Sleppa aðallóðsun
Október 2012 | Um eftirsjá og ákvarðanir

Um eftirsjá og ákvarðanir

Október 2012 Aðalráðstefna

Því meiri tíma sem við verjum í leit að heilagleika og hamingju, því ólíklegra er að við höfum ástæðu til eftirsjár.

Um eftirsjá

Við elskum þig, Monson forseti. Þakka þér fyrir hina innblásnu og sögulegu tilkynningu um byggingu nýrra mustera og trúboðsþjónustu. Ég er viss um að vegna þessa munu okkur og mörgum komandi kynslóðum hlotnast miklar blessanir .

Kæru bræður og systur, kæru vinir mínir! Við erum öll dauðleg. Ég vona að það komi ekki neinum á óvart.

Ekkert okkar verður mjög lengi hér á jörðu. Við eigum þó nokkur dýrmæt ár, sem virðast bara eitt augnablik út frá eilífu sjónarmiði.

Síðan deyjum við. Andar okkar „ [eru] fluttir heim til þess Guðs, sem gaf þeim líf.“1 Við leggjum frá okkur líkama okkar og skiljum eftir þessa heims hluti er við færumst yfir á næsta tilverustig.

Þegar við erum ung finnst okkur að við munum lifa að eilífu. Við höldum að það séu ótakmarkaðar sólarupprásir sem bíða okkar handan sjóndeildarhringsins og framtíðin liggi frammi fyrir okkur eins og óslitinn og óendalanlegur vegur.

En með aldrinum hneigjumst við til að líta til baka og furða okkur á hve vegurinn er í raun stuttur. Við veltum því fyrir okkur hvernig árin hafa getað liðið svona hratt. Við förum að hugleiða teknar ákvarðanir og það sem við höfum gert. Í þessu ferli minnumst við margra yndislegra stunda sem verma hjartað og gleðja hugann. Við minnumst líka eftirsjár okkar ‒ að við gætum farið til baka og breytt ýmsu.

Hjúkrunarfræðingur á líknardeild segist oft hafa spurt sjúklinga sína, sem bjuggu sig undir að yfirgefa þetta líf, einfaldrar spurningar.

„Er einhver eftirsjá?“ Spyr hún þá.2

Svo nærri endalokunum fær fólk oft skýrari hugsun, aukinn skilning og breytt viðhorf. Þegar þessir einstaklingar voru síðan spurðir um eftirsjá þeirra, luku þeir upp hjörtum sínum. Þeir veltu því fyrir sér hverju þeir myndu breyta, ef þeir fengju snúið tímanum til baka.

Er ég hugleiddi svör þeirra, sló það mig hve mikil áhrif grundvallaratriði fagnaðarerindis Jesú Krists geta haft á lífsstefnuna, ef við tileinkum okkur þau.

Það er ekkert dularfullt við grundvallaratriði fagnaðarerindisins. Við höfum lært um þau í ritningunum, við höfum rætt þau í sunnudagaskólanum og margsinnis heyrt um þau úr ræðustólnum. Þessi guðlegu undirstöðuatriði og gildi eru skýr og afdráttarlaus; þau eru falleg, djúp og máttug og þau geta afdráttarlaust komið í veg fyrir eftirsjá í framtíðinni.

Ég vildi að ég hefði nýtt tímann betur með ástvinum mínum.

Ein algengasta eftirsjá dauðvona sjúklings var ef til vill sú, að þeir hefðu viljað eyða meiri tíma með ástvinum sínum.

Karlmenn áttu það sérstaklega til að harma þetta: Þeir „sáu einlæglega eftir því að hafa eytt svo stórum hluta lífs síns í vinnunni“3 .Margir höfðu misst af góðum minningum, sem verða til þegar tíma er varið með fjölskyldu og vinum. Þeir lögðu ekki rækt við innilegt samband við þá sem skiptu þá mestu.

Er það ekki satt að við verðum oft svo önnum kafin? Það sorglega er, að við erum oft stolt af því að vera svona upptekin, eins og það hafi verið eitthvert afrek eða merki um yfirburðarlíf.

Er það svo?

Ég hugsa um Drottin okkar og fordæmi, Jesú Krist, og stutta ævi hans meðal fólksins í Galíleu og Jerúsalem. Ég hef reynt að sjá hann fyrir mér flýta sér á milli funda og sinna mörgum verkefnum í einu, til þess að koma aðkallandi hlutum í verk.

Það gengur bara ekki upp.

Þess í stað sé ég kærleiksríkan, umhyggjusaman son Guðs lifa hvern dag tilgangsríkan. Þegar hann umgekkst fólkið umhverfis, fannst því það skipta máli og vera elskað. Hann þekkti raunverulegt virði fólksins sem hann átti samskipti við. Hann blessaði það og þjónaði því. Hann lyfti þeim upp og læknaði þau. Hann gaf þeim af dýrmætum tíma sínum.

Í dag er svo auðvelt að þykjast verja tíma með öðrum. Við getum „tengst“ þúsundum „vina“ með því að smella músinni, án þess að þurfa nokkurn tíma að horfast í augu við neinn þeirra. Tæknin getur verið frábær og mjög hjálpleg þegar við erum fjarri ástvinum okkar. Við hjónin búum fjarri kærum fjölskyldumeðlimum, við vitum hvernig það er. Hins vegar tel ég okkur ekki á réttri leið, sem einstaklinga og sem samfélag, þegar samskipti okkar við fjölskyldu og vini eru aðallega farin að snúast um að senda hvert öðru fyndnar myndir, áframsenda ómerkilega hluti eða að tengja ástvini okkar netsíðum. Ég geri ráð fyrir að það sé tími og stund fyrir slíkt, en hve miklum tíma viljum við eyða í slíkt? Ef við látum bregðast að gefa þeim sem skipta okkur mestu okkar besta og helga þeim óskiptan tíma, kemur að því að við sjáum eftir því.

Ákveðum að bera umhyggju fyrir þeim sem við elskum, með því verja mikilvægum tíma með þeim, gera ýmislegt saman og skapa dýrmætar minningar.

Ég vildi að ég hefði nýtt alla mína möguleika

Annað sem fólk sér eftir, er að ná því ekki að verða sú persóna sem þeim fannst þeir geta orðið eða ættu að hafa orðið. Þegar fólk lítur til baka yfir líf sitt, gerir það sér grein fyrir því að það nýtti ekki alla sína möguleika, að of margt var ógert.

Hér er ég ekki að tala um að klífa metorðastiga hinna ýmsu starfsgreina. Sá stigi nær vart einu þrepi í þeirri miklu eilífu göngu sem framundan er, sama hve aðlaðandi hann kann að líta út hér á jörðu.

Þess í stað er ég að tala um að verða sú manneskja sem Guð, okkar himneski faðir, ætlaði okkur að verða.

Líkt og ljóðskáldið sagði, þá komum við í þennan heim úr fortilverunni „eftir slóð dýrðar“4

Himneskur faðir sér okkar raunverulegu möguleika. Hann veit ýmislegt um okkur sem við vitum ekki sjálf. Á leið okkar í gegnum lífið hvetur hann okkur til að fylla mæli sköpunar okkar, lifa góðu lífi og snúa aftur í návist hans.

Hvers vegna eyðum við þá svo miklum tíma og orku í hið hverfula, léttvæga og yfirborðskennda? Neitum við að sjá hve heimskulegt það er að sækjast eftir því smávægilega og skammvinna?

Væri ekki skynsamlegra að „[safna] heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela“?5

Hvernig gerum við það? Með því að fylgja fordæmi frelsarans, hagnýta okkur kenningar hans og elska Guð og náunga okkar einlæglega.

Það gerum við vissulega ekki með því að draga lappirnar, horfa sleitulaust á klukkuna og kvarta í sífellu í lífi okkar sem lærisveinar.

Þegar við lifum eftir fagnaðarerindinu, ættum við ekki að vera eins og drengurinn sem dýfði tánni í vatnið og staðhæfði síðan að hann hefði farið að synda. Við, sem synir og dætur himnesks föður, megnum að gera svo miklu meira en það. Í þessu dugar góður ásetningur skammt. Við verðum að framkvæma. Og það sem meira er, við verðum að verða þar sem himneskur faðir vill að við verðum.

Það er gott að lýsa yfir vitnisburði okkar, en betra er að vera lifandi dæmi hins endurreista fagnaðarerindis. Gott er að þrá að vera trúr sáttmálum sínum, en betra er að vera í raun trúr helgum sáttmálum sínum ‒ þar á meðal að lifa dyggðugu lífi, halda vísdómsorðið, greiða tíund og fórnargjafir og þjóna nauðstöddum. Að segjast vilja helga meiri tíma til fjölskyldubæna, ritningarlesturs og heilnæmara fjölskyldulífs, er af hinu góða, en að gera þetta allt reglubundið mun færa okkur himneskar blessanir.

Að vera lærisveinn er að sækjast eftir heilagleika og hamingju. Það er leiðin að okkar besta og hamingjuríkasta sjálfi.

Ákveðum að fylgja frelsaranum og vinna hörðum höndum að því að verða sú manneskja sem okkur var ætlað að verða. Hlustum á og hlítum hvatningu heilags anda. Ef við gerum það, mun himneskur faðir opinbera okkur ýmislegt sem við ekki vissum um sjálf okkur. Hann mun lýsa upp veg okkar og ljúka upp augum okkar, svo við fáum greint áður óþekkta og hugsanlega óvænta hæfileika.

Því meiri tíma sem við verjum í leit að heilagleika og hamingju, því ólíklegra er að við höfum ástæðu til eftirsjár. Því meir sem við treystum á náð frelsarans, því líklegra er að við skynjum að við séum á þeim vegi sem faðir okkar á himnum ætlar okkur að vera á.

Ég vildi að ég hefði leyft mér að vera hamingjusamari

Eitt af því sem hinir dauðvona sjúklingar sáu eftir kom nokkuð á óvart. Þeir óskuðu þess að hafa leyft sér að vera hamingjusamari.

Við verðum oft svo upptekin af þeirri skynvillu að það sé eitthvað rétt utan okkar seilingar sem muni færa okkur hamingju: Betri aðstaða fyrir fjölskylduna, betri fjárhagsstaða eða lok erfiðleikatímabils.

Því eldri sem við verðum, því oftar lítum við til baka og gerum okkur grein fyrir að ytri aðstæður skipta í raun litlu og ákveða ekki hamingju okkar.

Við skiptum máli.Við ákveðum hamingju okkar.

Þú og ég berum endanlega ábyrgð á eigin hamingju.

Eiginkonu minni, Harriet, og mér finnst gaman að hjóla. Það er yndislegt að komast út og njóta náttúrufegurðarinnar. Við hjólum alltaf ákveðna leið, en fylgjumst lítt með því hve langt eða hratt við förum í samanburði við annað hjólreiðafólk.

Stundum finnst mér samt að við ættum að hafa örlítið meira keppnisskap. Mér finnst við geta náð betri tíma eða hjólað hraðar, ef við legðum aðeins meira á okkur. Og stundum hef ég líka gert þau leiðu mistök að ræða þessa hugmynd við mína dásamlegu eiginkonu.

Dæmigerð viðbrögð hennar við þessari tillögu eru ávallt afar ljúf, afar skýr og afar ákveðin. Hún brosir og segir: „Dieter, þetta er ekki keppni; þetta er ferðalag. Njóttu stundarinnar.“

Hún hefur svo rétt fyrir sér!

Stundum horfum við svo einbeitt á lokamarkið að við gleymum að njóta ferðarinnar. Ég fer ekki með eiginkonu minni út að hjóla af því að mér finnst svo spennandi að ljúka því. Ég fer vegna þess að það er svo yndislegt og ánægjulegt að vera með henni.

Er ekki kjánalegt að spilla þessari ljúfu og ánægjulegu stund með því að bíða stöðugt eftir lokamarkinu?

Þegar við hlustum á tónlist, bíðum við þá stöðugt eftir að lagið taki enda áður en við leyfum okkur að njóta þess? Nei, við hlustum á allt tónverkið og lifum okkur inn í hljóðfallið, taktinn og samhljóminn.

Hugsum við alltaf um hugtakið amen þegar við flytjum bænirnar okkar? Auðvitað ekki. Við biðjumst fyrir til að komast nær himneskum föður, til að meðtaka anda hans og skynja kærleika hans.

Við ættum ekki að bíða eftir að verða hamingjusöm í einhverri ótiltekinni framtíð, aðeins til að komast að því að hamingjan stóð okkur alltaf til boða. Lífsins ætti ekki aðeins að njóta í baksýnisspegli. „Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört … ,” ritaði sálmaskáldið. Fögnum, verum glaðir á honum.“6

Bræður og systur, sama hverjar aðstæður okkar eru, sama hverjar áskoranir okkar eru eða raunir, það er alltaf eitthvað á degi hverjum sem njóta má og gleðjast yfir. Á hverjum degi er eitthvað sem getur fært okkur þakklæti og gleði, ef við aðeins metum það og erum opin fyrir því.

Kannski ættum við fremur að leita með hjörtum okkar og síður með augum okkar. Ég ann þessum orðum: „Menn sjá einungis greinilega með hjartanu. Allt sem máli skiptir er ósýnilegt augunum.“7

Okkur er boðið að „færa þakkir í öllu.“8 Er því ekki betra að sjá með augum okkar og hjarta, jafnvel hið smávægilega sem við getum verið þakklát fyrir, fremur en að draga upp hið neikvæða í stöðu okkar?

Drottinn hefur lofað okkur: „Sá, sem veitir öllu viðtöku með þakklæti, mun dýrðlegur gjörður, og það sem jarðarinnar er mun bætast honum, jafnvel hundraðfalt.“9

Bræður og systur, með þeim ríkulegu blessunum sem himneskur faðir hefur gefið okkur, gjöfulli sáluhjálparáætluninni, guðdómlegum sannleika hins endurreista fagnaðarerindis og fegurð þessa jarðneska ferðalags, „höfum við [þá] ekki ástæðu til að fagna?“10

Ákveðum að vera hamingjusöm, burtséð frá aðstæðum okkar.

Um ákvarðanir

Sá dagur mun koma, að við tökum hið óumflýjanlega skref og stígum úr þessu jarðneska sviði yfir á næsta tilverustig. Við munum líta til baka og velta því fyrir okkur hvort við hefðum getað gert betur, tekið betri ákvarðanir eða nýtt tíma okkar skynsamlegar.

Til að forðast sárustu eftirsjána, væri skynsamlegt að taka nú ákvarðanir. Við skulum því:

 • Ákveða að verja meiri tíma með ástvinum okkar.

 • Ákveða að vinna einlæglega að því að verða sú persóna sem Guð vill að við verðum.

 • Ákveða að finna hamingjuna, burtséð frá aðstæðum okkar.

Það er vitnisburður minn, að margt af því sem veldur eftirsjá að morgni, er hægt að fyrirbyggja með því að fylgja frelsaranum í dag. Ef við höfum syndgað eða gert mistök ‒ ef við höfum tekið ákvarðanir sem við iðrumst í dag ‒ er friðþægingarfórn Krists hin dýrmæta gjöf sem gerir okkur kleift að hljóta fyrirgefningu. Við getum ekki farið aftur í tímann til að beyta fortíðinni, en við getum iðrast. Frelsarinn getur þurrkað tár tregans11 og fjarlægt ok syndarinnar.12 Friðþæging hans gerir okkur kleift að skilja fortíðina eftir og halda fram á við með óflekkaðar hendur og hreint hjarta13 og einsett okkur að gera betur og verða betri.

Já, lífið líður hratt hjá, dagar okkar virðast fljótt fölna, og dauðinn virðist stundum ógnvænlegur. Andar okkar munu engu að síður halda áfram að lifa og sá dagur kemur að við verðum sameinuð upprisnum líkama okkar og meðtökum ódauðlega dýrð. Ég gef ykkur hátíðlegan vitnisburð um að það er fyrir miskunn Krists sem við fáum lifað að nýju um alla eilífð. Þökk sé frelsara okkar og lausnara að við munum dag einn fá skilið og sannlega glaðst yfir merkingu þessara orða „ Kristur hefur innbyrt brodd dauðans“14

Vegurinn til uppfyllingar okkar guðdómlegu örlögum sem synir og dætur Guðs er eilífur. Bræður mínir og systur og kæru vinir, við verðum að hefja göngu okkar á þessum eilífa vegi í dag; við megum ekki taka nokkrum degi sem sjálfgefnum. Ég bið þess að við frestum ekki að lifa með sanni fram að dauðastundu. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. Alma 40:11.

  2. Sjá Susie Steiner, „Top Five Regrets of the Dying,” Guardian, 1. feb. 2012, www.guardian.co.uk/lifeandstyle/2012/feb/01/top-five-regrets-of-the-dying.

  3. Bronnie Ware, í Steiner, „Top Five Regrets of the Dying.”

  4. „Ode: Intimations of Immortality from Recollections of Early Childhood,” The Complete Poetical Works of William Wordsworth (1924), 359.

  5. Matt 6:20.

  6. Sálm 118:24.

  7. Antoine de Saint-Exupéry, The Little Prince, þýðing Richards Howard (2000), 63.

  8. Mósía 26:39; sjá einnig Kenning og sáttmálar 59:7.

  9. Kenning og sáttmálar 78:19.

  10. Alma 26:35.

  11. Sjá Op 7:17.

  12. Sjá Matt 11:28–30.

  13. Sjá Sálm 24:4.

  14. Mósía 16:8; sjá einnig 1 Kor 15:54.