónið, er þeir mæla í nafni hans og sem vitni í prestdæmi hans.

Annar sonur minn var strax á unga aldri afar vinsæll og vinmargur. Hann átti auðvelt með samskipti við fólk. Þegar ég baðst fyrir og reyndi að sjá fyrir mér framlag hans í Guðs ríki, skynjaði ég að hann hlyti kraft til að sameina fólk í elsku og einingu.

Það leiddi mig að frásögninni í Kenningu og sáttmála um áreynslu öldunga prestdæmisins við að byggja upp Síon í Missouri, englum til fagnaðar, sem urðu vitni að starfi og framlagi þeirra. Það krafðist mikilla fórna. Opinberunin í Kenningu og sáttmálum segir: „Engu að síður eruð þér blessaðir, því að vitnisburður sá, sem þér hafið gefið, er skráður á himni fyrir englana að líta, og þeir gleðjast yfir yður og syndir yðar eru yður fyrirgefnar.“4

Á fjöl þessa sonar míns risti ég út: „Englar fagna yfir þér.“

Þessi dásamlegi hæfileiki sonar míns, til að sameina og hafa áhrif á fólk, sýndi sig fram yfir skólaárin. Með samprestdæmishöfum sínum skipulagði hann stikuverkefni, sem veittu æskufólki á þessu svæði trú til að standast og jafnvel sigrast á erfiðum aðstæðum. Með því að efla trú þessara pilta og stúlkna, styrkti hann úthverfi Síonar á þéttbýlissvæðum Ameríku. Ég skar út engla blásandi í lúðra, sem kannski er ekki nákvæmlega það sem þeir gera, en auðveldara var að skera út en að hrópa.

Englar fagna þegar prestdæmisleiðtogar um heiminn byggja upp Síon í deildum þeirra, stikum og trúboðum. Og þeir munu fagna yfir piltunum og stúlkunum sem þið hjálpið að byggja upp Síon, hvar sem þau eru og hverjar sem aðstæður þeirra kunna að vera. Síon er árangur fólks sem bundið er sáttmála og kærleika. Ég hvet ykkur til að hjálpa æskufólki ykkar til að leggja lið.

Fyrir enn annan son minn var mér blásið í brjóst að rista út sól ‒ sem er sól himins ‒ og orð úr fyrirbæn frelsarans: „Það er hið eilífa líf.“ Við lok jarðneskrar þjónustu sinnar bað frelsarinn til föður síns:

„En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.

Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna.“5

Þessi sonur minn hefur veitt prestdæmisþjónustu víða í þremur heimsálfum, en þá mikilvægustu á heimili sínu innan fjölskyldunnar. Hann hefur byggt líf sitt umhverfis hana. Hann starfar nærri heimili sínu og kemur oft í hádegisverð til eiginkonu sinnar og yngri barna. Fjölskylda hans býr nærri mér og systur Eyring. Þau annast garðinn okkar sem sinn eigin. Þessi sonur minn býr sig ekki aðeins undir eilíft líf, heldur að lifa að eilífu með þakklátri fjölskyldu sinni, sem hann hefur umhverfis sig.

Eilíft líf er að lifa í einingu í fjölskyldum, með föðurnum, syninum og heilögum anda. Eilíft líf er aðeins mögulegt fyrir lykla prestdæmis Guðs, sem endurreistir voru fyrir tilverknað spámannsins Josephs Smith. Að hvetja æskufólkið sem þið leiðið til slíks eilífs markmiðs, er stærsta gjöfin sem þið getið gefið því. Þið gerið það aðallega með fordæmi í fjölskyldu ykkar. Ekki er víst að þau sem þið leiðið eigi fjölskyldu í kirkjunni, en ég hvet ykkur til að hjálpa þeim að skynja og sækjast eftir fjölskyldukærleika beggja vegna hulunnar.

Fjalirnar sem ég ræddi um eru aðeins ein leið til að hjálpa ungu fólki að greina mikilfengleikann sem Guð sér í því og framtíð þess og hina einstæðu þjónustu sem hann býr það undir að veita. Hann mun hjálpa ykkur að skilja hvernig það skal gert fyrir börn ykkar og annað æskufólk sem þið leiðið. En er þið leitist eftir því í bænarhug að greina þessa framtíð sjálf, og koma því til skila til hinna ungu einstaklinga, eins af öðrum, mun ykkur skiljast að Guð elskar sérhvert barn sitt persónulega og sér miklar og einstæðar gjafir í þeim öllum.

Ég naut þeirrar blessunar sem faðir að greina glæsta framtíð í ríki Guðs fyrir dætur mínar, ekki síður en syni mína. Þegar ég leitaði leiðsagnar í bænarhug, var mér sýnd leið til að hjálpa dætrum mínum að skynja traust Guðs til þeirra sem þjóna við uppbyggingu ríkis hans.

Þegar dætur mínar voru ungar, sá ég að við gætum hjálpað öðrum að finna elsku þeirra sem eru handan hulunnar. Ég vissi að elska hlýst af þjónustu og innblásinni von um eilíft líf.

Við skárum því út brauðbretti og settum á það heimabakað brauð og fórum saman til að gefa það ekkjum, ekklum og fjölskyldum. Textinn sem ég risti út á hvert brauðbrettanna var: „J’aime et J’espere,“ sem er franska og þýðir „ég elska og vona.“ Hinar sérstöku andlegu gjafir þeirra voru ekki aðeins útskorin orðin á fjölunum, heldur sáust þær greinilega er við dreifðum þeim til nauðstaddra, sem þjáðust af sársauka eða missi, í þeirri fullvissu að elska frelsarans og friðþæging hans megnuðu að glæða fullkomið vonarljós. Þetta er eilíft líf, fyrir dætur mínar og fyrir sérhvert okkar.

Þið hugsið kannski: „Bróðir Eyring, ertu að segja að við þrufum að læra útskurð?“ Svarið er nei. Ég lærði útskurð aðeins með hjálp ljúfs og hæfileikaríks kennara, sem var þá öldungur Boyd K. Packer. Þá litlu kunnáttu sem ég bý yfir má rekja til hans einstæðu gjafar sem úrskurðarmanns og þolinmæðis hans sem kennara. Aðeins himinninn fær gefið slíkan kennara sem Packer forseti er. En þið getið á marga vegu mótað barnsins hjarta, án þess að skera út í fjalir fyrir það.

Ný samskiptatækni gerir til að mynda mögulegt að miðla boðskap trúar og vonar langar leiðir, þótt fjarlægðin skilji okkur að, samstundis og næstum kostnaðarlaust. Eiginkona mín hjálpar mér að gera það. Við byrjum á því að ræða í síma við þau barna okkar og barnabarna sem eru viðlátin. Við biðjum þau að segja frá persónulegri velgengni og veittri þjónustu. Við biðjum þau líka að senda myndir af þeim athöfnum. Við notum myndirnar og skrifum stuttan skýringartexta við þær. Við bætum við einu versi eða tveimur úr Mormónsbók. Nefí og Mormón hefðu kannski ekki verið mjög hrifnir af hinu efnislega andríki eða því takmarkaða framlagi okkar við að búa til það sem við nefnum „Dagbók fjölskyldunnar: Smærri töflurnar.“ En þetta veitir okkur hjónunum blessun. Við finnum andann þegar við veljum ritningargreinar og skráum stuttan boðskap og vitnisburð. Og við sjáum merki þess í lífi þeirra, að hjörtu þeirra hafa beinst til okkar og frelsarans og til himins.

Þið getið náð til þeirra á annan hátt og það gerið þið þegar á marga vegu. Venjubundnar fjölskyldubænir og ritningarlestur munu skapa varanlegri minningar og meiri umbreytingu hjartans en þið fáið nú skilið. Jafnvel það sem virðist stundlegir atburðir, svo sem að fara á íþróttaleik eða í kvikmyndahús, getur mótað barnshjartað. Atburðurinn er ekki það sem mestu skiptir, heldur tilfinningarnar sem hann vekur. Ég hef uppgötvað gott próf til að skilgreina atvik sem mögulega gætu gert gæfumun í lífi ungs fólks. Það er að láta þau benda á það sem þau hafa áhuga fyrir og þeim finnst þau hafa hlotið sem gjöf frá Guði. Ég veit að það er mögulegt af eigin reynslu.

Þegar ég varð djákni 12 ára gamall, bjó ég í New Jersey, 80 km frá New York City. Mig dreymdi um að verða snjall hafnarboltaleikari. Faðir minn samþykkti að fara með mér til að horfa á leik á gamla og sögufræga Yankee leikvellinum í Bronx hverfinu. Ég sé enn fyrir mér þegar Joe DiMaggio sveiflaði kylfunni og sló boltann út af vellinum og ég sat við hlið föður míns, en þetta var eina skiptið sem við fórum saman á meistaradeildarleik í hafnarbolta.

En annar dagur með föður mínum mótað mig varanlega. Hann fór með mig frá New Jersey á heimili vígðs patríarka í Salt Lake City. Ég hafði aldrei séð manninn áður. Faðir minn skildi við mig í dyragættinni. Patríarkinn vísaði mér á stól, lagði hendur á höfuð mitt og mælti fram blessun sem var gjöf frá Guði og fól í sér yfirlýsingu um það sem ég þráði mest í hjarta mínu.

Hann sagði mig vera einn af þeim sem um hefur verið sagt: „Sælir eru friðflytjendur.“6 Ég varð svo undrandi yfir að ókunnugur gæti þekkt hjarta mitt, að ég lauk upp augunum til að sjá herbergið þar sem slíkt kraftaverk gerðist. Þessi blessun um möguleika mína hefur mótað líf mitt, hjónaband og prestdæmisþjónustu.

Af þessari reynslu og því sem á eftir fylgdi, get ég vitnað: „Því að allir hljóta ekki sérhverja gjöf, því að gjafirnar eru margar og andi Guðs gefur hverjum manni gjöf.“7

Ég hef getað greint gjöf, því Drottinn hefur opinberað mér hana, og búið mig undir tækifæri til að nota hana til að blessa þá sem ég elska og þjóna.

Guð þekkir gjafir okkar. Áskorun mín til ykkar og sjálfs mín, er að biðjast fyrir til að fá þekkt gjafir okkar, til að vita hvernig á að þróa þær og greina tækifærin sem Guð gefur til að þjóna öðrum. Framar öllu bið ég þess að þið hljótið innblástur til hjálpar öðrum að uppgötva sínar sérstöku gjafir frá Guði til þjónustu.

Ég heiti ykkur því, að ef þið biðjið, munuð þið blessaðir til að lyfta öðrum og hjálpa þeim að ná fullum þroska í þjónustu sinni við þá sem þeir leiða og elska. Ég ber ykkur vitni um að Guð lifir, að Jesús er Kristur, að þetta er prestdæmi Guðs, sem við höfum, og að Guð hefur fyrirbúið okkur sérstakar gjafir til að þjóna honum, handan okkar björtustu vona. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1.  Jes 40:29–31.

 2.  

  2.  Okv 28:1.

 3.  

  3.  Autobiography of Parley P. Pratt, ritst. af Parley P. Pratt yngri (1938), 211.

 4.  

  4.  Kenning og sáttmálar 62:3.

 5.  

  5.  Jóh 17:3–4.

 6.  

  6.  Matt 5:9.

 7.  

  7.  Kenning og sáttmálar 46:11.