Vernda börnin

Öldungur Dallin H. Oaks

í Tólfpostulasveitinni


Dallin H. Oaks
Enginn ætti að standa gegn þeirri ósk að við sameinumst um að auka umhyggju okkar fyrir velferð og framtíð barna okkar — hinni upprennandi kynslóð.

Við munum öll tilfinningar okkar þegar lítið barn grét og teygði sig upp til okkar eftir hjálp. Ástríkur himneskur faðir vekur með okkur slíkar tilfinningar til þess að knýja okkur til að hjálpa börnum hans. Vinsamlega minnist þessara tilfinninga þegar ég tala um þá ábyrgð okkar, að vernda börnin og vinna að velferð þeirra.

Ég tala út frá sjónarhorni fagnaðarerindis Jesú Krists, þar með talið sáluhjálparáætlunar hans. Það er köllun mín. Staðarleiðtogar kirkjunnar bera ábyrgð á afmörkuðu stjórnunarsvæði, líkt og deild eða stiku, en postuli ber ábyrgð á að bera vitni fyrir heiminn allan. Með öllum þjóðum, af öllum kynþáttum og trúarbrögðum, eru öll börn börn Guðs.

Þótt ég tali ekki út frá stjórnmálum eða almennri stefnumótun, get ég ekki fremur en aðrir kirkjuleiðtogar talað um velferð barna án þess að víkja að vali almennra borgara, opinberra embættismanna, og starfsmanna einkafyrirtækja. Við erum öll undir boði frelsarans um að elska og annast hvert annað, og sérstaklega hina veiku og varnarlausu.

Börnin eru mjög berskjölduð. Þau hafa litla eða nær enga möguleika á að verjast eða sjá um sig sjálf og lítil áhrif á svo margt sem miklu skiptir fyrir velferð þeirra. Börnin þarfnast annarra til að tala máli þeirra, og þau þarfnast þess að þeir sem ákvarðanir taka setji velferð þeirra framar eigin hagsmunum hinna fullorðnu.

I.

Á heiminn litið, er ógnvekjandi að milljónir barna séu fórnarlömb illra glæpa og sjálfselsku fullorðinna.

Í sumum stríðshrjáðum löndum er börnum rænt og þau látin þjóna sem hermenn í átökum herja í milli.

Skýrsla frá Sameinuðu þjóðunum áætlar að rúmlega tvær milljónir barna séu fórnarlömb vændis og kláms á ári hverju.1

Frá sjónarhorni sáluhjálparáætlunarinnar er eitt alvarlegasta ofbeldið gegn börnum það, að þeim er neitað um að fæðast. Það gerist um allan heim. Meðaltal fæðinga í Bandaríkjunum er hið lægsta í 25 ár,2 og fæðingartíðni flestra Evrópu- og Asíulanda hafa verið fyrir neðan endurnýjunarmörk árum saman. Þetta er ekki aðeins trúarlegt viðfangsefni. Þegar tala uppvaxandi kynslóðar fer lækkandi, þynnast menning og þjóðir út og hverfa jafnvel að lokum.

Ein af orsökum lækkandi fæðingartíðni er framkvæmd fóstureyðinga. Í öllum heiminum er áætlað að meira en 40 milljónir fóstureyðinga eigi sér stað árlega.3 Margvísleg lög leyfa eða jafnvel mæla með fóstureyðingum, en að okkar áliti er það af hinu illa. Önnur misbeiting gagnvart börnum, sem á sér stað á meðgöngutíma, eru þeir fósturgallar sem orsakast af óviðunandi næringu móðurinnar eða eiturlyfjanotkun.

Það er sorgleg kaldhæðni fólgin í hinum mikla fjölda barna sem er eytt eða skaðast fyrir fæðingu, meðan hópar ófrjórra hjóna þrá að eignast börn og leitast eftir að ættleiða þau.

Misnotkun í bernsku og vanræksla gagnvart börnum eftir fæðingu er öllu sýnilegri. Í heiminum öllum deyja næstum átta milljónir barna áður en þau ná fimm ára aldri, aðallega úr sjúkdómum, bæði læknanlegum og afstýranlegum.4 Og Alþjóða heilbrigðisstofnunin greinir frá því að hjá einu af hverjum fjórum börnum dragi úr þroska, andlega og líkamlega, vegna ófullnægjandi næringar.5 Búandi og á ferðum í alþjóðlegu umhverfi, sjáum við kirkjuleiðtogar mikið af þessu. Aðalforsætisráð Barnafélagsins greinir frá því að aðstæður í lífi barna séu slíkar, að vart „sé hægt að ímynda sér.“ Móðir á Filippseyjum sagði: „Stundum eigum við ekki fyrir mat, en það er allt í lagi, því það veitir mér tækifæri til að kenna börnum mínum trú. Við komum saman og biðjum um lausn, og börnin sjá að Drottinn blessar okkur.“6 Í Suður-Afríku hitti starfsmaður Barnafélagsins litla stúlku, einmana og dapra. Í lágværum svörum við kærleiksríkum spurningum sagðist hún enga móður eiga, engan föður og enga ömmu — aðeins afa sem annaðist hana.7 Slíkir harmleikir eru algengir þar sem margir umönnunaraðilar hafa dáið úr alnæmi.

Jafnvel meðal ríkra þjóða skaðast lítil börn og unglingar vegna vanrækslu. Börn sem vaxa upp í fátækt búa við lélega heilsugæslu og ófullnægjandi menntunarmöguleika. Þau búa einnig við hættulegar umhverfisaðstæður í líkamlegu og menningarlegu tilliti og jafnvel vanrækslu af hendi foreldra sinna. Öldungur Jeffrey R. Holland sagði nýlega frá reynslu SDH lögreglumanns. Við rannsóknar fann hann fimm ung börn samanhnipruð þar sem þau reyndu að sofa án rúmfatnaðar á óhreinu gólfi, í húsnæði þar sem móðir þeirra og aðrir voru að drykkju og að skemmta sér. Í íbúðinni var enginn matur til að seðja hungur þeirra. Eftir að hafa búið um börnin í bráðabirgðarúmi, kraup lögreglumaðurinn og baðst fyrir um vernd þeirra. Þegar hann gekk fram að dyrunum, elti eitt þeirra hann, um sex ára gamalt, greip í hönd hans, og bað: „Viltu ættleiða mig, gerðu það.“8

Við minnumst kennslu frelsarans þegar hann tók lítið barn og sagði við fylgismenn sína:

„Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér.

En hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls‘ “(Matt 18:5–6).

Þegar við ræðum um hættur sem vernda ætti börnin gegn, ættum við einnig að taka sálfræðilega misbeitingu með í reikninginn. Foreldrar eða aðrir umönnunaraðilar, kennarar eða jafningjar sem niðurlægja, hrekkja eða auðmýkja börn eða unglinga geta valdið varanlegri skaða en líkamsmeiðingar. Að láta barni eða unglingi finnast það vera einskisvert, ekki elskað eða óvelkomið, getur alvarlega skaðað velferð þess og þroska.9 Ungt fólk sem berst við einhverjar afbrigðilegar aðstæður, þar á meðal samkynhneigð, er sérstaklega viðkvæmt og þarfnast ástríks skilnings ‒ ekki yfirgangs eða útskúfunar.10

Með hjálp Drottins, getum við iðrast og breyst og orðið ásríkari og hjálpsamari gagnvart börnum — okkar eigin og þeirra sem umhverfis okkur eru.

II.

Fá dæmi um líkamlega eða tilfinningalega hættu sem steðjar að börnum eru eins mikilvæg og þau sem tengjast sambandi þeirra við foreldra eða umsjónarmenn. Thomas S. Monson forseti hefur talað um það sem hann kallaði „illar gjörðir“ barnamisnotkunar, þegar foreldri hefur brotið eða afskræmt barn, líkamlega eða tilfinningalega.11 Það hryggði mig þegar ég varð að kynna mér hrikaleg dæmi um slík mál er ég þjónaði í hæstarétti Utah-fylkis.

Það skiptir ákaflega miklu varðandi velferð barna hvort foreldrar þeirra eru giftir eða ekki, hvert eðli og tímalengd hjónabandsins er, og almennara séð sú menning og þær væntingar sem gerðar eru til hjónabandsins og umönnunar barna þar sem þau búa. Tveir fræðimenn í málefnum fjölskyldna hafa sagt: „Í sögunnar rás hefur hjónaband fyrst og fremst verið stofnun fyrir barneignir og uppeldi barna. Það hefur lagt til þau menningartengsl sem tengja eiga föðurinn við börn hans með því að binda hann móður þeirra. Samt hefur börnunum í seinni tíð og í vaxandi mæli verið ýtt út af sjálfu sviðinu.12

Lagaprófessor við Harvard háskólann lýsir núgildandi lögum og viðhorfi til hjónabands og hjónaskilnaða. „[Nútíðar] amerísk hjónabandssaga, eins og hún er sögð í lögunum og í miklu af vinsælum bókmenntum, er eitthvað á þessa leið: Hjónaband er samband sem fyrst og fremst er ætlað til fullnægingar mökunum, hvorum um sig. Ef því skilyrði er ekki lengur fullnægt, er engum um að kenna og hvor makinn sem er getur slitið því að vild. ... Börnin koma þar vart neitt við sögu; í besta falli eru þau skuggapersónur í bakgrunninum.“13

Kirkjuleiðtogar okkar hafa sagt að þegar litið sé á hjónabandið „eins og hvern annan samning sem hægt er að gera sér til ánægju … og slíta við fyrstu erfiðleika … sé það af hinu illa og eigi skilið alvarlega fordæmingu,“ sérstaklega þegar „það bitnar á börnunum.“14 Og hjónaskilnaður bitnar á börnunum. Meira en helmingur hjónaskilnaða síðasta árs urðu hjá hjónum með börn undir lögaldri.15

Mörg börn hefðu notið þeirrar blessunar að vera alin upp af báðum foreldrum, ef foreldrar þeirra hefðu aðeins fylgt þessari innblásnu kenningu í yfirlýsingunni um fjölskylduna: „Eiginmaður og eiginkona bera þá helgu ábyrgð að elska og annast hvort annað og börn sín. ,,, Foreldrar bera þá helgu skyldu að ala börn sín upp í kærleika og réttlæti, að sjá fyrir líkamlegum og andlegum þörfum þeirra, og kenna þeim að elska hvert annað og þjóna hvert öðru.“16 Kröftugasta kennsla barna felst í fordæmi foreldra þeirra. Foreldrar sem skilja kenna óhjákvæmilega neikvæða lexíu.

Vissulega eru tilvik þar sem skilnaður er nauðsynlegur og börnunum til góðs, en þær aðstæður eru undantekningar.17 Í flestum skilnaðarmálum ættu foreldrar sem deila að gefa hagsmunum barnanna miklu meira vægi. Með hjálp Drottins, geta þeir gert það. Börn þarfnast þess tilfinningalega og persónulega styrks sem fæst með því að vera alin upp af foreldrum sem standa saman í hjónabandi sínu og eiga sameiginleg markmið. Sem sá er alinn var upp af móður sem var ekkja, þekki ég frá fyrstu hendi að þessu er ekki alltaf hægt að ná, en þetta er hið æskilega sem stefna ætti að þegar mögulegt er.

Börnin eru fyrstu fórnarlömb núgildandi laga sem leyfa svokallaða „hjónaskilnaði án saka.“ Frá sjónarhóli barnanna, eru skilnaðir of auðveldir. Í áratugalöngum félagsfræðirannsóknum komst vandaður fræðimaður að þeirri niðurstöðu að „sú fjölskylduuppbygging sem skilar bestri útkomu fyrir börnin, að jafnaði, séu tvö líffræðileg foreldri samvígð í hjónabandi.“18 Greinarhöfundur í New York Times benti á „þá sláandi staðreynd, að þótt hefðbundið hjónaband væri á undanhaldi í Bandaríkjunum … hafi vísbendingar um mikilvægi þess fyrir velferð barnanna orðið ljósari.“19 Sú staðreynd ætti að veita foreldrum og væntanlegum foreldrum mikilvæga leiðsögn við ákvarðanatöku, hvað snertir hjónaband og hjónaskilnað. Við þörfnumst þess einnig að stjórnmálamenn, reglugerðasmiðir, og embættismenn beini athygli sinni meir að því hvað er best fyrir börnin, fremur en að eigingjörnum hugðarefnum kjósenda og þeirra sem tala fyrir hagsmunum hinna fullorðnu.

Börn verða einnig fyrir barðinu á hjónaböndum sem ekki eiga sér stað. Fáar mælingar á velferð okkar uppvaxandi kynslóðar eru meira ógnvekjandi en nýleg skýrsla um að 41 prósent allra fæðinga í Bandaríkjunum væru hjá ógiftum konum.20 Vandi ógiftra mæðra er mikill og vísbendingar sýna að börn þeirra eru áberandi ver sett í samanburði við börn sem alin eru upp af giftum foreldrum.21

Meirihluti barna ógiftra mæðra — 58 prósent – fæddust fólki sem var í sambúð.22 Hvað sem segja má um þessi pör sem sleppa því að giftast, sýna rannsóknir að börn þeirra standa marktækt hlutfallslega ver að vígi.23 Fyrir börnin skiptir stöðugleiki hjónabandsins máli.

Við megum búast við sama aðstöðumun hjá börnum sem alin eru upp af samkynhneigðum pörum. Félagsfræðileg rit eru ekki á einu máli og mörkuð af pólitískri afstöðu hvað varðar langtíma áhrif þessa á börn, fyrst og fremst vegna þess að, eins og greinarhöfundur í New York Times segir: „Samkynshjónabönd eru félagsfræðileg tilraun, og eins og með flestar tilraunir mun það taka tíma að skilja afleiðingar þeirra.“24

III.

Ég hef talað fyrir börnin — börnin alls staðar. Sumir kunna að hafna einhverjum af þessum dæmum, en enginn ætti að standa gegn þeirri ósk að við sameinumst í að auka umhyggju okkar fyrir velferð og framtíð barna okkar — hinni upprennandi kynslóð.

Við erum að tala um börn Guðs, og með hans máttugu hjálp getum við gert meira til að hjálpa þeim. Með þessum tilmælum ávarpa ég ekki aðeins Síðari daga heilaga heldur allt trúað fólk og aðra sem aðhyllast það gildismat sem fær það til að setja sínar eigin þarfir neðar þörfum annarra, einkum neðar velferð barnanna.25

Trúað fólk er einnig meðvitað um þá kennslu frelsarans í Nýja testamentinu, að hrein lítil börn séu fyrirmynd okkar hvað varðar auðmýkt og námshæfni:

„Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.

Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki“ (Matt 18:3–4).

Í Mormónsbók lesum við um upprisinn Drottin kenna Nefítum að þeir verði að iðrast og láta skírast og „verða eins og lítil börn,“ ella geti þeir ekki erft ríki Guðs (3 Ne 11:38; sjá einnig Moró 8:10).

Ég bið þess að við megum auðmýkja okkur eins og lítil börn, sækja fram og vernda okkar litlu börn, því þau eru framtíðin, fyrir okkur, fyrir kirkju okkar, og fyrir þjóðir okkar. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1. Sjá UNICEF, The State of the World’s Children 2005: Childhood under Threat (2004), 26.

 2.  

  2. Sjá Haya El Nasser, „National Birthrate Lowest in 25 Years,” USA Today, 26. júlí 2012, A1.

 3.  

  3. Sjá Gilda Sedgh og fl., „Induced Abortion: Incidence and Trends Worldwide from 1995 to 2008,” The Lancet, útg. 379, nr. 9816 (18. feb. 2012), 625–32.

 4.  

  4. Sjá UNICEF, „Young Child Survival and Development,” http://www.unicef.org/childsurvival/index.html.

 5.  

  5. Sjá World Health Organization, World Health Statistics 2012 (2012), 109, 118.

 6.  

  6. Greinargerð aðalforsætisráðs Barnafélagsins, 13. sept. 2012.

 7.  

  7. Greinargerð aðalforsætisráðs Barnafélagssins.

 8.  

  8. Sjá Jeffrey R. Holland, „Israel, Israel, God Is Calling” (kvöldvaka Fræðsludeildar kirkjunnar fyrir ungt fólk, 9. sept. 2012), lds.org/broadcasts; sjá einnig R. Scott Lloyd, „Zion Not Only Where, but How We Live, Says Elder Holland,” Deseret News, 10. sept. 2012, B2.

 9.  

  9. Sjá Kim Painter, „Parents Can Inflict Deep Emotional Harm,” USA Today, 30 júlí 2012, B8; Rachel Lowry, „Mental Abuse as Injurious as Other Forms of Child Abuse, Study Shows,” Deseret News, 5. ágúst 2012, A3.

 10.  

  10. Sjá „End the Abuses,” Deseret News, 12. júní 2012, A10.

 11.  

  11. Thomas S. Monson, „A Little Child Shall Lead Them,” Liahona, júní 2002, 2; Ensign, maí 1990, 53.

 12.  

  12. W. Bradford Wilcox og Elizabeth Marquardt, útg., The State of Our Unions: Marriage in America (2011), 82.

 13.  

  13. Mary Ann Glendon, Abortion and Divorce in Western Law: American Failures, European Challenges (1987), 108.

 14.  

  14. David O. McKay, „Structure of the Home Threatened by Irresponsibility and Divorce,” Improvement Era, júní 1969, 5.

 15.  

  15. Sjá Diana B. Elliott and Tavia Simmons, „Marital Events of Americans: 2009,” American Community Survey Reports, ágúst 2011.

 16.  

  16. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,” Liahona og Ensign, nóv. 2010, 129.

 17.  

  17. Sjá Dallin H. Oaks, „Divorce,” Liahona og Ensign, maí 2007, 71.

 18.  

  18. Charles Murray, Coming Apart: The State of White America, 1960–2010 (2012), 158.

 19.  

  19. Ross Douthat, „Gay Parents and the Marriage Debate,” New York Times, 12. júní 2012, http://douthat.blogs.nytimes.com/2012/06/11/gay-parents-and-the-marriage-debate.

 20.  

  20. Sjá Joyce A. Martin and others, „Births: Final Data for 2010,” National Vital Statistics Reports, útg. 61, nr. 1 (ágúst 2012), 10.

 21.  

  21. Sjá William J. Doherty and others, Why Marriage Matters: Twenty-One Conclusions from the Social Sciences (2002); W. Bradford Wilcox og fleiri, Why Marriage Matters: Thirty Conclusions from the Social Sciences, 3ja útg. (2011).

 22.  

  22. Sjá Martin, „Births: Final Data for 2010,” 10–11.

 23.  

  23. Sjá Wilcox, Why Marriage Matters.

 24.  

  24. Douthat, „Gay Parents and the Marriage Debate.” Síðustu og nákvæmustu rannsóknir sýna og greina frá markverðum neikvæðum áhrifum á unglinga 18 ára og yngri sem eiga foreldra í samkynssambandi (sjá Mark Regnerus, „How Different Are the Adult Children of Parents Who Have Same-Sex Relationships? Findings from the New Family Structures Study,” Social Science Research, útg. 41 [2012], 752–70).

 25.  

  25. Síðari daga heilagir eru sérstaklega skuldbundnir því að líta á fjölskyldulíf sem eitt mikilvægasta markmiðið í lífinu (sjá Pew Research Center’s Forum on Religion and Public Life, Mormons in America: Certain in Their Beliefs, Uncertain of Their Place in Society, 12. jan 2012, 10, 16, 51).