Sjá aðra eins og þeir geta orðið

Thomas S. Monson forseti


Thomas S. Monson
Við verðum að þroska hæfileika okkar til að sjá menn, ekki eins og þeir eru nú sem stendur, heldur eins og þeir geta orðið.

Kæru bræður mínir, tvisvar á ári troðfyllist þessi stórkostlega ráðstefnuhöll af prestdæmi Guðs þegar við komum saman til að hlusta á innblásinn boðskap. Það er undursamlegur andi sem altekur aðalfund prestdæmisins í kirkjunni. Sá andi sem streymir frá ráðstefnuhöllinni berst inn í hverja þá byggingu þar sem synir Guðs koma saman. Við höfum vissulega fundið þann anda í kvöld.

Fyrir nokkrum árum, áður en þessi fagra bygging var reist, fór gestur á Musteristorginu í Salt Lake City á aðalráðstefnufund í Laufskálanum. Hann hlustaði á boðskap bræðranna. Hann gaf gaum að bænunum. Hann hlustaði á dásamlega tónlist Laufskálakórsins. Hann dáðist að mikilfengleik Laufskálaorgelsins. Þegar samkomunni var lokið, heyrði einhver hann segja: „Ég vildi gefa aleiguna fyrir að vita að það sem þessir ræðumenn sögðu í dag væri sannleikur.“ Kjarni orða hans var: „Ég vildi óska að ég ætti vitnisburð um fagnaðarerindið.“

Það er örugglega ekkert í þessum heimi sem veitir meiri huggun og hamingju en vitnisburður um sannleikann. Samt tel ég að hver einasti maður eða piltur hér í kvöld eigi vitnisburð í meira eða minna mæli. Ef ykkur finnst að þið eigið ekki ennþá jafn djúpan vitnisburð og þið hefðuð óskað, ráðlegg ég ykkur að vinna að því að öðlast slíkan vitnisburð. Ef hann er sterkur og djúpur, vinnið þá að því að halda honum. Hve blessaðir við erum að þekkja sannleikann.

Boðskapur minn í kvöld, bræður, er að það eru óteljandi einstaklingar sem eiga lítinn eða engan vitnisburð einmitt núna, sem gætu og mundu taka á móti slíkum vitnisburði, ef við værum fúsir til að deila okkar með þeim og hjálpa þeim að breytast. Í sumum tilvikum getum við stuðlað að þeirri breytingu. Ég nefni fyrst þá sem eru meðlimir, en eru ekki nú sem stendur fyllilega skuldbundnir fagnaðarerindinu.

Á svæðisráðstefnu, sem haldin var fyrir mörgum árum í Helsinki, Finnlandi, heyrði ég kraftmikinn, minnisverðan og hvetjandi boðskap sem veittur var á fundi mæðra og dætra. Ég hef ekki gleymt þeim boðskap, þótt næstum 40 ár séu liðin frá því að ég heyrði hann. Meðal margra sannleikskorna sem ræðumaðurinn minntist á, sagði hún að konur þarfnist þess að heyra að þær séu fallegar. Þær þarfnist þess að heyra að þær séu mikils metnar. Þær þarfnist þess að heyra að þær séu einhvers virði.

Bræður, ég veit að karlar eru mjög líkir konum hvað þetta varðar. Við þörfnumst þess að okkur sé sagt að við séum mikils virði, að við séum hæfir og skiptum máli. Við þörfnumst þess að fá tækifæri til að þjóna. Vegna þeirra meðlima sem ekki eru lengur virkir eða sem halda sig til hlés og haldast lítt virkir, getum við í bænaranda leitað einhverra leiða til að ná til þeirra. Að biðja þá að þjóna með einhverjum hætti getur einmitt verið sú hvatning sem þeir þarfnast til fullra starfa. En þeir leiðtogar sem gætu hjálpað til við þetta eru stundum tregir til þess. Við verðum að muna að fólk getur tekið breytingum. Það getur lagt á hilluna slæma siði. Það getur iðrast brota sinna. Þeir geta borið prestdæmið verðugir. Og þeir geta þjónað Drottni af kostgæfni. Má ég nefna nokkur dæmi:

Þegar ég varð fyrst meðlimur Tólfpostulasveitarinnar, bauðst mér það tækifæri að fara með N. Eldon Tanner forseta, sem var ráðgjafi Davids O. McKay forseta, á stikuráðstefnu í Alberta, Kanada. Á fundinum las stikuforsetinn upp nöfn fjögurra bræðra sem fundnir höfðu verið verðugir þess að vígjast öldungar. Þetta voru menn sem Tanner forseti þekkti, því í eina tíð hafði hann búið á svæðinu. En Tanner forseti þekkti þá og minntist þeirra eins og þeir eitt sinn höfðu verið og vissi ekki að þeir höfðu snúið við í lífi sínu og gerst fyllilega verðugir þess að gerast öldungar.

Stikuforsetinn las upp nafn fyrsta mannsins og bað hann að standa upp. Tanner forseti hvíslaði að mér: „Líttu á hann. Ég hefði aldrei trúað að hann gæti þetta.“ Stikuforsetinn las upp nafn næsta manns, og hann stóð upp. Tanner forseti ýtti aftur við mér og lét í ljós undrun sína. Og þannig var það með alla fjóra bræðurna.

Eftir samkomuna fengum við Tanner forseti tækifæri til að óska þessum fjórum bræðrum til hamingju. Þeir höfðu sýnt að menn geta tekið breytingum.

Á fimmta og sjötta áratug aldarinnar sem leið var Clinton Duffy, amerískur fangavörður, vel þekktur fyrir verk sitt við endurhæfingu mannanna í fangelsi hans. Einn gagnrýnandi hans sagði: „Er þér ekki ljóst að hlébarðar geta ekki breitt deplunum á feldi sínum!“

Warden Duffy svaraði: „Er þér ekki ljóst að ég er ekki að vinna með hlébarða. Ég fæst við menn og menn breytast á hverjum degi.“1

Fyrir mörgum árum fékk ég það tækifæri að þjóna sem forseti trúboðsins í Kanada. Þarna vorum við með grein með mjög takmörkuðu prestdæmi. Við höfðum alltaf verið með trúboða sem forseta yfir greininni. Ég fékk þá sterku tilfinningu að við þyrftum að hafa meðlim úr greininni í forsæti þarna.

Það var einn fullorðinn meðlimur í greininni sem var djákni í Aronsprestdæminu, en hann mætti ekki nægilega oft eða tók ekki nægilegan þátt í starfinu til að flytjast fram í prestdæminu. Mér var blásið í brjóst að kalla hann sem greinarforseta. Ég mun alltaf muna daginn þegar ég átti viðtalið við hann. Ég sagði honum að Drottinn hefði blásið mér í brjóst að kalla hann sem forseta greinarinnar. Eftir mikil mótmæli af hans hendi, og mikla hvatningu frá eiginkonu hans, lét hann í ljós að hann myndi þjóna. Ég vígði hann sem prest.

Það rann upp nýr dagur í lífi þessa manns. Líf hans komst skjótt í lag, og hann fullvissaði mig um að hann mundi lifa eftir boðorðunum eins og ætlast væri til af honum. Innan fárra mánaða var hann vígður öldungur. Hann og kona hans fóru að lokum í musterið og voru innsigluð. Börn þeirra þjónuðu í trúboði og giftust í húsi Drottins.

Stundum getur það, að láta bræður okkar vita að við þörfnumst þeirra og að þeir séu metnir að verðleikum, hjálpað þeim að stíga skrefið til skuldbindingar og fullra starfa. Þetta getur átt við um prestdæmishafa burt séð frá aldri þeirra. Það er ábyrgð okkar að veita þeim tækifæri til að lifa eins og þeir ættu að lifa. Við getum hjálpað þeim að sigrast á annmörkum sínum. Við verðum að þroska hæfileika okkar til að sjá menn, ekki eins og þeir eru nú, heldur eins og þeir geta orðið, þegar þeir meðtaka vitnisburð um fagnaðarerindi Jesú Krists.

Ég kom eitt sinn á samkomu í Leadville, Colorado. Leadville er staðsett í yfir 3.000 m hæð. Ég minnist þessarar sérstöku samkomu vegna hæðarinnar yfir sjávarmáli, en einnig vegna þess sem gerðist þetta kvöld. Það voru aðeins örfáir prestdæmishafar viðstaddir. Eins og í greininni í Kanadatrúboðinu, var trúboði í forsæti greinarinnar þar og svo hafði alltaf verið.

Þetta kvöld áttum við ljúfa samkomu, en þegar við sungum lokasönginn, fékk ég þann innblástur að þarna ætti að vera í forsæti greinarforseti sem byggi á staðnum. Ég sneri mér að trúboðsforsetanum og spurði: „Er ekki einhver hér sem gæti verið í forsæti ‒ sem býr á staðnum?“

Hann svaraði: „Ég veit ekki um neinn slíkan.“

Á meðan söngurinn var sunginn leit ég vandlega á mennina sem sátu í fremstu þremur bekkjarröðunum. Athygli mín virtist beinast að einum bræðranna. Ég spurði trúboðsforsetann: „Gæti hann þjónað sem greinarforseti?“

Hann svaraði: „Ég veit það ekki. Kannski gæti hann það.“

Ég sagði: „Forseti, ég fæ hann með mér í hitt herbergið til að tala við hann. Þú talar eftir lokasönginn þangað til við komum til baka.“

Þegar við tveir komum til baka í herbergið, lauk trúboðsforsetinn vitnisburði sínum. Ég bar fram nafn bróðurins til samþykktar sem hinn nýi greinarforseti. Frá þeim degi til þessa dags, hefur meðlimur búandi á svæðinu leitt einunguna í Leadville, Colorado.

Þessi sama regla, bræður, gildir um þá sem enn eru ekki orðnir meðlimir. Við ættum að þroska með okkur eiginleikann til að sjá menn, ekki eins og þeir eru, heldur eins og þeir geta orðið sem meðlimir kirkjunnar, þegar þeir eiga vitnisburð um fagnaðarerindið, og þegar líf þeirra er samhljóma kenningum þess.

Fyrir löngu síðan, árið 1961, var heimsráðstefna haldin fyrir trúboðsforseta, og allir trúboðsforsetar í kirkjunni komu til Salt Lake City á þá fundi. Ég kom til Salt Lake City frá trúboði mínu í Toronto, Kanada.

Á einum tilteknum fundi var N. Eldon Tanner, sem þá var aðstoðarmaður Tólfpostulasveitarinnar, nýkominn til baka eftir að hafa í fyrsta sinn verið í forsæti trúboða í Stóra-Bretlandi og Vestur-Evrópu. Hann sagði frá trúboða sem hafði verið sá árangursríkasti trúboði sem hann hefði hitt í öllum þeim viðtölum sam hann hafði stjórnað. Hann sagðist hafa sagt við trúboðann: „Ég býst við að allt fólkið sem þú skírðir hafi komið inn í kirkjuna eftir tilvísanir.“

Pilturinn svaraði: „Nei, við fundum þau öll í leit okkar trúboðanna.“

Bróðir Tanner spurði hann hvað væri frábrugðið við hans aðferð — hvers vegna hann næði svo framúrskarandi árangri þegar aðrir næðu honum ekki. Pilturinn sagðist reyna að skíra hverja einustu persónu sem hann hitti. Hann sagði að þegar hann bankaði á dyr og sæi mann reykjandi vindil og klæddan í snjáð föt og að því er virtist áhugalausan með öllu — sérstaklega um trúmál – myndi hann sjá í huga sér hvernig sá maður liti út við aðrar aðstæður. Í huga sínum mundi hann sjá hann nýrakaðan og í hvítri skyrtu og hvítum buxum. Og trúboðinn sæi sjálfan sig leiða þann mann niður í skírnarvatnið. Hann sagði: „Þegar ég horfi á einhvern á þann hátt, er mér unnt að bera vitnisburð minn frammi fyrir honum þannig að hann snerti hjarta hans.“

Það er ábyrgð okkar að horfa á vini okkar, félaga okkar, og nágranna á þennan hátt. Ég segi aftur, það er ábyrgð okkar að sjá einstaklinga, ekki eins og þeir eru, heldur eins og þeir geta orðið. Ég skora á ykkur að hugsa með þessum hætti um þá.

Bræður, Drottinn sagði okkur nokkuð um mikilvægi þess prestdæmis sem við berum. Hann sagði okkur að við tækjum á móti því með eiði og sáttmála. Hann gaf okkur þau fyrirmæli að vera trúfastir og sannir í öllu sem við tökum á móti, og að við bærum þá ábyrgð að halda þennan sáttmála allt til enda. Og þá mun allt sem faðirinn á verða okkur gefið.2

Hugrekki er orðið sem ætti að vera okkur hjartfólgnast — hugrekki til að snúa baki við freistingum, hugrekki til að láta í okkur heyra í vitnisburði til allra sem við hittum, minnug þess að allir verða að fá tækifæri til að heyra boðskapinn. Fyrir flesta er ekki auðvelt að gera þetta. En við getum lagt trúnað á orð Páls til Tímóteusar:

„Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.

Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn.“3

Í maí 1974 var ég á Tonga eyjum ásamt bróður John H. Groberg. Við höfðum beðið um viðtal við konunginn á Tonga, og við hittum hann í formlegu viðtali. Við skiptumst á eðlilegum kurteisisorðum. En þegar við fórum, sagði John Groberg nokkuð sem var ekki alveg venjulegt. Hann sagði: „Yðar hátign, raunverulega ættuð þér að gerast Mormóni og þegnar yðar líka, því að þá myndu vandamál yðar og vandamál þeirra í stórum dráttum leysast.“

Konungurinn brosti breitt og svaraði: „John Groberg, líklega hefur þú rétt fyrir þér.“

Ég hugsaði um Pál postula frammi fyrir Agrippa. Ég hugsaði um viðbrögð Agrippa við vitnisburði Páls: „Þú þykist ekki vera lengi að gjöra mig kristinn.“4 Bróðir Groberg hafði hugrekki til að bera konungi vitnisburð sinn.

Í kvöld eru mörg þúsund meðlima okkar þjónandi Drottni sem fastatrúboðar hans. Sem svar við kalli hafa þeir yfirgefið heimili, fjölskyldu, vini, og skóla og farið til að þjóna. Þeir sem ekki fá það skilið, spyrja: „Af hverju eru þeir svo fúsir að bregðast við og fórna svo miklu?“

Trúboðar okkar gætu vel svarað með orðum Páls, þess óviðjafnanlega trúboða: „Þótt ég sé að boða fagnaðarerindið, þá er það mér ekki neitt hrósunarefni, því að skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.“5

Hinar helgu ritningar geyma engar yfirlýsingar tímabærari, enga ábyrgð meira bindandi, engin fyrirmæli beinskeyttari en boð upprisins Drottins þegar hann birtist postulunum ellefu í Galíleu. Hann sagði:

„Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.

Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda.

og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“6

Þetta guðlega boð, ásamt dýrðlegu loforði þess, er kjörorð okkar í dag, eins og það var líka á hádegisbaugi tímans. Trúboðsverk er einkennandi þáttur í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hefur alltaf verið; mun alltaf verða. Líkt og spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Að öllu sögðu er mikilvægasta skylda okkar að boða fagnaðarerindið.“7

Innan tveggja stuttra ára munu allir fastatrúboðar sem nú þjóna í þessum konunglega her Guðs hafa lokið sínu fastastarfi og horfið til heimila sinna og ástvina. Þá sem taka við af þeim er nú að finna meðal þeirra sem eru í Aronsprestdæmi kirkjunnar. Piltar, eruð þið reiðubúnir að bregðast við? Eruð þið fúsir til vinnu? Eruð þið tilbúnir að þjóna?

John Taylor forseti dró saman hverjar kröfurnar eru: „Sú manngerð sem við viljum að flytji þennan fagnaðarboðskap eru menn sem eiga trú á Guð; menn sem eiga trú á trúarbrögð sín; menn sem heiðra prestdæmi sitt; … menn fullir af heilögum anda og krafti Guðs … menn heiðurs, ráðvendni, dyggðar og hreinleika.“8

Bræður, okkur er öllum boðið að deila fagnaðarerindi Krists. Þegar líf okkar er í samræmi við sjálfan staðal Guðs, munu þeir sem eru á áhrifasvæði okkar aldrei mæla þessi harmyrði: „Uppskeran er liðin, aldinskurðurinn á enda, en vér höfum eigi hlotið hjálp.“9

Hinn fullkomni sálnahirðir, trúboðinn sem endurleysti mannkyn, gaf okkur sitt guðlega loforð:

„Og fari svo, að þér erfiðið alla yðar daga við að boða þessu fólki iðrun og leiðið, þó ekki sé nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða með henni í ríki föður míns!

Og verði nú gleði yðar mikil með einni sál, sem þér hafið leitt til mín inn í ríki föður míns, hversu mikil yrði þá gleði yðar, ef þér leidduð margar sálir til mín!“10

Um hann sem mælti þessi orð, ber ég mitt persónulega vitni. Hann er sonur Guðs, lausnari okkar og frelsari okkar.

Ég bið þess að við megum hafa hugrekki til að rétta fram vináttuhönd, einbeitni til að reyna og reyna á ný, og þá auðmýkt sem þarf til að leita leiðsagnar frá föður okkar, þegar við uppfyllum þá skyldu okkar að boða fagnaðarerindið. Ábyrgðin hvílir á okkur, bræður. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1. í Bill Sands, The Seventh Step (1967), 9.

 2.  

  2. Sjá Kenning og sáttmálar 84:33–39.

 3.  

  3.  2 Tím 1:7–8.

 4.  

  4.  Post 26:28.

 5.  

  5.  1 Kor 9:16.

 6.  

  6.  Matt 28:18–20.

 7.  

  7.  Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 330.

 8.  

  8.  Teachings of Presidents of the Church: John Taylor (2001), 73.

 9.  

  9.  Jer 8:20.

 10.  

  10.  Kenning og sáttmálar 18:15–16.