Að læra með hjartanu

Öldungur Walter F. González

af hinum Sjötíu


Walter F. Gonzalez
Ein leið til að koma til Krists er að leggja sig fram við að læra grundvallarsannleika með hjartanu.

,,[Komið] til mín, svo þér [megið] finna og sjá.”1 Þetta var boð sem frelsarinn gaf íbúum Ameríku til forna. Þeir fundu með höndum sínum og sáu með augum sínum, að Jesús var Kristur. Þetta boð er jafn mikilvægt fyrir okkur í dag og það var fyrir þá á þeirra tíma. Er við komum til Krists, þá getum við líka skynjað og ,,vitað með fullvissu”2 ‒ ekki með höndum okkar og augum – en með hjarta okkar og huga, að Jesús er Kristur.

Ein leið til að koma til Krists er að leggja sig fram við að læra grundvallarsannleika með hjartanu. Þegar við gerum það fáum við hugboð frá Guði sem veita okkur þekkingu er við getum ekki öðlast á neinn annan máta. Pétur postuli vissi fyrir víst að Jesús var Kristur, sonur hins lifandi Guðs. Frelsarinn útskýrði að Pétur hefði ekki fengið þá þekkingu fyrir ,,hold og blóð … heldur [frá föðurnum] á himnum”3

Spámaðurinn Abinadí útskýrði hlutverk þeirra tilfinninga sem berast frá Guði í hjörtu okkar. Hann kenndi að við fáum ekki fyllilega skilið ritningarnar nema við leggjum okkur fram um að skilja með hjörtum okkar.4

Þessi sannleikur var vel fram settur í barnabókinni, Litli prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupéry. Í henni eignast prinsinn ref fyrir vin. Þegar hann var að fara deildi refurinn leyndarmáli með litla prinsinum. Hann sagði: „Þetta er leyndarmál mitt … : Það er einungis með hjartanu sem maður getur séð rétt; það sem skiptir mestu máli er ósýnilegt auganu.“5

Hinn áttatíu og átta ára bróðir Thomas Coelho er gott dæmi um mann sem sá mikilvægi hlutanna með hjartanu, Hann var trúr meðlimur háprestaráðsins í Paysandú, Uruguay. Áður en hann gekk í kirkjuna lenti hann í mótorhjólaslysi. Tveir trúboðar okkar gengu framhjá þar sem hann lá á jörðunni, ófær um að standa upp, þeir hjálpuðu honum á fætur og heim til sín. Hann sagði að hann hefði skynjað sérstaka tilfinningu þegar trúboðarnir aðstoðuðu hann. Seinna, þegar trúboðarnir kenndu honum, fann hann aftur sterkar tilfinningar. Áhrif þessara tilfinninga urðu til þess að hann las Mormónsbók frá byrjun til enda á einungis nokkrum dögum. Hann var skírður og frá þeim degi þjónaði hann linnulaust. Ég man eftir honum á mótórhjólinu sínu aka fram og aftur um götur borgarinnar, jafnvel á köldum og blautum vetrardögum, til þess flytja fólk til kirkju, svo að það gæti séð, skynjað og vitað fyrir víst eins og hann.

Í dag erum við umkringd svo miklu upplýsingastreymi að maður gæti haldið að flakk á milli milljóna netsíðna veitti okkur alla þá þekkingu sem við þyrftum. Við getum fundið góðar og slæmar upplýsingar á netinu, en upplýsingar, einar sér, eru ekki nóg. Guð hefur gefið okkur aðra uppsprettu stórfenglegrar þekkingar,6 jafnvel þekkingu af himnum ofan. Himneskur faðir getur gefið okkur slíka þekkingu, þegar við flökkum um hinn himneska vef í hugum okkar og hjörtum. Spámaðurinn Joseph Smith sagðist eiga ,, elstu bók í heimi, ... í hjarta [sínu], já, gjöf heilags anda.”7

Við tengjumst þessari himnesku uppsprettu þegar við gerum hluti eins og að lesa ritningarnar, hlustum á hinn lifandi spámann og biðjum. Þar að auki er mikilvægt að gefa sér ró og næði 8 til að skynja himneskar ábendingar og fylgja þeim. Þegar við gerum þetta, munum við ,,finna og sjá” það sem ekki er hægt að læra með nútíma tækni. Þegar við höfum öðlast reynslu við að flakka um hinn himneska vef, þá getum við greint sannleikann, jafnvel þó að við séum að lesa veraldlega sögu eða önnur efni. Sá sem leitar sannleikans af einlægni mun þekkja sannleiksgildi allra hluta fyrir kraft heilags anda.9

Nú vil ég vara ykkur við: Aðgengi að þessum himneska vef er hindrað af ranglæti og því að gleyma Drottni. Nefí sagði bræðrum sínum að þeir gætu ekki ,,skynjað orð hans” vegna þess að þeir væru ,,fljótir til misgjörða , en seinir til að minnast Drottins.“10 Misgjörðir hindra getu okkar til að sjá, skynja og elska aðra. Hæfni okkar til að sjá og skynja það sem tengist Kristi eykst, þegar við erum fljót til að minnast Drottins í bæn af „öllum hjartans mætti “11 og köllum fram í huga okkar andlegar upplifanir. Nú spyr ég ykkur:

 1. Munið þið þann frið sem þið funduð þegar þið, eftir miklar raunir, ákölluðuð föðurinn í máttugri bæn og báðuð hann um hjálp?
 2. Hafið þið einhvern tíma breytt áætlun ykkar og fylgt tilfinningum hjartans?

Hinir miklu menn í Mormónsbók auðvelduðu aðgang sinn að aukinni þekkingu með því kalla fram í hugann andlegar lykilminningar. Alma styrkti börn sín með því að minna þau á trúskipti hans sjálfs.12 Helaman kenndi Nefí og Lehí að muna — minnast þess að það væri á bjargi Krists sem þeir yrðu að byggja undirstöðu sína svo að djöfullinn hefði ekkert vald yfir þeim.13 Við verðum að gera það sama. Að minnast Guðs hjálpar okkur að skynja og lifa. Þetta gefur orðum Benjamíns konungs, dýpri merkingu er hann sagði ,,Ó maður, haf það hugfast, og þú munt eigi farast.“14

Ein af dýrmætustu minningum mínum er sú sem ég öðlaðist, þegar ég fékk staðfestingu á því að Mormónsbók væri sönn. Ég lærði að við getum upplifað gleði sem ekki er hægt að tjá með orðum. Þann dag, á hnjánum, skynjaði ég og vissi fyrir víst það sem ég gæti ekki hafa lært á neinn annan máta. Slík minning er ástæða fyrir eilífu þakklæti og styrkir mig á erfiðum stundum.

Þeir sem meðtaka þekkingu, ekki frá holdi og blóði, heldur frá himneskum föður, vita með vissu að Jesús er Kristur og þetta er hans kirkja. Þessi vitneskja veitir styrk til að gera nauðsynlegar breytingar til að koma til Krists. Þess vegna bjóðum við hverri sál að skírast núna, iðrast og snúa til hans.15

Með því að koma til Krists getur hver sál frelsast og vitað fyrir víst að Kristur þjáðist og friðþægði fyrir syndir okkar, til þess að við gætum öðlast eilift líf. Ef við iðrumst, munum við ekki þurfa að þjást að óþörfu.16 Særðar sálir geta gróið og brostin hjörtu hlotið bata, þökk sé honum. Það er engin byrði sem hann getur ekki létt eða fjarlægt. Hann þekkir breyskleika okkar og veikleika. Ég lofa því og vitna um það, að þegar allar dyr virðast lokaðar, þegar allt annað virðist bregðast, þá mun hann ekki bregðast ykkur. Kristur mun hjálpa og hann er leiðin út úr erfiðleikum, hvort sem þeir tengjast fíkn, þunglyndi eða einhverju öðru. Hann veit „hvernig fólki hans verður best liðsinnt.”17 Hjónabönd og fjölskyldur sem ganga í gegnum einhvers konar erfiðleika, fjárhagslega, neikvæð áhrif frá fjölmiðlum eða fjölskyldutengda erfiðleika ‒ munu skynja róandi áhrif frá himnum. Það er hughreystandi að ,,finna og sjá” að hann reis frá dauðum „með lækningarmátt undir vængjum sínum,“18 að vegna hans munum við hitta og faðma aftur ástvini okkar sem hafa horfið héðan. Svo sannarlega eru trúskipti okkar til hans verðlaunuð með lækningu.19

Ég veit með vissu að þetta er allt sannleikur. Af þeirri ástæðu læt ég rödd mína hljóma með frumbyggjum Ameríku og lýsi því yfir: ,,Hósanna! Blessað sé nafn Guðs hins æðsta!”20 Hann veitir okkur sáluhjálp. Ég ber vitni um að Jesús er Kristur, hinn heilagi Messías. Hann er Drottinn herskara, frelsari okkar og lausnari. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1.  3 Ne 18:25.

 2.  

  2.  3 Ne 11:15.

 3.  

  3. Sjá Matt 16:16–17.

 4.  

  4. Sjá Mósía 12:27.

 5.  

  5. Antoine de Saint-Exupéry, The Little Prince, í þýðingu Katherine Woods (1971), 87.

 6.  

  6. Sjá Eter 4:13.

 7.  

  7.  Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 130.

 8.  

  8. Sjá Kenning og sáttmálar 101:16.

 9.  

  9. Sjá Moró 10:3–5.

 10.  

  10.  1 Ne 17:45.

 11.  

  11.  Moró 7:48.

 12.  

  12. Sjá Alma 36:5–24; 38:6–9.

 13.  

  13. Sjá Helaman 5:12.

 14.  

  14.  Mósía 4:30.

 15.  

  15. Sjá 3 Ne 9:13.

 16.  

  16. Sjá Kenning og sáttmálar 19:16.

 17.  

  17.  Alma 7:12.

 18.  

  18.  2 Ne 25:13; sjá einnig 3 Ne 25:2.

 19.  

  19. Sjá 2 Ne 16:10; 3 Ne 9:13.

 20.  

  20. Sjá 3 Ne 11:15–17.