Ég veit það. Ég lifi samkvæmt því. Ég elska það.

Ann M. Dibb

annar ráðgjafi í aðalforsætisráði Stúlknafélagsins


Ann M. Dibb
Við erum fylgjendur frelsara okkar, Jesú Krists. Slík trúskipti og sjálfstraust eru afrakstur kostgæfni og yfirvegaðrar viðleitni. Þetta er einstaklingsbundið. Þetta er ævilangt ferli.

Ég fyllist andagift af hinu réttláta fordæmi meðlima kirkjunnar, þar á meðal hinna göfugu unglinga. Þið leitið hugrökk til frelsarans. Þið eruð trúföst, hlýðin og hrein. Þær blessanir sem þið hljótið vegna góðmennsku ykkar hefur ekki einungis áhrif á ykkar eigið líf heldur einnig líf mitt og líf ótal annarra, á djúpstæðan og oft dulinn hátt.

Fyrir nokkrum árum beið ég í röð í matvöruverslun þar sem ég bý. Fyrir framan mig stóð stúlka, um 15 ára gömul. Hún virtist sjálfsörugg og hamingjusöm. Ég tók eftir stuttermabol hennar og gat ekki staðist mátið að ræða við hana. Ég byrjaði með: „Þú ert frá öðru fylki, er það ekki?“

Hún varð hissa á þessari spurningu og svaraði: „Jú, það er rétt. Ég er frá Colorado. Hvernig vissir þú það?

Ég svaraði: „Ég sá það á stuttermabolnum.“ Ég hafði komist að þessari réttu tilgátu eftir að hafa lesið á bolnum hennar „Ég er mormóni. En þú?“

Ég hélt áfram: „Ég verð að segja þér að ég er dolfallin yfir sjálfsöryggi, að vera áberandi og nota svo djarfa yfirlýsingu. Ég sé að þú ert sérstök og ég óska þess að allar stúlkur og allir meðlimir kirkjunnar gætu verið jafn sannfærð og sjálfsörugg.“ Við lukum viðskiptum okkar, kvöddumst og fórum í sitthvora áttina.

Þetta hversdagslega og tilviljunarkennda atvik var stutt, en þó íhugaði ég það alvarlega í marga daga og vikur á eftir. Ég íhugaði hvernig þessari stúlku frá Colorado hafði tekist að öðlast slíkt sjálfstraust á auðkenni sínu sem meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég gat ekki annað en hugsað um hvaða þýðingarmiklu setningu ég myndi hafa valið til að prenta á stuttermabolinn minn, sem gæti endurspeglað trú mína og vitnisburð. Í huga mínum hugleiddi ég margar mögulegar setningar. Að lokum datt ég niður á yfirlýsingu sem ég myndi stolt klæðast: „Ég er mormóni. Ég veit það. Ég lifi samkvæmt því. Ég elska það.“

Í dag langar mig að beina orðum mínum að þessari djörfu og vongóðu yfirlýsingu.

Fyrsti hlutinn er sjálfsörugg yfirlýsing án afsakana: „Ég er mormóni.“ Ég vona að við munum aldrei verða hrædd eða treg til að viðurkenna að við séum meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, rétt eins og stúlkan sem ég hitti í matvöruversluninni var ekki hrædd við að láta umheiminn vita: „Ég er mormóni.“ Við ættum að vera örugg, rétt eins og Páll postuli þegar hann lýsti yfir: „Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis, hverjum þeim sem trúir.“1 Sem meðlimir fylgjum við frelsara okkar, Jesú Kristi. Slík trúskipti og sjálfstraust eru afrakstur kostgæfni og yfirvegaðrar viðleitni. Þetta er einstaklingsbundið. Þetta er ævilangt ferli.

Næsti hluti yfirlýsingarinnar staðfestir „Ég veit það.“ Í nútíma heimi eru fjölmargir viðburðir, viðfangsefni og áhugamál sem keppa um athygli okkar sérhverja mínútu. Höfum við styrkinn, agann og skuldbindinguna til að einbeita okkur að því sem skiptir mestu máli þegar svo margt annað truflar? Þekkjum við sannleika fagnaðarerindisins eins vel og námsfag, starfsferil, áhugamál eða sms- og tvitterskilaboð okkar? Sækjumst við í raun eftir því að finna svör við spurningum okkar með því að endurnærast af ritningunum og kenningum lifandi spámanna? Leitum við eftir staðfestingu andans?

Mikilvægi þess að öðlast þekkingu er eilíf regla. Spámaðurinn Joseph Smith „hafði unun af réttlátum áhrifum þekkingar.“2 Hann sagði: „Þekking er nauðsynleg fyrir lífið og guðleikann. ... Hlýðið, allir bræður, á þetta mikilvæga atriði: Þekking er kraftur Guðs til sáluhjálpar.”3

Allur sannleikur og þekking er mikilvæg, en mitt í öllu því sem truflar í þessu lífi verðum við að gefa því sérstakan gaum að auka þekkingu okkar á fagnaðarerindinu, svo við getum skilið hvernig hagnýta beri reglur fagnaðarerindisins í lífi okkar.4 Þegar þekking okkar á fagnaðarerindinu eykst, munum við örugg í vitnisburði okkar og getum sagt: „Ég veit það.“

Næst er staðhæfingin: „Ég lifi samkvæmt því.“ Ritningarnar kenna að við verðum að vera „gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess.“5 Við lifum samkvæmt fagnaðarerindinu og verðum „gjörendur orðsins“ með því að iðka trú, vera hlýðin, þjóna öðrum af kærleika og fylgja fordæmi frelsarans. Við komum fram af heilindum og gerum það sem við vitum að er rétt „alltaf, í öllu og allsstaðar,“6 sama hvort einhver sé að horfa eður ei.

Enginn er fullkominn í því holdlega ástandi sem við erum í. Sérhvert okkar mun gera mistök og öll munum við syndga, jafnvel í okkar allra bestu viðleitni til að lifa eftir fagnaðarerindinu. Hversu hughreystandi það er að vita, að með endurleysandi fórn frelsarans, getum við hlotið fyrirgefningu og orðið hrein á ný. Þetta ferli iðrunar og fyrirgefningar styrkir vitnisburð okkar og loforð um að hlýða boðorðum Drottins og lifa samkvæmt reglum fagnaðarerindisins.

Þegar ég hugsa um hlutann “Ég lifi samkvæmt því,” minnist ég stúlku, sem ég hitti einu sinni og heitir Karigan.“ Hún skrifaði: „Ég hef verið meðlimur kirkjunnar í rúmlega ár. … Eitt af táknunum um að þetta væri hin sanna kirkja, þegar ég var að kynna mér kirkjuna, var að mér fannst ég loks hafa fundið kirkju sem kennir siðsemi og staðla. Ég hef séð með eigin augum hvað gerist þegar fólk virðir að vettugi boðorðin og velur röngu leiðina. Ég gerði upp huga minn fyrir löngu um að lifa eftir háum siðferðisstöðlum. … Mér finnst ég vera svo blessuð að hafa fundið sannleikann og hafa tekið skírn. Ég er afar hamingjusöm.”7

Lokahluti staðhæfingar minnar er „Ég elska það.“ Margir meðlimir kirkjunnar hrópa ákafir „Ég elska fagnaðarerindið!“ þegar þeir hafa öðlast vitnisburð um fagnaðarerindi Jesú Krists og hafa af kostgæfni lifað daglega eftir reglum þess.

Þessi tilfinning vaknar þegar við finnum heilagan anda bera okkur vitni um að við erum börn okkar himneska föður, að hann veit af okkur og við erum á réttri leið. Kærleikur okkar til fagnaðarerindisins vex er við upplifum elsku föður okkar á himnum og friðinn sem frelsarinn lofaði, er við sýnum honum að við séum fús til að hlýða honum og fylgja.

Á ýmsum tímum í lífi okkar, hvort sem við erum nýgengin í kirkjuna eða höfum verið meðlimir allt okkar líf, getum við fundið slíkan brennandi áhuga fara dvínandi. Stundum gerist þetta þegar við göngum í gegnum erfiðleika og þá verðum við að sýna þolinmæði. Stundum gerist þetta þegar við höfum náð hápunkti í velmegun okkar og gnægð. Ég veit að þegar þessi tilfinning kemur yfir mig, þá þarf ég að einbeita mér aftur að því að auka þekkingu mína á fagnaðarerindinu og haga lífi mínu betur eftir reglum þess.

Ein af áhrifaríkustu en stundum erfiðustu reglum fagnaðarerindisins að fylgja er auðmýkt og undirgefni við vilja Guðs. Í bæn Krists í Getsemanegarðinum tjáði hann föðurnum: „En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“8 Þetta ætti einnig að vera okkar bæn. Oft á tíðum er það á þessum hljóðu, bænheitu augnablikum sem við finnum ást himnesks föður umlykja okkur og gleði og kærleikstilfinningar vakna á ný.

Það voru forréttindi mín að hitta og ræða við systur Cammy Wilberger á leiðtogafundi Stúlknafélagsins í Eugene, Oregon. Sagan sem systir Wilberger sagði mér var vitnisburður um kraft og blessun einnar stúlku sem þekkti fagnaðarerindið, lifði eftir því og elskaði það.

Brooke, 19 ára dóttir systur Wilberger, lést í hörmulegu slysi fyrir nokkrum árum er hún var í sumarleyfi að loknu fyrsta námsári í háskóla. Systir Wilberger sagði: „Þetta var erfiður og myrkur tími fyrir fjölskyldu okkar. Brooke hafði hins vegar gefið okkar dásamlega gjöf. Við höfðum ekki tekið eftir þessu er hún óx úr grasi, en á sérhverju ári og andartaki hennar stutta lífs hafði Brooke gefið okkur bestu gjöf sem dóttir getur gefið foreldrum sínum. Brooke var réttlát dóttir Guðs. … Ég hef haft styrk, huggun og hinn lofaða frið frelsarans vegna þessarar gjafar og vegna hins máttuga krafts friðþægingarinnar. Ég efast ekki um hvar Brooke er í dag og ég hlakka til að hitta hana þegar við sameinumst á ný.“9

Ég á vitnisburð um hina dásamlegu hamingjuáætlun himnesks föður. Ég veit að hann þekkir okkur og elskar okkur. Ég veit að hann sendi okkur spámann, Thomas S. Monson forseta, til að hvetja okkur og leiða aftur til hans. Ég bið þess að sérhvert okkar muni leggja sig nægilega fram til að geta sagt með fullvissu: „Ég er mormóni. Ég veit það. Ég lifi samkvæmt því. Ég elska það.“ Ég segi þetta auðmjúklega, í nafni Jesú Krists, amen.

Athugið: Til frekari náms mæli ég með lestri Alma 32 og ræðu öldungs Dallin H. Oaks, „The Challenge to Become” (Líahóna, jan. 2001, 40–43; Ensign, nóv. 2000, 32–34).

Sýna tilvísanir

 1.  

  1.  Róm 1:16.

 2.  

  2. George Q. Cannon, í Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 261.

 3.  

  3.  Kenningar: Joseph Smith, 265; sjá einnig Martha Jane Knowlton Coray, glósubók, Sögusafn kirkjunnar, Salt Lake City.

 4.  

  4. Sjá gildisreynslu þekkingar númer 1,Eigin framþróun stúlkna (bæklingur, 2009), 38.

 5.  

  5.  Jakbr 1:22.

 6.  

  6.  Mósía 18:9.

 7.  

  7. Einkabréf.

 8.  

  8.  Lúk 22:42.

 9.  

  9. Einkabréf.