Einu skrefi nær frelsaranum

Russell T. Osguthorpe

aðalforseti sunnudagaskólans


Russell T. Osguthorpe
Trúarumbreyting er markmið alls lærdóms og kennslu í fagnaðarerindinu. Trúarumbreyting er ekki eitt einstakt tilvik. Hún er sá lífstíðarleiðangur að verða líkari frelsaranum.

Síðastliðið sumar birtist lítil grein sem ég hafði skrifað í Liahona og Ensign. Sonur minn sendi mér tölvupóst og sagði: „Pabbi, kannski þú getir látið okkur vita þegar von er á grein frá þér.“ Ég svaraði: „Ég vildi bara sjá hvort þú værir að lesa tímarit kirkjunnar.“ Hann skrifaði til baka og sagði að 10 ára dóttir hans hefði „staðist prófið. Hún náði í Ensign í póstkassann, kom inn í húsið og las það. Síðan kom hún upp í herbergið okkar og sýndi okkur greinina þína.“

Sonardóttir mín las Ensign, því hana langaði að læra. Hún tók sjálfstæða ákvörðun með valfrelsi sínu. Æðsta forsætisráðið samþykkti nýverið nýtt námsefni fyrir unglinga, sem mun styðja náttúrlega þrá ungs fólks eftir að læra, lifa og miðla fagnaðarerindinu. Þetta nýja efni er nú aðgengilegt á Alnetinu til skoðunar. Í janúar munum við hefja notkun þess í námsbekkjum. (Lærið meira um þetta nýja námsefni fyrir ungt fólk á lds.org/youth/learn.)

Þegar frelsarinn kenndi, var valfrelsi nemandans í æðsta sessi. Hann sýndi okkur ekki einungis hvað kenna skal, heldur einnig hvernig kenna á. Hann einbeitti sér að þörfum nemandans. Hann hjálpaði hverjum einstökum að uppgvöta sannleikann sjálfur.1 Hann hlustaði á fyrirspurnir þeirra.2

Þetta nýja námsefni mun hjálpa okkur öllum að læra og kenna að hætti frelsarans á heimilum okkar og í kennslustofum okkar.3 Þegar við gerum það, munum við bregðast við boði hans: „Kom …, fylg mér.“4 Á sama hátt og öldungur Robert D. Hales kenndi svo dásamlega. Ég sá leiðtoga og kennara í aðildarfélögunum og trúarskólanum ráðgast við forelda þegar þetta nýja námsefni var í þróun, svo þau gætu mætt þörfum nemenda sinna. Ég hef séð stúlkur í námsbekkjum sínum, pilta í Aronsprestdæmissveitum sínum og unglinga í sunnudagaskólanum læra að iðka valfrelsi sitt og breyta sjálfstætt.

Einn sunnudagaskólakennari unglingabekkjar var að velta því fyrir sér hvernig hjálpa ætti tveimur einhverfum piltum að breyta sjálfstætt. Hún hafði áhyggjur af því, að þegar hún byði nemendum sínum að segja frá því sem þau höfðu verið að læra, myndu þessir tveir piltar neita því. En það gerðist ekki. Annar þeirra stóð upp til að kenna það sem hann hafði lært og bað síðan einhverfan félaga sinn að hjálpa sér. Þegar þeim fyrri fór að verða erfitt um mál, var bekkjarfélagi hans með honum og hvíslaði í eyra hans svo honum liði vel með það sem hann var að gera. Báðir kenndu þeir þennan dag. Þeir voru að kenna það sem frelsarinn kenndi, en þeir voru einnig að kenna eins og frelsarinn kenndi. Frelsarinn kenndi öðrum vegna þess að honum var annt um þá sem hann kenndi, rétt eins og bekkjarfélaginn gerði fyrir vin sinn.5

Við meðtökum boð hans, „kom …, fylg mér,“ þegar við lærum og kennum orð hans á hans hátt.“ Við fylgjum honum eitt skref í einu. Með hverju skrefinu komumst við nær frelsaranum. Við breytumst. Drottinn vissi að andlegur vöxtur myndi ekki eiga sér stað allt í einu. Hann kemur smám saman. Í hvert skipti sem við meðtökum boð hans og veljum að fylgja honum ferðumst við eftir veginum sem leiðir til fullrar trúarumbreytingar.

Trúarumbreyting er markmið alls lærdóms og kennslu í fagnaðarerindinu. Trúarumbreyting er ekki eitt einstakt tilvik. Hún er sá lífstíðarleiðangur að verða líkari frelsaranum. Öldungur Dallin H. Oaks hefur minnt okkur á að ekki nægir „að vita.“ „Að upplifa ,trúarumbreytingu‘ … krefst þess að við gerum og verðum.6 Því er lærdómur til trúarumbreytingar það áframhaldandi ferli, að þekkja, gjöra og verða. Eins þarfnast kennsla fyrir trúarumbreytingu lykilkenningar, boðs um að framkvæma og loforða um blessanir.7 Þegar við kennum sanna kenningu, hjálpum við þeim sem lærir að vita. Þegar við bjóðum öðrum að framkvæma, hjálpum við þeim að gera eða lifa samkvæmt kenningunni. Og við breytumst þegar blessanirnar, sem Drottinn hefur lofað, koma. Við getum, líkt og Alma, orðið nýsköpun.8

Nýja námsefnið fyrir unglinga hefur eitt megin markmið: Að hjálpa unglingum að snúast til trúar á fagnaðarerindi Jesú Krists. Nýlega sá ég pilt í unglingabekk sunnudagaskólans uppgvöta sannleika. Þegar ég sá að hann átti erfitt með að tengja líf sitt friðþægingunni, spurði ég hann hvort hann hefði einhvern tíma upplifað fyrirgefningu, Hann svaraði: „Já, einu sinni nefbraut ég strák sem var að spila við mig fótbolta. Mér leið illa. Ég hugleiddi hvað ég gæti gert til að mér liði betur. Ég fór síðan heim til hans og bað hann að fyrirgefa mér, en ég vissi að ég þyrfti að gera meira, svo ég baðst fyrir og þá fann ég að himneskur faðir fyrirgaf mér einnig. Þetta er sú þýðing sem friðþægingin hefur fyrir mig?“

Hann las úr Jóhannesi 37:16, eftir að hann miðlaði reynslu sinni í námsbekknum þennan dag: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn“ – og síðan vitnaði hann um kraft friðþægingarinnar. Þessi kenning var ekki lengur óljós hugmynd í huga þessa pilts. Hún varð hluti af lífi hans vegna þess að hann spurði sinnar eigin spurningar og notaði síðan valfrelsi sitt til að framkvæma.9

Þessi piltur upplifði trúarumbreytingu og svo var einnig um bekkjarfélaga hans. Þeir einbeittu sér að lykilkenningum með því að nema í ritningunum. Þau tengdu þessi helgu orð sínu eigin lífi og síðan vitnuðu þau um blessanirnar sem þau höfðu hlotið við að lifa eftir kenningunni. Við einbeitum okkur að ritningunum og orðum nútíma spámanna þegar við kennum fagnaðarerindi Jesú Krists. Við leitum í helgum texta til að styrkja trú, efla vitnisburði og hjálpa öllum að upplifa algjöra trúarumbreytingu. Þetta nýja námsefni fyrir unglinga mun hjálpa öllum sem nota það að skilja orð Guðs og lifa eftir því.

Ég hélt á eintaki af Teaching, No Greater Call þegar ég kenndi hinum heilögu í Costa Rica og spurði: „Hversu mörg ykkar eiga eintak af þessari handbók?“ Nærri því allir lyftu upp hönd. Ég sagði með brosi: „Ég þori að veðja að þið lesið í henni á hverjum einasta degi.“ Mér til undrunar lyfti systir á fremsta bekk upp hönd sína og tjáði mér að hún læsi í henni á hverjum degi. Ég bað hana að koma að púltinu og útskýra. Hún svaraði: „Ég les í Mormónsbók á hverjum morgni. Síðan les ég í Teaching, No Greater Call, svo ég geti kennt börnum mínum á besta mögulega máta það sem ég sjálf hef lært.”

Hún vildi læra og kenna orð hans á hans hátt, svo hún nam orð hans í ritningunum og síðan lærði hún hvernig kenna ætti orð hans svo börn hennar upplifðu algjöra trúarumbreytingu. Sá háttur hennar að læra fagnaðarerindið og kenna gerðist ekki allt í einu, að ég tel. Hún tók ákvörðun um að gera eitthvað. Og því meira sem hún gerði af því sem hún vissi að hún ætti að gera, því meira styrkti Drottinn hana í að ganga á hans leið.

Stundum getur leiðin að trúarumbreytingu verið löng og ströng. Mágur minn var líttvirkur í kirkjunni í 50 ár. Það var ekki fyrr en hann var hálf sextugur að hann hóf að taka á móti boði frelsarans og koma til baka. Margir hjálpuðu honum á þeirri leið. Einn heimiliskennari sendi honum póstkort í hverjum mánuði í 22 ár. En hann þurfti að ákveða að koma til baka. Hann þurfti að nota valfrelsið sitt. Hann þurfti að stíga þetta fyrsta skref ‒ og svo annað og það næsta. Nú eru hann og eiginkona hans innsigluð og hann þjónar í biskupsráði.

Nýlega sýndum við honum myndbönd sem gerð hafa verið til að hjálpa leiðtogum og kennurum að nota nýja námsefnið. Mágur minn hallaði sér aftur í stólnum sínum og sagði nokkuð tilfinningaþrungið, eftir að hafa horft á myndböndin: „Kannski ég hefði ekki fallið frá, ef ég hefði haft þetta þegar ég var yngri.“

Fyrir nokkrum vikum hitti ég pilt sem átti í erfiðleikum. Ég spurði hvort hann væri meðlimur kirkjunnar. Hann sagðist vera trúleysingi, en að áður fyrr hefði hann þekkt til kirkjunnar. Þegar ég sagði honum frá köllun minni í sunnudagaskólanum og að ég myndi halda ræðu á aðalráðstefnu þá sagði hann: „Heyrðu, ef þú ert að tala þá skal ég horfa á þann hluta.“ Ég vona að hann sé að horfa í dag. Ég veit að ef hann horfir á, þá hefur hann lært eitthvað. Þessi Ráðstefnuhöll er einstakur staður lærdóms og kennslu sem stuðlar að trúarumbreytni.

Við lærum að hætti frelsarans þegar við lifum eftir þeim kenningum sem kenndar eru af þeim sem við styðjum sem spámenn, sjáendur og opinberara.10 Við komumst þá einu skrefi nær honum. Nú þegar þessi ráðstefna tekur brátt enda vil ég bjóða sérhverjum sem heyrir til mín að taka þetta skref. Líkt og Nefítar til forna getum við snúið til „heimila [okkar] og íhugað það sem [sagt hefur verið og beðið] föðurinn í [hans] nafni að veita [okkur] skilning.“11

Við viljum að sérhvert ungmenni skilji. Við viljum að þau læri, kenni og lifi fagnaðarerindi Jesú Krists á hverjum degi. Þetta er það sem Drottinn vill fyrir öll börn sín. Ég býð ykkur, hvort sem þið eruð börn, unglingar eða fullorðnir, að koma og feta í fótspor hans. Ég vitna um að Drottinn mun styrkja okkur með sérhverju skrefi sem við tökum. Hann mun hjálpa okkur það sem eftir er leiðarinnar. Þegar hindranirnar birtast, munum við halda áfram. Þegar efasemdir vakna, munum við halda áfram. Við munum aldrei snúa til baka. Við munum aldrei falla frá.

Ég ber vitni um Guð föðurinn og son hans Jesú Krist, að þeir lifa. Ég ber vitni um að frelsarinn heldur áfram að biðja okkur, rétt eins og hann gerði fyrr á tímum, um að koma til sín. Við getum öll tekið á móti boði hans. Við getum lært, kennt og lifað eftir orði frelsarans, á hans hátt, með því að taka eitt skref í átt til hans. Við upplifum sanna trúarumbreytingu þegar við gerum það. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1. Sjá Jóh 3:1–7. Í þessum ritningargreinum svarar frelsarinn spurningunni sem Nikódemus sjálfur spurði. Hann kenndi samkvæmt þörfum Nikódemusar. Hann leyfði Nikódemusi að nota valfrelsi sitt svo hann gæti lært. Hann hjálpaði Nikódemusi að komast sjálfur að svarinu.

 2.  

  2. Sjá Jóh 3:4; Joseph Smith—Saga 1:18.

 3.  

  3. Sjá „Teaching the Gospel in the Savior’s Way,” lds.org/youth/learn/guidebook/teaching.

 4.  

  4. Sjá Lúk 18:18–22.

 5.  

  5. Sjá 1 Jóh 4:19.

 6.  

  6. Dallin H. Oaks, „The Challenge to Become,” Liahona, jan. 2001, 41; Ensign, nóv. 2000, 33: „Að vitna er að vita og lýsa yfir. Fagnaðarerindið hvetur okkur til ‚trúarumbreytni,‘ sem krefst þess að við gerum og verðum. Ef eitthvert okkar reiðir sig eingöngu á sína eigin þekkingu og vitnisburð um fagnaðarerindið, þá erum við í sömu stöðu og hinir blessuðu en samt ófullgerðu postular sem Jesús skoraði á að ,umbreytast.‘ Við þekkjum öll einhvern sem á sterkan vitnisburð, en lifir ekki nægilega samkvæmt honum til að umbreytast.“

 7.  

  7. Sjá Abraham 2:11.

 8.  

  8. Sjá Mósía 27:24–26; 2 Kor 5:17.

 9.  

  9. Sjá David A. Bednar, „Watching with All Perseverance,” Liahona og Ensign, maí 2010, 43: „Erum við að hjálpa börnum okkar að nota sjálfræði sitt til aðgerða og til að sækjast eftir fræðslu með námi og með trú, eða höfum við kennt börnum okkar að bíða með að læra og verða bara fyrir áhrifum? Erum við sem foreldrar aðallega að mata börn andlega á fiskimáltíð, eða erum við stöðugt að hjálpa þeim að gera, að læra sjálf og vera staðföst og óhagganleg? Erum við að vekja áhuga barna okkar á að spyrja, leita og knýja á?“

 10.  

  10. Sjá Dennis B. Neuenschwander, „Living Prophets, Seers, and Revelators,” Liahona, jan. 2001, 49–51; Ensign, nóv. 2000, 40–42.

 11.  

  11.  3 Ne 17:3.